Sarpur fyrir janúar, 2008

farðu bless

Ekki mun ég vera sú sem græt þennan blessaða janúarmánuð. Yfirleitt hef ég ekki tekið of mikið undir klisjuna um að janúar sé verri eða leiðinlegri en aðrir mánuðir. En þessi er búinn að vera frekar erfiður og ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað ég var glöð þegar ég fór í leikfimina á þriðjudaginn og það var ennþá næstum bjart. Það er farið að birta og þó að birtan þýði að maðurinn minn kemur seinna heim úr vinnunni er ég samt glöð yfir því.
Farðu ljóti leiðinlegi janúar og megi febrúar verða betri, styttri, bjartari og aðallega að heilsan verði skárri.

Lifið í friði.

gubb

Ég gæti ælt þegar ég les yfir síðustu daga hérna. Ég er greinilega andlaus með meiru.
Mig langar að kenna utanaðkomandi aðstæðum um.
Í fyrsta lagi hefur heilsan verið tæp, kraumar í mér einhver kverkasktíspest með tilheyrandi kinnholueymslum og hitasveiflum. Þannig svaf ég í lopapeysunni minni í nótt, skjálfandi og titrandi, en vakna svo frekar hress eftir að vera búin að losa góðan slatta af grænu slími úr andlitinu.
Svo er það námið, mér líður eins og versta heimskingja, þetta er ekkert smá tæknilegt og snúið fyrir minn viðkvæma heila. En ég ÆTLA að svína mér í gegnum þykka þokuna til skilnings. Ég hef aldrei gefist upp á námi sem ég hef skráð mig í og fer ekki að byrja á því á gamals aldri.
Þá er það blessuð vinnan. Brauðstrit mætti varla kalla þetta tutl mitt, en það getur tekið á þegar í mörg horn er að líta.
Að lokum er það risaverkefni sem er ennþá algert leyndarmál. Það er unnið í hjáverkum hér og þar þegar tími og kraftur finnast í sama andartaki.
Aukalega er svo kvennakvöldið sem er í fullum undirbúningi ásamt þessu indæla hversdagslífi sem inniheldur þvottavél, þvottasnúrur, kúst, viskustykki, potta og pönnur, hráefni sem þarf að sækja og vinna úr, muna tónlistarskólann, muna afmælið, bjóða í brunch, halda eitt stykki 12 barna afmæli… ég er ekki alveg viss um að þið munið heyra mikið frá mér á næstunni. En ég er líka nokkuð viss um að það sé í stakasta lagi, ég stórefast um að þetta bull hérna geri meira en að stela tíma af fólki.

Lifið í friði.

hlustun

Það er alveg ólýsanlega miklu betra að hlusta á tímana í sinni eigin tölvu í öryggi eigin heimilis. Hvað t.d. ef tölva vina minna crashar (er til íslenskt orð, hrynur?) meðan ég er að hlusta? Öll þeirra skjöl hverfa? Er ég þá sek?
EN áðan var ég búin að hlusta á fyrsta hálftímann af tíma frá föstudeginum og þá stoppaði allt og enginn vegur að gera annað en að byrja upp á nýtt. Það gerði ég æðrulaus og allt stoppaði eftir ca tíu mínútur. Þannig að nú er ég að hlusta á fyrsta korterið í þriðja sinn, sem er kannski að einhverju leyti ágætt, límheilabarnið sem ég var er ekki lengur til staðar, nú þarf ég að stauta mig fram úr lestrarefninu upphátt til að eitthvað nái að síast inn, en samt… ég þurfti líka að hlusta á fyrsta hálftímann frá tímanum á miðvikudaginn tvisvar. Frekar frústrerandi. Og í raun erfitt að vera að lesa eða gera annað á meðan því ég get ekki fengið neins konar tilkynningu þegar upptakan er komin að þeim stað sem ég þarf að byrja að hlusta. Jú, ég get hlaupið og sett í vél, gengið frá kampavínsglösunum inn í skáp og bloggað smá. En ég er áfram í fýlu. Notaði samt hástafi núna, þó ástandið sé lágstaflegt.

Lifið í friði.

hvert fór einar?

hann er horfinn. bara eintóm tilkynning um tóm. mér finnst það nú ekkert alveg allt í lagi. þú lætur vita af þér, er það ekki?

ég er eitthvað undarlega blúsuð, meðal annars út af nokkrum síðum sem ég hef lent inn á hér á netvafri mínu í kvöld, almáttugur en sú mæða að eiga svona samlanda. út af blúsástandinu hef ég ákveðið að hafa enga hástafi í þessari færslu. æ, nei, þetta er lágfærsla.

lifið í friði.

p.s. þetta með ömurðina á ekki við neinn á blogglistanum og alls ekki alla ókunnuga sem ég hef kíkt til í kvöld, bara suma.

Svona eru karlmenn

— sem eru ástleitnir

Það eru margar hættur á vegi manns meðan maður er ung stúlka. Í hvert skipti, sem maður vogar sér út fyrir dyr að kvöldi til, getur maður gengið að því sem vísu, að maður að minnsta kosti lendi í einhverju uppþoti, stundum er kannski aðeins um umsátur að ræða, en þegar verst gengur – eða best – getur maður átt það á hættu, að verða innikróuð, með litla möguleika á útgöngu.
Nú er það náttúrulega fátt, sem manni kemur ver, en að vera skoðuð sem óvarin borg á stríðskortinu. Maður vill svo sem gjarnan láta taka sig til fanga, og ekki síður að verða gjörsigruð, – en maður er ákveðin í að gefast ekki upp, nema fyrir sérstakri herstjórnarkænsku. Og því er nú sannarlega ekki alltaf fyrir að fara – hverslags fólk eru eiginlega þessir generálar okkar? Flestir þeirra þekkja ekki galdurinn, sem í því felst að heyja orustu með glæsibrag, – vald orða, sem aldrei eru töluð, galdurinn að vekja aðdáun.
Þá er fyst til að taka Leo generáll. Hann hefur mikla leikni og ímyndar sér að hann viti allt það um kvenþjóðina, sem hann þarf að vita – að minnsta kosti veit hann of mikið til að hafa virkilega ánægju af eltingarleiknum. Hann á enga glóð nema í vindlingnum sínum, og hann finnur aldrei til í hjarta sínu. Hann lætur nokkur fáguð skrúðyrði falla um yndisþokka hennar (með augu eins og döggvaðar fjólur, glaðlynd eins og fíolín, hefur hlátur, sem minnir á læk í vorleysingum), allt þetta segir hann meðan hann hagræðir sér í bólstruðum stól. Hann skýrir það fyrir henni að hann hafi ávallt farið á þá réttu staði, þar sem hið rétta fólk var – og hann eigi ómögulegt með að skilja hvar maður hafi getað falið sig fram á þennan dag……
Viðvaningunum þýðir lítið að ætla að keppa við Leo generál.
Kusi generáll er fullkomin andstæða hans, því hann er alltaf að reyna að koma öðrum á óvart. Hann er þéttur á velli, gengur öruggur að hverju verki, og hefur fullkomið vald yfir sjálfum sér – það sópar alltaf að honum. Orð hans eru ekki eins yfirveguð, en það er nú algengt.
Hann gæti borið mann á öðrum handlegg ef honum sýndist – og ef m-a-n-n-i sýndist. Vinir hans skipta hundruðum, og þeir kalla hann Kusa eða gamla sinn eða Ístrubelg – og hjá hlátri hans yrði niðurinn í Niagara eins og seytl í vatnskrana. Hann er fjandi glæsilegur – jafnvel fullorðnar frúr verða ungar stúlkur í návist hans.
Það er óhætt að segja að Kusa generáli verður vel til fanga.
Vígstaðan er ekki góð, loftið er fullt af útslitinni fjöldafyndni. Hin andríku ástarhót og glæsileg ástleitni hljóta að hafa dáið út með Ludvik 16.
Og þó – og þó! Meðan maður situr í fýlu á silkifóðruðum legubekk kemur til manns ósköp alúðlegur maður segir fáein orð og brosir. Maður fær ákafan hjartslátt og kastar neti sínu út til að fá hann til að setjast Hann borðar epli, hlær og fitjar upp á einhverju ómerkilegu umræðuefni með hrifningu í augum, en fer burt þegar einhver kallar til hans. Og maður situr eftir með sárt ennið, af því hann hafi aðeins komið, og hafi ekki haft nein herbrögð í huga, og langi ekki neitt til að hrósa sigri yfir jafn þýðingarmiklu herfangi og maður sjálfsagt er.

Þetta er kafli úr bókinni Svona eru karlmenn eftir Lis BYrdal sem kom út hjá Víkurútgáfunni 1949. Þýðandi er ekki nefndur.

Lifið í friði.

fullt af dópi

Þá er ég komin með alls konar dóp að prófa næst þegar ég fæ kast. Ég vildi bara láta lækninn TAKA köstin, en það er víst ekki hægt… ennþá.

Hér er sól og blíða, reyndar kalt. Mér finnst afskaplega óraunverulegt að lesa veðurlýsingar frá Íslandi. Reyndar finnst mér svo til allt sem ég les og heyri um Ísland þessa dagana mjög óraunverulegt, hvort sem um er að ræða pólitík eða einkamál.

Það er þó eitt virkilega raunverulegt. Ég er aftur byrjuð á fullu í skólanum. Sem betur fer tók ég bara þessa tvo 2,5 eininga kúrsa, mér líður eins og ég sé hálfviti og skil ekki neitt. En í andvökunni í nótt las ég rólega og næstum því upphátt um nokkra hluti og held að nú séu þeir örlítið ljósari. Reyni að halda áfram að stauta mig í gegnum hið óskiljanlega í dag, kannski rennur upp fyrir mér ljós. Mig langar mun meira að ganga út í sólina, fara kannski eitthvert niður í bæ, en sjálfsaga mínum eru engin takmörk sett.

Lifið í friði.

martraðir

Undanfarnar nætur hafa martraðir mínar helst gengið út á taugalæknisófarir, en ég á að mæta hjá henni eftir þrjú korter. Og mér líður eins og verið sé að leiða mig til slátrunar. Hvaðan skyldi þessi ógurlega hræðsla við lækna koma? Hún er í fyrsta lagi undarleg í ljósi þess að móðir mín er hjúkrunarfræðingur og í gegnum hennar vinnustað kynntist ég nokkrum yndislegum læknum og í öðru lagi undarleg að þrátt fyrir þessa andúð mína á læknum, sjúkrahúsum og apótekum sóttist ég eitthvað í að starfa innan heilbrigðisgeirans, skúraði og var í býtibúri um tíma á Borgó og var gangastúlka (hét reyndar starfsmaður á launaseðli) á Kleppi í tvö sumur. Hefði áreiðanlega verið það áfram ef ég hefði ekki hætt að koma heim frá París á sumrin.

En í nótt bar svo við að martröðin snerist um kvennakvöldið. Ég fæ alltaf slíkar martraðir þegar það fer að nálgast. Í gær prófaði ég staðinn sem verður fyrir valinu og leiddi það af sér að í nótt gerðust alls konar skandalar og skipulagsmistök á afar mislukkuðu kvennakvöldi í París. Á einhverjum tímapunkti vorum við á Laugaveginum í bakhúsi, en það tengist samræðum við borðfélaga minn í gær.

Ég á víst að telja mig heppna að geta notað draumfarir til að tappa af áhyggjum, þetta er víst ægilega hollt og stresslosandi. Mér líður samt núna eins og ég hafi sofið í tíu mínútur. Vona að ég verði ekki lögð inn á taugadeildina í snarhasti.

Lifið í friði.

tíminn líður hægt

þegar maður er fjögurra ára og langar að fá drekkutímann.
Kári byrjaði að þjást tuttugu mínútum fyrir fjögur. Nú vantar hana átta mínútur í og hann er að spila út.

Verst að ég á ekkert fyrir drekkutímann. Eftir skinkudruslu og maísbaunir í hádegismat hefði nú verið ágætt að snara fram einhverju girnilegu. En nei. Það verður þurrt rúgbrauð með smjöri og sultu. Æ, er það ekki bara ágætt?
Fullt af kókómalti með gerir útslagið.

(fimm mínútur enn)

Lifið í friði.

allt svo gott

Mér er að batna, seyðið og fyrirmyndarhegðun (hvíld) greinilega að hafa áhrif.

Hér kemur „uppskriftin“ að seyðinu, en eins og allar góðar uppskriftir er hún afar sveigjanleg eftir þörfum og skapi hvers og eins:

Ég afhýði þrjú hvítlauksrif og sker í tvennt, ríf niður ferskan eða frystan engifer, ca 1 cm, eiginlega bara þangað til ég er búin að fá nóg af því að rífa og skelli einni teskeið af þurrkuðum muldum cayenne-pipar saman við. Allt fer þetta í pott ásamt rúmum lítra af vatni og er svo soðið undir loki í tja, fimm til tíu mínútur.
Svo fæ ég mér strax í bolla (helli í gegnum síu) og kreisti græna eða gula sítrónu út í og jafnvel teskeið af hunangi með. Afgangurinn bara látinn standa í pottinum og skerpt undir þegar tími þykir kominn á drykk. Sítróna og hunang er ekki skylda, bara bragðbetra. Einnig má drekka þetta kalt.
Aðalhreinsunin og lækningin felst í þessum undraefnum náttúrunnar (taka smá Sollu á þetta!), cayennepipar er t.d. stútfullur af c-vítamíni, ef ég man rétt. Ég hef aldrei fengið almennilega úr því skorið hvort maður verður andfúll af þessu, eins og allir vita er hvítlaukslykt út úr fólki náttúrulegt ástand í Frakklandi.

Einnig gerði ég stóran pott af einhvers konar Dahl, linsubaunasúpu, úr kórallitum linsubaunum sem runnu út í júlí í fyrra. Reif gulrót, hvítlauk, lauk og rauða papriku í smátt og glæraði í olíu í potti með karrí, salti, cayennepipar og auka kúmíni og curcuma. Svo helli ég linsubaununum í pottinn (skola fyrst) og tvisvar sinnum meira af vatni og setti einn lífrænan grænmetistening út í. Þetta er svo bara látið sjóða nógu andskoti lengi til að baunirnar maukist, ca hálftími líklega, undir loki (til að spara orku).
Þetta var svo borðað sem máltíð fyrsta kvöldið, svo blandaði ég léttsteiktum kartöflum og brauðteningum við í hádegismat daginn eftir og í dag fór Arnaud með þetta í vinnuna blönduðu saman við hrísgrjón að auki. Börnin borða þetta með góðri lyst. Aukaverkanir: Dálítið vindasamt á heimilinu undanfarna daga.

Lifið í friði.

fæ bara næstum heimþrá

Fann hjá prakkaranum, frænda mínum.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha