Sarpur fyrir janúar, 2008og aftur sko!

Ég get hlustað á tímann frá því í morgun í tölvunni minni!
Tæknilega get ég það, en mun þó ekki gera það með börnin yfir mér, því vitanlega get ekki sett á pásu eða fært fram og aftur eins og í PC, má ekki missa af einu einasta gullkorni sem hrýtur af vörum kennarans, er það nokkuð?

Lifið í friði.

sko!

Þar sem ég sat hér í sjálfsvorkunnarkasti yfir því að ég var að bíða eftir símtali frá Microsoft, handviss um að þeir myndu aldrei hringja í mig, hringdi síminn og á hinum enda línunnar var Microsoft sjálfur í líki ungs manns sem var bæði kurteis og þolinmóður. Og ég er komin með Office. Liggaliggalá.

Hins vegar hefur þjónustufulltrúinn í bankanum mínum ekki hringt, en á föstudagsmorgni fyrir einni og hálfri viku síðan sagði símaþjónustufulltrúinn að þjónustufulltrúinn myndi hringja klukkan hálffjögur. Ég tók því þannig að símaþjónustufulltrúinn væri að tala um sama daginn en ég bíð enn. Og nenni varla að tala við hana ef hún lætur einhvern tímann svo lítið að hringja. Skitnar fokking 40 evrur sem rifist er um, hef hvorki tíma né þrek í að pæla í þessu. Það versta er að ég er dálítið mikið í prinsippunum þegar kemur að bankastofnunum og það ALversta er að þó ég lesi næstum aldrei djúpt og vel yfir bankayfirlitin, man ég vel eftir að hafa hnyklað brýrnar þegar ég sá þessar fjörtíu evru færslur í júlí í fyrra. Skildi ekki alveg dæmið, þær fóru út af reikningnum og inn á hann aftur og svo út aftur. En fyrirtækið sem var að láta millifæra segist ekki hafa fengið þær. Svo spurningin er hvert í ósköpunum fóru þær? En ég nenni varla að pæla í því, veit ekki, alla vega ekki í dag. Ég er komin með Office!

Kallinn þurfti að fara að vinna, sólin skín úti en ég efast um að ég muni hafa burði til að fara með börnin út í garð. Og þó, kannski það gerði mér bara gott? Sé til. Í dag er miðvikudagur, enginn skóli. Á morgun er fimmtudagur og verkfall. Svo fara þau á föstudaginn í skólann og þá er vikan búin. Mér finnst ég ansi mikið að í því að „passa börnin mín“ þessa dagana og vikurnar. Ferlega væri ég til í svona húshjálp sem byggi til kvöldmatinn. Og tyggði hann fyrir okkur líka. Og sæi um að brydda upp á skemmtilegum umræðuefnum.

Lifið í friði.

flugvél

Það er eins og það sé flugvél í hægagangi í húsinu mínu. Líklega er það bara harði diskurinn að taka upp úr sjónvarpinu og hljóðið magnast svona upp því mér er svo illt.
Mér er viðbjóðslega illt í höfðinu, aðallega andlitinu og gómnum. Skánaði heilmikið í eftirmiðdaginn, var næstum farin út í sólina augnablik en fann samt slappleikann og ákvað að vera þæg. Um leið og fór að dimma helltist aftur yfir mig þessi sársauki.

Ég horfði á Meet the parents á frönsku í kvöld. Alveg óvart, ætlaði bara aðeins að kíkja á hana í þeirri trú að ég myndi gefast strax upp, hef aldrei almennilega lært að sætta mig við talsetningu mynda, en svo bara var hún eitthvað svo fyndin, ég hló svo innilega þegar hann braut öskukrukkuna að ég ákvað að liggja bara yfir þessu, gæti ekki annað en gert mér gott í veikindunum.
Eiginlega er öskukrukkusenan best, en þessi mynd er samt alveg þokkalega fín. Ég sá svo aldrei Meet the Fuckers.

Lifið í friði.

þróun

Hæsið hefur þróast út í flensupest með tilheyrandi beinverkjum og almennri vanlíðan. Eitt gramm af parasetamól sló ekki einu sinni á verkina í andlitinu og gómnum.

Mér finnst það óþægilegt hvað ég verð alltaf fjári veik þegar ég verð veik, mér líður þannig að mig langar að liggja í fósturstellingunni og væla. Er ekki alltaf sagt að karlar láti svona þegar þeir verða veikir? Enn ein klisjan sem lítið er að marka, eða enn eitt merkið um að ég er karl í kvenlíkama?

Lifið í friði.

þegar ekki er hægt að öskra

af tæknilegum ástæðum, verður maður bara að gráta hljóðum tárum í staðinn.

Svo er hægt að ylja sér við falleg skrif, annarra eða eigin. Ég fór aftur niður á núllpunktinn minn, renndi í gegnum fyrstu skrefin mín hérna. My oh my, af hverju koma 50 manns í heimsókn til mín á dag, hvílíkt leiðinlegt sumt sem ég skrifa.

En þennan hér er ég ánægð með, þyrfti eiginlega að skella honum inn á Parísardömusvæðið sjálft, hann er örlítið klipptur og lagaður núna:

MORGUNKAFFI PARÍS – REYKJAVÍK
Ég man afmælisdaginn minn fyrir nokkrum árum. Þá var ég á Íslandi, það var sunnudagsmorgunn, ég vaknaði snemma og hress og ákvað að bjóða mér í kakó með rjóma niðri í bæ í tilefni dagsins. Ég gekk upp og niður fjandans Laugaveginn útbíaðan eftir eina af þessum heimsfrægu frábæru íslensku laugardagsnóttum og það var ekki ein einasta búlla opin. Hvílík einsemdartilfinning sem helltist yfir mig. Svo opnaði Súfistinn í Máli og Menningu loksins og ég fékk dásamlegan kakóbolla og fullt af erlendum tímaritum að lesa til að gleyma íslenskum raunveruleika.
En þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég get ekki búið á Íslandi. Ég get ekki búið á landi sem býður ekki upp á kaffihús að morgni til.
Einu sinni hitti ég ameríska fína frú sem var í sömu aðstæðum og ég, nema það var alls ekki sunnudagur heldur virkur dagur. Klukkan var ekki orðin átta, rétt um sjö, og því ekki hægt að fá kaffi neins staðar. Hún hafði tekið leigubíl ofan af hótel Esju til að njóta morgunasa borgarinnar. Sú fékk að kenna á því. Ég var eina fótgangandi manneskjan á öllum Laugaveginum, og engin kaffihús opin. Best að taka það fram að það var sól og gott veður. Við gengum saman smá spöl og ræddum þetta, ég vonast til að það spjall við innfædda hafi bætt örlítið upp skort á mannlífi og menningu. Eri hægt að búa á landi sem býður ekki upp á kaffihús að morgni til?
Í París, er til dæmis hægt að fara að einni af stóru brautarstöðvunum upp úr sex að morgni, setjast inn á kaffihús og fylgjast með öllum fjöldanum sem kemur og fer. Sumir eru fínt klæddir með fínar skjalatöskur og hella í sig einum espressó á barnum. Sumir í bláum skítugum vinnugalla og sötra hægt og rólega púrtvín eða pernaud. Sumir bara að hanga svona ljóðrænir eins og maður sjálfur, staddir inni í miðri ösinni án nokkurs ákveðins takmarks annars en að horfa á lífið sjálft. Vegna þess að það er einmitt við svona aðstæður sem maður sér lífið sjálft. Raunveruleikinn verður einhvern veginn áþreifanlegur á annatímum í stórborg. Þegar maður nær að finna að maður er ekki hluti af önninni, straumnum, þá svífur maður utan við hann og er ósýnilegur og það er þægileg tilfinning. Sérstök stórborgartilfinning.
Aðra morgna hef ég verið ein af þeim sem skvetti í mig einum bolla við barinn og þá er maður hluti af straumnum og það er líka skemmtilegt. Sérstaklega þar sem maður er það ekki daglega. Næstum eins og maður sé orðinn leikari í raunveruleikanum. Raunveruleiknum.

En Reykjavík er ekki stórborg og ekki hægt að vera ósýnilegur þar. Kannski ekki sé hægt að bjóða upp á kaffi að morgni til í borg þar sem allir eru sýnilegir?

Lifið í friði.

samskiptavandræði

Ég hitti konu í boði fyrir jólin og fékk hjá henni símanúmer og við ákváðum að tala saman eftir jólafríið um skipulagningu á heimsókn hóps á vinnustað hennar í vor. Í síðustu viku hringdi ég svo í hana og eftir að hafa skipst á venjulegum kurteisisformúlum heyrði ég að rödd hennar var mjög undarleg svo ég spurði hvort ég hitti illa á, hvort ég hefði vakið hana af blundi. Þá brast hún í grát og sagðist hafa verið að missa pabba sinn sviplega. Ég stamaði einhverjar samúðarkveðjur og henni tókst að segja mér að hún yrði í fríi út vikuna og bað mig að hafa aftur samband á mánudaginn.
Og nú sit ég hér raddlaus.

Lifið í friði.

Franska fyrir 5-8 ára

Vinkona mín hún Sólveig Simha er að hefa frönskunámskeið fyrir börn. Sólveig er yndisleg manneskja, ljúf og skemmtileg. Hún er leikkona með próf úr hinum virta leiklistaskóla Rue Blanche. Námskeiðið er jafnt fyrir byrjendur sem tvítyngd börn. Ég mæli hiklaust með því að senda börnin ykkar til hennar, svo geta þau kennt ykkur það sem þau læra og svo koma allir saman til Parísar með Kristínu, eða hvað?
Því miður vantar verðið í tilkynninguna, einhver mistök hjá þeim sennilega, ég set það inn um leið og ég fæ svar frá þeim um það.

En hér er auglýsingin frá Alliance Française:

LÆRÐU FRÖNSKU

Frönskunámskeið fyrir börn hjá Alliance Française
La petite école de l’Alliance Française
býður upp á frönskunámskeið fyrir börn á aldrinum fimm til átta ára.
Sólveig Simha leikkona les fyrir börnin alþekkt frönsk ævintýri og sögur og byggir kennsluna á
þeim. Með því að leika sér með söguefnið bjóðast margir möguleikar til kennslu í frönsku og
franskri menningu, til dæmis með því að nemendur leika söguþráðinn, með spuna, með því að
teikna myndir, endursegja söguna og svo framvegis.
Námskeiðið gæti svo endað á því að nemendur settu upp lítinn sjónleik á frönsku þar sem hver og
einn segði sína setningu. Það er ætlað öllum fimm til átta ára krökkum hvort heldur þau eru
frönskumælandi eða ekki.
Sólveig Simha er bæði frönsku- og islenskumælandi og nýtir sér reynslu sína sem sviðsleikkona við
kennsluna.
Námskeiðið er haldið á miðvikudögum frá fjögur til hálf sex.

Alliance Française
Tryggvagata 8,
101 Reykjavik
(+354)552-3870 – Fax:(+354)562-3820
alliance(hjá)af.is

Lifið í friði.

atvinnutækið

Í dag fór ég í gönguferð með ferðalanga. Það var gaman, veðrið er með ólíkindum, það var 14 stiga hiti í nótt og örugglega rúmlega það í dag. Mýrin var troðfull af fólki, allar terrössur þéttsetnar – bæði veðrið og reykingabann innandyra spila þar inn í, ég er reyndar hálfhissa á að það megi reykja úti á terrasse, finnst það nú alveg hluti af kaffihúsinu, en þetta er kannski ágæt lausn í bili í reykingalandinu mikla, þá getur reyklausa fólkið bara verið inni í fýlu með smarta reykliðið spókar sig úti með sígó í kjaftinum. En þetta var útúrdúr.
Í svona göngutúrum tala ég stanlaust, segi sögur, útskýri hluti og bara leik mitt hlutverk sem sögumaður í París. Með því að þenja raddböndin eins og ég vildi öskra, gat ég náð að kreista upp aðeins meira en hvísl Þetta var erfitt. Atvinnutækið er sem sagt farið í frí.

Lifið í friði.

scènes de la vie conjugale

Maðurinn minn dirfðist að gefa mér Bergman í jólagjöf og horfðum við á 1. þáttinn í seríunni Scener ur ett äktenskap í fyrradag og skemmtm okkur konunglega.

Ég hef ekki getað hætt að hugsa um kjólinn sem Liv er í þegar hún tekur á móti indælu vinahjónunum í mat. Grænn, fljótandi, samt aðsniðinn, fallegt hálsmál, af hverju í ósköpunum er ekki hægt að fá svona kjóla neins staðar í dag? Ég veit að þetta er velmegunarvandamál, en ætli það sé allt morandi í svona kjólum á flóamörkuðum í Svíþjóð?

Lifið í friði.

eldhúsmellan sem hugsar ekki um annað…

Ég strengdi ekkert áramótaheit frekar en fyrri daginn en einhverra hluta vegna hef ég verið ótrúlega dugleg að búa til mat á þessu nýja ári. Hef fundið upp hjá mér að gera aftur alls konar rétti og sósur sem ég hafði ekki gert lengi, búin að skera niður töluvert magn af grænmeti, sjóða baunir og quinoa, grilla, steikja og baka og bara hef getað boðið fólki að gjöra svo vel með bros á vör og gleði í hjarta aftur og aftur. Kannski er þetta ein af ástæðunum fyrir að svo margt annað situr á hakanum eða er gert í flýti og hálfkáki? Kannski móðurinn renni af mér nú þegar ég fer að monta mig af honum?

Bætt við: Ég gleymdi alveg að segja ykkur framhaldið frá því áðan. Börnin voru fullkomin, veltu sér upp úr skítugu gólfinu og létu eins og fæðingarhálfvitar (hvað sem það nú þýðir). Maðurinn sagði mér að þetta væri mjög eðlilegt (sko pakkinn, ekki börnin) að ég þyrfti „bara“ að hafa samband við Microsoft og láta þá endurvekja lykilinn minn. Yeah, right. Ég reyndi að grátbiðja hann um að sýna mér nákvæmlega í tölvu hvar sú þjónusta væri, en ekkert gat haggað þessum akfeita tölvunerði. Ekki einu sinni bavíanarnir börnin mín. Ég gekk klökk út úr búðinni og heim og flakkaði um undirheima Microsoft.com, lengi lengi. MJÖG krípí að þegar ég sló á einhvern ákveðinn tengil, einhvers konar assistance, kom alltaf ÍSLENSK síða Microsoft upp. Hvað á það að fyrirstilla, VEIT Microsoft að ég er íslensk, bara af minni glænýju IP tölu? Ég meina, ég var alltaf inni á microsoft france og var svo bara send sisona til Íslands?! Endaði náttúrulega bara með því að hringja í íslenska símanúmerið og fékk þessa líka fallegu karlmannsrödd sem sagði á mínu ylhýra að skrifstofan hefði lokað fyrir hálftíma, en þakkaði mér samt kærlega fyrir að hringja.

Á endanum fann ég eitthvað netfang og er búin að senda bréf með upplýsingum um mig, þig og ömmu þína líka.

Fylgist spennt með.

Lifið í friði.