Sarpur fyrir desember, 2007

í dag í kvöld

Mér hefur liðið mjög undarlega í dag, blúsuð en samt ekki, eirðarlaus en yfirmáta löt.
Ég er aldeilis óvön því að þurfa ekki fyrir neinu að hafa á þessum degi, kampavínið var löngu komið í hús og hefur kælst í ísskápnum í dag og það er eina verkefnið sem ég fékk fyrir kvöldið. Fer í mat til nágrönnu sem er listakokkur og hef hlakkað til að fá kvöldmatinn síðan ég opnaði augun í morgun.

Um miðjan eftirmiðdaginn ákvað ég nú að drífa okkur börnin aðeins út í bæjarferð, það var dálítið búið að vera að velkjast um í kolli mínum og ég vissi að ef ég reyndi ekki að kanna málið sæi ég hrikalega eftir því í kvöld.
Leiðin lá í hrekkja/búningabúð. Pínulítil þrælskemmtileg troðfull af frekar ódýru búninga og partýdóti. Þetta reyndist ekki hugmynd ársins þar sem biðröðin lá langt út á götu og troðningurinn og lætin voru slík að ég var næstum hætt við. Sérstaklega þegar ég fékk athugasemd frá starfsmanni um að það ætti varla að vera með börn þarna, ég var næstum búin að hreyta í hann að við værum greinilega ekki velkomin og strunsa út en svo náði ég að stilla mig og hélt mínu striki. Við höfðum troðninginn af og mér tókst að kaupa grímur á börnin í kvöld og þrjá pakka af því sem farið var að sækja… stjörnuljós voru það heillin.

Mér finnst gamlárskvöld alltaf frekar skemmtileg kvöld, þ.e.a.s. síðan ég fór á botninn í gamlársdjammi og skellti mér í Hollywood og skemmti mér svo illa að ég fór næstum grátandi heim af frústrasjón. Allt það ár var örugglega ónýtt, ég man það samt ekki.
Síðan þá hef ég alltaf haft vit á því að vera í góðra vina hópi, vernduðu umhverfi og í kvöld er engin undantekning.
Og mér finnst rakettur og brjálæði æðislegt. Og mér er skítsama þó þetta séu milljarðar, ég hef ekki séð þeim neitt betur varið peningunum, get varla ímyndað mér að gaurarnir sem mæta í flugeldasölurnar séu á leið með tékkheftin niður á Barnaspítala Hringsins. Mér finnst ég því eiga nett bágt að missa af því í kvöld.

En, ég segi bara skál og skemmtið ykkur fallega og fjörlega. Ég vona að veðrið leiki við ykkur þvert á hrakspár veðurfræðinga, hvað vita þeir svo sem?

Kærar þakkir fyrir árið sem er að líða. Og ekki segja mér að þessi tímamót hafi engin áhrif á ykkur, ég veit að þetta er kvöld eins og önnur kvöld en það að skipta um ár hefur undarlega mikla þýðingu, hvort sem fólki líkar betur eða verr.

Mig langar ferlega mikið að opna eina kampavín núna strax, fyrir kjólamátun. Á ég?

Lifið í friði.

zapping de l’année

Eftir þrjár klukkustundir af myndbrotum úr sjónvarpinu frá árinu sem er að líða er ég nokkuð sannfærð um að líf mitt er blekking.
Hér er allt í fokki, spilling sem tengist ríkustu köllunum (sem verða stöðugt ríkari og ríkari) og stjórnmálamönnum og felur í sér vopnasölu, olíubrask og annan viðbjóð á meðan ástandið hríðversnar í lægstu stéttunum og allt er að fara í bál og brand.
Fyrir utan pólitíkina er þetta svo afskræmt þotulið með rassa og brjóst út í loftið og plebbar í raunveruleikaþáttum.
Stundum er ég hissa á sjálfri mér fyrir að horfa ekki lengur á sjónvarp, en þegar ég sé þetta svona í einum hrærigraut er ég nokkuð sátt við þá þróun. Miklu betra að vera bara úti í garði með börnunum og finnast allt í lagi. Eða hvað?

Lifið í friði.

