Sarpur fyrir júlí, 2008

frí

Þetta varð sannarlega vinn-vinn situation, því ekki er nóg með það að ég er búin heldur losnaði húsið fyrr svo við ætlum að pakka og fara af stað í dag.
Veðurspáin næstu daga er sól og ca 19 stig. Ég er með sólkrem, sólhatta, sólgleraugu, strandamottur með baki, strandapoka fyrir sundföt og handklæði, kælibox, óreiðu á striga og tvær ólesnar ljóðabækur.
Í húsinu er netsambandslaust og eiginlega símasambandslaust líka.
Bókasafnið í þorpinu er opið á miðvikudögum og föstudögum í tvo klukkutíma. Þar er hægt að komast á netið. Við sjáum til hvort ég nenni því.

Hafið það gott í fjarveru minni.

Lifið í friði.

ljósmyndir frá París

Einar Jónsson ljósmyndari hefur gefið út bók með myndum sem hann tók í París á árunum 2004-2005. Bókin er gefin út í gegnum vefinn lulu.com og er prentuð við pöntun.

Ég heillaðist strax af myndum Einars, sem er einn af mínum fyrstu bloggvinum. Einu sinni var hann hörkuduglegur og skemmtilegur bloggari. Nú er hann blaðamaður og fær líklega skriftarþörf sinni fullnægt á síðum einhvers íslensku fríblaðanna. Hann hefur átt allar Parísarmyndirnar sem ég hef notað á vefnum mínum.
Hér er slóðin til að panta bók Einars.

Ég fagna þessu framtaki og ætla vitanlega að panta mér bók um leið og tryggingafyrirtækið lætur svo lítið að greiða mér fyrir bílinn sem var sóttur á þriðjudag. Til hamingju Einar.

Um daginn velti ég því fyrir mér hvort einhvern tímann yrðu til sjálfshjálparhópar fyrir nafnlausa óvirka bloggara. Ég hef heyrt að þetta geti orðið alger fíkn en neita alfarið að kannast við slíkt í mér. Sem bendir aftur sterklega til þess að ég sé í bullandi afneitun og þar af leiðandi fíkill.

Lifið í friði.

næstsíðast

Nú er ég að fara á ægilega mikilvægan viðskiptafund. Það er næstsíðasta vinnið mitt fyrir frí (ég má búa til orð, ég fékk átta komma fimm í beygingar- og orðmyndunarfræði og þegiði bara).
Ég man ekki til þess að hafa verið jafnörmagna fyrir frí áður. Strangur og erfiður vetur og mikil vinnutörn strax og prófum lauk. Ég sé það í anda að liggja með tærnar upp í loft, hvorki með nettengingu né símasamband. (Pastís og rör? Rósavín í æð?)
Bara við fjölskyldan ásamt vinum með eina sex mánaða meðferðis. Ójá, það verður frekar indælt held ég nú barasta.

Lifið í friði.

takk kæri mikki!

Það er nú munur að vera VIP hjá Mikka Vef.

Lifið í friði.

óttist eigi

Ég er ekki alveg búin að flytja alla bloggtenglana og er hætt í bili, örvæntið því eigi þó þið sjáið ekki ykkar eigin tengil hér til hliðar. Ég fer hvorki í stafrófsröð né eftir neinu kerfi, þetta er nógu leiðinleg vinna samt. Tilviljanakennd vinnubrögð hjálpa alltaf þegar verk eru leiðinleg.
Nýjungin er að ég set fornöfn á alla þá sem ég get. Eða vil.

Lifið í friði.

handavinna og meira af fávitum

Ég nenni ekki að prjóna þó mig langi til þess. Ég nenni ekki að föndra þó mig langi til þess. Ég nenni ekki lengur neinu dútli þó ég sé mikill dútlari í mér.
En þegar kemur að þessari blessuðu bloggsíðu sit ég hér róleg og handflyt tenglana og finnst eiginlega ekkert að því. Er eitthvað að mér?

Ég þarf að koma betur að þessu með konur giftar fávitum. Sko, Carla Bruni vissi ýmislegt um Nicolas Sarkozy áður en hún giftist honum. Aðspurð sagði Carla einhvern tímann endur fyrir löngu í sjónvarpsviðtali að það sem heillaði hana við karlmenn væru völd. Hún er nú gift einum valdamesta manni Frakklands, verði henni það að góðu. Ég held að í hennar dæmi sé mér fyrirgefanlegt að telja hana dálítinn fávita fyrir að vilja þennan fávita. Líklega eiga þau bara þokkalega vel saman.
Ef kona giftist manni, ástfangin upp fyrir haus, sannfærð um að hún sé að gera rétt en kemst svo að því að maðurinn er alger fáviti hefur hún um tvennt að velja: Halda áfram að vera gift honum og vera þar af leiðandi nokkur fáviti sjálf eða koma sér sem fyrst út úr hjónabandinu, rísa upp úr vonbrigðunum og bera höfuðið hátt. Konur sem velja síðari kostinn eru sannarlega ekki fávitar. Voilà!

Lifið í friði.

litlir hlutir gleðja lítið hjarta

Fann þetta hér.

Lifið í friði.

í nýja húsinu

Ég er ekki búin að finna út úr því hvernig ég á að flytja tenglana yfir. Mér var boðið upp á það einhvern tímann á flakki mínu um nýja húsið í byrjun, en neitaði því þá. Mér tókst að biðja aftur um það, en var neitað um það.

Mér finnst skemmtilega skrýtið hvernig wordpress er hálfþýtt á íslensku og hvernig ég misskil stundum íslensku þýðingarnar sem eru eflaust ágætar.

Mér finnst undarlegt að þegar ég fer niður um línu, fer ég óvart niður um tvær, ekki bara greinaskil, kaflaskil í textanum.

Mér finnst óþægilegt að ég hef ekki hugmynd um það hvernig ég get breytt slóðinni minni í Mikka Vef.

Mér finnst óþægilegt að hafa ekki allt á sínum stað á nýja staðnum, en veit að ég mun redda því með tímanum en ég hef ekkert ógurlega mikinn tíma núna fyrir frí.

Ég fer í frí á mánudaginn, mér líður eins og ég hafi aldrei áður haft eins mikla þörf fyrir það og núna, sem er líklega tilfinning sem ég hafði áður fyrir frí en er búin að gleyma.

Mér finnst svo rétt, ó svo rétt, það sem Ármann bendir á í dag.

Mér finnst mitt líf næstum því óbærilega gott og fallegt.

Lifið í friði.

dálítið týnd

Ég er dálítið týnd hér á wordpress. Veit ekki alveg hvort ég á að halda þessu útliti eða finna annað, er ekki alveg búin að átta mig á tenglainnflutningi og svoleiðis, virðist föst með þennan bloggroll-tiltil hér til hliðar. En þetta kemur allt saman. Bara ekki í dag, kannski í kvöld. Ég man að ég fékk einhver ráð frá innvígðum wordpress-notendum þegar ég opnaði þessa síðu á sínum tíma. En ég man ekki hvaða ráð það voru. Öll slík velkomin.

Hvernig á ég t.d. að koma því þannig fyrir að athugasemdir eða tjásur eins og sumir kalla þetta svo snilldarlega komi inn án þess að þurfa fyrst að vera samþykktar af mér?

Áðan fékk ég þakkarbréf í tölvupósti þar sem mér er tjáð að ég eigi að hækka verðið á göngutúrunum. Það kom mér verulega á óvart, ég hef hálfvegis farið hjá mér síðan ég fór að taka 30 evrur á mann fyrir túrinn.

Ég keypti málningu á klósett og baðherbergi í dag. Nú er bara að bretta upp ermarnar og ota penslinum. Hvað ætli séu margar bækur inni á klói? Ég er nokkuð á því að ég slepp ekki við að bera þær allar út áður en ég byrja að mála, þó ég ætli ekki að mála á bakvið hillurnar.

Lifið í friði.

París ókeypis – París ódýr

Ég var búin að setja inn kaflann Ókeypis í París inn á vefsíðuna mína fyrir löngu síðan.
Hins vegar á ég eftir að koma með kaflann Ódýrt í París, en hér kemur eitt atriði (kannski verður það eina atriðið, ég leita dyrum og dyngjum að ódýru í París, en erfitt er að finna slíkt):

Skoða París með venjulegan metró/strætómiða að vopni:
Á síðu Upplýsingamiðstöðvar Parísarborgar er að finna ábendingar á ensku um bestu strætisvagnaleiðirnar til að sjá helstu ferðamannastaði borgarinnar.
Farið í „maps and transports“ og smellið á stóra mynd sem segir „explore paris on the bus“. Þetta er slóðin beint þangað.

Svo gleymi ég alltaf að segja ykkur að það er víst mynd af mér hvíthærðri og uppstrílaðri í matarboði í nýjasta Gestgjafanum.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha