Sarpur fyrir september, 2007Hvað er stríð?

Ég mæli með þátttöku í þessari könnun.
Mér fannst gaman að setja sjálfa mig í þær stellingar að spyrja mig virkilega alvarlega hvað öll þessi orð tákna. Svo er ég alltaf ægilega svag fyrir því að vera fræðimönnum innan handar, enda hlýt ég að vera spennandi viðfang og alveg einstök. Þú ert það líka.

Lifið í friði.

p.s. ég þakka mönnunum sem skrifuðust á við mig í gærkvöld (í gærkvöldi?) vegna vandræða minna. Annar kom með hugmynd að lausn sem var skratti góð þó hún virkaði ekki. Hinn lofaði mér að fara í hart í krafti aðstöðu sinnar, enda er þetta bara ekki hægt að skilja okkur makkara útundan.
Ég er búin að ákveða að senda Menntamálaráðherra bréf. Ég set það bráðum inn á síðuna til skoðunar og til að fá gagnrýni, ég kann ekkert að skrifa ráðherrum bréf. En það hlýtur að vera eðlileg krafa að geisladiskar orðabóka og annað efni sem styrkt er af ríkinu, sé okkur öllum aðgengilegt.

um lista og bókmenntarifrildið franska

Nú er ég komin með alls konar hnappa hér fyrir ofan sem eiga líklega að auðvelda mér blogglífið (sem er síður en svo mitt eina líf). Kannski verð ég duglegri héðan í frá að gera tengla og nota feitletrun og skáletrun.
Ekkert gengur eða rekur með námið mitt. Mér líður eins og versta skrópara. Engar bækur, engir fyrirlestrar, bara nokkrar greinar af netinu, búin að prenta og lesa eina þeirra. Skildi ekki alveg allt en held að eftir sjö, átta lestra hljóti ég að ná þessu.

Ég hef séð eitthvað hér og þar um tilraunir Mannlífs til að gera lista yfir bestu bloggarana. Mér finnst það álíka gáfulegt og listar yfir bestu bækur, kvikmyndir, málverk og annað. Og staðhæfing Farfugls um að ég ætti heima á topp tíu er náttúrulega bara sæt en sem betur fer firra. Ég þyldi alls ekki að fá hingað inn tugi, hundruð lesenda sem ég þekkti hvorki haus né sporð á.
Mér finnst öll bloggin sem ég er með á lista hér til hliðar vera toppblogg, hvert á sinn hátt, sum ofurgáfuleg (og gáfulegt er ekki skammaryrði á þessum bæ), sum ofurhversdagsleg, sum heimspekileg, sum listræn, sum frökk, sum viðvæmnisleg (ekki væmin). Flest eru blanda af þessu öllu og yfirleitt bragðgóð og vel heppnuð blanda.
Málbeinið kom með ágætis metafóru um erótíkina í bloggum og hvernig þau geta komið manni sífellt á óvart.

Ég var með það á dagskránni að blogga bráðum um rifrildið milli Marie Darrieusecq og Camille Laurens en þær berjast nú vopnaðar beittum stílvopnum um það hver á sársaukann sem fylgir barnsmissi. En af tilviljun hlustaði ég á Víðsjá fyrradagsins og þar er þessi fína úttekt á þessu máli. Franska lagið sem þáttastjórnandi spilaði á undan fylgir m.a.s. með í þessum tengli.
En getur einhver sagt mér hvaða kona þetta er sem gerði úttektina? Nafn hennar virðist ekki koma fram í þættinum.

Heyrðu, þetta er allt annað líf að blogga úr Firefox.

Lifið í friði.

byrjunarörðugleikar II

Ég hef ekki enn getað hlustað, og vegna þess að ég hef ekki hikað við að draga hina líklegustu og ólíklegustu aðila í málið veit ég núna að þeir kennarar sem nota gamla mátann eru mér opnir en þeir sem nota nýja kerfið eru ekki Makkavænir. Alltaf skal Makkinn vera skilinn útundan þegar búið er til eitthvað nýtt í tölvur. Þetta á að bera fram með miklum og sárum kvarttóni eins og sá sem ég notaði við manninn hjá RHÍ. Hann hló nú bara að mér og sagði að já, svona væri þetta bara. En þar sem hann var bæði kurteis og allur af vilja gerður var honum fyrirgefið umsvifalaust.
Svo fóru bækurnar ekki af stað í dag af því ein bókin finnst víst ekki þó hún sé þarna í tölvunni hjá þeim. Ég þoli ekki fólk sem raðar bókum á ranga staði í bókabúðum og bókasöfnum. Ætti að vera sektarkerfi fyrir búðinga sem standa viðskiptavini að slíku.
Þá er bara spurningin: Nær Stína fína námsmeyja að skila fyrstu heimaverkefnunum á fimmtudaginn í næstu viku? Reyndar er annað þeirra að mestu leysanlegt með efni af netinu og hitt get ég kannski bullað mig í gegnum með eigin visku. Sé samt til hvað ég geri.
Mig vantar ljósritara og skannara til að senda mér stundum efni, ætli það sé ekki best að hafa samband við íslenskunemana sjálfa?
Og fylleríisboðanir fylla pósthólfið mitt. Ekki man ég eftir svona samkomum þegar ég var staðarnemi í HÍ. Ég er alveg hlessa. Við drukkum jú mikið og oft, en bara á eigin vegum og greiddum veigarnar fullu verði.

Lifið í friði.

blá eins og appelsína

Og einmitt þegar þú hélst að tárin væru uppurin, að nú gætir þú hætt að skæla og byrjað að einbeita þér að streðinu, kemur Mogginn og í honum leynist ein lítil grein í viðbót og myndin er svo falleg. Og allt í einu er fullt eftir af söltum vökva.
Svarti hundur, hættu að bíta góða fólkið. Sveiattann rakkaskratti.

Lifið í friði.

byrjunarörðugleikar

Hlýtur að vera gaman að segja þetta orð full. Nei, mér dettur það bara í hug vegna þess að í dag fékk ég sendan lista yfir orð sem erfitt er að segja full. Ekki það að ég sé það nokkurn tímann. Listinn sá var á ensku svo byrjunarörðugleikar (sko, það er m.a.s. erfitt að skrifa þetta orð á lyklaborð bláedrú) var ekki á honum.

Ég get ekki hlustað á fyrirlestrana tvo sem ég ætlaði að hlusta á í dag. Ég get hins vegar hlustað á þann þriðja sem ég var eiginlega alveg búin að ákveða að skrá mig úr.

Ég get ekki opnað bóksöluvefinn og get því ekki pantað bækurnar sem ég hefði þurft að fá í gær.

Bóksölustúlkan sem ég talaði við gat varla leynt hneykslan sinni á því að ég væri ekki með kreditkort.

Ég get ekki lesið diskinn Alfræði íslenskrar tungu, sem ég á að kaupa, því auðvitað er hann bara gerður fyrir PC. Spurning hvort ég kaupi hann nokkuð.

Ég sakna Ármanns.

Ég er að fara að skrá mig í Samtökin 78, ef ég finn tvo í viðbót getur systir mín eða mágkona komist í pott og unnið ferð til útlanda. Ertu memm?

Lifið í friði.

karlinn minn

Ég bað manninn minn að gamni að taka prófið sem ég hef vitanlega ennþá skömm á eins og öllum netprófum. Ég hélt ég myndi kafna úr hlátri. Hann er ekkert leiðinlegur, en það vill reyndar svo heppilega til að mér finnst gaman að lesa orðabækur og alls konar uppflettirit, dett jafnvel í símaskrár ef því er að skipta. Kannski við séum hið fullkomna par?


You’re The Dictionary!

by Merriam-Webster

You’re one of those know-it-all types, with an amazing amount of
knowledge at your command. People really enjoy spending time with you in very short
spurts, but hanging out with you for a long time tends to bore them. When folks
really need an authority to refer to, however, you’re the one they seek. You’re an
exceptional speller and very well organized.


Take the Book Quiz
at the Blue Pyramid.

Lifið í friði.

féll og tók próf

Svona í tilefni þess að ég mun þreyta einhver próf í vetur, ákvað ég að æfa mig á einu netprófi (þó ég hafi vitanlega mestu skömm á þessari stúpid dægradvöl netnörda). Ég er ekki alveg viss hver einkunnin er, en er þokkalega ánægð með niðurstöðuna. Það skal þó tekið fram að ég hef ekki (enn) lesið þessa bók.


You’re Mrs. Dalloway!

by Virginia Woolf

Your life seems utterly bland and normal to the casual observer, but
inside you are churning with a million tensions and worries. The company you surround
yourself with may be shallow, but their effects upon your reality are tremendously deep.
To stay above water, you must try to act like nothing’s wrong, but you know that the
truth is catching up with you. You’re not crazy, you’re just a little unwell. But no
doctor can help you now.


Take the Book Quiz
at the Blue Pyramid.

Lifið í friði.

hálfnuð

Búin að sigrast á deginum. Nú þarf að sigrast á kvöldinu.

Lifið í friði.

sunudagur til sigurs

Það held ég nú.

Lifið í friði.