ekki læri

Þegar ég var loksins búin að sjúga nægan kraft úr internetinu (nota bene, ég fer ekki inn á síður sem pirra mig, kiki ekki til SFr, ekki á trú eða vantrú og læt fréttir ekki leiða mig inn á bloggsíður) dæsti ég hátt og nokkuð laglega, þó ég segi sjálf frá og tilkynnti manninum mínum þá áætlun að hafa lambalæri í hádegismat. Hann hélt nú ekki, skipaði mér að fara í sturtu og reyna að flikka aðeins upp á útlitið því hann ætlaði að bjóða allri fjölskyldunni út að borða í hádeginu. Þetta gerist sjaldan, svona drifkraftur í að gera sér dagamun hjá honum, yfirleitt er það ég sem rek alla upp og út að gera eitthvað skemmtilegt, svo vitanlega var boðið ekki afþakkað.
Við fengum okkur þistilhjörtu, ágætar pizzur og ís og tiramisu í desert. Mamman og pabbin fengu rauðvín með og allt. Svo var farið í Villette garðinn, Grande Halle nýuppgerð og fín skoðuð, bókabúðin þar reyndist hin skemmtilegasta þrátt fyrir smæð sína, þar skoðaði mamman innréttingarnar frá öllum hliðum, hreint brilljant smíði sem hægt væri að stela og stæla, börnin flettu risaútgáfu af ræningjunum þremur og pabbinn skoðaði lengi myndir af berum kéllingum og kannski eitthvað fleira líka.
Í garðinum fóru börnin tvær bunur í hringekjunni og, alveg satt, þar sem ég horfði á tólf litlar stelpur og einn strák dingla fótunum í róluhringekjunni, helltist yfir mig undarleg kennd um ofdekruð börn og fólk sem lætur eins og allt sé í lagi þegar það er kannski ekkert allt í lagi. Þess vegna fannst mér skrýtið að lesa þetta áðan.
Eftir hringekjuna átti að fara í stóru rennibrautina en hún er lokuð eins og öll leiktæki í París, líklega, þar sem hiti er við frostmark. Það er svo hættulegt að leika sér í frosti, það veit hver heilvita maður. Við gengum því á trumbuhljóðin í staðinn og horfðum á stóran hóp fólks berja misstórar trumbur í flottum takti áður en haldið var af stað heim með rjóðar kinnar og glit í augum. Það er alla vega einhvern veginn allt í allra besta lagi hér. Og fyrr skal ég hundur heita en hafa samviskubit yfir því og dettur ekki í hug að ala börnin mín upp í slíkum ósóma, eða ætti ég að segja hreisu?

Í kvöld hefur enginn áhuga á kjöti, hér er skorið niður grænmeti af fullum krafti undir ljúfum djasstónum, börnin leika sér með riddara og kastala, mamman hangir á netinu. Allt virðist eins og það á að vera. Blekking?

Lifið í friði.

sunnudagsmorgunn í rúminu með tölvuna

Þetta er sérlega skemmtileg, stutt og laggóð greining á Dýrunum í Hálsaskógi.

Í gær lagðist ég yfir myndagátuna. Hafði séð hana og leyst fyrstu setninguna á svekkjandi skömmum tíma en ekki lagst almennilega yfir þetta. Ég man þá góðu tíma er ég, Embla og pabbi þurftum að hringjast á, spá og spekúlera, jafnvel kalla til fjórða aðila. Vorum við heimskari eða voru gáturnar miklu snúnari? Toujours est-il að ég kláraði þessa barnagátu hratt og vel. Reyndar þurfti ég að bíða með síðasta orðið þar til í morgun. Það eiga að vera nokkrar slíkar þúfur í þessu. Og einhvern tímann í svefnrofum í nótt datt mér í hug að þetta gæti verið kannabis en furðaði mig á því um leið að hafa ekkert heyrt um það að kannabis væri að finna á Norðurskautinu. Mig vantaði auðlind, hún kom svo strax og ég leit á þetta í morgun.

Krossgátuna tekur ekki að tala um, fylli hana jafnhratt út og Lesbókargátuna. Komin með eina villu, ég vil ekki samþykkja að HREISA sé ÓSÓMA.

Ég man þau jólin mild og góð er bloggheimar voru morandi í spennandi spurningakeppnum, bókmennta- og myndagetraunum. Sem var eins gott því Mogginn er hættur að sjá okkur fyrir almennilegri heilaleikfimi. Þar vaða nú uppi fréttir af þotuliði, hlutabréfakaupendum og öðru pakki sem kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut við.
Lesbókin stendur alltaf fyrir sínu, þó þar fari sumt dálítið í taugarnar á mér, til dæmis skil ég ekki enn hvað allar þessar stuttu greinar um rokkara þurfa endilega að vera að taka pláss þar.

Eins gott að ég fékk tvö tölublöð af eðaltímaritinu Börn og Menning send til mín fyrir jólin. Greinarnar þar eru skemmtilegar, mátulega langar og fullar af spennandi fróðleik og upplýsingum. Ég sé að barnabókaútgáfa er að taka kipp og ferlega er ég hissa á að hafa hvorki heyrt um né séð nokkurn skapaðan hlut um útgáfu Árnastofnunar og Smekkleysu á gömlum upptökum af vísum, og bók með. Þetta er efni sem ég VERÐ að eignast og það fyrr en síðar.

Bíómyndin um ræningjana þrjá var frábær. Eru bækur Tomi Ungerer til þýddar á íslensku? Fá Íslendingar að sjá þessa yndislega hortugu mynd þó hún sé bara þýsk?

Sunnudagur. Síðasti sunnudagur ársins. Lambalæri í matinn í hádeginu, hér er einhver kjötorgía í gangi, en það er bæði kalt og rakt svo ekki veitir af fitu og járni í okkar viðkvæmu kroppa.

Lifið í friði.

fráskilda blondínan

í húsinu mínu er með singstar partý.

Ég er hins vegar farin að sofa.

Lifið í friði.

nautalifur

Í kvöld eldaði ég nautalifrarpottrétt í fyrsta sinn. Börnin umluðu af ánægju yfir þessu meyra kjöti.

Kjötið í pottinum kostaði 3 evrur og var eiginlega helmingi of mikið. Þó að lifur sé góð er bragðið það frekt að ekki þarf mikið af því. Betra að hafa þeim mun meira grænmeti og góð rjómasósa er náttúrulega nauðsyn.
Ég brúnaði sem sagt tæp 600g af lifur í litlum bitum rúlluðum upp úr hveiti, pipar og salti ofan í sama potti og ég var búin að glæra lauk og mýkja gulrætur í sneiðum í. Lét nú bara grænmetið vera áfram í pottinum á meðan. Svo hellti ég tveimur, þremur vatnsglösum yfir, skar smá papriku ofan í og lét malla. Eftir um tíu mínútur bætti ég smá kartöflumjöli og góðri rjómaslettu og raspaði smá múskat yfir. Det var nu det. Gufusoðnar kartöflur með. Mjamm.

Mamma mín eldaði lifrarpottrétti reglulega handa okkur, ég hef alltaf verið hálfhrædd við að prófa. Nú verður þetta gert reglulega hér. Var samt hikandi með græn krydd, allar ábendingar vel þegnar.

Ég fæ mér reyndar alltaf reglulega kálfalifur á veitingahúsum, eiginlega alltaf ef boðið er upp á það í réttum dagsins. Lifur er hnossgæti. Skál fyrir því.

Lifið í friði.

bestu plöturnar 2007

Við börnin ræddum yfir hádegismatnum í einlægni um álit okkar á plötunum sem hér er hlustað á og höfum komist að niðurstöðu um bestu plötur ársins:

Plata ársins er, þriðja árið í röð, Dýrin í Hálsaskógi. Á eftir koma Contes et Chansons, Silfurkórinn (hefur verið mikið spilaður nú á aðventunni) og Eniga Meniga.

Ef einhverjum finnst klént að hér skuli ekki vera boðið upp á nýtt efni, er viðkomandi bent á að í netheimum er líklega að finna um þrjú þúsund bestu plötur ársins lista nú þegar og ekki líklegt að þeim muni fækka á næstu dögum.

Við erum farin í bíó.

Lifið í friði.

Lost Children e. Maggie Gee

Ég las einhvern tímann bók sem mér fannst ekkert sérstök en samt sat hún alltaf í mér og þá sérstaklega einn kafli. Bókin fjallar um konu sem vaknar upp við það að dóttir hennar er flúin að heiman og hún þarf að fara í gegnum allsherjar uppgjör við sjálfa sig og líf sitt.
Sterkasti kaflinn, þ.e.a.s. kaflinn sem hefur alltaf setið í mér, er samtal hennar við bestu vinkonu sína sem eignaðist aldrei börn. Það kemur í ljós að þær hafa alltaf öfundað hvor aðra, sú barnlausa þráir að eiga mann og barn, gifta móðirin þráir líf hinnar einhleypu. Um leið hafa þær verið tiplandi á tánum í kringum hvor aðra, því einhvers staðar voru þær meðvitaðar um þrá hinnar og ólu með sér einhvers konar samviskubit gagnvart hvor annarri.

Ég er alltaf jafnhissa þegar fólk segir við mig að ég sé heppin að búa í París. Ég tel það ekki vera heppni, ég valdi að koma hingað og hef stundum staðið í ströngu, ég er innflytjandi, útlendingur, gestur, þó ég sé ljóshærð og bláeygð og sleppi þar af leiðandi við ýmsa niðurlægingu sem dekkra fólk þarf að þola hér sem innflytjendur.

En kannski er einhver heppni í þessu, einhvers konar örlög, þráður sem var spunninn á undan vali mínu? Ég veit það ekki, en ég fæ þá tilfinningu alla vega þegar ég horfi á börnin mín hér á gólfinu að tússlita. Valdi ég að eiga þessi börn?
Það má segja að einhverju leyti, ég fann mér mann, vandaði mig mikið við að leita að manni sem ég gæti hugsað mér að eignast börn með, hamraði og nöldraði í honum lengi áður en hann samþykkti að prófa og þar fram eftir götunum. En svo sér maður hjón sem hafa gert allt þetta en eignast samt ekki börn. Hvað með þau? Þau velja en fá samt ekki. Er þá hægt að tala um val? Velja þau að þjást árum saman í miserfiðum tilraunum við að fá óskina uppfyllta?

Lífið er margslungið.

Ég er greinilega komin í áramótablámakast.

Lifið í friði (og látiði mig í friði eins og Grýla sagði).

jólamynd

Var hringt í Grýlu?

Lifið í friði.

andvaka

Ég fór líklega of snemma að sofa eftir kampavínsrakan eftirmiðdag. Vaknaði klukkan hálffjögur. Reyni að lesa og þá lokast augun en þegar ég slekk ljósið byrja bylturnar.
Ég verð samt að reyna aftur að sofna, nenni varla að vera eins og zombie á morgun, ein með börnin.
Geisp.
Var ég búin að segja ykkur að ég ELSKA tölvuna mína? Ég elska hana.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha