Sarpur fyrir október, 2008

ha ha hí á mig

Ég fór algerlega fram úr sjálfri mér hér á undan. Lofa tveimur setningum af handahófi en fer svo út í eitthvað allt annað eftir óljósa tilvitnun og svo bara í pastísinn án þess að setja setningu númer tvö. Ég verð að óska ykkur til hamingju með það. Skál.

Víðsjá er mjög skemmtileg, ég er að hlusta á þáttinn frá þriðjudeginum og upp úr stendur vitanlega Margrét Elísabet Ólafsdóttir sem er vinkona mín og er vitanlega mjög klár eins og allir mínir vinir.

Lifið í friði.

erfiðar ákvarðanir teknar við skrifin sjálf

Nú er ég búin að hlusta á tvo tíma og lesa eina og hálfa grein. Á ég að klára grein 2, eða á ég að stilla yfir á víðsjá og fá mér fordrykk?
Ég veit alveg að þetta spillta og húðlata kommúnistapakk sem les mig mun styðja fordrykk og útvarpið. Og ég fer náttúrulega fyrirfram eftir þeirra ráðum.
Svona getur bloggið verið gefandi.
Mér til varnar ætla ég að birta tvær setningar af handahófi úr glósum dagsins:
Upp úr stendur vitanlega Derrida sem segir að miðjan sé ekki miðjan. Það skýrðist nú aðeins í kolli mínum við fyrirlesturinn sem var prímagóður hjá kennaranum. Á maður að senda tölvupóst og segja þegar maður er sérlega ánægður með tíma? Æ, það kæmi ferlega sleikjulega út, sérstaklega þar sem hann er að fara yfir verkefnin okkar. En þetta var virkilega skýr fyrirlestur ÞÓ hann fjallaði um Derrida. Ég tek það fram að ég á eftir að lesa aftur yfir glósurnar, kannski mun ég hrukka ennið, hnykla brýrnar og klóra mér, hvar klórar kona sér þegar hún er djúpt hugsi? Líka í skeggrótina?
Æ, látiði mig í friði, ég held að það sé löngu kominn tími á pastís, er það ekki klukkan fimm? Og klukkan að verða hálfsjö. Hneyksli.

Lifið í friði.

er nýjasta fréttin sú

að Seðlabankinn sé í mínus?

Lifið í friði.

varúð, mont frá saknandi móður

Ég sakna barnanna minna, en þau hafa það mjög gott á Íslandi í kreppunni. Það var m.a.s. tekið á móti dóttur minni í 6 ára bekk og þar er hún búin að eignast tvær vinkonur og las undarlega setningu upphátt fyrir mig á Skype í morgun: Má Sísí síma?
Drengurinn er brattur líka og hefur fengið að koma í heimsókn á leikskóla frænku sinnar. Hann sýnir vitanlega færni sína í lestri, ég hélt að amman myndi rifna úr monti þegar hún sagði mér frá því að í gær lagði hún fyrir utan apótek og hann spurði hvort hún væri að fara í apótek. Fyrst skildi hún ekkert í því hvernig í ósköpunum hann gat giskað á það, en sá svo skiltið blasa við. Mér skilst að frænka hans hafi tilkynnt að það væri mjög óréttlátt að hann sem væri bara 4 ára kynni að lesa en hún sem væri orðin 5 kynni það ekki. Hann verður 5 ára um miðjan nóvember, og er bara 3 mánuðum yngri en frænka, en staðreyndin er sú að hann er bara fjögurra ára og hana nú.

Lifið í friði

The Visitor

Ég fór í bíó í gær og sá mynd sem ég mæli eindregið með að þið horfið á. Ekki til að lyfta ykkur upp í kreppunni samt. Frábær mynd. Erfið og sár en samt ljúf og góð. Fullkomin blanda.

Lifið í friði.

uppsagnir

Mér reiknast svo til að þessi 1765 manns sem talin eru upp í frétt á RÚV (fjármálageirinn, byggingabransinn, Nóatún, Skjár 1 og 365) jafngildi 360.000 manns í Frakklandi. Þetta er reiknað út frá því að Íslendingar séu 300.000 en Frakkar 60.000.000.

Lifið í friði.

salur

Ég er að spá, veit einhver um góðan partýsal fyrir ca 60 manns, jafnvel meira, sem hægt er að leigja á vægu verði og koma með eigin vínveitingar? Og hægt að vera með stuð lengi frameftir? Salurinn má vera mjög hrár og eins ljótur og hann vill, útsýni er aukaatriði en það þarf að vera hægt að komast út að reykja.

Lifið í friði.

Ég hef örugglega svarað svona klukki nokkrum sinnum en það eru einhverjar breytingar hérna, held ég og svo var þetta ágætis upprifjun á því hvað er gott í lífinu:

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

1. Sýna fólki París (en er ekki með leiðsögumannapróf svo ég nota ekki leiðsögn, ó nei)
2. Selt nammi og miða í Bíóhöllinni í Mjódd
3. Selt nammi og miða í Bíóhúsinu heitnu við Lækjargötu
4. Selt nammi og miða í Bíóborginni við Snorrabraut

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:

1. Með allt á hreinu
2. Sódóma
3. Magnús
4. Húsið – trúnaðarmál

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:

1. Efra-Breiðholt
2. Seljahverfi – Breiðholt
3. Grettisgata
4. Auðarstræti

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

1. Florida
2. Vopnafjörður
3. Snæfellsnes
4. Akureyri

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

1. Friends
2. Dr. House
3. Flying Circus
4. Dave Allen

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:

1. mikki vefur
2. bloglines
3. Uglan hi.is
4. ruv

7. Fernt matarkyns sem ég held upp á:

1. andakjöt
2. gulrætur
3. epli
4. hvítlaukur

8. Fjórar bækur sem ég held upp á/les oft:.

1. Bróðir minn Ljónshjarta e. Astrid Lindgren
2. Himnaríki og helvíti e. Jón Kalmann Stefánsson
3. Dúfan e. Patrick Süskind
4. Birtíngur e. Voltaire

9. Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna:

1. Á Íslandi
2. Á Sikiley
3. Á Íslandi
4. Á Sikiley

Lifið í friði.

gengur ekki

Það gengur ekki að reyna að horfa á Chinatown með manni sem vaknar fyrir klukkan sex. Hann var sofnaður innan korters. Svo ég vakti hann og við fórum í Yatzy í staðinn. Það var stuð. Ég náði yatzy dauðans en tapaði heilt yfir. Ég verð nefninlega að leyfa manninum mínum að vinna, hann er svo tapsár.

Í dag hitti ég afa tvíburanna sem er ríksibubbi sem varð fyrir því að vera sagt upp á risalaunum með risa, hvað heitir það aftur, summan sem maður fær við uppsögn þegar maður er ógeðslega ríkur hvort eð er? Ég man það ekki í alvöru talað. Ha? Nú er ég búin að hugsa örugglega í mínútu og orðið kemur ekki.
En Jean var sagt upp um fimmtugt og hafði það svo gott að hann reyndi víst ekki einu sinni að finna sér annað, enda var það víst frekar vonlaust fyrir svona gamlingja. Svo hann er búinn að vera í eftirlaunagír núna í 15 ár. Á stórt og flott hús suður af París og svo annað stærra og flottara rétt hjá St. Emilion í Bordeaux með tennisvelli og sundlaug. Þar er hann mest, og er með vinnustofu þar sem hann dundar sér við að mála eftirmyndir af frægum málverkum en svo er hann örugglega að braska með hlutabréf og fleira skemmtilegt. Hann bar sig vel í dag en fór að spyrja mig spjörunum úr um Ísland og andlitið datt af honum þegar ég fór að útskýra þetta. Hann á góðan argentískan vin sem hefur skráð sig út úr öllum kerfum, lifir með peningana undir koddanum, greiðir hvergi skatta eða neitt. Hann spurði mig hvort Íslendingar yrðu í sömu sporum. Ég gat ekki svarað. En ég skammast mín alltaf niður í tær þegar ég byrja að tala um þessi mál við fólk sem hefur innsýn í peningaheiminn, markaðinn. Við erum bananar. Og þegar ég segi við, þá meina ég þeir.

Lifið í friði.

nýja fólkið

Í gær spjallaði ég við nýbakaða móður og heyrði drenginn umla við brjóst hennar um leið. Það eru hljóð sem gefa manni kraft og von.
Í dag hitti ég svo tvo 6 mánaða frændur okkar, Evariste og Nathanaël og mér sýnist þeir gætu gert stóra hluti seinna meir.
Ég hef ekki enn getað farið og hitt nýjasta niðurhalið í fjölskyldunni, mamman var líklega í 3. dags blúsnum í dag, alla vega treysti hún sér ekki til að fá okkur í heimsókn. Í Frakklandi eru konur 5-7 daga á spítalanum eftir fæðinguna. Það er góð ástæða fyrir því sem ég mun kannski segja ykkur frá seinna ef þið viljið. En nú ætla ég að hella meira rauðvíni í glasið mitt og horfa á Chinatown af leysigeislaskífu.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha