Sarpur fyrir maí, 2008fleiri vita hvað þau syngja

Hér er t.d. eitt í viðbót sem er svo satt og rétt fituhlunkarnir ykkar (og gvuð hvað ég er akkúrat núna meðvituð um að eingöngu gott fólk með gott hjarta les þessa síðu):

Hugvekjan hennar Nönnu.

Lifið í friði.

kólibrífuglinn veit hvað hann syngur

Ég hef kannski ekki tíma til að skrifa, en aðrir hafa það sem betur fer, eða því miður eftir því hvernig á málin er litið.

fjallabaki kurrar í kólibrífugli.
1, 2 og 3.

Þetta er líka fín úttekt.

Ég er rokin.

Lifið í friði.

fíkn

Ég er bloggfíkill og er komin með fráhvarfseinkenni.
En ég hef engan tíma.
Líklega eins gott að ekki er hægt að kaupa tíma á uppprengdu verði af sóðalegum gaurum á Hlemmi. Gjaldmiðillinn hlýtur að vera svefn, og hann læt ég ekki. Kannski er ég bara hundlélegur fíkill.

Lifið í friði.

+/- samhengi

Ég sé svo margt í samhengi sem aðrir sjá ekki. Ég hef vitanlega ekki hugmynd um það hvort ég hef rétt eða rangt fyrir mér en stundum langar mig að stappa og öskra á samhengislausa liðið. En ég bít í kinnar mér og þegi.

Lifið í friði.

raflost

Kannski raflostið frá Tromsö nái að koma mér í gang?

Hér er eldhúsvifta sem hefði þurft að þrífa fyrir ári síðan, brunavarnarmálaráðstöfunaraðgerðarlega séð, gluggarnir eru líka ógagnsæir, rykið eftir framkvæmdirnar við götubreytingar liggur enn á bókum og inni í glerskápum eru öll smáborgaralegu glösin ónothæf og ekki beint fegrandi fyrir heimilið.

Hankinn á baðinu er enn skakkur, nýja hillan tekur allt of mikið pláss í stofunni, engir stólar hafa verið lakkaðir.

Og af hverju er ég að hafa áhyggjur af svona ómerkilegum hlutum? Jú, mamma og pabbi eru að koma á laugardaginn. Og þegar mamma og pabbi koma í heimsókn yfir hafið á allt að vera fullkomið. Það liggur í augum uppi.

Lifið í friði.

af sól og draugum, borvél og bananabrauði

Helgin var svo indæl að það tekur sig ekki að skrifa um hana. Sól og meiri sól með tilheyrandi hita. Máluðum þrjá stiga fyrir herragarðsfrúna, borðuðum allar máltíðir úti, líka síðbúna kvöldverði, drukkum vín, spiluðum manna, lékum okkur með bolta, hlustuðum á ærandi froskasöng, fórum í sund og sluppum við umferðarhnúta á leiðinni heim þrátt fyrir að freistast til að eiga allan mánudaginn í bóklestur og hangs í sólinni.

Hversdagurinn hófst svo á fullu hér í dag. Fyrst lá leiðin á markaðinn, keypti grænmeti og ávexti fyrir heilar 15 evrur. Svo skrúfaði ég upp hanka á baðið en hætti við að skrúfa upp nýja hillu þar sem árangurinn með hankana var ekki nógu góður. Þarf að kaupa skrúfur með flötum haus, nennti ómögulega að leggja leið mína í skrúfubúð í dag.
En meðan ég boraði bakaðist bananabrauð sem tókst með afbrigðum vel. Ég nota alltaf uppskrift frá Nönnu en þar sem ég átti ekki vanilludropa setti ég sítrónudropa. Ekki verra. Svo nota ég spelt af því ég á það. Ég ákvað eftir smá sjálfsþerapíu að ætla ekki að taka þessu þannig að ég eigi betur heima við eldavélina en með borvél í hendi.
Mér tókst að ganga frá öllum farangri, eða því sem næst og skellti í eina vél. Þvotturinn var orðinn þurr í eftirmiðdaginn en hangir enn brakandi á snúrunum. Hver þarf þurrkara þegar búið er í vænu landi með blíðri veðráttu?
Svo var haldið í matvöruverslun og keypt inn eins og hætta væri á stríði.
Rétt náði að ganga frá innkaupum, drekka mjólk og borða bananabrauð áður en ég rauk út að hlaupa.

Ég er ein heima í kvöld og sit hér með rósavín í glasi og fer yfir ástandið í bloggheimunum mínum. Ég er líka með moggann frá 3. maí, kannski vissi pósturinn að ekki væri ráð að afgreiða mig með mogga í síðustu viku þar sem ég var í próflestri. Ha? Próflestri? Mér finnst eins og það sé ár síðan ég var í prófum.
Ég er með smá höfuðverk, fann hann þegar ég var að hlaupa en hann hefur ekki ágerst, er bara þarna á bakvið. Kannski slær rósavínið á hann.

Mitt líf er fallegt. Ég á svo sem alveg slatta af hlutum að hafa smá áhyggjur af, en mér líður samt vel og læt engar bévítans áhyggjur trufla það. Er það nokkuð rangt af mér? Til dæmis fékk ég smá samviskubit yfir annarra manna þungum áhyggjum af ölvun á fjöllum. Finn einhvern veginn enga þörf fyrir að taka þátt í þeim áhyggjum. Jú, ég vil að fólk passi sig á fjöllum, þ.e. ekki á fjöllunum sjálfum heldur sjálft sig í óbyggðum. Og auðvitað er ljótt að keyra fullur, og enn ljótara að taka ekki ábyrgð á gerðum sínum þegar einu jeppaflykki er velt á fallegan og góðan fjallaskála. Jú, kannski mér takist að hafa áhyggjur af yfirgangi og frekju í smá stund núna. Er þetta nokkuð að versna samt? Er þetta ekki bara eitthvað svona alveg týpískt og mannlegt?

Ég sagðist vera ein, sofandi börn teljast nefninlega ekki með, en hér er draugur að gera vart við sig. Hann hefur reynt að taka í hurðina nokkrum sinnum og rétt í þessu opnaðist hún hægt og rólega með ískri (það ískrar aldrei í henni) en áður en ég gat séð ófrýnilegt fés eða óðan mann með hníf í gættinni, skelltist hún aftur með slíkum látum að ég efast um að hún opnist nokkurn tímann aftur.

Lifið í friði.

Vive l’été!

Fjú hvað þetta er skrýtin tilfinning. Mun sterkari en mig minnir frá því í desember, þá var ný önn á næsta leiti (ekki segja mér að þið viljið skrifa svona leiti með ypsíloni) en núna er heilt sumarfrí framundan. Frí frá námi í það minnsta.
Reyndar veltur allt á því hvernig svar ég fæ við umsókn um MA-nám. Ef ég fæ nei, held ég þá áfram á BA-stigi í íslensku? Ég er komin á bragðið, ég játa það. Og ef ég fæ já, þarf ég þá ekki bara að byrja strax að lesa, nógu mikið er af bókum á lestarlistum námskeiðanna.

Undarlegt en satt, þá skemmti ég mér ágætlega í prófinu áðan. Ekkert sem fékk mig til að svitna og líða illa, sumt sem ég þurfti að hugsa mig vel um og fletta upp í glósunum til að rifja upp en ég svaraði öllu og gerði það eins vel og ég gat.
Reyndar lenti ég í einu fáránlegu, ég átti að nefna dæmi um orð sem væri rót + rót + beygingarending, en báðar ræturnar áttu að vera bundnar sem þýðir að þær geta ekki staðið stakar sem orð. Mér datt orðið jarðfræði í hug og býst við að það sé rétt dæmi um svona orð. Mér fannst það hins vegar svo trist að ég ákvað að skrifa jarðálfur í staðinn. Það er slæm hugmynd því álf getur alveg staðið eitt og sér sem þolfall af álfur. Ég er því amk með eitt svar kolvitlaust.
Þetta ætti að kenna mér það sem ég veit, alltaf að fara eftir fyrsta hugboði.
Reyndar er þetta enn sorglegra þar sem þetta er í fyrsta sinn í vetur sem dæmi kemur upp í kollinn á mér sem passar við það sem beðið er um (þ.e.a.s. jarðfræðin gerir það, held ég). T.d. var eini liðurinn sem ég skildi eftir tóman á hljóðfræðiprófinu sá sem bað mig að nefna tvö önnur orð sem urðu fyrir sömu hljóðskiptum og öðrum breytingum og orðið sem unnið var út frá. Yfirleitt blokkerast heilinn í mér algerlega þegar ég er beðin um svona dæmi. Eins og ég get bullað og farið út um hvippinn og hvappinn með orð og texta, get ég bara ekki fylgt einhverri svona línu sem er sett upp í orðnotkun.

Þetta er örugglega skemmtileg færsla til að láta standa hér yfir helgina. Ég er að vinna í fyrramálið og svo ætla ég að bruna í sveitina, liggja í nýslegnu grasi, horfa á trén bærast í golunni, fara í göngutúr niður að ánni (það minnir mig alltaf á ömmu Helgu, oh, hvað hún hefði fílað franska sveit), leika mér í frisbí, borða grillaðan mat og drekka fullt af víni með.

Lifið í friði.

mig

Fornöfn eru svo skemmtilega óregluleg, ég treysti því að þau verði ekki til prófsins.

Nú á ég eftir að lesa yfir miðannarverkefnið sem ég skilaði frá Alpafjöllum og fékk til baka með einkunninni 7,5 og ekki einni einustu athugasemd. Ég gleymdi alltaf að kvarta yfir því, frekar seint núna.

Þegar ég er búin að lesa úrlausn kennara vel yfir, og bera saman við mína og reyna að skilja hvað það var sem ég sleppti, ætla ég að treysta á að ég detti út eins og steinn. Ef ég sef vel í nótt, mér líður nú þegar eins og steinn svo mér þykir það líklegt, ætla ég að fara út að skokka í fyrramálið. Eða út í skokkun við vöknun því ég er svo mikill skokkisti eða skokkuður eftir smekk.
Þið vitið ekki hvað þið eruð heppin, mér tekst svo oft að halda fimmaurabrandaraþörfinni niðri. Þið sjáið bara toppinn á ísjakanum sem þið getið sem sagt ímyndað ykkur að er nokkuð óhugnalegur.

Lifið í friði.

ímyndin

Við gátum náttúrulega ekki valið frelsi – jafnrétti – bræðralag, það var upptekið.

Kraftur – frelsi – friður er líka ágætt í sjálfu sér.

Ánægjulegt að friðurinn skuli standa þarna með, ég held einmitt með honum mest af öllu. Næst held ég upp á verndun plánetunnar, það vantar þarna inn í.

En það gerjast í mér spurningar um frið og franska varnarliðsmenn og gamlar sögur af hermönnum og ástandi og ég er svo hrædd um að þessir frönsku varnarliðsmenn sái kannski herskáum fræjum í frjóan svörð. Spurning hvort nefndin eigi að byrja á að beita sér fyrir því að skírlífisbeltum verði dreift meðan erlendir hermenn eru á landinu? Eða beita sektum á konur sem liggja hjá hermönnum? Æ, ég veit það ekki, ekki tala við mig, ekki hlusta á mig, ég er aðallega að pæla í beygingarmyndum og að sjálfsögðu í morðhugleiðingum á meðan.

Lifið í friði.

tíra

Ég trúi því ekki að ég hafi skrifað týra í gær. Og m.a.s í hausinn á glósublaðinu mínu líka. Ég veit alveg að dauft ljós er tíra. En það er greinilega ekki mikið af slíku hér. Og enginn leiðréttir mig heldur. Þið eruð ekki vinir mínir lengur.

Lifið í friði.