Sarpur fyrir desember, 2008

sjóbað 1. janúar

Það er opið í Nauthólsvík á nýjársdag kl. 11-13. Ég stefni á að mæta.

Ég stefni líka á að mæta á mótmælafund á morgun kl. 13.30.

Svo er ég að upplifa sömu tilfinningu og svo oft áður, svíkjandi alla hægri vinstri hliðar snú. Og allt fólk sem mig langar ferlega mikið til að hitta. Það er að hluta til vegna þess að ég hef hengslast áfram með hálsbólgu og verið með fest boð á hverju einasta kvöldi síðan á annan í jólum. Í dag var stefnan að henda fjölskyldunni í bílinn og fara á nokkra staði en þá er Kári orðinn lasinn, hitavella og almenn vanlíðan. Sjálf er ég örþreytt þó ég hafi sofið í 9 tíma í nótt. Ég set það á reikning lægðarinnar. Kampavín í kvöld og á morgun ætti að duga til að hressa mig við, hvað þá sjóbaðið á fimmtudag.

Þið sem eruð að bíða eftir að fá að hitta mig þurfið eiginlega að pína mig með því að bjóða fram ákveðna daga og tímasetningar, ég er frekar þekkt fyrir að virða stefnumót og standa við fyrirfram ákveðin plön (þó að ég hafi strikað þorláksmessuboð Nönnu glæsilega úr huga mér) um leið og ég virðist óhæf til að taka af skarið þessa dagana.

Lifið í friði.

Austurvöllur kl. 15

Ég verð þar, nálægt Jóni Sig.

Lifið í friði.

rrrrrrrrrrr

Ég er malandi köttur og ligg á meltunni.

Ég á góð börn og þæga tengdamömmu sem sættir sig við að liggja hér uppi í sófa með mér og glápa út í loftið og dotta við og við.

Ég er heppin.

Ég fékk fullt af góðum pökkum, en börnin eru sannfærð um að það hafi verið miklu minna af gjöfum þetta árið en í fyrra. Það er ágætt, ég birti kannski mynd af hrúgunni sem safnaðist undir tréð, hún var óhugnaleg og ég fékk illt í litla byltingarmanninn í brjósti mínu. En við vorum reyndar ansi mörg og sumir pakkanna voru svona kreppupakkar sem reyndust minni þegar búið var að fletta ofan af þeim, dálítið eins og íslenskir bankar, nema að það var samt eitthvað sem gladdi, ekki hít sem vekur hrylling.

Ég drakk kampavín í gær og ég ætla að gera það aftur fljótlega. Helvítis verð er á þessum dásemdardrykk hérna. Annars myndi ég ráðleggja öllum að drekka þetta í hverri viku.

Lifið í friði.

kartöflusagan

Drengurinn þurfti vitanlega að fá kartöflu í skóinn fyrir að hafa verið að hoppa í rúminu og enda með galopið enni sem í þurfti að sauma saman með hvorki meira né minna en 5 sporum. Ég var búin að segja honum hundrað sinnum að hoppa ekki í rúminu, það væri hættulegt. Óþekkt skal aldrei launa með gjöfum og foreldrar eiga að nota hvert tækifæri til að kenna börnum sínum lexíu(r?).
Þar sem á þessu skítalandi er aldrei gert ráð fyrir einhleypu fólki og öðrum eymingjum, er ekki hægt að kaupa kartöflur nema í margra kílóa pokum. Brugðum við því á það ráð að nýta okkur tvöfaldan uppruna barnsins, komum við á McDonalds (MacDonalds?) og keyptum lítinn skammt af frönskum kartöflum.
Hann fékk svo að strá þessum köldu og linu, illa steiktu fyrrverandi frosnu kartöflumjölsstöngum út á hafragrautinn um morguninn. Og lærði enga lexíu, því honum fannst afar lítið varið í plastjólakallinn sem systir hans fékk.

Þetta er helber lygi, eins og svo margt annað sem kemur fram hér. Ég blanda óhikað saman sannleika og lygi þegar mér sýnist svo. Mér finnst eins og þið eigið að geta greint á milli en hef stundum komist að því að það kemst ekki alltaf til skila. Ég læt það ekki á mig fá, enda eru lygasögurnar yfirleitt háð gegn sjálfri mér, eins og t.d. þessi litla lygasaga hér að ofan. Og ef það er háð gegn einhverjum öðrum, passa ég upp á að það sé gegn einhverjum sem ekki getur varið sig, svo ég eigi ekki á hættu að lenda í málaferlum (og aftur byrja ég…).

Ég óska öllum lesendum, leyndum og ljósum,

gleðilegrar hátíðar ljóssins,

hvort sem það er heiðið eða kristið.

Megi friður og ró einkenna næstu daga. Ég ætla þó sjálf að næra í byltingarlöngunina í brjósti mér og treysti því að nógu margir geri það sama.

Lifið í friði.

jóla hvað?

ekkert jólalegt veður

ekkert jólalegt að fara upp á slysó í gærkvöld með dreng með opið enni

ekkert jólalegt við að eiga eftir að kaupa næstum allar gjafirnar, hvað var ég að hugsa með þetta „evrurnar heim“ átak?

En það er jólalegt að liggja og kúra öll fjölskyldan saman á ný. Það er jólalegt að hafa m.a.s. mömmu og pabba nálægt líka. Og systkinin og alla hina.

Það er jólalegt að hafa borðað skötu um daginn.

Það er jólalegt að hugsa til þess að á morgun klukkan sex munu blessaðar bjöllurnar hringja, hvort sem við verðum „búin að öllu“ eða ekki.

Ég ætla að reyna að komast í friðargöngu kl. 18 og í boð til Nönnu í fyrsta sinn og svo er áætlað að vera í Alþjóðahúsinu kl. hálfellefu, ellefu ásamt fleiri Parísarbúum.

En ég lofa þó engu, hef ekki staðið við nema brot af því sem ég áætlaði þessa síðustu daga.

Og ég er með hálsbólgu.

Ekki misskilja mig, ég er á einhvern undarlegan hátt samt í rokna góðu skapi. Ég er jólabarn og fíla þetta allt.

Lifið í friði.

krúttkast

Þátturinn: Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?
Barnið: Mig langar að verða gjaldeyrisafleiðuvíxlari eins og pabbi.

Lifið í friði.

frímann

Ég kann nú alveg ágætlega við hann Frímann.

Lifið í friði.

Súfistinn föstudag kl. 17

Ég er búin að taka þá drastísku ákvörðun að vera á Súfistanum kl. 17 á föstudag. Þau ykkar sem lesið þessa síðu og eruð stödd í Reykjavík og hafið möguleika á að koma eruð hér með boðin velkomin. Þeim sem hafa engan áhuga er fyrirgefið.

Sjóbað er ótrúlega magnað fyrirbrigði. Ég tók fokking tvö sundtök í sjó sem mér var tjáð að væri 0,6 gráðu „heitur“. Ég fór að ráðum Hjálmars og fór tvisvar ofan í. Fyrst beint úr búningsklefanum og svo eftir upphitun í heita pottinum. Nauthólsvík er „the place to be“ þarna var múgur og margmenni. Ég stefni á að mæta á mánudagskvöld en það gæti orðið snúið því ég sæki eiginmanninn og tengdamóður mína á flugvöllinn um kl. 16. Ég verð að sjá til.

Hitti bloggvin í kaffi í morgun, indælt alveg hreint og gaman að hafa nú andlit á skrifum hans. Hann gaf mér fallega bók með myndum og ljóðum.

Langar ekki í próf, langar ekki í próf, langar ekki í próf. Mér finnst ég ótrúlega heimsk og sein að lesa og tóm. Ég er með höfuðverk og fæ sjóntruflanir. Sem betur fer á ég pantaðan nuddtíma á morgun. Og sem betur fer er prófið á föstudaginn en ekki til dæmis mánudaginn. Þetta er eins og með tannlæknaferðir, illu er best aflokið.

Mikið er ég ánægð með þessa snjókomu. Ég tryllist ef snjórinn fer fyrir jólin og mun draga yfirvöld og bankastjóra persónulega til ábyrgðar fyrir það.

Lifið í friði.

teyg

Ég teygist og togast á milli þess að vilja (og þurfa að) ná prófinu mínu á föstudaginn og löngunar til að taka þátt í aðgerðum sem eiga að vekja sofandi þjóðina og hrekja hrokafulla valdhafa af stalli sínum.
Til þess að ná prófi þarf ég að ná að lesa almennilega yfir nokkrar greinar, klára nokkra hálflesna kafla í bókinni og fara vel yfir glósurnar mínar á þessum tveimur dögum sem ég hef. Síðast en ekki síst, þarf ég að SKILJA þetta allt saman og geta skrifað um það. Ég les um vald og orðræðu, um kenndir og dulvitund, sjálfveru og afneitun og ég er týnd.
Mig langar í raun mun meira til að vera á fundum með fólki sem trúir því að það geti breytt einhverju, bylt núverandi ástandi á friðsamlegan hátt. Mig langar á fundi á kvöldin og í hádeginu og mig langar að vera í aðgerðunum á morgnana. En þá mun prófið líða án þess að ég hafi lokið því og þá er önnin ónýt og þá er ég í vanda stödd með framhaldið.

Ég heyri svo margar hrikalegar sögur af fólki en samt keppast flestir við að benda á það jákvæða og ekki hef ég hitt marga sem hafa farið og mótmælt. Ekki einu sinni vinir mínir sem vakna með kvíðahnút í maganum og hugsa um frysta lánið sem þiðnar eftir tvo mánuði. Það finnst mér svo ótrúlega erfitt að eiga við. Ég get ekki fyrirlitið vini mína og ættingja en mig langar svo að þau skilji að það skiptir svo miklu máli að sýna samstöðu, að koma og ræða málin við þau hin sem vilja breyta og bæta. En sumt fólk virðist dofið yfir sjónvarpinu, bíðandi eftir næstu kosningum.

Ég vona að það verði fleiri í dag en í gær í morgunaðgerðinni. Ég vona að fleiri og fleiri bætist í hópinn á hverjum degi. En ég er hrædd við þessa sneyptu þjóð og lydduskap hennar.

Lifið í friði.

þriðjudagsmorgunn í Tjarnargötu

Það er furðuleg tilfinning að mæta niður í bæ á svona aðgerðir. Ég hef oftast verið þæga stúlkan, alltaf gert mér far um að láta öllum líka vel við mig.
Þó ég gorti stundum af því að hafa áttað mig á því einhvern tímann á lífsleiðinni að það skipti ekki máli þó öllum líki ekki vel við mann, er þessi þörf þó enn sterk í mér. Mér finnst því hálfundarlegt að vera á leið í bæinn til að vera óþekka barnið. Málið er að ég hef alltaf haft mikla og sterka réttlætiskennd og lét oft hvína í mér við kennara eða samnemendur ef mér þótti þau brjóta gegn henni. Og ég er sannarlega fullviss um það að nú sé verið að brjóta á okkur öllum, að ef einhvern tímann var ástæða til að láta í sér heyra, að tjá óánægju sína, er það núna.
Ég fylltist öryggiskennd og gleði þegar ég sá hvað margir voru mættir. Grófleg talning var upp á 65 manns við Iðnó og okkur fjölgaði í Tjarnargötunni. Ég stóð og hrópaði slagorð en þagði þegar ég var ekki sammála orðnotkun (barnaníðingur finnst mér t.d. ekki eiga við, orðið er notað um allt aðra tegund glæps). Ég söng auðlærðar vísurnar með hinum og ég er stolt af því að hafa verið þarna. Stemningin var mjög góð og þarna var fólk á öllum aldri og ekki varð ég vör við að nokkur væri með skrílslæti.

Ég er ekkert sérstaklega ánægð með að stór mynd hafi birst af mér á einum vefmiðlanna, ég ætla mér alls ekki að vera „andlit byltingarinnar“ frekar en nokkurt okkar sem þarna vorum. En ég skammast mín þó ekki og mun mæta eins oft og ég mögulega get í aðgerðirnar, sem munu halda áfram á næstu vikum.

Ég er ekki frá því að þetta muni magnast upp. Og ég er næstum viss um að einhverjir lögreglumannanna sem stóðu vaktina til verndar ríkisstjórninni muni snúast á sveif með aðgerðarsinnum þegar líða tekur á og þegar ljóst er að það eru þeir sem minnst mega sín sem munu greiða hæsta verðið fyrir sukk valdhafa og auðmanna.

Ég er stolt af því að eiga þátt í því að stjórnarmeðlimir þurftu að skríða inn bakdyramegin á sinn vikulega fund. Ég trúi því að það hafi áhrif á þeirra eigin sjálfsmynd og kannski grói smátt og smátt efasemdir í brjósti þeirra, hrokinn og rostinn lækki þá aðeins. Einar Guðfinnsson var náttúrulega bestur þarna á mbl-myndskeiðinu. Hí á hann!

Djöfull er kalt. Ég var ekkert smá vel klædd en var að frjósa eftir klukkustund úti. Hvernig ætli ég verði í sjónum á morgun? Nauthólsvík kl. 12:15 á morgun, miðvikudag.

Austurvöllur kl. 9 í fyrramálið, bankamótmæli. Ég kemst ekki sjálf í það skiptið, en það verður fullt af settlegum konum og körlum eins og í morgun, mætið sem flest. Fjöldinn skiptir langmestu máli, jafnvel að standa bara álengdar og fylgjast með eins og ég gerði t.d. þegar hópurinn fór í að brjóta niður lokun götunnar þegar mótmælunum lauk í morgun. Mér dettur ekki í hug að lenda í slagsmálum, en mér dettur heldur ekki í hug að sitja heima og bíða þess að breytingarnar verði af sjálfu sér.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha