Sarpur fyrir maí, 2008bókin

Á dögunum fékk ég senda bók frá þessum manni. Ég ákvað að opna hana ekki fyrr en að prófum loknum.
Á þriðjudagsmorgun, fyrri prófdegi, var ég næstum því búin að rífa hana upp til að lesa bara eitt ljóð því ekki getur maður farið að lesa fyrir próf klukkutíma áður en maður gengur út. En ég stoppaði mig, fékk einhvers konar hjátrúartilfinningu, ég var búin að ákveða að bíða fram yfir prófin og ef ég geri það ekki klúðrast allt.
Svo bókin er enn innpökkuð á náttborðinu. Og ég hef í raun ekki lesið neitt nema námsefni í tvær vikur, jú, kíki í laugardagsmoggann og les vitanlega blogg. Svo er ég með Baróninn hans Þórarins Eldjárns opna á náttborðinu en hef ekki leyft mér að lesa nema nokkrar blaðsíður svona þegar ég er búin að lesa eitthvað námstengt í rúminu og vil tryggja að ég sofni róleg.
Djassinn ómar í hausnum á mér, ásamt hátíðnihljóðinu, fuglasöng og lögunum í Nightmare before Christmas. Síðasti dagurinn. Svo vakna ég á morgun og les ekki ljóð og fer í prófið og svo er þetta búið og sólin skín og ég verð frjáls… í bili.

Lifið í friði.

glas

Í gær fékk ég mér hvítvínsglas með hádegismatnum sem var bœuf tartare. Í kvöldmatinn er salat og ég er harðákveðin í að fá mér rauðvínsglas með. Kannski m.a.s. tvö.
Ég lærði fátt nýtt í dag, hressti upp á minnið með staðreyndir eins og að þessi ending væri frjórri en hin og svo framvegis. Glósublöðin mín heita: Glósur úr glósum í von um tíru. Hún kemur kannski á morgun, kannski ekki, en ég fer í prófið á föstudeginum hvort sem það gerist eður ei. Og svo er ég búin.

Var ég búin að segja ykkur að ég var næstum búin að láta keyra mig niður á leið í prófið á þriðjudeginum? Nei, ég gleymdi því alveg. Málið er að ég þarf að fara hálfhring í kringum Sigurbogann og breiðgöturnar út frá honum eru allar með ljósum en stundum eru þau óendanlega lengi rauð fyrir gangandi vegfarendur. Eftir síendurtekna langa bið missti ég þolinmæðina og rauk af stað á rauðu á einu strætanna. Það var arfaslæm hugmynd og litlu munaði að ég hætti að vera til.
Ef ég þarf að drepast í umferðarslysi vil ég helst að það sé á leið að hitta manninn minn eða eitthvað svona dramatískt, ekki bara á leið í fokking próf, takk.

Lifið í friði.

vorkunn

Tvisvar sinnum nýlega hef ég lent í undarlegum viðbrögðum þegar ég segist vera að læra íslensku. Í bæði skiptin kom hik eða fát á viðmælendur, svipurinn lokaðist. Ég túlkaði það sem einhvers konar vorkunn, sem það í rauninni var, en ekki sams konar vorkunn og sú sem ég bjóst við. Það létti öllum mikið þegar í ljós kom að ég er ekki að læra íslensku í háskólanum í París, sigri hrósandi meðal útlendinganna.

Lifið í friði.

10.07

Ég svaf til hálfníu, sem kallast að sofa út á þessu heimili.

Ég er búin að drekka stóran góðan kaffibolla.

Ég er búin að svara nokkrum fyrirspurnum og skrá fólk í gönguferðir.

Ég er búin að kíkja á þau örfáu blogg sem bæst höfðu við frá því í gær og gægjast á nokkra athugasemdahala.

Ég er búin að sitja hérna og horfa út í loftið.

Ég er búin að kíkja á svarið við fyrstu spurningunni í æfingaverkefninu og ákvað að gera allt verkefnið upp á nýtt áður en ég kíkti áfram. Það staðfestist enn og aftur að ég veð í villu og svíma í þessu fagi.
Spurt var um gagnsæi merkingar orða, göngugata, skáldkona og blómapottur. Ég var með skáldkonuna í samræmi við hans pælingar, eingöngu vegna þess að hún var rædd í fyrsta tíma. Fyrir hin tvö fer ég í allt aðrar áttir og fæ allt aðrar niðurstöður.
Það er risastór geitungur inni hjá mér. Glugginn er galopinn en hann flögrar hér um og fer ekki út. Hjálp! Oh, nú sé ég hann ekki, ég dey.

Ég verð að fara að fá mér morgunmat, en það verður ekkert hægt að gera fyrr en geitungurinn flýgur út.

Lifið í friði.

kennslustund í kvennafræðum

Dóttir mín spurði mig áðan hvort allt fullorðið fólk stundaði íþróttir. Ég sagði svo ekki vera. Hún spurði hvers vegna fólk stundaði íþróttir og svaraði svo sjálf um leið að fólk gerði það til að vera heilbrigðara og til að fitna minna.
Ég greip þetta fína tækifæri á lofti og sagði henni að mér væri nú eiginlega sama um fituna, ég vildi vera í góðu formi, með eitthvað af vöðvum og ekki mása og blása þegar ég hreyfði mig. Ég sagði henni eins og er að mér finnast feitlagnar konur oft sérlega fallegar, kleip í mitt eigið magaspik og lofaði henni að mér þætti nú bara vænt um það.
Hún brást við með gleði, tók utan um mig og kyssti mig í bak og fyrir.
Ég væri alveg til í að vera með flatan maga en ég er ekki til í að leggja það á mig sem ég þarf til þess. Ég nenni ómögulega að hætta að drekka áfengi, að borða góðan mat og osta og lifa mínu ljúfa lífi. Ég passa mig samt, held mér í mínu ágæta ástandi, ég er hvorki feit né grönn, bara mátuleg, eins og ég þarf að vera.

Ég vona innilega að dóttir mín eigi ekki eftir að þurfa að halda megrunarlausa daginn heilagan. Ég óska henni alls ekki að verða einhver fituhlunkur en ef svo færi, vona ég að hún verði samt sátt og sæl, því þar er fegurðina að finna, í sjálfstrausti og sátt við eigin líkama.

Þetta er svo væmið og leiðinlegt að ég er alvarlega að hugsa um að láta þetta fara í glatkistuna. En mig langar samt líka til að láta þetta standa því ég vona að ég sái kannski fræjum í huga kvenna og karla sem eiga samneyti við litlar stelpur. Þær eiga það alveg jafnskilið að vera hlíft við ranghugmyndum um líkamslögun eins og að þurfa ekki lengur að fá reykinn framan í sig í aftursætinu á bílnum.

Lifið í friði.

léttblogg

Eitt búið, eitt eftir. Ég ætla ekki að tala um hvernig mér gekk því kennarinn minn les nefninlega bloggið mitt. En mér er létt.

Í morgun vaknaði ég og geispaði stórum og teygði mig með látum. Maðurinn minn kom valhoppandi inn í herbergi, brosandi út að eyrum og spurði hvort ég vildi ekki kaffi. Ég fæ þessa þjónustu á hverjum morgni, kaffi í rúmið.
Ég spurði hann hvernig í ósköpunum hann færi að því að vera svona kátur og glaður á morgnana með kellinguna draugfúla á leið í próf og börnin að hugsa um og koma í skólann á réttum tíma. Hann segir að sól að morgni sé nóg fyrir hann til að ná að byrja daginn í góðu skapi.

Einu sinni sagði vinkona við mig að ég ætti þennan mann ekki skilinn en ég ákvað strax að trúa henni ekki. Í dag efast ég örlítið í fyrsta sinn. Ég er búin að vera ömurleg eiginkona undanfarið, á kafi í bókum og glósum, pirruð og uppstökk, stressuð og bara hundleiðinleg. Samt er hann alltaf boðinn og búinn og kvartar aldrei yfir því að allt skuli lenda á honum. Maðurinn minn er hreint ágætur, ég vona að hann viti að ég viti það.

Nú ætla ég að dressa mig upp í hlaupagallann og fara og taka svolítið á. Ekki veitir af að losa örlítið um spennuna í öxlunum og koma blóðinu á hreyfingu. Mér líður eiginlega eins og ég sé ekki að fara í annað próf, þetta sé bara búið. Kannski að hluta til vegna þess að ég veit ekki ennþá um hvað hitt prófið mun fjalla, ég veit ekki enn hvað það er sem ég á að kunna, hef ekki græna glóru. Ég er búin að ákveða að taka þessu bara djassað. Talið við mig aftur á fimmtudagskvöldið, líklega verður ekki mikill djass í mér þá.

Lifið í friði.

-12

öngljóðun

framómun

það felst fegurð í sumum tæknilegu hugtakanna, með smá tilfæringum

Lifið í friði

þögnin

er óbærileg

höfuðverkurinn er líka óbærilegur

tíminn flýgur óbærilega hratt en samt líka eiginlega óbærilega hægt – er þetta hægt?

Lifið í friði.

rækjur og orðanna hljóðan

Ég fékk mér rækjur í hádegismat. Það hafði róandi áhrif á mig að pilla þær í sundur og þær voru gómsætar. En þegar um fjórar rækjur voru eftir og hrúgan af skel og hausum með tilheyrandi þreifurum var orðin þeim mun stærri, fylltist ég skyndilega einhvers konar ógeðstilfinningu, fannst ég hafa úðað í mig kakkalökkum eða einhverju ámóta spennandi hráefni. Það var ekki eins róandi. Eins gott að ég á súkkulaðikökuafgang frá afmæli tengdamömmu í gær. Fæ mér svoleiðis þegar maginn róast aðeins niður.

Ég er búin að fá tvo mjög uppörvandi tölvupósta frá vinkonum og eitt alvöru raunheimafaðmlag frá annarri vinkonu. Svo las ég skemmtilega hugleiðingu Ástu Svavars áðan, það er nú slatta uppörvun í að lesa svona jákvæðni.
Samt líður mér eiginlega hörmulega svona heilt yfir eins og sumir myndu orða það. En ég veit líka að þetta er bráðum búið og ætlast ekki til vorkunnar.
Ég er komin á stigið að ég kannast ekki við orðin sem ég les, ha, opið atkvæði? Aldrei heyrt á það minnst. Önghljóð? Er það eitthvað ofan á brauð?

Lifið í friði.

bjartsýni

Ég er bjartsýn að eðlisfari, held ég.

Lifið í friði.