Bráðnudagur í dag og bráðnudagur á morgun. Svo á víst að koma rigning en ég trúi því samt ekkert.
Lifið í friði.
“J’ai envie de vous écrire, mais je n’ai rien à vous dire” [Voltaire]
Bráðnudagur í dag og bráðnudagur á morgun. Svo á víst að koma rigning en ég trúi því samt ekkert.
Lifið í friði.
Skrifin um Tyrkina og búlluna eru svo væmin að ég var næstum búin að henda allri helvítis síðunni í ruslið þegar ég renndi yfir hann áðan. En reglan er að láta allt standa nema ég hafi sært einhvern með þvælunni.
Mig langar að hafa eitthvað aðeins harðara og svalara ef svo undarlega vill til að einhver ráfi hingað inn í fyrsta skipti í dag. Þetta er líklega gersamlega sambærilegt við það sem ég heyrði einhvern tímann frá Heiðari snyrti um að kona ætti alltaf að vera vel tilhöfð, líka heima hjá sér, því hún gæti aldrei vitað hvenær maður lífs hennar berði að dyrum.
(berði?)
Í dag prófaði ég að skjóta viljandi gneistum í átt að konu og það virkaði. Samt var hún frekar langt í burtu. En hún tók alla vega upp tissjúið sem hún hafði hent í jörðina og fór með í ruslið. Kannski fauk tissjúið bara fyrst og hún er enn að spyrja sig hvað hafi gengið að blondínunni sem var með augu sem skutu gneistum að henni.
Lifið í friði.
Eftir morgunævintýrin í nýju klifrugrindinni í almenningsgarðinum ákváðum við foreldrarnir að vera viðurstyggilega löt og fara og fá okkur hádegisverð hjá Tyrkjum sem reka litla búllu í hverfinu. Staðurinn er skemmtilega sjabbí, innréttingar dálítið lúnar, reynt að fela það með ljósaseríu sem virkar ekki lengur, gamlar flísar sem var líklega ætlað að skapa allt annað en tyrkneska stemningu, skrautlegir dúkar á borðum með blómaskreyttum hálfgagnsæjum plastdúkum ofan á sem mynda undarlega kaótískt munstur saman. Maturinn er mátulega löðrandi í góðri fitu, gott bragð af grjónunum, harissa-sósan brennir kinnar. Gamli karlinn staulast um og heilsar fólki, greinilega barngóður, brosir með öllu andlitinu til okkar, kerling er í litfögrum fötum, með fallega slæðu á höfðinu, greinilega hún sem valdi dúkana á borðin, drengurinn er með töffaraklippingu og þegar hann fer úr kokkajakkanum er hann í tískubol undir. Ég veit ekki hvort hann er sonur eða barnabarn, hef brennt mig á því að fólk sem hefur lifað tímana tvenna virðist stundum mun eldra en það er. Öll eru þau vingjarnleg en samt einhvern veginn þögul, hæglát. Afgreiðslan gengur hratt og vel fyrir sig og þau nota alvöru hnífapör og diska, engin plast- og pappírssóun hér. Ég fíla svona heimilislegar búllur alltaf alveg hrikalega vel. Þúsund sinnum betra, fallegra, mannlegra og meira spennandi en gervistaðir á borð við McDo.
Lifið í friði.
Kvennaferð á fótboltaleik í september
Kvennafótboltinn blómstrar sem aldrei fyrr. Það er byrjað að skipuleggja litla kvennaferð til Frakklands fyrir leikinn hér 27. september. Allar áhugasamar geta sent mér tölvupóst.
Kisupössun í París
Tvær dekraðar Parísarkisur óska eftir pössun í miðborg Parísar frá miðjum júlí til ágústloka. Íbúðin er vel staðsett í 8. hverfi, 3ja herbergja og útbúin öllum þægindum. Í staðinn óskast afnot af bíl í Reykjavík.
Hafið samband við Helgu s. +33 1 42 66 40 23, gsm. +33 6 16 74 03 04 eða hbjornsson(hja)gmail.com
Óska eftir herbergi til leigu í Reykjavík
Frönsk námsmeyja er að koma í starfsþjálfun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í ágúst og september. Hún óskar eftir herbergi til leigu sem ódýrast og vill helst fá að búa með Íslendingum. Hafið samband við Marie Delanoë s. +33 6 66 65 71 00 eða marie.delanoe(hja)gmail.com
Lifið í friði.
Rólega vikan, einmitt það já. Það tekur bara heilmikið á að dekra við sig og hlúa að vinum og sambandinu við þá. Þó að vikan hafi hafist á loforði um að hætta að drekka hef ég skálað á hverju kvöldi.
Svo er ég líka alltaf einhvern veginn í vinnunni. Tilboð fyrir haustferðir, göngutúrar og sitthvað smálegt. Ég breyttist t.d. skyndilega í týpuna sem talar í farsíma á hjólinu sínu. Reyndar stoppaði ég um leið og það var hægt, en símtalið var ægilega mikilvægt og gat ekki beðið. Ég er sem sagt mjög mikilvæg. Það er og. (Hvaða skrípi er þessi „setning“, hvaðan kemur hún?)
Ég þarf að fara út úr húsi eftir 20 mínútur og ligg enn í rúminu. Hættið að trufla mig, rekið mig fram úr, hafragrautur í örbylgjuna á meðan ég skola ilmolíuna úr hárinu og kæli mig aðeins niður. Svo úða ég grautnum í mig um leið og ég klæði mig í hörbuxur og stuttermabol. Svo er ég rokin. Og núna hef ég 18 mínútur.
Lifið í friði.
Rólega vikan er samt einhvern veginn bissí. En í dag er ég nú bara bissí í dekrinu, fyrst verð ég lituð hvíthærð aftur og svo tekur osteó-hnykkjarinn mig og vindur upp á mig og lætur braka í öllum liðum og ég verð eins og ný manneskja þegar ég tek á móti fólki í mat í kvöld. Mig langar að spyrja hvað ég á að hafa í matinn, en ég mun ekki kíkja á svörin fyrr en ég verð komin heim með gróseríið – djók, matinn svo ég hlífi ykkur. Ætli ég reyni ekki að fá glænýjan fisk og fullt af grænmeti?
Ég er búin að ákveða að henda lúsugu myntunni minni, sem ég ræktaði stolt á eldhúsborðinu. Ég sem var orðin alger sérfræðingur í líbönsku tabúle:
Fullt af ferskri myntu þvegin og söxuð smátt með hníf eða skærum
Fullt af ferskri steinselju þvegin og söxuð smátt með hníf eða skærum
Ætli þetta séu ekki svipuð búnt þar og hér? Ca eitt búnt af hvoru.
3 tómatar teknir og skornir í örfína teninga. Það má alveg hafa innvolsið með, en flottast er þó að tæma þá af því m.þ.a. skera þá í tvennt og taka innan úr þeim með skeið. Skera svo hitt í fína teninga.
Vorlaukar, nokkur stykki teknir og saxaðir mjög smátt (ég nota rafmagnstæki).
Sjóða á meðan þú stússast með grænmetið eina væna lúku af búlgúr eða cous cous korni eftir leiðbeiningum.
Þessu er blandað saman og vætt vel í með góðri ólífuolíu og sítrónusafa. Má salta og pipra ef óskað er. Salatið á að vera mjög grænt. Enda er slíkt alltaf vænt.
Lifið í friði.
Það verður heitt í París í dag. Og fullt af tónlist út um allt. Ég er að fara á kórtónleika. Svo kem ég börnunum til afa og ömmu og rýk í vinnuna.
Það er nú dálítið gaman að lifa. En í hverju á ég að vera?
Lifið í friði.
Nú kom hann með peninginn, en tók ekki bréfið sem hún hafði skrifað honum, það tek ég alfarið á mig, var örugglega ekki alveg að hlusta á hana þegar hún sagði mér að hún hefði skrifað bréf til hans, ég var nefninlega ógurlega upptekin af því að vorkenna sjálfri mér í gær.
Það er búið núna. Ég ætla að redda þessu máli, hvernig sem ég fer að því og ef lykillinn finnst einhvern tímann verður hann bara settur í minningakassann og hlegið að sögunni síðar.
Hvernig fer fólk að sem þjáist af sjálfsvorkunn og vonleysi út í eitt, jafnvel árum saman? Ég er alveg búin eftir einn svona dag.
Verst að þetta var einmitt fyrsti svona alvöru náðugi dagurinn sem ég hef átt lengi. Hlusta á útvarp, lesa blöðin í rólegheitum og án samviskubits, leggjast í freyðibað. Alltaf lá lykilhelvítið yfir eins og skuggi. Ég heiti því að eiga annan svona náðugan dag fljótlega, ég finn hvernig áreiti ferðalanga er að hjaðna og júlí verður að öllum líkindum nokkuð daufur. Hann skal nýta í skriftir og hugleiðingar, og átti að blanda inn í það framkvæmdir á heimilinu, en þeim verður kannski frestað um óákveðinn tíma og keyptur nýr bíll, ætli verð á blikkbeljum sé ekki að hrynja hér eins og þar?
Lifið í friði.
það er víst bleikur dagur í dag, ég er bara blá
Ég reyndi að horfa á Cold Case í sjónvarpinu, geri stundum sjónvarpsglápstilraunir þegar ég er ein á kvöldin. Ég hef aldrei vitað annan eins hroðbjóð, það er allt leiðinlegt við þessa þætti, persónurnar slakar, þráðurinn bara tilfinningarunk, léleg taka og aulahrollaleg notkun á tónlist.
Svo byrjaði ég á bók í gær sem mér líst ekkert sérlega vel á, nenni varla að halda áfram með hana. Átti ég ekki að fá lánaðar einhverjar eðalbækur einhvers staðar? Og á ekkert að senda mér eintak af nýjasta Einari Má Jónssyni um maí 68?
Bíllyklar eru enn týndir og ég er eiginlega búin að gefa upp alla von. Ég hef leitað í öllum skúffum, skápum, hornum og hólfum í íbúðinni. Held ég. Reyndar er ótrúlegt magn af hólfum í svona smáum úttroðnum íbúðum. Og ótrúlegt magn af ryki sem mér tókst að moka út um við leitina. Nú fer vinnurykið frá því í vor alveg að verða farið endanlega. Bráðum.
Síðustu nótt hrökk ég upp við martröð, ungur drengur kom hlaupandi inn í íbúðina mína (sem var allt öðruvísi en sú sem ég á í raunheimum) á nærbrók og blóðugur. Ég tók utan um hann og hann hljóðaði: „Ekki láta þá fá peninga!“ Ég sá þá skugga bregða fyrir og vissi að frammi á gangi væri einhver hættulegur glæpamaður sem myndi ráðast á okkur og vildi fá peninga. Ég hugsaði fyrst að það væri ekki séns að ég léti hann fá eitthvað, en í svefnrofunum tókst mér að róa mig niður með því að auðvitað hefði ég látið hann fá allt og við drengurinn hefðum alveg bjargast.
Á leið inn í draumaheima á ný mundi ég eftir blessuðu tannálfahlutverkinu, fór og náði í tönnina og stakk tveggjaevrupening undir koddann í staðinn. Getur það mögulega verið að ég hafi tekið peninginn aftur með mér fram? Eða var glæponinn úr draumnum þarna með mér og tók hann? Hann virðist alla vega ekki vera nokkurs staðar í herbergi barnanna. Ég verð því að stinga aftur pening undir koddann núna. Og mun halda mér vakandi í nótt til að tryggja að hann hverfi ekki aftur. Eða ekki.
Lifið í friði.
Ekki heldur þar. Né í freyðibaðinu.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir