Sarpur fyrir nóvember, 2008

tilhlökkun

Ég hlakka til á morgun. Ég kvíði líka dálítið fyrir, ég var t.d. beðin um að halda ræðu en hef ekki haft tíma til að skrifa hana út af þýðingaskilum.
Svo hlakka ég líka til að sjá hvað kemur út úr aðgerðum nornarinnar. Ég vona innilega að ekkert komi fyrir hana né aðra, það er ansi hætt við ryskingum. Mikið væri nú gaman að sjá DO borinn út úr Seðlabankanum. Í gær hitti ég mann sem varði hann með kjafti og klóm gegn öllum hópnum. Það var… áhugavert.

Ég hlakka líka til 12. des, að koma heim á flæðiskerið. Að geta loksins tekið þátt í mótmælum með ykkur hinum. Ef þetta verður ekki bara yfirstaðið. Þetta hvað? Byltingar og byltingarhugmyndir eru flókið fyrirbæri. Enginn hefur nokkurn tímann haldið öðru fram.

Lifið í friði.

1. desember í París

Parísardaman hefur verið beðin um að koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri:

Engum dylst að í 7 vikur hefur neyðarástand ríkt í íslensku samfélagi. Það er löngu tímabært að fram komi lausnir. Í 7 vikur hefur þjóðin velkst í vafa. Fólk horfir á lánin vaxa og dafna meðan fasteignaverð hríðfellur og atvinnuleysi eykst hratt með degi hverjum. Íslendingar hvar sem er í heiminum hafa orðið fyrir barðinu á þessu ófremdarástandi og gera þær kröfur að stjórnvöld axli ábyrgð, komi fram með raunhæfar og ásættanlegar lausnir en stígi ellegar frá.

Undanfarna laugardaga hafa þúsundir manna safnast saman á Austurvelli til að krefjast svara. Ekki hefur borið á viöbrögðum sem mark er takandi á.
Við höfum því ákveðið að hlýða ákalli um að mæta á þessum táknræna degi, 1. desember, á 90 ára afmæli fullveldi Íslands, fyrir framan Sendiráð Íslands í París, til að sýna samstöðu með þessum hugrökku löndum okkar. Fundurinn hefst klukkan 14 og verður klukkustundar langur. Við hvetjum sem flesta, Íslendinga og Íslandsvini, til þess að mæta. Komið með spjöld, borða eða fána, eða komið bara sjálf.

Haldin verður stutt tala og síðan munu tveir fulltrúar úr hópnum afhenda Sendiherra Íslands í Frakklandi, Tómasi Inga Olrich, afrit af ræðunni.

Íslendingar eru að læra það núna að samstaða getur haft áhrif. Við Íslendingar og Íslandsvinir í París höfum nú tækifæri til að hvetja þau áfram hér í sjálfri móðurborg mótmælanna.
Ef þið hafið spurningar, getið þið haft samaband við Parísardömuna sem kemur þeim á framfæri.

Sjáumst sem flest mánudaginn 1. desember kl. 14, 8, avenue Kléber, 75016 París. Metró Kléber eða Étoile.

Lifið í friði.

tvennir tímar?

Þar er efinn

Lifið í friði.

Börnin munu ásaka okkur

Ég mæli eindregið með að horfa á þetta og setja í samhengi við ástandið á Íslandi í dag. Við megum alls ekki gleyma því að Nýja Ísland þarf að endurskoða öll sín viðhorf, þar á meðal umhverfismálin.

Lagið sem börnin syngja í sýnishorninu (la bande-annonce) er einmitt lagið sem börnin mín lærðu í vor og sungu fyrir okkur foreldrana.

Lifið í friði.

áskrift að grannmeti

Ég er sem sagt orðin áskrifandi að grænmetis“körfu“. Panta á mánudögum og fæ bréfpoka fullan af grænmeti afhentan í búðinni á fimmtudögum. Ég ræð engu um það hvað er í pokanum, en verslunin setur alltaf lista yfir grænmetið með myndum til hliðar svo við húsmæður og -feður þurfum ekki að velkjast í vafa. Einnig fylgja uppskriftir með öllu sjaldgæfu grænmeti. Mér finnst þetta bæði spennandi og skemmtilegt. Í gær eldaði ég á endanum chou rave, sem ég myndi þýða sem kálrófu. Þær eru gómsætar bragðið, einhvers staðar á milli blómkáls og spergils. Ég léttsauð þær í vatni með smá salti og bar fram með afgöngum frá síðustu dögum, hrísgrjónum í rjómasósu og niðurrifnum kjúkling sem ég hitaði saman í smá grænmetisseyði.
Ég er komin í smá aðhald í matarinnkaupum heimilisins því þó ég vinni töluvert (les: allt of mikið) núna og fái inn pening, veit ég ekki hvort eða hvenær því lýkur. Kannski verður áfram nóg að gera í janúar, kannski verður ekkert hjá mér fram að vorinu. Kannski ekki einu sinni þá.
Til öryggis skráði ég mig í aukakúrs í Háskólanum.

Í hádeginu smakkaði maðurinn minn matinn frá því í gær og við mærðum grænmetisáskriftina. Ég bauð honum að kíkja nú á netið í dag og finna spennandi uppskrift með sellerírófu í fyrir kvöldið. Við borðum pasta með engu í kvöldmatinn. Alltaf voða gaman að prófa eitthvað nýtt þegar kellingin sér um matinn!

Lifið í friði.

Hvað varð um Málbeinið? Var honum eytt með stafrænum piparúða?
Hvað varð um Ármann? Er hægt að komast í klúbb og fá að lesa hann?

Ekki það að ég hafi rassgat tíma til að lesa annað en þvaður um peninga. Hér liggja analýsur á Frankenstein og horfðu ásakandi augnaráði á mig, væru þær með augu þín sáu mig. Ókei, þá er það opinbert, ég er farin yfirum.

Ég gleymdi alltaf að segja ykkur að þegar ég fylgdi Hamrahlíðarkórnum í frægðarför sinni um París sat ég inni einn svalan eftirmiðdag í kórnum í Notre Dame meðan þau æfðu frammi. Ég tók upp greinina sem ég var að lesa og náði að komast yfir tvær málsgreinar áður en ég var beðin um að gera eitthvað. Lagði greinina frá mér og hún varð þar eftir. Þannig að nú ímynda ég mér skírlífa prestana í Notre Dame liggja yfir femínískri greiningu á Frankenstein, (þeir tala margir ensku) sem inniheldur tilheyrandi pælingar um upplifun karla og kvenna á kynlífi.

Lifið í friði.

vinsamlegast endurræsið vélina

Ég er alltaf á fullu, ég nýti dagana mjög vel og hef verið að vinna á kvöldin undanfarið líka. Samt miðar mér ekki áfram sem skyldi og sífellt bætist ofan á það sem ég þarf að gera.
Ég veit að ég á ekki að vera að kvarta, í kringum mig er fullt af fólki með alvöru vandamál, fjárhagskröggur eða veikindi og jafnvel andlát.
Samt.
Ég er alveg búin að fá nóg. Ég er ógeðslega þreytt og komin með höfuðverk. Mig langar til að einhver komi og búi til matinn fyrir mig, ég legg ekki í þessa sellerírófu sem ég ætla að prófa að elda í kvöld og veit ekki hvað ég ætla að hafa með henni.
Sem minnir mig á að ég verð að sýna ykkur mynd af grænmetinu sem ég eldaði í gær. Ekki spyrja mig hvað það heitir, en við maðurinn minn flissuðum í hvert skipti sem við sáum það í eldhúsinu. Súpan sem ég sauð úr þessu heppnaðist afskaplega vel.

dsc00198

En hver ætlar að koma og elda fyrir mig í kvöld? Einhver? Og hver nennir að vinna þýðinguna? Og hver getur hjálpað mér að blöffa mig í gegnum umræður um kynverund í bókmenntum og fleiri teóríur, um helgina? Og farið í íslenska skólann? Og boðið hjá sendiherra? Og á fundinn á fimmtudag? Og bakað köku fyrir skólann fyrir föstudag? Og passað börnin á fimmtudag og m.a.s. Sólrúnu líka á föstudag? Og keypt jólagjafir og gert jólakortin og og og…

Lifið í friði.

jólatré og einiberjarunnur

Á hverju kvöldi dansa ég í kringum ímyndað jólatré með börnunum til að æfa þau upp fyrir jólaballið. Í gærkvöldi stakk Kári upp á því að pabbinn léki jólatré. Hann samþykkti það ekki en við ætlum að vinna í því máli.
Ferlega er Einiberjarunnurinn alltaf langur. Og mig vantar eina athöfn, fyrst er þvegið, þá undið, hengt upp, teygt og straujað… ah, og nú kemur það þegar ég skrifa um þetta, á laugardeginum eru gólfin þvegin. Ég var alveg föst í þvottinum fram á sunnudag. Spurning: gangið þið inn kirkjugólfið að kvöldi eða líka að morgni?

Lifið í friði.

klukkan

Þar sem ég stóð og gæddi mér á viðbjóðslega dýrri smásamloku á flugvellinum í morgun furðaði ég mig á því að hvergi var klukku að sjá. Ef einhvers staðar þarf stöðugt að fylgjast með tímanum, er það á flugvelli (og lestarstöð vitanlega). Þetta pirraði mig heilmikið.

Fyrst bloggaði ég aðeins um það í huganum.

Svo ræddi ég það í hneykslunartóni við manninn minn yfir kvöldsúpunni.

Þá sá ég allt í einu klukkuna. Á veggnum hangir svona gamaldags hringlaga klukka með litla vísi og stóra vísi, ásamt sekúnduvísi. Ég var að leita að svartri stafrænni klukku með rauðum tölustöfum.

Lifið í friði.

ég og peningar

Haustið 1999 fórum við maðurinn minn að búa saman í Montpellier. Ég var á námslánum þann vetur og hann ákvað að skrifa bók sem hann hafði gengið með í maganum um nokkurt skeið. Við ákváðum að reyna að lifa á námslánunum, ásamt smá styrk frá foreldrum hans. Við settumst niður og ræddum ýmsan mögulegan niðurskurð á lífsvenjum okkar.
Aðalmálið var: ekki kaupa geisladiska, ekki kaupa bækur.
Ég hélt að það yrði erfitt að hætta að kaupa geisladiska og bækur en það var svo auðvelt að þó að betur hafi árað hjá okkur síðan þennan vetur í Montpellier, hef ég haldið þessu, með undantekningum því ég kaupi mér stundum bækur. Sjaldan skáldsögur, við förum á bókasafnið eða fáum lánað hjá vinum, en ég kaupi bækur um París og Frakkland og vitanlega skólabækur.

Ég nota mjög lítið af snyrtivörum svo ekki þurfti að skera það niður, ég kaupi mér ódýr föt og frekar sjaldan en hins vegar geng ég oftast í frekar dýrum skóm og get ekki breytt því, ég verð að vera í mjúkum og fótlaga skóm, og þeir eiga líka að vera fallegir. Þeir mega samt alveg verða gamlir og snjáðir. Ég get farið aftur og aftur út í sömu fötunum og læt athugasemdir vinkvenna minna um það sem vind um eyrun þjóta.

Ég gef yfirleitt ódýrar gjafir og ætlast til þess að fá ódýrar gjafir sjálf, ég þoli illa peningaaustur í vitleysisgang. Við borðum hins vegar vel, stundum ódýrt en stundum líka svolítið dýrari mat með góðum vínum. Mér finnst það ekki alltaf vitleysisgangur að fara út að borða með vinum. Það er vitleysisgangur að gera það oft og fara offari í vali á stöðum.

Ég er snillingur í því að hirða húsgögn sem fólk er að losa sig við. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki sé allt í stíl, mér finnst það eiginlega frekar galli. Þegar ég flutti til Íslands 1995, allslaus, tók það mig líklega um 3 vikur að verða mér úti um allt sem ég þurfti og meira til. Ýmislegt af því sem ég bjargaði úr geymslum vina og fjölskyldu fylgir mér enn.

Ég hef ekki snefil af áhuga á skartgripum eða merkjavöru, það nálgast snobb hvað mér finnst „fínu merkin“ vera lummó fyrirbrigði.

Ég á alltaf fyrir því sem ég kaupi, eða svo til alltaf, ég lendi stundum í því að þurfa að eyða fyrirfram af launum fyrir þýðingar eða annað því það getur tekið langan tíma að fá greitt. Við hysjuðum okkur yfir núllpunktinn einhvern tímann um 2002 að mig minnir, það var líka svona meðvituð ákvörðun, við vorum orðin leið á því að greiða endalausa vexti af yfirdrætti sem var í raun ekki neitt neitt, a.m.k. veit ég það núna, við vorum lafandi í kringum núllið, bara alltaf rétt fyrir neðan það. Nú löfum við í kringum núllið, bara rétt fyrir ofan það. Lífið er mun betra þannig.

Ég er vitanlega dekurdúlla, því ég fékk afborgun upp í fyrstu íbúðina mína gefins og maðurinn minn fékk sína fyrstu íbúð líka að gjöf frá foreldrum sínum. Okkur tókst að selja þessar örlitlu íbúðir og eiga fyrir okkar ágætu 70 m2 í úthverfi. Það var ekkert gaman að þurfa að fara úr miðborginni, en við sjáum ekki eftir því, peningaöryggi og skuldleysi er meira virði en góð staðsetning. Og aukaherbergið verður bara að bíða betri tíma.

Ég veit að ég er á vissan hátt heppin með að vera nægjusöm, ég skil alveg vinkonur mínar sem fá í hnén yfir fínum töskum og úrum og þær mega alveg eyða í slíkt mín vegna.

Mér finnst peningar afskaplega leiðinlegt fyrirbrigði og það fer í taugarnar á mér hvernig við erum sífellt tilneydd til að hugsa út frá þeim.
Ég skil hvorki fólk sem hefur allt en þykist samt vera fátækt, né fólk sem eyðir sífellt um efni fram og sífrar svo yfir peningaleysi.

Þetta er í raun síðbúið svar við spurningu sem kom fram hér neðar í athugasemdum frá GIG, vini mínum:
??? A) “…brjáluð fjölskylda dælir risagjöfum”
??? B)”…skíthrædd um að við breytumst í sísparandi Dani”
Hvernig má gera Dömunni til hæfis?

Mér leiðist ógurlega fólk sem er síteljandi og spáir of mikið í hvað það á og hvað það mun eiga og verst af öllu þykir mér fólk sem Á PENING en reynir samt að lifa sníkjulífi og það var í raun þannig fólk sem ég átti við með hinni fordómafullu yfirlýsingu um „sísparandi Dani“. Ég meinti vitanlega blessaða nískupúkana. Það er einmitt einn helsti kostur Íslendinga, að þeir verða seint ALMENNT sakaðir um nísku.

Ég er að fara að borða. Það er salat í kvöld, með kartöflum, skinku, eggjum og fleira góðgæti. Kranavatn með.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha