Ég píni mig hér áfram með vinnu við íbúðina vegna þess að ég veit að ég verð ánægð á eftir, að íbúðin verður betri staður, að við fáum meira pláss sem við getum svo fyllt af meira dóti, eins og bent var á af annarri duglegri tiltektarkonu á dögunum. Ég er gersamlega búin að fá nóg, og er þar að auki komin í dálítið snúna hluti eins og einmitt núna, er að reyna að skrúfa upp þrjá hilluvinkla sem eiga að bera uppi 250 cm langa og 40 cm breiða hillu sem á að bera fullt fullt af dóti. Allir sem hafa skrúfað upp hillu vita hvað ég þjáist mikið. Enginn getur þó ímyndað sér hvað ég er ringluð einmitt núna, því samkvæmt hallamálinu er hurðaropið sem hillan verður yfir að hluta, gersamlega rammskakkt þegar ég mæli með hillunni, en ekkert skakkt þegar ég mæli með hallamálinu beint upp í hurðargatið. Ef þið standið á gati þurfið þið ekkert að reyna að skilja þetta. Ég er hins vegar svo pirruð akkúrat núna að það er eins gott að enginn villist hér inn, hann gæti verið rekinn í gegn með hilluvinkli, eða borað með bor nr. 6 í ennið á honum.
Og alveg eins og ég píni mig hér til að mæla, pæla, spekúlera, mála og raða, tókst mér að yfirvinna fjölmennisfælnistilfinninguna og, eftir samtal við einn af 18 ráðgjöfunum mínum, ákvað ég að láta slag standa og kaupa allt sem ég gæti af innkaupalista skólans hennar Sólrúnar. Svo fór að ég fann ferlega sæta skólatösku sem ég trúi ekki að hún vilji ekki. Ég talaði við afgreiðslumann og má koma og skila ef það verður drami.
Ég er sem sagt búin að kaupa allt af listanum, það vantar bara einn hlut, nefninlega skókassa af skóm í barnastærð. Ég kaupi mjög sjaldan skó á krakkana, keypti reyndar strigaskó á Sólrúnu um daginn og sagði vitanlega eins og alltaf nei takk við skókassanum. En þetta verður nú varla vandamál, ég hlýt að geta farið og sníkt kassa í skóbúð, það hljóta margir að gera eins og ég, að afþakka kassann.
Mér líður eins og undinni tusku og loftlausri blöðru. Bæði. Þegar ég byrjaði að skanna ritfangadeildina með listann í hendi, innan um góðan slatta af foreldrum með svipaða lista og mörg með allt of æsta krakka með sér, fór eitthvað af stað innan í mér. Ég þurfti að berjast við grátinn. Og þarf þess reyndar líka núna. Það er ekki einleikið hvað maður verður væminn í þessu foreldrahlutverki. Tilfinningarússið er alveg ótrúlegt. Ekki skal mig undra að sumir viðkvæmari en hin kaldlynda ég fari yfir mörkin og fríki út. Jafnvel bara furða að það sé ekki hreinlega reglan.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir