Sarpur fyrir janúar, 2009

íslenskt bygg

Sólin skín á bláum himni og blankalogn ríkir þó kuldinn sé bæði napur og rakur. En ég get ekki notið veðursins heldur stend kófsveitt í minni ofhituðu sólríku íbúð og baka og raka saman dóti og undirbý afmælisveislu frumburðarins. Sjö ára á þriðjudag og ætlaði að halda sitt fyrsta almennilega stelpuafmæli í dag. Engir strákar, engin lítil börn, bara sjö ára stelpur í stóla- og myndastyttuleik og að mála. En þar sem tvær hafa afboðað komu sína þar sem hálft landið liggur í pest (svo til allir nema við, eins og vanalega) hefur litlu tvíburunum verið hleypt í boðið og litli bróðir fer ekki í bíó með pabba eins og áætlað var.
Það breytir þó engu um að ég stend sveitt og baka og raka saman dóti. Hvernig fer maður að því að eiga svona mikið dót? Hverni fer maður að því að ganga ekki jafnt og þétt frá þessu dóti heldur lætur það hlaðast upp í litlar óreglulegar hrúgur víðs vegar um íbúðina, eða á ég að segja rýmið? Er það fjallaþrá?

Farin að þeyta rjóma. Franskir krakkar borða ekki rjóma, en mamman ætlar sko að fá rjóma meðþessari girnilegu köku sem er einmitt núna í ofninum. Uppskriftinni þurfti að breyta örlítið, ég þorði ekki að setja valhnetur barnanna vegna, átti ekki pekan og ætlaði að setja kókosmjöl. Það sem ég taldi vera kókosmjöl reyndist vera möndlupúður.
Ég vil að lokum taka það fram að ég baka ekki úr íslensku byggi. Ég baka ekki úr íslensku byggi.

Lifið í friði.

Austurvöllur í dag kl. 15

Vitanlega.

Lifið í friði.

kvennakvöld í París

Laugardaginn 7. febrúar verður kvennakvöld í París. Allar nánari upplýsingar fást með tölvupósti eða símtali til mín. Sjá þær upplýsingar á www.parisardaman.com.

Lifið í friði.

03:58

stóð á klukkunni þegar ég reis úr rekkju. Þetta er ekki einleikið. Ætli ég þurfi að fá særingarmann? Er ég haldin illum anda?

Það er nóg af fréttum til að blogga um, verði ykkur að góðu.

Lifið í friði.

stressið læðist aftan að manni á nóttunni

Mig dreymir lögregluþjóna eða börn lögregluþjóna sem valda mér vandræðum, spítala með til heyrandi ógeði, ég kem mér í flóknar aðstæður þar sem ég þarf að hafa ofan af fyrir hóp af ókunnugum börnum, kenna unglingum að stökkva fram af kletti út í úfinn sjó og fleira skemmtilegt. Ég vakna oft um kl. 4 og stundum tekur það mig rúma klukkustund að sofna aftur.

Stressið hefur þó aðeins lagast eftir að ég færði skólabækurnar af náttborðinu og nú úða ég í mig reyfara eftir Ævar Örn Jósepsson sem ég var vitanlega búin að lesa fyrir löngu en virkar alveg jafnvel í 2. lestri, Sá yðar sem syndlaus er.
Ég er dauðhrædd um að vera að taka of stórt upp í mig í náminu, en ég þori samt ekki að bakka með neitt.

Í dag hló ég áreiðanlega í 5 mínútur alein á bekk í garðinum að tilhugsuninni um eina fyndnustu athugasemd sem ég hef á ævinni séð. Einhver talaði um að hann tæki hattinn af Herði fyrir allt það góða starf sem hann hefur unnið.

Lifið í friði.

Ísland úr Nató, búmm búmm búmm

Þó að ekki þurfi lengur að biðja um að herinn hypji sig, er Ísland enn meðlimur í hernaðarsamtökum. Ég býst fastlega við því að í nýrri stjórnarskrá nýs lýðveldis verði ákvæði um algert hlutleysi Íslands og algerri og óafturkallanlegri afneitun á stríði sem „lausn“ í milliríkjasamskiptum.
Ég vona líka að neistinn sé ekki slokknaður, að ekki sé stefnt á sjónvarpsgláp í kvöld. Það er um að gera að mæta og láta í sér heyra fyrir utan móttökuna sem haldin verður fyrir gesti Nató-ráðstefnunnar í kvöld. Aðgerða- og friðarsinnar leita nýrrar staðsetningar kokkteilboðsins og verður látið vita á ýmsum stöðum, t.d. á friður.is.

Lifið í friði.

búsáhaldabyltingin á útlensku

Maðurinn minn rakst á ensku þýðinguna „the household revolution“ og fannst lítið til koma. Á frönsku hefur það verið tekið upp sem „la revolution des ménagères“ sem þýðir hreinlega húsmæðrabyltingin. Það finnst mér ómögulegt og ég stakk upp á „la revolution des casseroles“ sem gæti þá yfirþýst sem kastarholubyltingin eða pottabyltingin. Mér finnst það mun betra.
Þar að auki er til í frönsku hugtakið passer à la casserolle sem þýðir að ganga í gegnum eitthvað erfitt. Við (þjóðin, skríllinn, húsmæður, heimilisfeður eða útivinnandi) settum sem sagt ríkisstjórnina í pottinn à la française! og hún þoldi það ekki.

Ég leita eftir fleiri þýðingum og á sem flestum tungumálum, takk.

Lifið í friði.

Ég skil ekki forsætis- og fjármálatvenndina

Ég skil ekki af hverju fjármálaráðuneytið er talið næstmikilvægast á eftir forsætisráðuneytinu. Persónulega finnst mér félagsmála- og umhverfismálaráðuneytin mun mikilvægari og mun meira spennandi kostir fyrir Steingrím J. Hefur hann þekkingu og menntun í fjármálin? Reyndar er ég einmitt núna að átta mig á því að ég hef ekki hugmynd um það hvaða menntun Steingrímur J. hefur, en ég sé hann ekki fyrir mér sem hagfræðing. I may be wrong.

Ég er eiginlega að vona að Fjármálaráðherra verði utanaðkomandi vel menntaður og flokklaus.

Ég endurtek, ég skil ekki hvers vegna fjármálaráðuneytið er „betri kaka“ heldur en mun mikilvægari ráðuneyti á Íslandi.

Ég lýsi alfarið yfir stuðningi mínum við að endurskoða lánið frá AGS. Ekki skila því orðalaust, það myndi loka aftur öllu heimskerfinu á okkur, en allt í lagi að skoða þetta betur og kanna hvort þetta sé það sem við raunverulega þurfum. Skil ekkert í hysteríunni í kringum það, eru allir örugglega búnir að kynna sér allar hliðar á því máli?

Annars átti ég ágætan dag á safninu, lauk við u.þ.b. helminginn af áætluninni. Það er ágætis árangur á köldum, rökum og gráum degi.

Uppfært: Steingrímur J. er jarðfræðingur með kennsluréttindi, nú dauðsé ég eftir að hafa ekki giskað á líffræðingur eins og ég hugsaði meðan ég reit.

Lifið í friði.

tepoki

Ég ætla að vinna á bókasafninu í allan dag og fram á kvöld. Á planinu er að vélrita upp einn af textunum sem ég ætla að þýða sem ég er með skannaðan beint úr handriti frá 18. öld. Þetta er hluti af formála Anne Dacier að þýðingu sinni á Illíonskviðu Hómers, sem hún gaf út í lok 17. aldar.
Svo ætla ég að lesa lok formálans þó ég ætli ekki að þýða hann.
Svo langar mig að reyna að lesa alveg „Skipan orðræðunnar“ eftir Foucault, en þá þýðingu Gunnars Harðarsonar ætla ég að rýna í og halda fyrirlestur um í lok mars. Á Íslandi. Ég kvíði svo fyrir því að eftir að ég keypti flugmiðann í gær spruttu út bóla og frunsa á andliti mínu. Ég tengi það frekar þessu heldur en falli ríkisstjórnarinnar.
Þó ég búist við því að þetta dugi sem dagsverk, ætla ég að hafa málfræðiverkefni með mér og líta aðeins á það. Það fjallar um málbreytingar og þarf ég að rekja þær og útskýra með formúlum. Stuð.

Á fimmtudaginn er allsherjarverkfall með risakröfugöngu í París. Mig langar svo mikið að reyna að fara, það er hiti í mér, kröfugönguhiti, en það er erfitt þar sem ríkisskólar eru vitanlega í verkfalli og þar af leiðandi sonur minn heima. Ég gæti hjólað og gengið ein, en ég efast um að ég ráði við að taka hann aftan á hjólið, hann hefur stækkað mikið frá því í fyrra og þá var það nógu mikið púl. Hér stefnir hraðbyri í að skólakerfið verði einkavætt, einkaskólar eru styrktir meir og meir meðan almenningsskólar missa starfsfólk í niðurskurði, engir gangaverðir, engir sálfræðingar o.s.frv. Þessi þróun er einn af þeim málaflokkum sem ný öfl á Íslandi þurfa að huga að. Viljum við það nokkuð?

Lifið í friði.

það var þá aldrei

Ingibjörg Sólrún býður nú loksins nákvæmlega það sem ég hefði óskað eftir.
Verst að hún skuli ekki hafa boðið þetta í október, nóvember.

Í ljósi þess að kröfufundir og mótmælastöður eru farnar að bera sýnilegan árangur, vona ég að alvöru neisti hafi kviknað í brjósti þjóðarinnar. Neisti sem verður ekki slökktur um leið og þetta „partý“ er búið, búið að kjósa og allri ábyrgð aftur hent á hendur ríkisstjórnar og Alþingis.
Nú ættu allir að skilja að það hefur áhrif að mæta niður í bæ og láta í sér heyra þegar maður er ekki sáttur við það sem er að gerast hjá yfirvöldum. Nú ættu Íslendingar að vera snöggir út með potta og sleifar þegar ástæða þykir að minna á að þingmennska og seta í ríkisstjórn eru þjónustörf, í þágu þjóðarinnar.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha