Sarpur fyrir nóvember, 2007

án titils

Ég er nokkuð ánægð með orðin þjónn og þerna:

Iðnaðarmálaþerna tilkynnti í gær…

Fjármálaþjónn lofaði að segja af sér ef…

Utanríkismálaþerna, menntamálaþjónn, samgöngumálaþerna

Ég er sátt við þetta. Nennir einhver að hringja í þau þarna til að tilkynna breytinguna?

Annars mæli ég eindregið með þessum vef, horfið á útsendingarnar, þær eru skemmtilegar, bæði framkoma Eiríks og flissið í tökumanninum. Og svo eigið þið náttúruleg að gefa bókina í jólagjöf. Tilvalin handa fólki af öllum stærðum og gerðum, ég held t.d. að hún sé upplögð í pabbapakkann, eru karlarnir ekki alltaf mesta vandammálið? Þetta er lausnin.

Ég fór með mynd í framköllun í gær, það verður að teljast afrek. Kannski ég nái að senda jólakortin eftir allt saman? En fyrst verð ég að ljúka við ritgerðina.

þjónn það er ráð í súpunni minni

Þar sem ég las upprifjun Gurríar á því að engum fannst nokkuð mál að finna upp orðið flugþjónn fyrir karlkyns flugfreyjur rann upp fyrir mér það ljós að þjónn er líka fínt í staðinn fyrir fyrir ónefnið ráðherra. Einhverjar hugmyndir að forskeyti?

Í gær skein sólin og svo aftur í dag. Ég er búin að vera úti báða dagana og ganga mig upp að hnjám. Gaman að því.
Drakk kampavínsstaup á okurprís í fallegu umhverfi með góðri konu sem kom töskulaus og alein til borgarinnar í gær.
Horfði á mann ræna myndavél af öðrum manni 10 sinnum í morgun. Skemmtilegast var að sjá viðbrögð grandvaralausra vegfarenda, enginn sýndi þó hetjubrögð og sneri leikna þjófinn niður.

Ég er svo þreytt. En svona þægilega þreytt, með-hita-í-kinnum-eftir-útiveru þreytt. Eins og uppi í fjalli.

Lifið í friði.

geeeisp

Ég geispa út í eitt í dag. Hvaða mara liggur eiginlega á mér?

Og ég er búin að vera með fjörfisk í hægra auga í svo langan tíma að ég geri mér enga grein fyrir því hvort ég á að telja í vikum eða mánuðum.

Lifið í friði.

tálkn

Eins og við var að búast fékk ég viðbrögð við pælingu um tákn.
Ég er á því að táknin eru mikilvæg og merkileg, og að það skipti máli að vera meðvitaður um að ákveðin tákn eru agressíf í augum sumra, ég myndi t.d. ekki hika við að biðja afgreiðslustúlkuna með klútinn að hugsa sig vel um ef hún mætti með hann í gönguferð um Mýrina í París. Ég myndi aldrei banna neinum að ganga þar um með Palestínuklút, og ég þekki reyndar enga Gyðinga sem eru sammála því sem Ísraelsstjórn er að gera í dag, þeir móðgast því ekki sjái þeir klútinn, en ég myndi ráðleggja fólki að hugsa sig um því það gæti lent í vandræðum.
Ég myndi þó líklega neita að ganga um Mýrina með manneskju með nasistakrossinn utan á sér eða gula gyðingstjörnu um arminn. Sum tákn eru of sterk til að leika sér með.
Í raun eru það trúartáknin sem fólk virðist auðveldlegast „misnota“ eða snúa út úr. Það er nú málið að trúfélög hafa oft lagt heilmikið upp úr listsköpun, í kirkjum eru fallegar rúður, fallegar altaristöflur, útskurður, mósaík og annað sem ferðamenn flykkjast til að skoða um allan heim, algerlega burtséð frá trúskoðunum. Ég er t.d. svo fræg að hafa farið í kirkju með þessum fræga yfirlýsta vantrúarmanni.
Ég hlusta á William Byrd, miðaldaskáld sem var reyndar víst bannfærður fyrir að trúarleg tónlist hans var kirkjuyfirvöldum ekki þóknanlega á hans tíma.
Ég er með dýrlingamynd í stofunni, svei mér ef þetta er ekki bara María sjálf með barnið. Ég á krossinn minn í dollunni og þykir vænt um hann af ákveðnum ástæðum. Ég er með fallegt arabískt teppi á gólfinu sem er áreiðanlega troðfullt af táknum sem ég skil ekki. Ég er með indverska gyðju uppi á vegg inni í svefnherbergi. Ég er örugglega að gleyma einhverju.
Í raun er mér „alveg sama“ um táknin, þ.e. ég ber ekki ofurvirðingu fyrir þeim. Ég get ekki ímyndað mér að neitt tákn móðgi mig persónulega. Ég get t.d. sagt ykkur það að fánabrennur hafa nákvæmlega engin áhrif á mig, það myndi því líklega ekki særa mig að Frakkar brenndu íslenska fánann til að mótmæla íslenskri innrás í franskt efnahagslíf eða samþykki íslenska ríkisins á innrásinni í Íran.

Það er margt í mörgu eins og maður segir þegar manni er orða vant. Ég er að skrópa í lærdóminum með þessu brölti sem er kannski bara meiningarlaust væl. Svo ég er hætt.

Lifið í friði.

tákn

Á Íslandi á dögunum rakst ég inn í eina af fínustu búðunum í bænum, þessa sem ekki bregst að er nefnd á nafn í innlitum hjá fólki, allir virðast hafa keypt sér a.m.k. einn hlut hjá þeim (og ekki halda að ég rífi í mig allar greinar um innvols húsnæðis ríkra Íslendinga, ónei, alls ekki, ég les auðvitað Lesbókina en ekki Daglegt líf, þetta er bara svona hlutur sem ég veit óvart). Þar stendur ung afgreiðslustúlka í fallegum svörtum kjól með svartan og hvítan klút um hálsinn. Eins og allir vita sem lesa Daglegt líf, hafa svartir og hvítir aukahlutir verið í tísku um nokkurt skeið. Ekkert við það að athuga sem sagt. Nema að klúturinn er mjög sterk táknmynd um allan heim, að bera þennan klút er afgerandi afstaða til hápólitísks máls. Ég var því mjög hissa, að í þessari fínu verslun, mætti afgreiðslustúlkan bera þetta gildishlaðna tákn utan á sér. Það er nokkuð ljóst að í Frakklandi yrði þetta ekki leyft, eða a.m.k. rætt fram og til baka áður en það yrði leyft. Stór hluti af viðskiptavinum gæti jú verið í hópnum sem myndi sármóðgast við að sjá þennan klút og því hætta á að þeir sneru við í dyrunum og kæmu aldrei aftur.
Ég veit ekki hvort ég vil heldur. Landið sem er yfirmáta upptekið af táknum, allir kunna að lesa í tákn og taka þeim ofuralvarlega, eða landið sem tekur ekki snefil mark á nokkru slíku, hengir trúartákn hvaðan sem er jafnt utan á sig sem upp um alla veggi og stillir gyðinglega sjöstjakanum út í gluggakistu á aðventunni.

Ég var mjög fegin þegar keðjan í litla gullkrossinum mínum slitnaði fyrir mörgum árum síðan. Ég lagði hann þá ofan í litla dollu og þar hefur hann hvílt síðan og ég var þar með laus við endalausar umræður við ókunnuga um það hvers vegna ég bar krossinn, hver væri trúarstaðan á Íslandi, hvort mótmælendatrúin væri ekki viðbjóðslega hörð o.s.frv. Þessar samræður opnuðu vissulega augu mín og ég er alveg ágætlega sátt við að hafa átt þær á sínum tíma, en ég var líka alveg búin að fá nóg.

Ég er líka sátt við að sjá Palestínuklútinn borinn enda hef ég tekið afstöðu til þess máls. Mér finnst samt einhvern veginn eitthvað óforskammað og sveitalubbalegt við þetta meðvitundarleysi gagnvart táknunum.

Lifið í friði.

gíanostal

Eina nostalgían í dag var að allt í einu koma sömu villuskilaboð þegar ég ætla að hlusta á upptökur á tímum. Alveg eins og þegar ég byrjaði í haust. Kom sér verulega illa fyrir vikuprógrammið sem er ansi stíft.

Í kvöld sat ég þó ekki og las mig í gegnum skólabækur eins og ég hefði svo sem getað gert. Nei, ég var með ömurlega mynd á sjónvarpsskjánum sem ég hlustaði á líklega eingöngu til að geta hnussað reglulega og svo leysti ég sudokuþraut á milli þess sem ég kíkti á blogg. Já, það verður ekki af mér skafin letin og sukklífernið. Skyldi Valdi skafari vita af þessu?

Nú ætla ég að leggjast undir sæng með Fönix í öskubakkanum. Hef verið að glugga í hana undanfarna daga og líkar sumt vel en sumt er nákvæmlega eins og ég hef alltaf sagt að ljóðin séu mér: framandi og óskiljanlegt.

Ég skellti þó upp úr a.m.k. einu sinni. Þó að hláturjóga sé ekki neitt fyrir mig (kjánhrollur) er góður uppúrskellur í einrúmi yfir ljóði, skáldsögu, blaðagrein, bloggpistli eða öðru sem kemur algerlega á óvart, eitthvað sem ég fíla vel. Og er örugglega stresslosandi og hollur í þokkabót.

Ég sé fyrir mér að gíanostal gætu verið litlar bleikar töflur, seldar undir borðið á diskótekum og útihátíðum en líka eftirsóttar af verðandi miðaldra húsmæðrum. Hvað ætti grammið að kosta?

Lifið í friði.

hringir vestur oft á dag

á gólfteppinu, eftir útvarpinu

og fá sér meira
port madeira

og húsin mjakast upp

hæ hó og dillidó

hátt enni breitt nef
heilar tennur fær aldrei kvef

Tónlistin ómar í höfði mér, sumt á ég á diskum, annað ekki. En ég þarf ekki einu sinni að setja þetta í tækið, nóg að rifja bara upp gamla góða tíma þegar dansað var við íslenska eðaltónlist í litfagurri íbúð í 8. hverfi. Þá var gaman að lifa og minningarnar ylja en ekki myndi ég þó vilja snúa til baka. Það hlýtur að vera gott að geta lifað með minningar án þess að kveljast í þrá og söknuði.
Auðvitað sakna ég sums og sé eftir öðru en ég leyfi mér ekki að kveljast vegna þess.

Það er samt eitthvað undarlegt nostalgíukast í gangi.

Lifið í friði.

Skelþunnur í skýlinu við Hlemm
á báðum áttum reykjandi LM
Situr unglingurinn í skóginum
með fyllingar í tönnunum
á leiðinni heim úr sollinum.

Ég endurupplifði fæðingu mína í dag þegar ég þurfti að troða mér út úr lestinni. Það hlýtur að vera hollt.

Á morgun ætla ég að vera heima með börnunum mínum og skal ekki hreyfa mig lengra en upp í almenningsgarð. Allsherjarverkfall í einn dag. Hvað er einn dagur á milli vina?
Eins gott að það er til fullt af nýju dóti. Svo er mér líklega boðið í vöfflur í eftirmiðdaginn.

Mig langar í Bráðabirgðarbúggí á diski, mig langar einmitt núna alveg hrikalega mikið að hlusta á Valda kalda með kúk í haldi bjóða Línu magapínu upp í dans.

Lifið í friði.

bleh

Í dag var haldið upp á afmæli Kára hjá ömmunni og afanum. Fullt af frænkum og frændum og þó allir hafi fengið skilaboð um að gjafir væru óþarfar komum við með þrjá fulla poka af dóti heim.
Meira dót. Einmitt það sem við þurfum inn í þessa 70 fermetra okkar.

Á morgun losna ég líklega ekki við að fara niður í metró. Mér hefur tekist að forðast það hingað til en ég er komin með óbeit á bílnum, finnst ég síkeyrandi. Í látunum í dag tókst mér að villast hrottalega á leið sem ég hef farið þúsund sinnum og leiddi það af sér heilmikinn krók og villur og komum við of seint í afmælisveisluna. Einmitt það sem við þurftum.

Það er ógeðslega kalt hérna, rakur og vondur meginlandskuldi, sem er einmitt það sem við þurfum þegar metró er í verkfalli.

Neikvæð? Ég? Nei, nei, alltaf í góðu skapi. Og nota bene, gjafirnar eru flottar og fínar, púsluspil, bækur, litir, playmo… ferlega flott og fallegt allt saman.

Lifið í friði.

kurl

Ég er með verk í hjartanu. Var að kveðja mömmu og pabba og nú er eitthvað svo áþreifanlegt að ég fer ekki heim um jólin. Tvenn jól í röð í Frakklandi. Það er í raun algert svindl.
Nú er ljóst að ég fer í próf 11. og 12. desember. Ég held ég fari ekki með fleipur, jólakortin verða að vera lögð af stað fyrir þann tíma. Í fyrra náði ég ekki að senda öll sem mig langaði, en sendi samt 70 kort ef ég man rétt. Ég þarf a.m.k. þrjár langar og góðar kvöldstundir fyrir þetta. Og ég þarf að skila ritgerð þann 3. des. Og ég þarf að lesa næstum allt pensúmið, hef gluggað í bækur hér og þar, þennan og hinn kaflann, reddað mér fyrir horn í verkefnavinnunni og les alltaf í metró og á kvöldin. En nú þarf ég að setjast niður og lesa og lesa og lesa. Milli þess sem ég vinn og vinn og vinn.
Ég er að drepast úr löngun að fara inn á Uglu og skrá mig úr kúrsunum, prófkvíðinn er þannig að ég fæ ógleðitilfinningu bara við að skrifa um þetta. En ég hef aldrei koxað á prófi, og, að mig minnir, aldrei fallið á prófi heldur. Ég hef staðið mig þrykkjuilla stundum og t.d. er ein prófminning þannig að ég eiginlega hefði heldur viljað falla, svo léleg var einkunnin. Þá panikeraði ég algerlega, heilinn lamaðist, ég kófsvitnaði, skalf og titraði og skilaði ömurlegum svörum og bjóst alls ekki við að ná. Það var vont.
Oftar hefur þó komið gamla góða keppnisskapið í komið upp í mér í prófi, þrátt fyrir kvíða á undan. Þá hef ég stundum brillerað þannig að ég hef komið sjálfri mér á óvart með nýrri sýn á efnið, skilað svörum sem ég var að rifna úr monti yfir og um leið hundsvekkt að hafa ekki getað komið þeim á framfæri í tíma. Það er fjör.

Ég er að sækja um að taka próf í Sendiráðinu, hvernig ætli það verði? Panikk eða kúlheit?

Annars komu kurl til grafar í erfiðu máli í dag. Þegar maðurinn minn kom frá Íslandi á dögunum, beið stór blómvöndur við dyrnar hjá okkur. Og ekkert kort. Hann spurði mig, spurði hina og þessa nágranna en enginn kannaðist við neitt. Við höfum horft undarlega hvort á annað síðan, spurt okkur í sífellu hvort okkar það sé sem eigi leyndan aðdáanda, ásakanir hafa gengið á víxl um framhjáhald og svikar.
Í dag kom svo gamli heyrnalausi karlinn á þriðju/fjórðu hæð upp og játaði að hafa skilið eftir vöndinn í þakklætisskyni fyrir internetaðstoð sem ég veitti honum í síðasta mánuði.
Ekkert spennandi, enginn drami, allir bara tryggir eins og hundar hérna á heimilinu.

Það er myrkur og kuldi. Mig langar í rautt te, en nenni ekki að standa upp til að brugga það. Hvað á að hafa í matinn á rólegheita laugardagskvöldi?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha