pína, tilfinningahiti og sturlun

Ég píni mig hér áfram með vinnu við íbúðina vegna þess að ég veit að ég verð ánægð á eftir, að íbúðin verður betri staður, að við fáum meira pláss sem við getum svo fyllt af meira dóti, eins og bent var á af annarri duglegri tiltektarkonu á dögunum. Ég er gersamlega búin að fá nóg, og er þar að auki komin í dálítið snúna hluti eins og einmitt núna, er að reyna að skrúfa upp þrjá hilluvinkla sem eiga að bera uppi 250 cm langa og 40 cm breiða hillu sem á að bera fullt fullt af dóti. Allir sem hafa skrúfað upp hillu vita hvað ég þjáist mikið. Enginn getur þó ímyndað sér hvað ég er ringluð einmitt núna, því samkvæmt hallamálinu er hurðaropið sem hillan verður yfir að hluta, gersamlega rammskakkt þegar ég mæli með hillunni, en ekkert skakkt þegar ég mæli með hallamálinu beint upp í hurðargatið. Ef þið standið á gati þurfið þið ekkert að reyna að skilja þetta. Ég er hins vegar svo pirruð akkúrat núna að það er eins gott að enginn villist hér inn, hann gæti verið rekinn í gegn með hilluvinkli, eða borað með bor nr. 6 í ennið á honum.

Og alveg eins og ég píni mig hér til að mæla, pæla, spekúlera, mála og raða, tókst mér að yfirvinna fjölmennisfælnistilfinninguna og, eftir samtal við einn af 18 ráðgjöfunum mínum, ákvað ég að láta slag standa og kaupa allt sem ég gæti af innkaupalista skólans hennar Sólrúnar. Svo fór að ég fann ferlega sæta skólatösku sem ég trúi ekki að hún vilji ekki. Ég talaði við afgreiðslumann og má koma og skila ef það verður drami.
Ég er sem sagt búin að kaupa allt af listanum, það vantar bara einn hlut, nefninlega skókassa af skóm í barnastærð. Ég kaupi mjög sjaldan skó á krakkana, keypti reyndar strigaskó á Sólrúnu um daginn og sagði vitanlega eins og alltaf nei takk við skókassanum. En þetta verður nú varla vandamál, ég hlýt að geta farið og sníkt kassa í skóbúð, það hljóta margir að gera eins og ég, að afþakka kassann.

Mér líður eins og undinni tusku og loftlausri blöðru. Bæði. Þegar ég byrjaði að skanna ritfangadeildina með listann í hendi, innan um góðan slatta af foreldrum með svipaða lista og mörg með allt of æsta krakka með sér, fór eitthvað af stað innan í mér. Ég þurfti að berjast við grátinn. Og þarf þess reyndar líka núna. Það er ekki einleikið hvað maður verður væminn í þessu foreldrahlutverki. Tilfinningarússið er alveg ótrúlegt. Ekki skal mig undra að sumir viðkvæmari en hin kaldlynda ég fari yfir mörkin og fríki út. Jafnvel bara furða að það sé ekki hreinlega reglan.

Lifið í friði.

15 Responses to “pína, tilfinningahiti og sturlun”


 1. 1 ghrafn 18 Ágú, 2008 kl. 9:50 e.h.

  Kannast við loftlausu blöðruna … og undnu tuskuna.

 2. 2 Ævar Örn 18 Ágú, 2008 kl. 11:43 e.h.

  Ég fyllist ugg og ótta er ég les um bor nr. 6.
  Hræðist ekki að fá hann í ennið en ímynda mér að með bor nr. 6 eigir þú við 6 mm bor. Og að það sé borinn sem þú ætlar að nota til að festa 250 cm langa, 40 cm breiða hillu uppá vegg. Hillu, sem þú ætlar að fylla af dóti. Hillu, sem er fyrir ofan dyr.
  Bara þrír vinklar, og bara 6 mm bor.
  En, ókei, ef þú lofar að geyma bara servíettu- og dúkkulísusafnið þarna uppi, þá sef ég rólegur.
  Þaraðauki eru þetta ábyggilega bara asnalegar og óþarfar áhyggjur, því þú notar 6 mm borinn allsekki til að bora í vegginn (úr hverju er hann annars? Veggurinn?) heldur bara til að bora í enni fávíss og hrokafulls pakks sem leyfir sér að efast um snilli þína í hillu-upphengingum.
  Hm. Svona eftirá að hyggja þá hræðist ég líklega að fá hann í ennið.
  Kannski einsgott að ég fer til Helsinki frekar en Parísar í haust…

 3. 3 parisardaman 19 Ágú, 2008 kl. 1:02 f.h.

  He he ÆÖ, þetta er þéttur og góður burðarveggur sem minn stóri kraftmikli bor kemst í gegnum og 6 stykki af 6 mm götum duga alveg áreiðanlega. Mín reynsla er sú að oftast borar maður of mikið og of breitt og langt fyrir of lítið. Vona það alla vega… Því miður á ég hvorki servíettusafnið né dúkkulísurnar ennþá. Þetta er meira fyrir föndurdót og myndaalbúm og fleira í þeim dúr. Alla vega ekki þykka doðranta sem oft þarf að hreyfa við, þeir eru við jörðu í sínum góða Billy.
  ghrafn: ég vissi að einhver skildi mig.

 4. 4 kristín 19 Ágú, 2008 kl. 1:36 f.h.

  Kannast vel við sturlun. Þá verður maður ákaflega áhugaverður í sambúð. Og að þurfa að sjá á eftir oggulitlum afkvæmum í skóla í fyrsta skipti – hjálpaði reyndar ekki til að mín voru bara 4 og hálfs og sennilega ennþá minni en stóra og duglega stelpan þín.

 5. 5 Elías 19 Ágú, 2008 kl. 1:37 f.h.

  Ég hef hengt 60 kg af bókum á tvær skrúfur í gati eftir 6mm bor. Þær hengu uppi í hálfan áratug, þar til skipt var um skáp.

 6. 6 parisardaman 19 Ágú, 2008 kl. 1:41 f.h.

  Einmitt Elías, maður er alltaf að bora of breitt, of oft og of djúpt, samkvæmt einvherjum gömlum uppskriftum.

 7. 7 parisardaman 19 Ágú, 2008 kl. 1:42 f.h.

  Og nafna, sturlun áhugaverð fyrir kallinn, ja… say no nothing…

 8. 8 baun 19 Ágú, 2008 kl. 1:51 f.h.

  get lítið lagt til bormála en skil vel blendnar tilfinningar við að sjá litlu stelpuna sína hefja skólagöngu.

 9. 9 Frú Sigurbjörg 19 Ágú, 2008 kl. 3:10 e.h.

  Kærar þakkir fyrir Parísar-vefinn, nýtti mér ýmislegt af honum í París um daginn – takk!

 10. 10 parisardaman 19 Ágú, 2008 kl. 3:30 e.h.

  Þakka þér Frú Sigubjörg. Leitt þó að þú skyldir ekki koma í gönguferð, þær eru nefninlega svo skemmtilegar!

 11. 11 Frú Sigurbjörg 19 Ágú, 2008 kl. 4:45 e.h.

  Ég ætlaði einmitt að koma okkur í gönguferð hjá þér en það voru engar í boði akkúrat á þeim tíma. París er ómótstæðileg svo hana heimsæki ég vafalítið oft aftur – og vonandi skemmtilegann göngutúr með þér líka!

 12. 12 gulla 19 Ágú, 2008 kl. 5:38 e.h.

  styttist í parísarferðina okkar – og er hún að byrja í skólanum, spennandi. annars er afmælisveisla á laugardaginn, þoli ekki að þið skulið ekki komast!

 13. 13 parisardaman 19 Ágú, 2008 kl. 8:02 e.h.

  Æ, það var leitt frú Sigurbjörg, við sjáumst bara næst.
  Gulla: Ég þoli það ekki heldur, og svo þoli ég ekki heldur að ég klikkaði á því að fara á pósthúsið með pakkann í dag. Fer á morgun.

 14. 14 hildigunnur 20 Ágú, 2008 kl. 12:58 f.h.

  oh, mér fannst svo spennandi og gaman þegar krakkarnir byrjuðu í skólanum.

 15. 15 parisardaman 20 Ágú, 2008 kl. 12:15 e.h.

  Já, það er gaman líka. Ég veit ekki af hverju mér finnst þetta ógnvekjandi, líklega hef ég of mikið heyrt af einelti og Sólrún er svo ljúf og góð og ég vil ekki að neinn hrekki hana.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: