Sarpur fyrir maí, 2008

fórnir

Ég man alltaf eftir því þegar ég sá fyrstu John Woo myndina í bíó. Tveir þriðji hluti áhorfenda gekk út áður en myndinni lauk. Ég sat hins vegar límd við sætið og notaði frasann „ça chauffe à la maternité“ lengi vel. Annar góður frasi úr John Woo mynd er: „On ne fait pas d’omelette sans casser des œufs“.

Getur einhver sagt mér hvort þessi maður er djók eða ekki?

Lifið í friði.

p.s. þýðingar og útskýringar:
„ça chauffe à la maternité“ : „það er farið að hitna í kolunum á fæðingardeildinni“ segir aðalsöguhetjan þar sem hann berst með hríðsotabyssu við menn með hríðskotabyssur yfir spítalavöggum fullum af börnum, með eitt ungabarnið í fanginu, sem hann greip þegar vaggan valt í látunum.

„on ne fait pas d’omelette sans casser des œufs“ er þekktur frasi sem ég hef nokkrum sinnum séð í glæpómyndum: það er ekki hægt að gera eggjaköku án þess að brjóta eggin.

til og frá flugvelli

Í gær bætti ég við kafla með þessu spennandi heiti á parisardaman.com Hann er sem sagt neðstur núna í Hagnýtum upplýsingum.

Ég hef dedúað örlítið í vetur við narðarkaflann. Það vantar margt inn ennþá, nerðir eru svo margslunginn hópur.
Allar hugmyndir að sérvöruverlsunum sem nerðir gætu leitað að eru velkomnar. Ég er komin með tónlistina, bæði til hlustunar og iðkunar, sem er stór kafli. Bókabúðir með bækur á ensku fá sitt pláss vitanlega. Svo er ég með flugdrekabúð og „goth“-búð sem hentar heiðingjum og miðalda- og víkingaáhugamönnum líka ásamt einhverju fleiru. Ég ætla að setja inn kafla um búsáhaldaverslanir fyrir nerði eins og Nönnu.
Svo var spurning með esóterík, er til íslenskt orð yfir þá fræðigrein?

Hver er þín ástríða, herra eða frú nörður? Eða á ég að segja njörður?

nörður – nörð – nerði – narðar

nerðir – nerði – nörðum – narða

EÐA

njörður – njörð – nerði/nirði – njarðar?

Lifið í friði.

heimsferðir – terra nova

Ég hef alveg gleymt að benda fólki á að Heimsferðir og Terra Nova bjóða flugferðir til Parísar á besta verðinu í sumar. Komið þið?

Lifið í friði.

ég er dottin í moggabloggpytt og vil ekki láta draga mig upp

Ég á frænda sem kann alveg að hugsa. Hann skrifaði þetta. Ég er montin og endurtek: Hann er frændi minn.

Nú hef ég tvisvar sinnum sett inn athugasemd á moggablogg.

Mér er illt í höfðinu og full af stressi. Mig langar dálítið út að hlaupa núna strax en mig langar líka að hitta hlaupahópinn í kvöld. Lúxusvandamál eiga líka rétt á sér og þegiðu svo.

Lifið í friði.

virkni

Einkunnin í faginu sem ég skildi aldrei fyrr en í sjálfum próflestrinum kom skemmtilega á óvart og er jafnhá einkunninni í hljóðfræði. Mér tókst sem sagt að fá 8,5 í Beygingar- og orðmyndunarfræði. Kannski ég slái til og fari í framhaldskúrs í þessu bráðskemmtilega fagi?

Hér skín sólin áfram þrátt fyrir sífellda rigningarspá. Rauða regnkápan grætur. Ljósa hárið lýsist.

Í dag er það Mýrin.

Á morgun plakataupphengingar.

Á miðvikudaginn ætla ég að reyna að komast í Hammam.

Á fimmtudaginn Mýrin og tónleikar um kvöldið:

Tónleikar fimmtudag 29. maí 2008:

Sólu fegri skært þú skín
Hljómeyki
undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar
Anna Tryggvadóttir selló
Kl. 20:00. Église Saint Jean, 147, rue de Grenelle (7e), M° La Tour Maubourg. Ókeypis inn, frjáls framlög.

Á föstudaginn held ég til Tours með kórnum.

Ég býst ekki við að vera mikið á blogginu þessa vikuna, þarf að vera hörkudugleg, ýmislegt sem ég á eftir að breyta og bæta á Parísardaman.com og svo þarf ég að lesa um Tours, það þýðir ekkert að fara með hóp á stað án þess að vita nokkuð af viti um hann. En ég er náttúrulega bloggfíkill svo þið megið ekki taka mark á svona yfirlýsingum. Þá eruð þið meðvirk. Það er víst gott að vera virkur en vont að vera meðvirkur.

Lifið í friði.

vísbending

Ég sakna hans, og ég er viss um að mörg ykkar saknið hans líka.

Lifið í friði.

getraun

Fyrst var hann, svo fór hann og svo kom hann aftur en nú virðist hann farinn. Hver er það?

Lifið í friði.

sunnudagstepoki

Í gærkvöld horfði ég á íslenska lagið, til að geta svo hringt í hópinn sem ég er með um helgina og sagt þeim „hvernig gekk“. Ég hef sérstakar ástæður til að dekra þennan hóp sérstaklega, mér einstaklega dýrmætt fólk fyllir hann. Ég ákvað að bíða og sjá Frakkland líka, sat með tölvuna í kjöltunni og fylgdist með öðru auga með skrípaleiknum.
Frakkar hefðu tvímælalaust átt skilið að verða ofar en við, eða þá í neðsta sæti enda lagið þeirra vitanlega langt utan við Eurovision standardinn, a.m.k. eins og hún hefur verið síðustu ár. Gainsbourg stemning í þessu andrómantíska lagi. Ég get ekki tjáð mig um önnur lög því ég hlustaði ekki og horfði varla. Mér fannst þó Bosnía-Hersegovnía töff með leikhústilþrifin og lag Króatíu var fallegt og, líkt og franska lagið, enginn Eurovision bragur að skemma það.

Jean-Paul Gaultier sat ásamt spyrli úr spurningaleik og gerði athugasemdir. Þeir voru nokkuð jákvæðir út í Ísland en ég náði þó að verða hissa á þeim. Spyrillinn setti sig í spurningakeppnisstílinn og bað um höfuðborg Íslands, J-P svaraði Osló. Ég veit að hann hefur komið til landsins og þetta hlýtur að hafa verið einhvers konar húmor í honum. Eða þá að hann er einfaldlega heimskur, sem er vissulega möguleiki, hann samþykkir alla vega að vera kynnir í Eurovision.

Svo lagðist ég upp í rúm með ljóðabók, Mogga og skáldsögu og fletti skipulagslaust í smá tíma áður en ég datt út af. Hef ekki hugmynd um hvað stendur í neinu ritanna, þarf að lesa allt aftur. Jú, það sló mig að strax á laugardeginum viku fyrir keppni var langur pistill um stemninguna í Belgrad. Ég nenni þó ekki að lesa þann pistil og mun væntanlega ekki nenna að lesa hann þó ég sé öllu hressari eftir nætursvefninn.

Í dag ek ég langdýrmætasta hluta hópsins upp á flugvöll og kveð með tár á hvarmi. Svo á að vera árshátíð íslenska skólans, lautarferð í Vincennes-skóginum. Veðurspáin er ekki eins ömurleg og hún var í gær, en ég þarf að finna til regnföt á liðið. Sjálf er ég stoltur eigandi fagurrauðrar regnkápu frá íslenska fyrirtækinu sem gerir ykkur kleift að vera lengur úti. Engin slorflík, ég gladdist í gær þegar loksins fór að rigna og ég gat vígt hana.

Hópurinn hefur líklega tekið slatta af myndum af mér, kannski ég geti skellt inn mynd af nýja lúkkinu bráðlega.

Lifið í friði.

einkunn

Einkunn í hljóðfræði komin: 8,5.
Kennarinn er svo mikill atvinnumaður að hann sendi okkur bréf með tölfræðilegum upplýsingum, það hef ég aldrei fengið áður.

Meðaleinkunn var eitthvað undir 7, 2 af 49 náðu ekki prófinu.

Þetta finnst mér frábært að fá að vita. Og til að svara kennaranum góða: Ég lenti ekki í neinu tímahraki, en fannst ég allt í einu vera á leið í að lenda í því þegar ég var að byrja að svara annarri valspurningunni, eftir að hafa svarað hinni. Sem betur fer áttaði ég mig á því á örfáum mínútum, líklega m.a. vegna þess ágæta verklags að setja tímaáætlun á spurningarnar, það finnst mér góð hugmynd.
Ég býst fastlega við að þau sem voru í virkilegu tímahraki, hafi verið þau sem treystu á að lesa sér til í prófinu sjálfu. Það segir sig sjálft að slíkt er vonlaust, þó maður hafi glósur og bækur þarf maður að vita hvað stendur í þeim áður en maður sest í tveggja tíma próftöku.

Lifið í friði.

örlítið af henni sjálfri

Ég sit hér með rauðvín af því svo undarlega vildi til að ég átti ekki hvítvín þegar á hólmninn var komið. Rauðvín er reyndar alveg jafngott og hvítvín, jafnvel betra. Svo er ég líka með sígó en það er leyndarmál sem ekki má segja frá. Ég hef tíma núna því ég er of þreytt til að hringja í einhverja af mínum vanræktu vinum, of spennt til að rjúka upp í rúm. Svo það er best að blogga:

Ég fékk bréf í pósti í dag sem segir að ég sé samþykkt í MA nám með þeim skilyrðum að ég taki ákveðinn kúrs. Ég hef ekki hugrekki til að skoða hvort að ég verði að taka þann kúrs á Íslandi eða af hverju er hann nefndur svona sérstaklega. Ég þarf að redda 45 þúsundkalli, sem ég mun gera ef ég ákveð að vaða í þetta. Sem er ekki ákveðið. En samt… næstum ákveðið.
Það mun þó þýða að ég þarf að taka aðrar ákvarðanir sem verða kannski sársaukafullar, kannski eðlilegar, ég veit það ekki ennþá.

Ég er búin að þrífa viftuna og búin að komast að því að einhver þarf að reikna út fyrir mig hvort einn brúsi af viðbjóðslegu CIF í spray-formi, ásamt ótal lítrum af sjóðheitu vatni, ótal ótal, sé nokkuð betra fyrir móður náttúru en einfaldlega að láta endurvinna gömlu viftuna og kaupa í staðinn nýja. Einnig vildi ég fá betri rök fyrir því að glugginn sé jafngóður eins og einhverjir vildu vera láta í athugasemdum á dögunum. Ég er með góðan glugga sem ég opna iðulega við eldamennsku, en miðað við ógeðið sem var inni í viftunni, hef ég bjargað eldhúsinnréttingu og viðkvæmum höndum mínum (sem nú eru hreistraðar og illa haldnar) frá slatta af skít. Ætlið þið að segja mér að viftur séu einskis nýtar?

Ég fór í indælis óskipulagða ferð um sveitir Champagne í dag. Fórum aftur til sama kampavínsbónda og síðast. Hann gaf foreldrum mínum og ónefndum doktorsnema sem fylgdi okkur, alls konar kampavín að smakka. Ég smakkaði smá sjálf en var ofurmeðvituð um að þú keyrir ekki og drekkur.
Ég keypti samt kassa og annan og þau sitt af hvoru tagi. Svo fengum við öll tappa að gjöf. Þegar ég var að bakka út, stoppaði kampavínsbóndinn okkur með handapati, opnaði skemmu og dró út forláta mótorpumpu og pumpaði í dekkin á bílnum. Ég hef verið á leiðinni að gera þetta lengi, búin að fá viðvaranir à droite et à gauche (hægri vinstri) um tíma, en hef aldrei vitað almennilega hvernig ég ætti að snúa mér í málinu. Og pumpan á bensínstöðinni sem ég heimsæki á ca tveggja mánaða fresti hefur í síðustu tvö skipti verið biluð.
Nú á ég fullt af kampavíni OG bíldekk full af lofti. Meðan bóndinn tappaði lofti í dekk og sagði mér allt um kílópressjón sá ég að doktorsneminn og móðir mín byrja að baða út öllum öngum og vippar svo doktorsneminn sér út úr bílnum og byrjar að ræða við bóndakonuna. Hún hverfur inn í vínskemmuna og kemur út með lítinn brúnan kassa. Það voru sex glös handa móður minni sem hafði farið að tala um að hún vildi líka kaupa glös. Greiðslu var neitað fyrir það. Ég fyllist alltaf trú og von þegar ég hitti fyrir bissnessfólk sem er ekki með fokkings dollaramerkið í augunum stanlaust. Ég vona að ég sé líka svona bissnessfólk.

Ég verð að taka ákvörðun. Það er erfitt. Er ég að fara að verða MA í þýðingarfræðum? Það eina sem ég veit, er að ég orðin ljóshærðari en ljóshærðasta sænska pía. Lessulúkkið í algleymingi. Þótt ég sé ekki einu sinni lella.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha