Sarpur fyrir nóvember, 2008tár

Ég hef verið skömmuð af vinum mínum fyrir að vera með steinhjarta því ég græt ekki oft í bíó eða á tónleikum. Um tíma var ég sígrenjandi, þegar börnin mín voru að vaxa innan í mér, þá gat ég tárast yfir klósetthreinsiauglýsingum. Það lagaðist aðeins við að koma þeim út, en styttra hefur verið í tárin en áður en ég eignaðist börn.
Þetta er smám saman brá af mér, ég grét t.d. aldrei á tónleikum Hamrahlíðarkórsins þó að hjarta mitt væri bólgið af gleði yfir fegurð hópsins og söngsins.

En hér sit ég nú með ekkasogum eftir þennan lestur.

Ef Ísland er heilbrigt land, mætir enginn til vinnu á morgun. Það er nóg komið. Þessu verður að linna og fáránlegt að bíða næsta laugardags. Þið vitið að þið þurfið ekkert endilega að fórna helgidögum í þjóðþrifamálin, er það ekki?

Lifið í friði.

„þetta var ræða á alþing…

… á mótmælafundi á Austurvelli í dag“, sagði fréttamaðurinn á RÚV rétt í þessu. Við sem erum að stúdera Lacan (sem studdist við Freud) vitum að svona mismæli segja allt sem segja þarf.

Það er allt að gerast akkúrat núna þó að auðvitað gerist aldrei neitt fyrr en eftir á. Við vitum að kominn er tími fyrir stjórnina að segja af sér. Þetta er líklega bara spurning um daga.

Til hamingju Ísland, til hamingju og takk.

Takk Haukur. Takk öll hin sem takið þátt. Hvernig sem þið farið að, hvort sem þið eruð „friðsamleg“ eða með „skrílslæti“.

Lifið í friði.

mótmælafundur

Það er vitanlega mótmælafundur kl. 15 í dag. Þið mætið. Ég verð með ykkur í anda.

Eru ekki örugglega allir búnir að sjá myndbandið með Geir og Pétri blaðamanni? Ef ekki, er það út um alla vefheima, Elísabet baun bendir t.d. á það í síðustu færslu sinni. Ótrúlega vel leikið hjá þeim herramönnum. Er þetta ekki annnars örugglega brot úr áramótaskaupinu?

Lifið í friði.

svart

Hárið á mér var litað svart í dag. Það er grimmilegra. Og því við hæfi.

Lifið í friði.

öxi

Hárgreiðslukonan mín segir að það sé mun töffaralegra að nota öxi og höggva gulldrengi og aðra dólga í herðar niður en að koma með fallöxi. Þær eru víst ekki hannaðar fyrir íslenskt rok.
Bretónska hárgreiðslukonan sem vinnur hjá henni segist heldur betur tilbúin að koma og aðstoða mig. Við sáum fyrir okkur her af konum í öllum litum og öllum stærðum, með stórar og flottar axir á heimasmíðuðum sköftum.
Hárgreiðslukonan mín er kynblendingur og á stóra fjölskyldu í Eþíópíu. Hún veit nákvæmlega hvað það táknar að lifa í óvissu, að vera ekki viss um að eiga fyrir mat á morgun eða hinn. Hún óskar íslensku þjóðinni alls hins besta og er ekki í nokkrum vafa um að bylting muni brjótast út. Engin heilvita manneskja láti svona ósvífni og hroka yfir sig ganga orðalaust. Hárgreiðslukonan mín hefur aldrei komið til Íslands.

Lifið í friði.

af rúmum, rými og drukknun

Það var indælt að sofa í eigin rúmi aftur í nótt. Í 10 daga höfum við hjónin sofið á dýnu inni í fjölnota rýminu okkar sem gengur undir nöfnum eins og skrifstofa, borðstofa, lager og pökkun…
En í morgun fékk ég sting í magann yfir því að sitja ekki með mömmu og pabba að drekka kaffi. Og ég fékk töluvert dýpri sting þegar sonur minn dró mig inn í herbergi til að sýna mér afmælisgjafirnar sem hann fékk í boði brjáluðu tengdafjölskyldu minnar á sunnudaginn var. Ég hafði einmitt fundið daginn áður að mér fannst ég ekkert hafa séð börnin mín um helgina. Ég mætti þó í þetta fjölskylduboð, en börnin voru allan tímann inni í leikherbergi – nema rétt meðan Kári var látinn taka upp allar þessar risagjafir sem dælt var í hann, neyslubremsan er greinilega ekki orðin virk hjá la famille Genevois.

Kórinn sem ég er að passa í staðinn fyrir börnin mín er yndislegur. Að hluta eru þau enn unglingar og unglingar eru vitanlega unglingar, annars væri nú lítið varið í þá og lífið. En ég horfi á þau og vona innilega að mín börn vaxi upp til að verða eitthvað í líkingu við þessa krakka. Þau eru svo brosmild og kurteis og falleg að það hálfa væri nóg. Þegar þau syngja bólgnar hjartað á mér út og tár reyna að troðast fram, ég hef þó náð að halda í mér hingað til.

Ég er búin að komast að því á þessum dögum með þeim að mig LANGAR TIL AÐ ÍSLAND VERÐI ÁFRAM TIL. Ég er skíthrædd um að verið sé að drekkja þjóðinni, að okkar skemmtilega bilun verði nú bæld niður og annað hvort breytumst við í sísparandi Dani (með allri virðingu bæði fyrir Dönum og sparnaðarlífi) eða við bara hverfum, dreifumst um heiminn og týnum hvert öðru.
Mig langar til að eiga þessa „fjölskyldu“ áfram. Ég get ekki almennilega komið orðum að því sem ég er að reyna að segja. Mér finnst nefninlega svo viðbjóðslega leiðinlegt að vera væmin og svo er ég hrædd um að þessu verði tekið sem þjóðrembingur. Ég get ekki lýst þessum streng sem ég hef alltaf haft í hjarta mér og er beintengdur við svo til alla Íslendinga (undanskiljið strax nokkra margnefnda á síðustu vikum), einhvers konar systkinakærleikur sem hefur alltaf verið eitt af trompum íslensku þjóðarinnar. Ég vil ekki að íslenska þjóðin fuðri upp í fokking markaðsbáli.

Hvað er til ráða? Hvað gerist? Er eitthvað ákveðið hægt að gera sjálfur og einn? Þarf almenna samstöðu? Ætla ráðamenn ekki að stíga niður af hrokastól sínum, sýna það fordæmi að taka ábyrgð, sýna þá hógværð að stíga til hliðar? Eða er það rétt hugsað hjá þeim að enginn geti bjargað okkur nema þau hin sömu og kaffærðu okkur? En bjarga okkur hvernig? Með því að gangast áfram undir lög markaðarins? Hvað er að gerast? Er allt að gerast? Eða ekkert?

Hjálpaðu mér upp, ég ÆTLA EKKI AÐ DRUKKNA.

Lifið í friði.

HÚSIÐ – Ljósbrot frá Ísafirði

Harpa Jónsdóttir er ein af mínum elstu bloggvinkonum. Hún er mikil listakona, virðist hafa fleiri klukkustundir í sólarhringnum en við hin og töfrar fram undraverk með prjónum og nálum, tekur fallegar ljósmyndir, jafnt af landslagi sem og af fólki og í þokkabót skapar hún bæði ljóð og prósa. Hún hlaut barnabókarverðlaun fyrir Ferðina til Samíraka og nú var hún að gefa út, hjá Vestfirska forlaginu, fullorðinsbókina Húsið – Ljósbrot frá Ísafirði.

er hún ekki falleg?

er hún ekki falleg?

Ég hef ekki enn séð bókina nema á þessari mynd. Hún er nýkomin úr íslenskri prentsmiðju og í bókabúðirnar en leiðbeinandi verð er í anda kreppunnar eða 900 krónur (já, þú last rétt, níuhundruð krónur).
Þessi bók er tilvalin í jólapakka allra þeirra sem hafa komið til Vestfjarða sem og þeirra sem vita ekki einu sinni hvar á landinu þeir eru.

Lifið í friði.

handfarangur

Ég spyr mig hvort fallöxi komist í gegnum hliðið. Hvað haldið þið?

Lifið í friði.

bara eitt

Mér finnst setningin hér að neðan sem inniheldur „lítið næði til skrifta“ einhvern veginn óborganlega uppskrúfuð. En ég nenni ekki að breyta, enda ekkert næði enn.
Vinna framundan, tónleikar og skemmtilegheit. Gaman gaman.
Hins vegar er Parísardaman komin með smá hnút í magann varðandi vorið, hef á tilfinningunni að fátt verði um fína drætti þá, en hvernig ætti ég svo sem að geta vitað eitthvað um það. Allir sem gætu hugsanlega vitað, hafa a.m.k. betri yfirsýn en ég, þrjóskast við að halda kjafti saman.

Lifið í friði.

lífsmark

Ég er á lífi en þegar maður er með heimsóknir frá Íslandi er alltaf minna verið á netinu og lítið næði til skrifta. Ég reyni að fylgja lestrarpensúmi námsins, en jafnvel það hefur riðlast töluvert. Hins vegar risu hér upp í gær þessar líka flottu rennihurðir. Þetta hefur ekki verið alveg sársaukalaust. Eins og ég vissi fyrir er allt skakkt og skælt, undirlagið dúar og hallar, lofthæðin er frá 256 til 259. En hurðirnar eru nú komnar á brautir og eingöngu eftir að ganga frá með listum og körmum.
Ég set inn mynd einhvern tímann, ekki núna. Ég er mjög ánægð með þá ákvörðun að leyfa óreiðunni að ríkja og bíða eftir að fá góða hjálp. Ég veit, eftir vandræðagang síðustu daga, að ég væri komin inn á hæli ef ég hefði byrjað að reyna að gera þetta ein og sjálf. Og líklega börn og kall líka.

Í dag þarf ég svo að skella mér í bakstur, tiltekt og léttþrif því hingað ryðjast nokkur ungmenni inn síðar í dag til að fagna 5 ára afmæli Kára sem er á föstudag. Mig langar viðbjóðslega mikið til að fara bara og kaupa allt klabbið í veisluna, en ég mun þó hafa kreppustílinn á, gera sjálf. Held ég. Líklegast.

Á föstudaginn tek ég á móti risahóp, Hamrahlíðarkórinn er að koma í löngu skipulagt kórferðalag. Ef ekki hefði verið fyrir þau, hefði ég ekkert unnið í nóvember. Ég hlakka til að fá þau, en þetta verða strembnir dagar, mikið um að vera hjá þeim.

Af landsmálum. Ég er orðlaus, magnvana, andvana, máttvana. Ég er orðin þreytt á að vera hissa. Ég er orðin hrædd um að púðurtunnan springi með illilegum látum. Ég sé ekki annað en að það hljóti að gerast, slíkur er hrokinn og yfirgangurinn í toppunum. Ég vona bara innilega að ekki fari of illa, ég myndi helst ekki vilja sjá höfuð á stjökum, en hvað á fólk að gera sem er kallað skríll og fær ekki svör við eðlilegum spurningum sínum.

Svo er verið að hvetja fólk til að mótmæla fyrir utan Sendiráðin í útlöndum 1. desember. Ég er ekki viss um að slíkt hafi nokkuð upp á sig hér, Sendiráðið er í ofvernduðu hverfi þannig að lögregla mætir strax, það er uppi á fimmtu hæð og heyrist ekkert frá götunni og ég sé ekki í anda að margir nenni að mæta. Ég ætla að bræða þetta aðeins með mér.

Lifið í friði.