aaaaarrrrrrrgggggghhhhhh!
Ha, ég? Nei, nei, það er allt í lagi með mig. Mér líður ógurlega vel og hef ekki yfir neinu að kvarta.
Lifið í friði.
“J’ai envie de vous écrire, mais je n’ai rien à vous dire” [Voltaire]
aaaaarrrrrrrgggggghhhhhh!
Ha, ég? Nei, nei, það er allt í lagi með mig. Mér líður ógurlega vel og hef ekki yfir neinu að kvarta.
Lifið í friði.
Hárið er farið. Verst að hitta á uppáhalds hárgreiðslukonuna í öngum sínum. Hún reifst fyrst í síma og svo augliti til auglitis við aðra manneskju meðan hún var að klippa mig. Það var dálítið undarleg tilfinning. En mér tókst að fá hana til að hlæja smá.
Hún vill aflita hárið á mér, gera mig hvíthærða. Hún segir að það sé eðlilegt fyrir eldri konur (quoi!?) að lýsa hár sitt, það feli hvítu hárin.
Ég þarf að hugsa mig um.
Eftir prófin, því nú hugsa ég bara um þau.
og líka reyndar um langa daginn með ferðalöngum á morgun og hvað ég á að hafa í kvöldmatinn og hvort ég eigi að setja í aðra vél og hvernig hægt verði að bjarga heiminum og hvort það sé örugglega til nóg súkkulaði og hvort ég eigi að spara döðlurnar fyrir próftökuna sjálfa og hvers vegna himininn var aftur blár
Ég er svo stressuð að ég fæ hjartsláttarköst með yfirliðstilfinningu. Ég lofa því samt að láta ekki undan lönguninni til að stökkva út um gluggann eða taka næstu vél til Kúala Lúmpur.
Ég hlakka óstjórnlega til að vera búin og finnst ég snarklikkuð að vera að sækja um á framhaldsstigi. Vinur minn sagði að þetta sýndi bara að ég væri „ekta Íslendingur“, hann þekkti svo marga sem væru í vinnu með börn og svo einhverju dúndurnámi meðfram því. Hann tekur því rólega sjálfur eins og íbúarnir í landinu sem hann býr í. Er þetta einhver íslenskur „sjúkdómur“? Að gera of margt í einu? Ég á franska vinkonu sem fór í nám meðfram vinnu og með barn. Hún að vísu endaði með að skilja við manninn sinn, en kláraði námið og hækkaði í tign í vinnunni. Það er nú líka voða íslenskt (og auðvitað alþjóðlegt), að skilja. Er það álagið? Er fólk að ætla sér of mikið og tapar því einhverju í ofáætlunum sínum?
En hvað er ég að bulla, ég ætlaði bara að hugsa um hljóð- og hljóðkerfisfræði og auðvitað smá um samsetningu orða og bandstafi og svoleiðis skemmtilegheit.
Gatan mín er öll bleik, lítið af blómum eftir í trjánum en gatan lögð bleiku teppi. Mér finnst það fallegt, verra með blessaða rigninguna og hráslagalegt veður.
Lifið í friði.
Röddin er komin til baka, hárið á mér er úr sér vaxið, tvisvar sinnum á einni viku hef ég þurft að senda tvö mjög neyðarleg bréf til fólks, var ekki viss um hvað okkur hafði farið í milli áður, heilinn á mér er á stöðugri yfirkeyrslu mér finnst ég alltaf vera að gleyma einhverju, svíkja einhvern, klúðra einhverju.
Er hægt að bræða úr heilum eins og bílvélum? Er það kannski ástæðan fyrir þorstanum sem sótti á mig í dag, þurfti kælivökva?
Ég tók skyndiákvörðun um að skella mér í klippingu á morgun og tókst að sannfæra hárgreiðslukonuna mína um að opna hálftíma fyrr til að koma mér að. Ég hef áður viðrað kenningar mínar um hár sem flækist fyrir mér, sjáum hvort eitthvað skýrist í kollinum á mér varðandi orð sem flækjast fyrir mér, t.d. fer orðið einkvæmt fyrir brjóstið á mér. Kannist þið við það og vitið þið hvað það þýðir? Vinkona mín segist kannast við það hjá eldra fólki, mér finnst ég aldrei heyrt þetta orð, né heldur orðið bilkvæmt, fyrr en ég fór að lesa um hljóð- og hljóðkerfisfræði.
Lifið í friði.
þessum ásökunum.
Lifið í friði.
Ef þið gúgglið orðinu á borginni sem ég bý og starfa í með íslenskri stafsetningu, hvaða síða kemur þá fyrst upp á eftir kortinu þeirra?
Lifið í friði.
Ég les um ísbúðir á öllum þeim bloggurum sem hafa nennt að dýfa penna í blek.
Í kvöld tilkynnti maðurinn minn að við fengjum eitthvað óvænt eftir matinn. Hann hafði keypt ís handa okkur. Honum finnst sjálfum ís ekki góður svo hér er sjaldan keyptur ís, mjög sjaldan.
Tilviljun að við fengum ís um leið og allir Íslendingar fengu ís? Já og skemmtileg er hún.
Nú ætla ég að horfa á Barnaby, ekki til að verðlauna mig eftir lásí dag heldur til að reyna að gleyma hvað ég er lásí.
Þið getið þakkað fyrir að í þögn minni hef ég bloggað stanslaust, en alltaf séð aumur á lesendum og þurrkað færslurnar út í staðinn fyrir að birta þær.
Lifið í friði.
Ég hef ekki snefil af eirð til að lesa. Eða nokkuð annað. Kannski ég skreppi út í góða veðrið, verið að hóta rigningu á morgun, þegar við skylmingastúlkan ætluðum að setjast á terrössu. Hefðum betur gert það í síðustu viku en það gátum við þó ekki vitað.
Ég er miður mín yfir litlum árangri dagsins. Tíminn líður og sekúndum í prófið fækkar stöðugt.
Lifið í friði.
Það er frekar fúlt að taka blogglestrarpásu reglulega á sunnudögum. Fara allir út úr bænum eða er málið að fólk bloggar almennt í vinnunni?
Ég get svo sem ekki kvartað, hef nóg lestrarefni og úða í mig greinum um beygingarendingar og breytingar á sagnbeygingum. Ég skil ekki bofs í þessu, hef enn ekki almennilega náð tökum á því hver munurinn á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði er, þó ég hafi skrifað hann 100 sinnum niður, og átta mig illa á því hvenær reglur eru beygingarreglur og hvenær hljóðkerfisreglur. Mér er illt í málfræðikunnáttu minni.
Í tilefni af því að einn greinarhöfunda notaði orðið líka í útlistunum sínum fór ég að hugsa til Jóns Gúmm sem barði það svo illilega í mig að nota einnig og aldrei líka að ég hrekk alltaf við þegar ég sé það í ritmáli. Ég skrifa það stundum sjálf og þarf oft að pína mig til að breyta því ekki í einnig, því ekki vil ég vera uppskrúfuð, nógu leiðinleg er ég nú samt.
Í framhaldi af hugsunum mínum um hann Jón, gúgglaði ég honum í fyrsta skipti á ævinni og komst að því að hann dó núna í apríl. Það fannst mér dálítið undarlegt, sérstaklega þar sem ég held að við höfum rætt um hann um daginn, ég og MR-ingurinn sem var hér í heimsókn.
Í gönguferðum mínum um Latínuhverfið geng ég framhjá húsinu sem ég bjó í þegar ég var au-pair. Ég hafði farið túrinn oft og mörgum sinnum, stundum bendi ég á húsið, stundum erum við svo mikið að tala um eitthvað annað að það gleymist. En eitt skiptið benti ég ekki bara á það heldur sagði hugsunarlaust að gaman væri að vita hvort kerlingin sem átti herbergið væri enn á lífi. Sama kvöld frétti ég að hún var grafin þann dag. Tilviljun að ég hugsaði til hennar? Já, líklega, en samt undarleg tilviljun. Ég fíla undarlegar tilviljanir. Jón Gúmm hefði strikað með rauðu yfir sögnina að fíla. Hann hefði líka strikað út sögnina að elska í þessu samhengi. Ég á alltaf erfitt með að yrða það sem ég fíla, mér þykir vænt um, mér þykir gott. Ég er nefninlega sammála hreintungustefnufólki um að sögnin að fíla er ljót og að það er asnalegt að segja að maður elski eitthvað þegar manni þykir það bara gott eða skemmtilegt. Undarlegar tilviljanir eru skemmtilegar. Þetta er betra.
Röddin er svo til alveg farin, þegar ég reyni að tala kemur annað hvort þvagmælt önghljóð eða ískur. Því þegi ég. Er ekki stutt síðan ég missti röddina síðast? Það var áreiðanlega núna í vetur.
í morgun vaknaði ég líka með dúndrandi höfuðverk sem fór ekki fyrr en ég tók mígrenilyf um hálftólf. Þannig að ég er bæði daufleg og raddlaus. Sem betur fer er ég ein heima. Og sem betur fer er þetta lestrardagur en ekki vinnudagur.
Það fæddust tvíburar í fjölskylduna okkar í gær. Tveir strákar. Ég veit ekki hvort þeir voru teknir með keisara, né hvað þeir eru stórir, né hvar þeir eru staddir eða hvenær ég má koma að sjá. Það er glatað að láta karlmenn taka við svona símtölum. Hvernig stendur á því að þeir spyrja ekki að neinu, bara nei frábært, til hamingju, heyrumst, bless.
Lifið í friði.
Röddin er að þverra.
Nú ríður á að vera dugleg að þegja. Ekkert að lesa upphátt um hljóðkerfisfræði meira.
Skylmingastúlkan náði ekki inn, fer ekki til Peking.
Lifið í friði.
Hér er myndband um París.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir