Sarpur fyrir júní, 2008útvarp reykjavík, útvarp reykjavík

sumarblússur, sumarpils

skyndilokun númer þrjátíu

þá er gengi nokkurra gjaldmiðla

veðurfréttir verða næst sagðar

en útvarpið finnur ekki bíllyklana, sér einhver þjóðlega klæddan dreng í sauðskinnsskóm?

Lifið í friði.

álfar

Í nótt kom tannálfurinn til Sólrúnar með 2ja evru pening og skipti á honum fyrir tönn. Ég veit það, ég var þar.
Í morgun er lítil stúlka með tár á hvarmi, engin tönn en ekkert í staðinn. Hún er sannfærð um að litla músin (franski tannálfurinn er mús) hafi verið hrædd við kisuna sem hún sefur með. Ég er að bilast. Peningurinn er hvergi. Ekki bíllyklarnir heldur.

Lifið í friði.

hestur í hverjum garði

Ef ég byggi á Íslandi, byggi ég líklega í Breiðholtinu því ég á ekki fyrir íbúð í „fínna“ hverfi. Ef ég byggi á Íslandi einmitt núna, myndi ég alvarlega íhuga það að fá mér hest. Hvernig fer þegar fólk hættir að geta keypt bensín á bílinn? Á það þá bara að hætta að mæta í vinnuna, eða ganga úr Breiðholtinu niður í bæ? Væri hægt að kæra borgaryfirvöld fyrir slælegar almenningssamgöngur?
Þetta er alvörumál. Bensín mun hækka hratt á næstunni.

Annars er það af mér að frétta að ég á að mæta með bílinn í tryggingaskoðun á morgun. En ég finn hvergi lykilinn að honum. Það er líka orðið alvörumál. Ég notaði hann síðast á fimmtudaginn var.

Lifið í friði.

Er eðlilegt að stela?

Á dögunum benti Þórdís á viðtal í einhverju dagblaðanna þar sem leikkona segir frá því að hún skreyti íbúðina með fallegum blómum úr beðunum við Reykjavíkurtjörn eins og ekkert sé athugavert við það.
Og þetta má lesa í maí-hefti fría glansblaðsins HÚN (athugið að nafnið er líklega þjófnaður, nema keypt hafi verið leyfi af ELLE?): „Kínahverfið í New York er til dæmis sérlega góður staður fyrir konur í merkjaleit. Þar er hægt að fá glænýjar töskur frá öllum helstu tískuhönnuðum heimsins. Mikilvægt er að skoða töskurnar vel enda eru gæðin misjöfn og sami sölumaður getur verið með ódýrar eftirlíkingar og ósviknar töskur. Þær ósviknu komast oftast í hendur sölumanna í gegnum verksmiðjustarfsmenn sem smygla þeim út úr verksmiðjunum og selja þær ódýrt.“
Eins og ekkert sé eðlilegra, bendir blaðakonan sem sagt á að sniðugt sé að geta keypt þýfi á götumarkaði í New York. Skyldu íslenskir verslunareigendur sem selja hátískuvörur hafa gert athugasemdir?

Lifið í friði.

mánudagsmorgunn í rúminu

Eini gallinn við að vinna í tölvunni uppi í rúmi með kaffibollann á náttborðinu er að ég á það til að fá sinaskeiðabólgu af því.

Annað sem ber að varast á mánudagsmorgni í rúminu, áður en farið er að hita hafragraut, er að detta í lestur á uppskriftum. Garnagaulið yfirgnæfir hanagalið í Copavogure.

Sólin skín, fuglar tísta, trén bærast ekki í logninu. Maður gæti haldið að þetta yrði góður dagur. Ekki er þó útséð með það, rigningarspáin stendur víst. En ég fer samt með kampavínsflösku og glös í gönguferðina í dag. Við Íslendingar, kraftmikil, hraust, stolt af sögu okkar og menningu, látum ekki skítaveður á okkur fá. Við skálum bara á franskan máta í íslensku veðri eins og allt sé í fínasta lagi. Er ekki annars allt í fínasta lagi?

Lifið í friði.

ég gæti

Ég gæti skrifað margt um frönsku familíuna mína, en eitthvað stoppar mig þó ég geti verið nokkuð viss um að þau geti ekki skilið skrifin. Maður veit aldrei.
En djöfull er ég samt nálægt því að afhjúpa sápuóperu uppskrúfaðrar búrgeisafjölskyldu frá París. Hommi sem dó úr eyðni, kona sem hélt framhjá og öll fjölskyldan á stanlausum símafundum út af því, ólétta hjá giftu pari en samt einhver óvissa með hvort á að halda eða eyða og aftur símafundatímabil og þó geymi ég það allra skrýtnasta.
Ég er ekki bara óþægilega meðvituð um hvað ég hef það gott heldur finnst mér ég líka stundum alveg hrottalega venjuleg og óspennandi manneskja.

Annars hef ég verið að lesa hjartnæm ljóð. Skil sum, ekki öll, alltaf gaman að kynnast nýjum skáldum, takk fyrir mig.

Lifið í friði.

Ég legg ekki meira á ykkur

Í dag er ég í fríi. Fríið byrjaði á því að ég var vakin fyrir kl. 9 með hringingu í gemsann. Meðan ég talaði hringdi hann aftur. Þessi tvö símtöl tengdust og málið leystist farsællega. Rútufyrirtækið sem ég hef skipt við árum saman hefur heldur betur náð að pirra mig tvo daga í röð.
Svo er ég búin að svara nokkrum tölvupóstum sem ég hef látið sitja á hakanum. Nú er bara að fara yfir prógramm næstu viku, athuga hvort ég eigi að færa Versalaferð eða hvort ég eigi að lækka verðið gegn því að fá að taka börnin mín með út af verkfallinu og sitthvað fleira.
Mmm, hvað það er gott að eiga frí einn skitinn sunnudag og þar að auki hálf blörrí í kollinum eftir vökvun gærkvöldsins.

Og nei, ég vil ekki fá samúðarkveðjur. Ég er fullkomlega sátt við ástandið og þakklát fyrir alla þessa vinnu sem ég þó hef. Og svo þarf ég endilega að fara að skrifa um það hvers vegna kennararnir eru í verkfalli sí og æ, æ og sí, aldrei fá þau nóg af því. Ég styð þau heils hugar og skil í raun ekkert í þeim að fara ekki bara í almennilegt langt verkfall.

Lifið í friði.

ljónatemjarinn minn

Bryn tók þessa mynd um síðustu helgi á þorpshátíðinni. Ég var að vinna og missti af því alveg eins og ég missi af skólahátíðinni á morgun. Hins vegar ætla ég að aflýsa gönguferð 21. júní til að komast á tónleikana þar sem sungnir verða grófir söngvar.

Lifið í friði.

björgum kisunum

Ég vildi óska þess að ég gæti tekið einn, en það er víst ekki möguleiki. En þú?

Lifið í friði.

morgunninn kom

Og allt gekk upp.

Stundum eru dagar þar sem allt virðist ganga aftur á bak, allt er öfugt, allt er mistök, rugl, bull og vitleysa. Dagar þar sem þú veist um leið og þú vaknar að í raun ættirðu ekki að fara fram úr en þú neyðist samt til þess.
Dagurinn í gær var næstum því þannig. Alls ekki að öllu leyti því ég hitti fjóra góða ferðalanga, átti með þeim indælar stundir og þó ég hafi grátið úr mér augun rétt áður en ég hitti þau held ég að þau hafi ekki vitað af því. Og þó ég hafi tapað einhverjum peningum, skiptir það mig ekki miklu máli. Það kemur svo sjaldan fyrir að slíkt gerist að ég get ekki með nokkru móti látið það buga mig.
Svo koma svona dagar eins og í dag, börnin þæg og góð um morguninn, samferðafólkið indælt og ekki með kvartanir þrátt fyrir verkföll og stæla í starfsmönnum á svæðinu. Hurð opnast óvænt fyrir okkur og hægt er að stúdera myndir af hetjum án truflana frá öðrum gestum. Himnarnir gráta en draga svo frá sólu á réttum stöðum og ferðin reynist hin ljúfasta.
Þegar heim er komið er ekki bara búið að þrífa og taka til, heldur hefur engillinn sem þreif losað stífluna í vaskinum. Hún fær aukabónus þennan mánuðinn fyrir það þrekvirki.

Lífið er upp og niður. Stundum finnst mér óþægilegt hvað mitt líf er mikið upp og lítið niður. Ég les blogg og heyri í vinkonum og veit að svo margir basla svo mikið og ég skammast mín nánast fyrir hvernig allt leikur í lyndi hjá mér á meðan. Jú, mig vantar eldhúsinnréttingu og nýjan vask, jú ég gæti notað nýrri bíl með fleiri tökkum, jú brjóstahaldarinn er að gefa sig, jú, stundum erum við að kafna í vinnu og íbúðin er aðeins of lítil og ekki smuga að grilla og ekki hægt að hafa kött. Jú, ég get alveg lagst í kör og barmað mér, þannig lagað séð.
En ég get ekki kvartað yfir neinu sem máli skiptir. Heilsan er í góðu lagi hjá okkur öllum, við borðum það sem okkur langar í, við elskum hvert annað, við lifum í sátt og samlyndi þó drasl okkar fljóti yfir á yfirráðasvæði hinna. Við eigum þá gæfu til að bera að elska náungann, að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum, að… já, nú hætti ég því væmni er verri en klæmni.

Lifið í friði.