Sarpur fyrir október, 2007

skyldulesning?

Þetta er áhugavert, vel skrifað og skýrt.

Ég er hins vegar óáhugaverð, skrifa illa og óskýrt og er líklega á leiðinni að fá magasár yfir þessu verkefni sem hvorki gengur né rekur. Sjaldan hef ég verið jafn svekkt yfir að vera að missa af tíma, svo stutt frá en kemst samt ekki.

Lifið í friði

mamma

Í gær varð mamma sextug og ég fagnaði vitanlega með henni.

Búin að fara í sund og borða pulsu. Ekki fá kókosbollu. Ef ekki væri fyrir þýðinguna myndi ég stefna til bloggarahittings í næstu viku, en það verður bara að vera í þarnæstu viku í staðinn.

Nema þið viljið koma á vínsmökkunarnámskeið núna á þriðjudag, sjá Vínskólinn.is, ég ætla að vera þar.

Næstu helgi fer ég svo aftur út til Parísar með hóp frá ÚRVAL ÚTSÝN og kem með honum til baka á mánudeginum til að fara svo aftur út á föstudeginum á eftir. Eins og hver annar jetsetter.

Spurningin er hvar og hvenær viljið þið hitta mig? Kókó á Mokka á þriðjudeginum síðdegis eða…?

Lifið í friði.

dregur til tíðinda II

en ekki alveg strax, bíðið róleg, mér líður ekkert smá skringilega, spennt en örþreytt, kvíðin en hlakka til

nei ég er ekki að fara að unga út þriðja barninu

Lifið í friði.

dregur til tíðinda

en ekki í kvöld heldur á morgun

dag skal að kveldi lofa sagði einhver, þessi var eiginlega svolítið mislukkaður því í öllu stressinu innihélt hann:
tveggja tíma bið eftir pípulagningarmanni sem lét ekki sjá sig, tuttugu mínútna töf í bílnum út af brunaliðinu án þess að nokkur eldur sæist, þá fögru sýn að sjá sjúkraflutningamenn koma með lík út úr blokk, á börum, vafið í teppi, yfirfulla verslunarmiðstöð, eru jólin á morgun eða hvað, litla skreppið varð ferlega erfitt, stress stress stress, ég er komin með ógeð á neyslusamfélaginu, já, hljómar frekar klisjukennt en það er nú samt meinið, ég er komin með ógeð á kaupandi fólki

ég sé töfalt, farin að sofa

En já, ég gleymdi: Börnin mín eru samt yndisleg. Þau björguðu því sem bjargað varð af þessum undarlega degi með uppátækjum, bröndurum, sögum og söngvum.

Lifið í friði.

hugmyndaviðrun

Ég var að spá í það hvort ég ætti ekki að setja upp síðu um Sarkozy á parisardaman.com.
Þar myndi ég telja upp eftirlætisveitingastaði hans og gefa upp heimilisföngin hans, hann á hús í Neuilly, forsetahöllin er við Champs Elysées og svo eru einhverjar misvelfengnar íbúðir hér og þar. Svo get ég tínt til áhugamál hans, sýnt myndir af konunum í lífi hans og líklega dettur mér eitthvað fleira í hug.
Þá geta þessar bitru en boðlegu konur úr bloggheimum komið til mín í heimsókn og veitt hann í net sín í leiðinni. Hann er ekki slæmur fengur, ef peningar skipta aðalmálinu, en kannski ekki alveg jafnspennandi ef þú vilt geta átt góðar og rólegar stundir með honum oft.

Spurningin er alltaf með þessa fráskildu: Eru þeir tilbúnir eða þurfa þeir bara öxl að gráta við? Ekki myndi ég vilja hafa Nicolas grenjandi á minni öxl.

Lifið í friði.

psst, nokkur ráð til verðandi bófa

Ég rakst á dálítið skemmtilegt í dag þegar ég var að safna orðum í þýðinguna mína. Þið þurfið að gúggla orðið úrrek og biðja um íslenskar síður eingöngu. Þá fáið þið PDF-skjal um innbrotatækni sem fjórða valkost. Mjög áhugavert og hlýtur að vera helvíti dýrt að starta þessu sporti.

Gaman af því eins og Þórður segir alltaf.

Lifið í friði.

p.s. ég reyndi eins og ég gat að setja inn tengil en þar sem þetta er PDF skjal gengur það ekki og klukkan er orðin næstum ellefu.

ah

Akkúrat þegar ég var að fríka út af stressi og komin að því að fá panikkast heyrist bréf detta inn í pósthólfið.
Þakkarbréf frá viðskiptavini sem er svo fallegt að skyndilega sé ég sólina betur, skynja ég haustfegurðina í trjánum sem ég er svo heppin að sjá út um gluggann minn og lífið brosir við mér.
Hver þarf tíma? Tíminn er það eina sem er ekki einu sinni til. Brettar upp ermar og tekist á við verkefnin. Þau klárast, eins og alltaf.

Lifið í friði.

strætó

Þetta er alveg rétt hjá Vésteini.
Of mikil bílaumferð bitnar á okkur öllum. Íslendingar eru barnvæn þjóð, er það ekki? Er því ekki hægt að reyna að muna það að þetta er mál sem snertir komandi kynslóðir?

Lifið í friði.

hjónabandið

Ég hef engu sérstöku við þessa fínu greiningu að bæta nema þessu:

í sumar ræddum við systir mín og mágkona aðeins um hjónaband samkynhneigðra og orðanotkun. Ég játaði að það vefðist fyrir mér að kalla þær foreldra dótturinnar, þar sem mér þættu felast bæði karl og kona í orðinu. Þær mótmæltu mér og síðan hef ég ekki átt í neinum vandræðum með þetta. Smá æfing og þar með kom það.
Málvitund er mjög mikilvæg og spennandi en það er líka mjög auðvelt að aðlaga sig nýjum aðstæðum og breyta þessari vitund.

Ég get svo bara sagt að það að fylgjast með börnunum sem fæðast í kringum þær frumkvöðla Gullu og Guðrúnu (þær voru fyrstar að nýta sér þjónustu Storksins í Danmörku og hafa leiðbeint öðrum við það), er bara nákvæmlega eins og að fylgjast með öllum börnunum sem fæðast hjá „venjulegum“ foreldrum. Sama eftirvæntingin, sama gleðin, sama fæðingarþunglyndið, sömu áhyggjur af kvillum og ekkert meira eða minna.
Ég skil ekki, ég bara skil það ekki, að fólk sé enn í dag að láta þessa hluti vefjast fyrir sér. Sumt er skrýtið í fyrstu en um leið og maður meðtekur þetta og ákveður að opna huga sinn og sýna skilning, er þetta ekkert svo skrýtið og kannski meira að segja bara næstum svekkjandi ofureðlilegt allt saman.

Litla frænka mín hefur ekkert umfram né skortir nokkuð það sem mín börn hafa. Hún á tvær mömmur en þau eiga mömmu og pabba. Það er allt og sumt og breytir í raun og veru ekki neinu. Hvort sem afdönkuðum fordómafullum kjánum líkar betur eða verr. Þau geta reynt til eilífðarnóns að bera fyrir sig rökleysum í stað þess að standa upp og viðurkenna vandamál sitt og reyna að vinna á því. Ég vona það fyrir þau sjálf að það takist einn daginn.

Lifið í friði.

kynin láta ekki að sér hæða

Börnin fóru í afmælið í gær með gjafirnar sem móðirin þurfti að þjást fyrir að kaupa á dögunum.
Þau áttu að vera í búningum og voru hvorugt í vafa um það hvað þau vildu vera. Sólrún fór í prinsessukjólinn sem amma gaf henni um árið og lét mig mála sig eins og mús í framan.
Kári vildi vera Spiderman og tókst okkur að fá lánaðan búning handa honum án mikillar fyrirhafnar.
Það er fínt að vera hér heima sem köngulóarstelpa og tíkarspenastrákur, en þegar þau mæta í veislur, vita þau greinilega hvernig á að líta út.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha