Það er furðuleg tilfinning að mæta niður í bæ á svona aðgerðir. Ég hef oftast verið þæga stúlkan, alltaf gert mér far um að láta öllum líka vel við mig.
Þó ég gorti stundum af því að hafa áttað mig á því einhvern tímann á lífsleiðinni að það skipti ekki máli þó öllum líki ekki vel við mann, er þessi þörf þó enn sterk í mér. Mér finnst því hálfundarlegt að vera á leið í bæinn til að vera óþekka barnið. Málið er að ég hef alltaf haft mikla og sterka réttlætiskennd og lét oft hvína í mér við kennara eða samnemendur ef mér þótti þau brjóta gegn henni. Og ég er sannarlega fullviss um það að nú sé verið að brjóta á okkur öllum, að ef einhvern tímann var ástæða til að láta í sér heyra, að tjá óánægju sína, er það núna.
Ég fylltist öryggiskennd og gleði þegar ég sá hvað margir voru mættir. Grófleg talning var upp á 65 manns við Iðnó og okkur fjölgaði í Tjarnargötunni. Ég stóð og hrópaði slagorð en þagði þegar ég var ekki sammála orðnotkun (barnaníðingur finnst mér t.d. ekki eiga við, orðið er notað um allt aðra tegund glæps). Ég söng auðlærðar vísurnar með hinum og ég er stolt af því að hafa verið þarna. Stemningin var mjög góð og þarna var fólk á öllum aldri og ekki varð ég vör við að nokkur væri með skrílslæti.
Ég er ekkert sérstaklega ánægð með að stór mynd hafi birst af mér á einum vefmiðlanna, ég ætla mér alls ekki að vera „andlit byltingarinnar“ frekar en nokkurt okkar sem þarna vorum. En ég skammast mín þó ekki og mun mæta eins oft og ég mögulega get í aðgerðirnar, sem munu halda áfram á næstu vikum.
Ég er ekki frá því að þetta muni magnast upp. Og ég er næstum viss um að einhverjir lögreglumannanna sem stóðu vaktina til verndar ríkisstjórninni muni snúast á sveif með aðgerðarsinnum þegar líða tekur á og þegar ljóst er að það eru þeir sem minnst mega sín sem munu greiða hæsta verðið fyrir sukk valdhafa og auðmanna.
Ég er stolt af því að eiga þátt í því að stjórnarmeðlimir þurftu að skríða inn bakdyramegin á sinn vikulega fund. Ég trúi því að það hafi áhrif á þeirra eigin sjálfsmynd og kannski grói smátt og smátt efasemdir í brjósti þeirra, hrokinn og rostinn lækki þá aðeins. Einar Guðfinnsson var náttúrulega bestur þarna á mbl-myndskeiðinu. Hí á hann!
Djöfull er kalt. Ég var ekkert smá vel klædd en var að frjósa eftir klukkustund úti. Hvernig ætli ég verði í sjónum á morgun? Nauthólsvík kl. 12:15 á morgun, miðvikudag.
Austurvöllur kl. 9 í fyrramálið, bankamótmæli. Ég kemst ekki sjálf í það skiptið, en það verður fullt af settlegum konum og körlum eins og í morgun, mætið sem flest. Fjöldinn skiptir langmestu máli, jafnvel að standa bara álengdar og fylgjast með eins og ég gerði t.d. þegar hópurinn fór í að brjóta niður lokun götunnar þegar mótmælunum lauk í morgun. Mér dettur ekki í hug að lenda í slagsmálum, en mér dettur heldur ekki í hug að sitja heima og bíða þess að breytingarnar verði af sjálfu sér.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir