Sarpur fyrir ágúst, 2008

ótrúlegt hvað það er erfitt að gangsetja kellinguna eftir húsmæðraorlofið

Ég hef margt að skemmtilegt segja ykkur, margt að þakka fyrir, margt að hneykslast á og svo skulda ég m.a.s. myndir, en ég á eitthvað erfitt með að hrökkva í blogggírinn á ný. Er hálf meðvitundarlaus, jafnvel bara týnd svei mér þá.

En þetta rakst ég á, á tilviljanakenndu vafri um netheima og það gladdi mig svo mikið að ég ákvað að leyfa ykkur að njóta:


Paul Hunt 1981 Uneven Bars – video powered by Metacafe

Þetta leyndist í kistu Evindar Karlssonar, sem ég hafði að ég held aldrei kíkt til áður þó ég hafi hundrað sinnum séð athugasemdir hjá honum annars staðar. Líklega fer hann á leslistann, bara fyrir þetta.

Lifið í friði.

Alþjóðahúsið kl. 20

Tvær ákveðnar konur í lífi mínu (önnur þeirra mun synda með mér í kvöld) hafa ákveðið að við förum í Alþjóðahúsið, gegnt Þjóðleikhúsinu.

Hver veit nema dansað verði, en mest verður þó rætt um… tja, síðast voru það gervilimirnir sem stóðu upp úr.

 

Lifið í friði.

Mokka lokað á kvöldin

Hjálpi mér allir heilagir. Mokka lokar kl. hálfsjö. Plan B, einhver?

 

Lifið í friði.

sjóbað á morgun, mætum öll

Í gær baðaði ég mig í sjónum og lagðist svo í heitan pott með útsýni yfir til Kópavogs.

Ég ætla að gera þetta aftur á morgun. Ég hugsa að það verði um sjöleytið, á þó eftir að fá endanlegan tíma staðfestan. Það væri nú gaman að sjá eitthvað af bloggurum, það er hægt að sleppa sjónum og fara beint í pottinn fyrir viðkvæma (les: teprur).

Spurning hvort ég geti verið á Mokka eftir sjóbað á morgun, hvað segið þið? Í kvöld verð ég áreiðanlega á Hressó.

Ísland er nú alveg ágætt land. Vinir mínir eru stór-ágætir að gefa mig í brúðargjöf. Brúðkaupið var… blautt á alla mögulega vegu. Saurbæjarkirkja er falleg og fínleg. Reyktjaldið fauk út á fjörð þegar brúðguminn kyssti brúðina.

Lifið í friði.

óvænt

Stundum getur maður ekki farið eftir plönum. Þess vegna verða til dæmis engar myndir hér á morgun eða næstu daga. Meira síðar.

Lifið í friði.

mælingar og meiri pælingar

Í dag kom eldhúsráðgjafinn minn og mældi allt út hjá mér í þeim hluta íbúðarinnar. Hummaði og strauk sér um höku, taldi innstungur og teiknaði inn alla stokka og lagnir með nýþvegna blýantinum með brotna blýinu. Svo þurfti ég að segja hvort ég hefði einhverjar séróskir, eftir smá umhugsun mundi ég eftir breiðu hnífaparaskúffunni hennar mömmu. „já, viltu sem sagt 80, hmmmm“. Þetta var allt svo prófessjónal að ég var alveg eftir mig þegar hún hvarf á brott með teikningarnar. Hef því lítið gert í dag, nema að ég byrjaði á að fara í gegnum teikningabunka barnanna sem hefur ekki verið sorteraður síðan fyrir jól.
Nær allur dagurinn í gær fór í að sortera, flokka og raða dóti í barnaherberginu. Og setja upp himnasæng fyrir stelpuna, sem er ekkert sérstaklega flott að mínu mati, en nákvæmlega eins og hún vildi hana.
Svo drattaðist ég í IKEA og keypti efnið í himnasæng drengsins, sem vildi nótt með stjörnum og riddara að berjast. Nóttin með stjörnunum fékkst þar á okurprís því hún kemur með ónothæfri grind og festingum sem ég þarf að klippa frá. Þau ætla svo sjálf að búa til riddarana að berjast.
Ég var viss um að afgreiðslufólkið sæi á mér að ég hafði sett upp innréttingar annars staðar frá. En þau hljóta að fyrirgefa mér, ég keypti fullt af alls konar kössum og hirslum og bætti við enn einum Billy sem er kominn í nýjar og handhægari umbúðir. Svo eru fataskápur í barnaherbergið OG blessuð eldhúsinnréttingin næst á dagskrá. Það er nú ekki lítið. Kreppa? Já í vinnunni, ekki á heimilinu!
Ég býst við að geta sett inn myndir á morgun, haldið ykkur fast.

Lifið í friði.

Gleymdi lokahnykk símtalsins

Ég gleymdi náttúrulega að segja ykkur frá því að hann sagðist vitanlega myndu styðja okkur og styrkja á allan mögulegan hátt við að búa til þriðja barnið.
Well, ef hann kaupir fyrir mig húsið hérna uppi á horni, sem er enn í sölu… hver veit? Ég kannski fer með hann að skoða húsið í september.

Lifið í friði.

eldri maður hækkar um nokkra sentímetra

Við fáum reglulega sms frá afanum sem er með börnin okkar á Grikklandi. Oftast er það bara að allt gangi vel, allir séu glaðir. En við og við fáum við eitthvað á borð við það sem kom fyrir nokkrum dögum: „Börnin eru með ótrúlega fjölbreyttan og nákvæman orðaforða“. Þetta gleður okkur foreldrana náttúrulega mikið, sérstaklega mig þar sem ég þarf svo oft að svara spurningum um tvítyngi og hvort það hafi ekki þau slæmu áhrif að börnin tali bæði tungumálin aðeins verr en aðrir. Ég hef oft heyrt þessa kenningu, en held að vegna þess að þau eiga svo framúrskarandi vel talandi foreldra, verði þau framúrskarandi klár í báðum tungumálum og líka í stærðfræði og raunvísindum, teikningu og tónlist og íþróttum.
Í gær töluðum við svo við afann í síma. Hann fer mikinn og segir að börnin veki mikla athygli hvar sem þau koma á svæðinu. Fólkið sem sjái um barnagæsluna elski þau og ljósmyndari svæðisins hafi sett myndir af þeim í gluggann sjálfum sér til framdráttar, svo vel myndist þau. Einnig séu þau knúsuð og kysst af kokkum og þjónustuliði og allir vilji eiga þau, þau séu svo skemmtileg, opin og klár og kurteis.
Ég get svo svarið það að ég fann að hann hefur stækkað um nokkra sentímetra, hann má svo sem við því en ég er hálfhrædd um að hann muni, í alvöru talað, rifna úr monti á endanum. Og hvernig á amman að komast ein með hann í kistu, farangur og börnin tvö heim?

Lifið í friði.

16 holur í vegg

Ég hef borað a.m.k. 16 holur í vegg í þessari framkvæmdagleði minni, nei, reyndar 17 því ég skipti um hilluvinkil í miðju verki og þurfti því að gera aukaholu. Hillan sem varð að umræðu hér að neðan reyndist að lokum verða 30 cm á breidd, mér fannst sú 40 cm allt of mikil um sig. Og viti menn, þessi dugar alveg. Full af dóti og allt heldur gasalega vel. Mynd síðar. Mig langar eiginlega ekkert að skrifa um þetta, en mér fannst ég einhverra hluta vegna skyldug til að gefa skýrslu um þetta mál.
Ég þurrkaði svo út langa færslu um hvað ég hef gert annað, hvað klikkaði og hvað tókst vel. Þið megið þakka mér m.þ.a. dreifa auglýsingu um Parísardömuna.com út um allar trissur nú eða þá bara leggja pening inn á reikninginn minn í Mjóddinni.
En ég hata litlu málmsögina sem ég var svo ánægð með að finna því mér sýndist hún alveg eins og sú sem pabbi átti. Þessi fokking sög vill ekki saga stöngina mína í sundur og því hef ég ekki enn getað hengt fötin upp.
Um hádegisbilið í dag felldi ég nokkur tár yfir gömlum skeytum, kortum og bréfum.
Skeyti barst frá Húsavík 5. október 1969, það var 21 orð, hamingjuóskir með dótturina nýfæddu frá Guðlaugu gömlu, sem bjó nú reyndar fyrir austan, ekki norðan.
Annað skeyti fór frá Reykjavík til Lundar í Svíþjóð, líklega þó daginn áður, á fæðingardegi mínum. Það er 5 orð: „Dóttir fædd líðan góð, Soffía“. Ég get svo ímyndað mér hvernig pabba leið, því ég á í fórum mínum kort frá honum til mömmu og mín, skrifað um viku síðar, en það verður ekki birt hér.

Lifið í friði.

pína, tilfinningahiti og sturlun

Ég píni mig hér áfram með vinnu við íbúðina vegna þess að ég veit að ég verð ánægð á eftir, að íbúðin verður betri staður, að við fáum meira pláss sem við getum svo fyllt af meira dóti, eins og bent var á af annarri duglegri tiltektarkonu á dögunum. Ég er gersamlega búin að fá nóg, og er þar að auki komin í dálítið snúna hluti eins og einmitt núna, er að reyna að skrúfa upp þrjá hilluvinkla sem eiga að bera uppi 250 cm langa og 40 cm breiða hillu sem á að bera fullt fullt af dóti. Allir sem hafa skrúfað upp hillu vita hvað ég þjáist mikið. Enginn getur þó ímyndað sér hvað ég er ringluð einmitt núna, því samkvæmt hallamálinu er hurðaropið sem hillan verður yfir að hluta, gersamlega rammskakkt þegar ég mæli með hillunni, en ekkert skakkt þegar ég mæli með hallamálinu beint upp í hurðargatið. Ef þið standið á gati þurfið þið ekkert að reyna að skilja þetta. Ég er hins vegar svo pirruð akkúrat núna að það er eins gott að enginn villist hér inn, hann gæti verið rekinn í gegn með hilluvinkli, eða borað með bor nr. 6 í ennið á honum.

Og alveg eins og ég píni mig hér til að mæla, pæla, spekúlera, mála og raða, tókst mér að yfirvinna fjölmennisfælnistilfinninguna og, eftir samtal við einn af 18 ráðgjöfunum mínum, ákvað ég að láta slag standa og kaupa allt sem ég gæti af innkaupalista skólans hennar Sólrúnar. Svo fór að ég fann ferlega sæta skólatösku sem ég trúi ekki að hún vilji ekki. Ég talaði við afgreiðslumann og má koma og skila ef það verður drami.
Ég er sem sagt búin að kaupa allt af listanum, það vantar bara einn hlut, nefninlega skókassa af skóm í barnastærð. Ég kaupi mjög sjaldan skó á krakkana, keypti reyndar strigaskó á Sólrúnu um daginn og sagði vitanlega eins og alltaf nei takk við skókassanum. En þetta verður nú varla vandamál, ég hlýt að geta farið og sníkt kassa í skóbúð, það hljóta margir að gera eins og ég, að afþakka kassann.

Mér líður eins og undinni tusku og loftlausri blöðru. Bæði. Þegar ég byrjaði að skanna ritfangadeildina með listann í hendi, innan um góðan slatta af foreldrum með svipaða lista og mörg með allt of æsta krakka með sér, fór eitthvað af stað innan í mér. Ég þurfti að berjast við grátinn. Og þarf þess reyndar líka núna. Það er ekki einleikið hvað maður verður væminn í þessu foreldrahlutverki. Tilfinningarússið er alveg ótrúlegt. Ekki skal mig undra að sumir viðkvæmari en hin kaldlynda ég fari yfir mörkin og fríki út. Jafnvel bara furða að það sé ekki hreinlega reglan.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha