Sarpur fyrir febrúar, 2008

allan daginn verður glímt við þjóðveginn

Búin með annað verkefnið, hitt verður að koma með í fjöllin, líklega skýrist allt í fjallaloftinu og ég rumpa þessu af eins og ekkert sé. Áreiðanlega einhver blokkerandi andi í þessu pestarbæli.
Ég var næstum því búin að hugsa og skrifa að mig langi stundum að henda börnunum mínum, en ég gerði mér sem betur fer grein fyrir því að það væri ekki við hæfi og að hið ritaða orð er oft oftúlkað svo betra væri að sleppa slíkum svörtum húmor.

Hér eru komnar töskur úttútnaðar af fötum, ísskápur fullur af samlokum (ég var akkúrat núna að gera mér grein fyrir því hvílíkur hetjuskapur það er að hafa smurt ofan í liðið, halló, eins og ég hafi verið að dúlla mér hérna undanfarið? svona er maður þægur og góður við móður sína, ef mamma segir að ég ætti að smyrja, smyr ég), allir pappírarnir tilbúnir fyrir bílaleigubílinn, búið að prenta út kort af leiðinni og stúdera vel, allir komnir í hrein nærföt, nú er bara að sækja foreldra mína og systur ásamt dóttur hennar út á völl á morgun á stóra bílnum, troða þeim og öllu dótinu þeirra (dæmigerðir Íslendingar, með eigin skíði) inn í bílinn og aka í einhverja klukkutíma. Öll vafin inn í handklæði til öryggis ef Sólrún heldur áfram að gubba.

Þessi sjoppa verður að öllum líkindum lokuð á meðan ég skemmti mér á skíðum og úða í mig feitum fjallaostum og drekk bragðsterkt hvítvín með, þess á milli.
Ég mun ekki sakna ykkar og geri ekki ráð fyrir því að mín verði sárt saknað. Ég veit ekki hvað er að mér þessa dagana en þegar ég rak augun í setningu um „næmt auga barna fyrir fegurð og handverki“ hér aðeins neðar var ég næstum því búin að ýta á EYÐA STRAX takkann. Édúddamía hvað ég er uppskrúfuð. Ég lifi í raun hróðug í þeirri trú að ég sé rosa hnyttin og skörp en það bráir yfirleitt af mér í smá tíma ef ég les eitthvað aftur á bak hér.

Viðbót: Ég horfði á Kiljuna meðan ég smurði samlokurnar, helvíti fínn þáttur. M.a.s. Robbe-Grillet í honum. Eins og ég segi, dauðinn selur. Eða tíminn líður og ég er mörgum sekúndum nær dauðanum en áðan.

Lifið í friði.

pollýönnumst dálítið

Í nótt þurfti ég tvisvar að setja dóttur mína í sturtu. Í fyrra skiptið vaknaði hún í hægðum sínum, í það síðara í ælu sinni. Hún er veikluleg og kúgast dálítið en aðallega gengur þetta niður af henni.
Við leggjum af stað héðan upp úr hálftólf á morgun. Hún byrjaði að kvarta um í maganum kl. 18 í gær, þetta ætti því að vera að mestu búið kl. 18 í kvöld og hún hefur þá tæpa 18 tíma til að jafna sig áður en við förum út á hraðbrautina.

Eittt hef ég uppgötvað í þessari magapestarmartröð: Magapestir eru ekki umhverfisvænar, hér gengur þvottavélin á háum hita og mikið þarf að skola og sturta niður. Ég sé enga aðra leið en bara spandera vatni og bakteríueyðandi efnum í svona ástandi.

Lifið í friði.

tilviljun?

Ég kom og hlammaði mér í sófann með tölvuna við hlið mannsins míns sem fylgist með boltanum og pakkar inn bókum sem hann var að selja á e-flóanum. Ég kíki aftur á auglýsingu um atvinnuhúsnæði sem mér barst í dag og segi stundarhátt að ég þyrfti að kíkja á þetta á morgun, mér finnst myndin á gulu síðunum svo skrýtin en auglýsingin hljómar spennandi. Svo segi ég heimilisfangið og maðurinn minn lítur undarlega á mig og spyr hvort ég sé ekki örugglega að grínast. Ég skil ekki hvað hann meinar og hann lyftir upp pakkanum sem hann var nýbúinn að merkja vandlega. Sama heimilisfang.

Lifið í friði.

dauðinn selur

Ég veit ekki hvort ég næ að klára miðannarverkefnið í beyg og morði áður en ég fer í frí, sem þýðir þá að ég verð ekki á leiðinni í ALfrí heldur HÁLFfrí.

En ég verð alla vega í stórbrotnum fjallagarði í þessu hálffríi (sem gæti orðið alfrí ef andinn kæmi skyndilega yfir mig á morgun).

Maðurinn minn seldi bók eftir Robbe-Grillet í dag. Ef ég skrifa einhvern tímann bók, lofið þið þá kaupa hana ÁÐUR en ég dey, svona ef þið á annað borð hefðuð hug á að kaupa hana.

Lifið í friði.

Maríukirkjan í París

Ég fór með börnin mín í Notre Dame í fyrsta sinn um daginn. Við eyddum þar rúmri klukkustund við að skoða skúlptúra og litað gler, módel af kirkjunni sem skurðlæknir nokkur gaf nýlega og annað sem sýnir hvernig farið var að því að byggja hana á sínum tíma.

Við innkomu gekk Sólrún beint að verði og spurði hvar stúlkan með geitina væri. Hann kom af fjöllum.

Við sáum Jesú á krossinum og ræddum lengi um krossfestingar, nagla, blóð og sársauka og að hann hefði dáið en að margir teldu að hann væri ekki dáinn heldur væri á himnum.
Svo skoðuðum við lengi lengi lengi tréskúlptúrinn á kórnum sem sýnir sveinbörnin aflífuð (sagan um Móses).
Ég var að vona að þau kæmu ekki auga á þessa hráu mynd sem sýnir illsku og offors og blóðuga barnslíkama hrynja til jarðar, ég þarf alltaf að benda fullorðnu túristunum á þetta en þau sáu hana þó ég reyndi að setja í hálfgerðan strunsgír.

Þegar við vorum svo búin að sitja og hlusta á orgelleik og vorum á leiðinni út báðu þau um að fá að fara aftur að skoða þessa mynd og ljónið sem verndar gröf einhvers biskups þarna sem hreif þau sérstaklega.

Við fundum hvorki Esmeröldu með geitina né Kvasímótó en þóttumst þó öll hafa séð þeim bregða fyrir á svölunum, örlítið falin bak við súlu að horfa á fólksmergðina sem er að einhverju leyti þeim að þakka.

Það er magnað hversu ólík tilfinning það er að fara með áhugasama og heillaða að skoða þessi stórvirki en að strunsa í gegn með fólki sem er orðið dauðþreytt, búið að sjá aðrar svona kirkjur í öðrum löndum og lítur varla upp þegar stoppað er í þverálmunni til að skoða rósalaga norður- og suðurgluggana.

Það er magnað hvað börn hafa næmt auga fyrir fegurð og handverki. Kári byrjaði að taka andköf yfir gluggum um leið og við gengum inn og þau voru síspyrjandi, vildu vita af hverjum öll líkneskin væru og svo er náttúrulega ótrúlegt að sjá hversu spennt þau eru að skoða hluti sem hræða þau, hvað börn elska að verða pínu hrædd.

Lifið í friði.

dóni deyr

Þá er hann látinn. Líklega án þess að hafa komið til Íslands, eða hvað? A.m.k. komst hann ekki þarna í fyrra, líklega heilsan að baga hann. Hann var orðinn 85 ára, það kom mér á óvart, svona menn eins og hann eru líklega alltaf fimmtugir í mínum huga. Hann var aldrei GAMALL dónakall, heldur framúrstefnulegur (og nett óskiljanlegur) pælari.

Hann gerði víst eitthvað meira af kvikmyndum en ég vissi um þegar ég varaði siðprúðu þjóðina við honum þarna um árið. Ég hef ekki séð neina þeirra, en las eina heila bók eftir hann og tókst m.a.s. að troða hluta af kenningu hans um sjálfsævisöguformið inn í svar á prófi, þar sló ég heldur betur um mig alveg óvart, held ég hafi skyndilega skilið hann í smá stund. En svo fór það aftur.

Lifið í friði.

kirsuberjatréð

Kirsuberjatréð við innganginn á blokkinni minni er farið að blómstra. Það finnst mér bera vott um kurteisi og gott uppeldi þessa litla trés og gætu tré annars staðar tekið sér það til fyrirmyndar. Ég hefði getað hangið út um gluggann og dáðst að örsmáum blómunum tímunum saman í dag (ég á sko að vera að vinna skólaverkefni) en sá galli er á gjöf Njarðar að einmitt núna er verið að saga í sundur gangstéttina okkar hérna svo mun girnilegri kostur er að hafa alla glugga vel lokaða, helst hlerana líka, og halda sig í bakherbergjum. Það er nú meira hvað þetta innflutta vinnuafl er óalið, gátu þeir ekki beðið þangað til smáborgarar götunnar væru komnir í vetrarfríið sem byrjar í næstu viku?

Lifið í friði.

vegir tæknigyðjunnar

eru órannsakanlegir:

Í morgun hafði ég fyrir því að hlunkast hingað upp á mína blessuðu 5. hæð með PC vina minna. Svo fór ég inn á Ugluna og sótti skjalið og reyndi að hlaða inn hljóðskránni og ekkert gerðist, bara villuskilaboð. Þá ákvað ég af minni alkunnu þrjósku að prófa í minni eigin fínu MacBook og viti menn, þar get ég hlustað og m.a.s. sett á pásu og spólað til baka.
Mér fannst ég endilega verða að láta heiminn vita af þessu, hvers vegna veit ég reyndar alls ekki og er nokkuð viss um að þið yppið nú öxlum og hugsið… ekki neitt…

En ef ykkur vantar heilaörvandi efni, getið þið litið við hjá Rafauga sem vitnar í Göring í dag.

Einu sinni voru til menn sem höfðu völd en gátu samt verið heiðarlegir.

Lifið í friði.

Jógi

Ég komst að því mér til undrunar að maðurinn minn hafði ekki græna glóru um það hver Jógi björn er. Síðan höfum við börnin horft á nokkra Jógaþætti á youtube. Það er ágætt, en ekkert mikið meira en það. Af hverju fannst mér hann svona skemmtilegur í gamla daga? Var það bara af því að hungruðum finnst allt gott?

Lifið í friði.

Barnaby snýr aftur

Hann er eitthvað svo hómí, þó hann sé á frönsku.

Hver man eftir skíðaæfingaþáttunum sem voru einhvern tímann í sjónvarpinu? Ég gæti veðjað að þeir hafi verið norskir, en ekki hengt mig upp á það.
Ég á sterka minningu af okkur systrum að fara brunið, var það í lok hvers þáttar?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha