Sarpur fyrir mars, 2008

júbbí

á morgun má ég ljúga án þess að tíminn í hreinsunareldinum lengist

stuð

dóttir mín ætlar að fela slopp pabba síns, tilkynnti hún bæði mér og nágrannakonunni gömlu á jarðhæð með risaprakkaraglotti.

dálítið í líkingu við þessi glott

í dag er ég búin að blogga þrisvar, það er meira en margur annar, meiri ládeyðan sem ríkir í bloggheimi mínum, kannski er stuð hjá Stebba, spurning um að fara bara yfir á mogga og sanka að sér ofvirku liði sem hefur lítið að segja um ekkert, alveg eins og ég?

Lifið í friði.

reddað

Ég fór í hlýjan nærbol og svo tvær léttar rauðbleikar peysur með v-hálsmáli, gallabuxur og appelsínugula sokka, opna skó (reyndar svartir en sokkarnir vógu upp á móti þeirri staðreynd.
Ég þurfti ekki í úlpu, hér er skyndilega brostið á með bongóblíðu, maður ætlaði varla að tíma að fara inn.

Þetta er allt að koma.

Vorið er að koma.

En það þýðir reyndar líka vorpróf.

Lífið er fallegt.

Lifið í friði.

bleikt

Mér finnst eins og ég ætti að skarta bleiku þegar ég fer að ná í börnin á eftir. Það eru ekki raddir í höfði mínu sem segja mér það, heldur er þetta meira svona einhver tilfinning. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að ég eigi að skella mér í snögga og lífvæna sturtu, láta rauðrunnate bruggast á meðan og klæða mig í sterka og glaðlega liti meðan það er drukkið áður en ég fer að sækja skarann. Ég get ekki útskýrt það, en mér finnst eins og það muni laga eitthvað.
Einu skærbleiku buxurnar mínar eru stuttar og úr hör. Það er enn dálítið kalt fyrir þær þó að sólin skíni reyndar af öllu sínu afli núna (stemmir, gerðist um leið og vélin fór í loftið með þá 20 Íslendinga sem ég lóðsaði um borg og sveitir um helgina í grenjandi rigningu og skítakulda).

Ég skil ekki bofs í verkefni miðvikudagsins. Alla vega ekki svona í fyrstu atrennu. Ég treysti því þó að ég muni átta mig betur á þessu í kvöld og á morgun en er það ekki tilætlunarsemi af kennara krefjast þess að við getum hugsað sjálfstætt?

Næst á óskalista: skærbleik lopapeysa.

Lifið í friði.

mánudagshádegi

Það sækir að mér kvíði. Ég veit ekki hvað ég á að gera, hvað ég á að velja, hvernig ég á að fara að hverju. Svo er maður bara magnvana gagnvart erfiðleikum og þrautum fólksins í kringum sig. Og svo er ég sársvöng en langar ekki í neitt. Og svo er dimmt hérna inni af því það er dimmt úti. Og svo er ekki hægt að hlusta á skólaupptökur síðustu viku.
Spurning hvort ég fari og plaffi niður neysluhyggjurottur í næsta molli, eða hvort ég leggist undir teppi með kakó og þykka kennslubók og dotti yfir henni. Já, kannski viturlegra það síðarnefnda. Börnin þurfa jú á móður sinni að halda eitthvað áfram. Ekki langar mig að verða viðfangsefni í uppáhaldssjónvarpsþáttunum mínum um undarlega glæpi.

Lifið í friði.

mánudagsmorgunn

Á mánudagsmorgni, í tímabrengli, getur verið hressandi að takast á við það að koma trylltu annarra manna barni inn í bílinn, binda það niður með valdi og aka svo að skólanum biðjandi til guðs að það hengi sig ekki í bílbeltinu sem það er búið að flækja sig rækilega í.

Nú eða þá að það getur látið þér líða eins og dagurinn hljóti bara að vera búinn, alla vega sért þú það.

Lifið í friði.

breyttir tímar

Tímabreytingin. Alltaf jafn erfið.

Lifið í friði.

kannski virkar þetta betur

Ég bjóst við hörðum umræðum um Kína og hvað ég væri naíf og vitlaus en… ekkert gerðist. Sama ládeyðan hér og vanalega. Ég ætla að prófa aðra yfirlýsingu í von um hörð viðbrögð:

Ég sef í nærbuxum og náttfötum, sofna oft í sokkum en sparka þeim þó af mér áður en ég vakna.

Lifið í friði.

Peking

Ég er alfarið á móti þeirri hugmynd að sniðganga Ólympíuleikana í Peking. Það er að segja, að íþróttafólkið verði ekki sent. Mér er alveg sama hvað verður svo um áhorfendafjölda á staðnum, en að feitur og frekur lýðurinn sitji og ætlist til þess að blessað íþróttafólkið sjái um að veita kínverskum stjórnvöldum rassskell finnst mér firra.
Ég hef aldrei stundað íþróttir sjálf í öðrum tilgangi en að halda sjálfri mér við. Ég hef aldrei keppt í neinu nema jú, dansaði einhvern tímann við Kool and the Gang en það er sem betur fer grafið og gleymt, var hvorki fest á filmu né talað um það í fjölmiðlum. Ég hef hins vegar umgengist íþróttafólk töluvert og veit því margt um blóðið, svitann og tárin. Alla sjálfboðavinnuna og ástríðuna sem þarf til að reka fólk áfram. Allt hið óeigingjarna starf sem unnið er neðan frá.
Mér er slétt sama um kapítalíska rammann, ég bið forláts, en ég á mjög auðvelt með að rífa hann frá hinum eiginlega atburði, því þegar ákveðin íþróttamanneskja fær að vita að hún komist, því þegar hún fær að vita hvort hún fær styrk til að komast eða hvort hún og fjölskyldan þurfi bara að blæða úr eigin vasa (sem fólk gerir vitanlega) og þegar hún svo stendur á vellinum með keppendum hvaðanæva sem hafa mismikið þurft fyrir því að hafa að vera þarna. Þetta eru hinir eiginlegu Ólympíuleikar og reyndar á þetta við alla stóra íþróttaviðburði. Auglýsingaskrum, skrautsýningar og kampavín í einkastúkum kemur því ekkert við þó það hafi verið skapað í kringum þetta af einhverjum bissnissgaurum.

Ef ykkur langar að veita kínverskum stjórnvöldum rassskell getið þið ákveðið með sjálfum ykkur að kaupa aldrei neitt sem er framleitt í Kína. Ef ykkur langar að veita þeim gott og gegnt aðhald, getið þið t.d. mætt fyrir utan kínverska sendiráðið sem mun vera á Víðimelnum og mótmælt óréttlætinu. Sístækkandi hópur fólks mætir þangað á hverjum laugardegi kl. 12. Það er flott. Hér er örlítil hugleiðing um hvað er flott við það.

Og húrra fyrir íþróttafólkinu okkar, þau eru frábær og eiga fyllilega skilið að fara á Ólympíuleikana, burtséð frá því hvar þeir eru haldnir.

börnin

Sólrún (6 síðan í febrúar) er að skrifa og Kári (4 síðan í nóvember) stafar fyrir hana. Hún teiknar alveg frábærar myndir, hermir eftir myndum úr bókum eða teiknar eftir hlutum og er alger listakona. Hins vegar hefur Kári ótrúlegan rithæfileika. Hún lætur okkur ennþá stafa allt ofan í sig en Kári tók sig til fyrir þó nokkrum mánuðum og skrifaði nöfn allrar fjölskyldunnar á blað án þess að nokkur aðstoðaði. Reyndar stóð Kritsín, en allt annað var rétt stafsett.
Börnin mín hafa sitt hvora snilligáfuna (foreldrar mega segja svona, hvernig á maður annars að þola það að þurfa að segja hengdu upp úlpuna þína, gakktu frá skónum þínum, farðu í skóna, ekki týna húfunni þinni, vertu róleg(ur), reyndu að borða yfir disknum þínum, vatnið á að vera ofan í baðinu, ekki naga fötin þín, puttana úr munninum, heilsaðu, kveddu, kysstu, sníttu þér, farðu á klósettið, ekki gleyma að sturta niður, þvoðirðu þér um hendurnar…trekk í trekk aftur og aftur alla daga allan ársins hring), verst að geta ekkert erft frá þeim, meðaljóninn sem ég er.

Lifið í friði.

veðrið, landið, miðin og heilsan – það mætti halda að ég væri á elliheimilinu

Veðrið hér er rysjótt og leiðinlegt, kalt og rignir oft þó sólin glenni sig inn á milli. Ég er farin að þrá sumar og sól af miklum alvöruþunga, ég er næstum viss um að þegar hann hlýnar, munu áhyggjur mínur hverfa. Ekki að þær séu dögg en þær hafa einhverja sameiginlega þætti með dögg, þær hverfa fyrir sólu.

Í dag, þegar ég var búin að vakna upp af doða í lestri um hljóðkerfisfræði við að allt í einu var farið að tala um ferðamálafræði sem reyndist svo þegar sellurnar vöknuðu og lásu rétt úr stafarununni vera ferils… jæja, ekki ferðamálafræði, fór ég í bað með bleikri froðu.
Ég á góðar vinkonur sem hafa þann ágæta sið að gefa mér gott í baðið í afmælisgjöf. Ég held ég geti sagt með sanni að slíkar vinkonur eru guðsgjöf.

Annars kom svo í ljós hjá lækninum að dóttir mín er með hálsríg eftir fallið um daginn. Ekki hafði móðurinni dottið sá möguleiki í hug en sífellt kvart um verki í eyrum og þar niður (eftir hálsinum sé ég nú, ég var alltaf að hugsa um holin, ekki vöðvana) rak hana með barnið til sérfróðrar manneskju. Svona er það nú stundum til einhvers að kíkja til læknis.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha