Sarpur fyrir ágúst, 2008skór, kjólar og skólataskan rauða

Ég tel mig ekki eiga mikið af fötum og tel mig eyða frekar litlu í föt. En ég skal þó alveg viðurkenna að ég á dálítið mörg pör af skóm og líka, það kom mér meira á óvart, frekar marga kjóla. Ég síaði töluvert út, spurning hvort kjólarnir fari ekki samt í furðufataskúffu krakkanna, alla vega einhverjir þeirra, flestir hvort eð er bara hálfgerðar lufsur úr sænsku ódýru búðinni.

Það er farið að sjást í gólfið hér í stofunni en samt sér ekki högg á vatni. Djöfulsins helvítis dugnaður í mér. Djöfull sé ég eftir þessu, auðvitað á ég bara að liggja með te og skólabækur, það fer að líða að kennslu og ég engan veginn tilbúin.

Og þegar ég minnist á kennslu, má játa doða minn gagnvart því að dóttir mín er að fara í sex ára bekk. Auðvitað er langur listi af dóti að kaupa og auðvitað veit ég alveg hvernig þetta virkar, því fyrr sem keypt er, því meira úrval og auðveldara að fá ódýrt dót. En ég hafði bara ekki tekið eftir bréfinu frá skólanum og gerði þetta því ekki í rólegheitunum með Sólrúnu þegar hún var hérna með mér í viku eftir sveitaferðina. Og við förum beint í sveitina þegar þau koma frá Grikklandi. Svo við verðum eins og þúsundir eftirbáta í flóðbylgju að gera þetta á laugardeginum fyrir fyrstu skólavikuna. Er ekki annars alger skylda að hún fái sjálf að velja skólatöskuna?
Ég á reyndar mína tösku, sem ég fór með örsmá en hnarreist í Hólabrekkuskóla 1975. Þessa tösku valdi ég svo vel að ég get enn notað hana. Ég gæti ekki lánað Sólrúnu hana því böndin hafa horfið á sífelldum flutningum lífs míns og svo er ég ekki einu sinni viss um að ég myndi tíma því, né að hún væri til í að hafa svona smekklega tösku, nú þarf allt að vera bling bling (ég komst að því mér til mikillar furðu á dögunum að þetta orð er líka til í frönsku og það var tengdafaðir minn sem notaði það).

Ég held ég fái mér hvítvínsglas í kvöld, graflax í matinn. Úje. Mig langar eiginlega strax í hvítvín, væri ég dóni að bíða ekki eftir Arnaud? Jú, ég bíð nú. (Ég er ekki búin að tala við neinn í allan dag nema útvarpið og ykkur).

Lifið í friði.

morgunverkin tala

Búin að mála baðherbergið, enda er ég ekki úti á galeiðunni á laugardagskvöldum eins og hressa liðið.

Lifið í friði.

tölvan tóm

Ég er búin að tæma gamla hlunkinn. Ég held að örlög hans verði að fara út á götu í næstu viku þegar má setja út stórt rusl. Þá fer líka ýmislegt annað, vonandi.
En ég kemst ekkert áfram með stóru verkin, bara eitthvað vesen fram og til baka og einhvern veginn er ég búin að koma mér í þá aðstöðu að nú er baðherbergið líka í rúst og allt dót þaðan frammi og út um allt ásamt öllu sem var inni í stóra forstofuskápnum, en samt ekki hægt að ljúka við að mála það. Íbúðin er viðbjóður en ekki séns að ég nenni aftur út í kvöld, reif mig upp í gær og skrapp á veitingahús með Arnaud. Það var ágæt tilbreyting að hafa sig örlítið til og sjá annað fólk en gvuð mín góð hvað maturinn var dýr og ekki þess virði. Við erum sammála um það hjónin að hlutirnirn hækka óhugnalega hratt hérna.

Ég frétti að vinkona mín var líka í þungu skapi í dag, sem og sonur hennar. Kannski eru þetta skýin og loftþyngd. Eða fullt tungl?

Alla vega langar mig langmest af öllu núna til að skæla. En ekki hafa áhyggjur, yfirleitt bráir svona af mér ansi hratt. Þakka alla hvatningu.

Lifið í friði.

yfir mörkin

Ég hef farið yfir mörkin og er skyndilega örmagna. Því fylgir svartsýni. Mig langar svo heim til Íslands. Mig langar ekkert til S-Frakklands í næstu viku, bara heim í berjamó.

Lifið í friði.

ljóð um Reykjavík

Það er til ansi góður slatti af ljóðum um Reykjavík, enda höfuðborg ljóðalands. Tómas Guðmundsson gerði nokkur ansi ágæt, Sverrir Stormsker sendi flott ljóð í samkeppni í tilefni af 200 ára afmælinu en tapaði fyrir… já, þið vitið hverjum. Uppáhaldið mitt úr yndislegu ljóði og lagi SS er:
Og eins og Spilverkið forðum spurði
spyrjum við þig í kór:
Hvað ætlar þú að verða þegar
þú ert orðin stór?

Hér er eitt samið í dag af bloggvini mínum.

Lifið í friði.

málning

Ég er alveg glötuð þegar kemur að málningarvinnu. Get hvorki notað hanska né verið í hlífðargalla og svo sulla ég endalaust út um allt. Ég er því doppótt og fín núna. M.a.s. með málningarklessu í augnhárunum.
Ég er búin að mála inn í gatið og ætla nú að færa annan turninn inn í hornið og sjá hvort ég hef tíma til að setja hinn saman núna.
En ég er líka búin að mála ýmsa hluti hérna, hillur sem komu úr gamla skápnum og eiga að fara hér upp á veggi, baðhilluna og eitthvað lítið borð sem ég keypti á flóamarkaði þó ég hefði í raun enga sérstaka þörf fyrir það. Ég er með smá borð-fetish, það upplýsist hér með. Spurning hvort ég nái að finna því hlutverk á skrifstofunni sem ég ætlaði að vera að búa til einmitt núna því ég ætlaði að vera löngu búin með skápinn og baðið og… En ég er alla vega í stuði og veðrið er gott og útvarpið styttir mér stundir. Mér finnst Erna Ómarsdóttir töff listakona. Hún var í útvarpinu áðan. Flott.

Lifið í friði.

memories

1. Lykt og minningar. Er einhver sérstök lykt sem vekur hjá þér minningar? Segðu frá.
Lyktin af pelagóníum er sterk og mér finnst hún ekkert sérlega góð, en hún vekur alltaf upp hjá mér sterkar minningar um yndislegan tíma sem við fjölskyldan áttum í svörtu húsi með hvítum körmum í Hornbæk í Danmörku. Við áttum góðar stundir í fallega garðinum þar sem við þurftum meðal annars að baða okkur með stórum, risastórum vatnskönnum og skálum í stíl. Þetta er næstbesta sturta sem ég hef prófað, sú besta er útisturta í frönskum garði þar sem maður baðar sig með útsýni yfir fallegan og gróinn dal. Eitt af því fyrsta sem ég myndi gera ef ég eignaðist sumarhús, væri að finna baðstaðinn á lóðinni.
Við systur höfum ítrekað reynt að finna húsið aftur, án árangurs. Ég vona innilega að það sé enn til, pelagóníurnar á skuggasvölunum (sem voru aldrei nýttar af íslensku gestunum) voru dásamlega fallegar.

2. Lög. Vekur eitthvað ákveðið lag góðar minningar? Titill og minning, ef þú treystir þér til að deila því með öðrum.
Barbie Girl er lagið okkar Arnaud. Þetta var náttúrulega bara flipp í byrja saman-vímunni, en ef við héldum risabrúðkaup í dag, yrði það áreiðanlega spilað á ögurstundu.

3. Hvað með lag sem vekur upp slæmar minngar? Viltu deila því með öðrum?
Lagið Þórður eftir Sverri Stormsker fær hjartað í mér alltaf til að fara í hnút. Það tengist missi á bekkjarfélaga, talaði algerlega til mín og segir allt sem þarf um þá viðurstyggð að þurfa að sætta sig við ótímabæran dauða félaga.

4. Matur. Særir einhver matur fram ákveðna minningu?
Amma Helga gaf mér stundum glas með smá kaffi og fullt af mjólk. Svo mátti ég dýfa kleinu eða brauði í. Ég fæ þetta aldrei, en stundum dreymir mig að ég sé að gæða mér á þessu. Ég er mikill aðdáandi góðs kaffis en þoli ekki að drekka það með nokkru út í öðru en kannski calvados, viskí eða öðru sterku áfengi á góðum stundum.

5. Föt? Áttu einhverja flík, eða þegar þú sérð ákveðna flík, fær það til að hugsa um ákveðinn tíma, stað eða manneskju?
Ég mátaði einmitt í dag rauðu alpahúfuna sem ég keypti á flóamarkaði fyrir þúsund árum og ákvað að byrja að nota hana aftur í haust. Þessi húfa er ferlega flott en ég hef í raun ekki mikið getað notað hana því hún var keypt þegar ég var með mjög lítið af hári, en það er einmitt málið núna (og fljótlega mun ég raka af mér ljósa hárið og þá verður nú gott að geta gripið til húfunnar góðu). Reyndar er rangnefni að kalla þetta húfu, hún er úr einhverju glansefni, ekki ull.
Ég á tvær mjög sterkar minningar tengdar þessu höfuðfati. Sú fyrri er ein fallegasta stund sem ég átti með þáverandi kærasta, ég var nýbúin að hafa mig til inni á baði og skelli húfunni/hattinum á höfuðið, við fórum út og niðri á götunni tekur hann um andlitið á mér og segir: „þú ert ótrúlega falleg“. Hann var ekki mikið fyrir að segja svona hluti, hrósinu var því tekið alvarlega.
Seinni minningin er þegar ég fór um miðja nótt á stjá og ákvað í svefnrofunum að skella mér til Karlsruhe í Eurovisionpartý. Setti upp rauða höfuðfatið og rauk niður á lestarstöð. Þar voru hundrað, ef ekki fleiri, fallífastökkshermenn á leið í herbúðir nálægt Strasbourg. Þeir voru allir með rauðar alpahúfur og var mikið gantast með að spennandi stúlka hefði slæðst með í hópinn. Ég held að sjaldan hafi jafnmargir karlmenn haft jafngóða ástæðu til að blikka stúlku á jafnstuttum tíma.

Þetta fann ég hjá henni nöfnu minni og vissi strax að ég vildi svara.

Lifið í friði.

man ekki textann

Ég man nú þegar Eyfi stórgítarleikari (þetta skrifa ég bara til að fá hann til að roðna, hann er svo sætur þegar hann roðnar) og háskólakennari ásamt fleiru gleymdi textanum sínum á stórtónleikum sem hann hélt á kaffihúsi í París fyrir nokkrum árum. Hann bjargaði sér á sama hátt úr vandræðunum.

Lifið í friði.

það eru allir með farsíma í vasanum

sagði maðurinn í útvarpinu rétt í þessu

Lifið í friði.

Ég trúi því ekki að klukkan sé orðin 4. Hvað varð um þennand dag? Engin lausn fundin ennþá, bara valkvíði, fram og til baka veltingur og efasemdir. Ég setti saman annan af tveimur turnunum sem fara inn í skápinn, klaufalegt að vera ekki í Dr. Martens skónum mínum með stáltánni. Maður vill bara það dýrasta og besta í verkfærum en vinnur svo bara berfættur, gleraugna- og hanskalaus. Svona er maður nú galin kona.

Lifið í friði.