Sarpur fyrir desember, 2007annar í jólum er ekki til í Frakklandi

takk fyrir engla

takk fyrir kveðjur

takk fyrir pakka

takk fyrir allt

Jólakaffið hjá tengdaforeldrunum í gær er, eins og öll önnur ár, eins og upp úr bók eftir Nathalie Sarraute.
Ég veit ekki hvort hægt er að lýsa þessu, verandi sjálf ekki af sama kalíber og Sarraute hef ég aldrei náð að lýsa almennilega fyrir fólki franskt búrgeisafjölskyldulíf.
Tengdapabbi og tengdamamma eru skrýtnar skrúfur. Sem betur fer hafa þau ákveðin skemmtileg element í sér, mér þykir mjög vænt um þau og þau eru takmarkalaust góð við okkur. EN þau eru ekki góð hvort við annað alltaf, og spennan á milli þeirra þegar þau taka á móti gestum er slík að þegar ég gekk út frá þeim í gær langaði mig mest af öllu að sparka í bílinn þegar ég opnaði hann. Ég stóðst þó mátið og í staðinn hoppaði ég og hristi mig og sagði OMMMM. Það náði aðeins að losa um streituna.
Á hverju ári er sami sirkúsinn: Hann hefur boðið okkur í drekkutímann, sykurmeti. Hún vill hins vegar að þetta sé „alvöru boð“ og hefur því undirbúið nokkrar snittur. Svo keppast þau við að troða að okkur hvort sínum bakka og við eigum að velja lið. Nota bene: Frakkar blanda ALDREI saman sætu og söltu (þó vissulega sé farið að bera á þessu í haute cuisine er það ekki komið inn í fjölskyldurnar, sérstaklega ekki traditional búrgeisafjölskyldur). Þess vegna getur friðelskandi tengdadóttirin ekki gengið í bæði liðin og fengið sér bæði köku og snittu á diskinn.
Í gær bættist heldur betur ofan á hinn venjulega sirkús þegar í ljós kom að kampavínsflaskan hafði sprungið í frystinum. Ég var næstum því búin að sleppa mér þar, fjandakornið, ég stóð í eldhúsinu ALLAN DAGINN á undan að undirbúa fjögurra rétta máltíð, gat kallhelvítið ekki sett flöskuna í ísskápinn deginum áður!? Nei, það gat hann náttúrulega ekki því hann serverar vín með hangandi hendi því hann er svo mikill hófsemismaður að varla er hægt að segja að hann bragði áfengi. Það bitnar á okkur öllum, við þurfum að sitja undir því að um leið og hann býður í glas minnir hann „sætum rómi“ á að einnig sé til óáfengt. Óþolandi tvískinnungur sem Sarraute hefur nokkrum sinnum náð að lýsa þannig að kalt vatn rennur milli skinns og hörunds lesanda.
Tengdapabbi var sem sagt í fýlu út af kampavíninu allt boðið og tengdamamman þóttist hughreysta hann við og við með því að segja að þetta væri örugglega lukkumerki, en var vitanlega um leið að snúa hnífnum í sárinu.

Annars: allt í svímandi góðu standi hér. Ekkert ofát, þannig lagað séð, bara mátulegt magn af önd og rauðvíni, súkkulaði og rjóma. Í dag fáum við gesti og vonandi næ ég að draga þau út í göngutúr, þ.e.a.s. nema ég nái að drattast út sjálf núna í hlaupaskónum, sukkjöfnun er vitanlega málið!

Bókin í jólapakkanum: Sumarljós og svo kemur nóttin. Tónlistin: Mugiboogie.

Lifið í friði.

gerið engil fyrir mig

í snjóinn.

Lifið í friði.

ein einkunn komin

Ég er svo hissa að ég veit varla hvernig ég á að snúa mér hérna.

Var að fá þessa líka fínu einkunn.
Ég sem hélt að hægt yrði að fella mig fyrir flaustur og illa uppbyggð svör.
Ég þori ekki einu sinni að segja töluna og skammast mín fyrir að hafa talið mig fallna, eins og það fer í taugarnar á mér lið sem þykist alltaf hafa gengið svo illa en fær svo hrikalega fína útkomu. Nú er ég hrædd um að mistök hafi verið gerð. Þetta hlýtur að vera einkunnin úr hinu faginu.

Mig svimar.

Vá.

Lifið í friði.

gaman

Það var gaman í partý í gær.

Svo var ég búin að skrifa langa færslu um að ég náði að kaupa jólagjafir og að hús sprakk hér í nágrenni við mig í dag en sá að þetta var hundleiðinleg langloka svo ég strikaði hana út. Þið getið litið á þann greiða sem jólagjöf mína til ykkar. Meiri tími í undirbúninginn.

Sem minnir mig á: Talaði við tvær vinkonur í gær og fyrradag sem tilkynntu mér kokhraustar að þær væru búnar að öllu. Hvernig getur nokkur maður nokkurn tímann verið búinn að öllu? Ég spyr eins og fávís kona.

Lifið í friði.

jahá

áttaði mig ekki á því að sólstöður eru í dag fyrr en ég las það hjá Málbeini. Til hamingju með það. Þó margt sé jákvætt við myrkrið finnst mér það alltaf góð tilfinning að vita að nú fara dagarnir að lengjast á ný.
Einhvern tímann hélt ég sangria-partý á þessu kvöldi og bað alla um mæta í suðrænum og sólarlegum fötum. Ég ætlaði mér að gera þetta að hefð, árlegt uppbrot á skammdeginu. En maður er bara svo oft að ferðast milli landa eða í öðrum hamagangi á þessum degi að af því varð ekki.

En ég fer í jólaglögg í kvöld, það er nú aldeilis góð frétt fyrir mig. Að komast út. Einmitt það sem ég þarf. Ég vona bara að ég detti ekki of harkalega ofan í rúsínurnar svona eins og títt er með húsmæður sem komast sjaldan út. Sem er svo sem allt í lagi, bara að ég haldi strápilsinu og kögurbrjóstahaldaranum á réttum stöðum, að það verði enginn flennugangur.

Lifið í friði.

ef þetta er ekki tepoki

ég fæ engar samúðarkveðjur eða neitt svar við einu eða neinu, sit bara hér alein og hlusta á the animals in neck forest og hlýði skipunum sjúka drengsins og hef ekkert samneyti við fullorðna sem eflaust rjúka allir út um borg og bý að redda og stússast og klára og allt það
ég virðist gersamlega hafa tapað niður hæfileikanum til að hanga, rétt að ég setjist niður í bloggrúnt við og við en stuttur er hann, líklega rjúka allir út um borg og bý… og ég næ ekki að sitja og slaka á
þannig er ég í dag búin að setja í og taka úr vél, ganga frá þvottinum sem fór í vél í gær, klára að lesa yfir þýðinguna, senda hana og búa til reikninginn og senda hann, skrifa meil út af hótelpöntun í apríl, panta bílaleigubíl, baka 32 fyllt horn, pakka inn tveimur gjöfum, þrífa tölvu mannsins míns sem var eitthvað svo grá og guggin við hlið minnar, ganga frá greiðslu á skólamyndunum, borða og gefa að borða og örugglega fullt af öðrum litlum hlutum, tína upp úr gólfinu og svoleiðis endalaus húsmóðurverkefni og nú er ég að reyna að gera það upp við mig hvort ég eigi að gera ísinn í dag eða ekki

sem betur fer er partý í kvöld, annars gengi ég líklega af göflunum af dugnaði, heilbrigðu líferni og jólaanda

Lifið í friði

hvítt

Tölvan mín er hvít eins og fegurstu jólin. Ég sá MacBook kallaða púðurdós sem skammaryrði í athugasemdum einhvers staðar. Mér finnst það ekkert skammaryrði. Ég á stóra fallega púðurdós.

Ég man eftir gömlu stóru hringlaga pappapúðurdósunum sem maður fékk frá ömmu þegar púðrið var úr henni (dósinni). Með risastórum púða. Gellupúðurdós.

Drengurinn minn er hvítur eins og tölvan en það er ekki eins fallegt. Hiti, nefrennsli, hósti, lystarleysi, almennur slappleiki en samt ofboðsleg stjórnsemi, hann biður um eitthvað í eymingjalegum vælutóni og svo þegar ég sprett ekki upp til að þóknast honum segir hann styrkum skipunarrómi: „tout de suite“ og slær með hnefanum á sófann, gólfið, hægindastólinn. Þá verð ég að vera uppalandi og segi að svona tali maður ekki við mömmu sína en auðvitað neyðist ég til að gefa honum allt sem hann vill borða og drekka því ekki er mikið sem fer inn fyrir hans varir.

Það stefnir í óefni.

Læknisstefnumót í kvöld þó ég viti alveg hvernig það verður: læknirinn fær barnið til að hlæja, enda skemmtilegur kall, spyr svo hvað mamma sé að hafa áhyggjur og segir mér að gefa honum áfram hitalækkandi þegar mér þyki þurfa, þvo nefið með saltvatni, og halda áfram sírópinu. Sem sagt engin breyting, engin töfralausn.
En ég þori samt ekki öðru en að fara með hann, vinkonur mínar eru hneykslaðar á mér og svo eru jólin að koma og ekki nenni ég að vera með hann fárveikan uppi á slysó eftir tvo daga…
Ég er þó heppin að þau eru sjaldan veik, börnin.

Búin að finna Office-diskinn en á eftir að setja hann upp, ein spurning til gúrúanna: Í tölvu Arnaud náði ég aldrei að fá bókstafinn Ðð til að virka inni í Word. Það virkaði í Excel og í „find and replace“ og þannig reddaði ég því, skrifaði z og skipti svo út fyrir ð. Ég man að maður fékk alls konar spurningar um kóða eða annað þarna í uppsetningunni, vildi maður allt klabbið eða smærri útgáfu og eitthvað svoleiðis. Á ég að varast eitthvað sérstaklega?

Lifið í friði.

svo björt

Ég þurfti bara aðeins að grafa í heilanum, þar lágu í leyni upplýsingar um stuffit expander og nú er ég að hlusta á fréttir frá því í kvöld. Mér finnst ég persónulega vera snillingur. Alla vega stundum.
Maðurinn minn kom upp í rúm meðan ég var að stússast í stuffitinu. Nú hrýtur hann. Ég get látið duga að taka gleraugun varlega af nefi hans og slökkt ljósið. Losna við að tala. Nú er það bara ég og tölvan mín.

Lifið í friði.

nýtt dót handa mömmunni

Ég er að skrifa á nýju tölvuna mína, ligga ligga lá.

Ég fékk þessa tölvu (MacBook) fyrir rúmri viku síðan. Þá var ég í próflestri og lá hún því óupptekin í kassa fram á miðvikudag. Þá var ég svo niðurdregin eftir slæma prófið að um leið og eitthvað vesen varð með nettenginguna gafst ég upp. Svo hef ég verið að gjóa augum á hana, tekið hana stundum og opnað, fiktað í hinu og þessu tilviljanakennt en einhvern veginn ekki gefið mér tíma í að athuga þetta með netið. Og fyrir mér er netlaus tölva gangslaus tölva. Því miður er ég ekki að skrifa ódauðlegt ritverk eða vinna annað gáfulegt. Ligg bara í misgáfulegum bloggum eða ramba um stórhættulegar vefsíður.

Málið var að ekki var hægt að vera með tvær tölvur í þráðlausri tengingu samtímis. Hefur verið vandamál hér þegar pabbi hefur verið í heimsókn. Og haldiði ekki að maðurinn minn hafi ekki bara eytt þessu vandamáli í dag? Eitt símtal og smá stillingar á netinu og VOILA. Ég ligg því hér í rúminu með mína tölvu meðan hann er frammi með sína tölvu. Alsæl hjón.
Nú þurfum við aldrei aftur að spila yatzy eða tala saman. Kannski eins gott því ég fékk ÞRJÚ yatzy í leik í fyrradag og grunar að maðurinn minn vilji aldrei spila það við mig aftur hvort sem er.

En það er samt annað vandamál. Ég get ekki hlaðið niður windows media player. Það kemur bara eitthvað skjal en ekki innsetningarforrit. Prófaði að hlaða niður Flip4Mac og það gekk en það virðist samt ekki virka fyrir RÚV. Og þá væntanlega ekki heldur fyrir námið eftir jól (og nú geri ég ráð fyrir að Grettir tölvukarl fái ekki að borða jólasteikina fyrr en hann er búinn að laga aftur það sem hann lagaði en aflagaðist svo þegar hann fór til útlanda).

Og svo finn ég ekki Office-diskinn. Það er smá bömmer en hann ER HÉRNA einhvers staðar.

Og ég er með nýja tölvu! Ligga ligga lá!

Lifið í friði.

í dag

rúttaði ég til í herbergi barna minna, þau eru búlímísk í myndaframleiðslu sinni og mamman er of væmin til að henda. Þangað til að einn daginn ofbýður henni bunkinn og þá fer áreiðanlega margt í ruslið sem ætti frekar heima á safni.
Sólrún teiknar mikið af dýrum, hún er t.d. núna á fullu í jólamyndunum sem innihalda alltaf fagurkrýnd stökkvandi hreindýr, en svo segist hún ekki treysta sér til að teikna jólasvein.
Kári teiknar kalla sem eru enn bara haus með útlimi en þeir hafa allir einhvern anguværan svip sem fær hjarta mitt til að slá hraðar.

í fyrra var ég dugleg og lét Sólrúnu teikna á flest jólakortin, því miður náði ég því ekki þetta árið, sé eftir því núna eftir tiltektina.

Svo er það spurningin: Á ég að láta stóru legókubbana? Eru ekki þessir litlu nóg fyrir þau núna? Það myndi skapa töluvert pláss, ansi stór karfa sem gæti farið af gólfinu. Þau leika sér ekki oft í legó, en það kemur samt fyrir. Ég get ekki ákveðið mig og misnota ykkur því enn og aftur.

Jólatréð er komið fast ofan í blessaðan jólatrésfótinn sem á sér skrautlega sögu sem ekki verður sögð hér þar sem bókin kemur að öllum líkindum út fyrir næstu jól. Tréð er dálítið skakkt og greinarnar hafa ekki lagst niður á þessum fimm, sex klukkustundum sem það hefur staðið. Ég þrjóskast við að vera með lifandi tré, var með lánsgervitré eitt árið og það var alls ekki minn tebolli.

Annars er ég farin að finna angurværð, þrá eftir íslenskum jólum, hellast yfir mig. Fór m.a.s. á netið að athuga verð í morgun, mæ ó mæ, ekki spurning um að plönin standa.

Lifið í friði.