ég og peningar

Haustið 1999 fórum við maðurinn minn að búa saman í Montpellier. Ég var á námslánum þann vetur og hann ákvað að skrifa bók sem hann hafði gengið með í maganum um nokkurt skeið. Við ákváðum að reyna að lifa á námslánunum, ásamt smá styrk frá foreldrum hans. Við settumst niður og ræddum ýmsan mögulegan niðurskurð á lífsvenjum okkar.
Aðalmálið var: ekki kaupa geisladiska, ekki kaupa bækur.
Ég hélt að það yrði erfitt að hætta að kaupa geisladiska og bækur en það var svo auðvelt að þó að betur hafi árað hjá okkur síðan þennan vetur í Montpellier, hef ég haldið þessu, með undantekningum því ég kaupi mér stundum bækur. Sjaldan skáldsögur, við förum á bókasafnið eða fáum lánað hjá vinum, en ég kaupi bækur um París og Frakkland og vitanlega skólabækur.

Ég nota mjög lítið af snyrtivörum svo ekki þurfti að skera það niður, ég kaupi mér ódýr föt og frekar sjaldan en hins vegar geng ég oftast í frekar dýrum skóm og get ekki breytt því, ég verð að vera í mjúkum og fótlaga skóm, og þeir eiga líka að vera fallegir. Þeir mega samt alveg verða gamlir og snjáðir. Ég get farið aftur og aftur út í sömu fötunum og læt athugasemdir vinkvenna minna um það sem vind um eyrun þjóta.

Ég gef yfirleitt ódýrar gjafir og ætlast til þess að fá ódýrar gjafir sjálf, ég þoli illa peningaaustur í vitleysisgang. Við borðum hins vegar vel, stundum ódýrt en stundum líka svolítið dýrari mat með góðum vínum. Mér finnst það ekki alltaf vitleysisgangur að fara út að borða með vinum. Það er vitleysisgangur að gera það oft og fara offari í vali á stöðum.

Ég er snillingur í því að hirða húsgögn sem fólk er að losa sig við. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki sé allt í stíl, mér finnst það eiginlega frekar galli. Þegar ég flutti til Íslands 1995, allslaus, tók það mig líklega um 3 vikur að verða mér úti um allt sem ég þurfti og meira til. Ýmislegt af því sem ég bjargaði úr geymslum vina og fjölskyldu fylgir mér enn.

Ég hef ekki snefil af áhuga á skartgripum eða merkjavöru, það nálgast snobb hvað mér finnst „fínu merkin“ vera lummó fyrirbrigði.

Ég á alltaf fyrir því sem ég kaupi, eða svo til alltaf, ég lendi stundum í því að þurfa að eyða fyrirfram af launum fyrir þýðingar eða annað því það getur tekið langan tíma að fá greitt. Við hysjuðum okkur yfir núllpunktinn einhvern tímann um 2002 að mig minnir, það var líka svona meðvituð ákvörðun, við vorum orðin leið á því að greiða endalausa vexti af yfirdrætti sem var í raun ekki neitt neitt, a.m.k. veit ég það núna, við vorum lafandi í kringum núllið, bara alltaf rétt fyrir neðan það. Nú löfum við í kringum núllið, bara rétt fyrir ofan það. Lífið er mun betra þannig.

Ég er vitanlega dekurdúlla, því ég fékk afborgun upp í fyrstu íbúðina mína gefins og maðurinn minn fékk sína fyrstu íbúð líka að gjöf frá foreldrum sínum. Okkur tókst að selja þessar örlitlu íbúðir og eiga fyrir okkar ágætu 70 m2 í úthverfi. Það var ekkert gaman að þurfa að fara úr miðborginni, en við sjáum ekki eftir því, peningaöryggi og skuldleysi er meira virði en góð staðsetning. Og aukaherbergið verður bara að bíða betri tíma.

Ég veit að ég er á vissan hátt heppin með að vera nægjusöm, ég skil alveg vinkonur mínar sem fá í hnén yfir fínum töskum og úrum og þær mega alveg eyða í slíkt mín vegna.

Mér finnst peningar afskaplega leiðinlegt fyrirbrigði og það fer í taugarnar á mér hvernig við erum sífellt tilneydd til að hugsa út frá þeim.
Ég skil hvorki fólk sem hefur allt en þykist samt vera fátækt, né fólk sem eyðir sífellt um efni fram og sífrar svo yfir peningaleysi.

Þetta er í raun síðbúið svar við spurningu sem kom fram hér neðar í athugasemdum frá GIG, vini mínum:
??? A) “…brjáluð fjölskylda dælir risagjöfum”
??? B)”…skíthrædd um að við breytumst í sísparandi Dani”
Hvernig má gera Dömunni til hæfis?

Mér leiðist ógurlega fólk sem er síteljandi og spáir of mikið í hvað það á og hvað það mun eiga og verst af öllu þykir mér fólk sem Á PENING en reynir samt að lifa sníkjulífi og það var í raun þannig fólk sem ég átti við með hinni fordómafullu yfirlýsingu um „sísparandi Dani“. Ég meinti vitanlega blessaða nískupúkana. Það er einmitt einn helsti kostur Íslendinga, að þeir verða seint ALMENNT sakaðir um nísku.

Ég er að fara að borða. Það er salat í kvöld, með kartöflum, skinku, eggjum og fleira góðgæti. Kranavatn með.

Lifið í friði.

11 Responses to “ég og peningar”


 1. 1 Eyja 24 Nóv, 2008 kl. 12:41 f.h.

  Ég kannast við þessa fordóma gagnvart merkjavörunni. M.a.s. hef ég átt það til að fjarlægja merkimiðana af hlutum/fatnaði sem ég hef eignast ef mér hefur þótt merkið of „fínt“. Ég hef þá eignast slíkt á einhverjum útsölumörkuðum eða flóamörkuðum (ekkert er jafn fjarri mér og að fara að kaupa eitthvert merkjadót fullu verði) en hef ekki mátt til þess hugsa að einhver héldi um mig að ég væri svo mikill kjáni að ég borgaði margfalt aukalega fyrir einhver merki. Þetta lærði ég af móður minni.

 2. 2 Valur 24 Nóv, 2008 kl. 1:40 f.h.

  Við eru ekki það sem við eigum ..og það sem við eigum er ekki ,,við,, .. heldur eru bara nauðsynlegir hlutir er við þörfnust til daglegra nota. Eða líkt og sagt er af nægjusemi um líf og hluti. Taktu það sem þú þarft og annað ekki.

 3. 3 Eyja 24 Nóv, 2008 kl. 2:01 f.h.

  Ég fór að hugsa meira um þetta með nískuna. Snýst ekki málið um muninn á nísku og sparsemi? Nískupúkinn er sá sem vill aldrei eyða neinu í aðra en splæsir í ýmislegt fyrir sjálfan sig. Sá sparsami gerir ekki sama greinarmun á sjálfum sér og öðrum.

 4. 4 parisardaman 24 Nóv, 2008 kl. 8:03 f.h.

  Ég þekki nískupúka sem eyða ekki einu sinni í sjálfa sig, ömurlegt hlutskipti að kunna ekki að lifa.
  Einhvern tímann skrifaði ég um muninn á sparsemi og nísku, minnir mig. En það er stór munur þarna á og þegar ég talaði um „sísparandi“ var það undir rós, skiljiði?

 5. 5 parisardaman 24 Nóv, 2008 kl. 8:11 f.h.

  Hér er það sem ég reit þá: https://parisardaman.wordpress.com/2004/08/05/er-ojbara-a%C3%B0-spara/
  Fyndið að ég tala bara um geisladiskana, hef líklegast dæmt bækur ógildar í upptalningunni, örugglega nýbúin að kaupa mér bók.

 6. 6 AP 24 Nóv, 2008 kl. 11:57 f.h.

  Allt eins og talað útúr mínu hjarta! Prinsinn á sér góðar fyrirmyndir 😉
  Sjampó má nota aðeins sjaldnar en annan hvern dag! Gel! – hvað er það on’á brauð?

 7. 7 baun 24 Nóv, 2008 kl. 2:57 e.h.

  já, ég skil nísku sem óhóflega sparsemi (meiri en „þarf“), líka gagnvart sjálfum sér.

 8. 8 anna 24 Nóv, 2008 kl. 5:48 e.h.

  Mér sýnist þú hafa frekar heilbrigða afstöðu til peninga. Ég geng ekki í merkjavöru alla jafna, er oftast í gallabuxum og bol og telst sennilega hálf hallærisleg af mörgum, en eitt af því sem mér fannst æðislegt við að hætta að vinna í banka var að fara geta klætt mig „eðlilega“ aftur.

  Ég eyði í tölvur, þ.e. heimatölvuna mína. Skiptir mig miklu máli að eiga góðar græjur, ég eyði í bíl því ég er með bíladellu og ég eyði í skó, en ekki oft því skórnir sem ég kaupi eru vandaðir.

  Gerði svolítið af því að kaupa dvd þegar krónan var sem sterkust en er ekki búin að gera það í langan tíma núna og sakna þess ekkert.

  Ég fæ enga ánægju útúr því að gera hluti sem ég hef ekki efni á að gera eins og t.d. fara til útlanda eða annað í þeim dúr. Hef einu sinni gert það þegar ég var sennilega 24 ára og geri það ekki aftur.

  Níska fer í taugarnar á mér. Verulega. Sérstaklega svona afætur sem eiga nóg af peningum en reyna að komast hjá því að borga.

 9. 9 parisardaman 24 Nóv, 2008 kl. 7:38 e.h.

  Já, ég var einmitt að horfa á tölvurnar tvær (MacBook), myndavélarnar tvær, prentarann, vídeóvélina, usb-lyklana… Hins vegar eigum við aldagamalt sjónvarpstæki sem þarf stundum að beita ofbeldi til að fá mynd á það og græjurnar eru samansafn af hirtum tækjum. DVD-spilarinn er no name frá Kóreu.

 10. 10 kristín 26 Nóv, 2008 kl. 4:35 e.h.

  Ég er alin upp af svona nískupúka, við að nýta hluti og henda engu ef það er ekki gjörsamlega ónýtt. Sem stangast aftur á móti algjörlega við viðhorf hins uppalandans til lífsins…annar vill engu henda og ekkert kaupa nýtt, hinn vill öllu henda og allt kaupa nýtt…

  Góðir punktar í þessari færslu. Alveg sammála með að kaupa ekki hluti út á krít, alveg nóg að vera með húsnæðislánin á bakinu, þó að alls konar fjáraustur fari ekki að bætast ofan á. Við tökum ekki nýtískuhúsgögnin og allt það með okkur í gröfina.

 11. 11 Kristín í París 26 Nóv, 2008 kl. 5:03 e.h.

  Safnarar eru reyndar annar flokkur og ekki alltaf nískir. Þekki t.d. safnara sem hendir aldrei neinu en eyðir samt alltaf um efni fram. Ég vil fara með æ, þarna eldhússtólinn sem alla dreymir um að eiga og allt of margir eiga, hvað heitir hann aftur? Maurinn? Ég vil fara með svoleiðis í gröfina, he he. Hef það í erfðaskránni og neyði erfingjana til að kaupa svoleiðis ofan í kistuna.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: