Sólin skín á bláum himni og blankalogn ríkir þó kuldinn sé bæði napur og rakur. En ég get ekki notið veðursins heldur stend kófsveitt í minni ofhituðu sólríku íbúð og baka og raka saman dóti og undirbý afmælisveislu frumburðarins. Sjö ára á þriðjudag og ætlaði að halda sitt fyrsta almennilega stelpuafmæli í dag. Engir strákar, engin lítil börn, bara sjö ára stelpur í stóla- og myndastyttuleik og að mála. En þar sem tvær hafa afboðað komu sína þar sem hálft landið liggur í pest (svo til allir nema við, eins og vanalega) hefur litlu tvíburunum verið hleypt í boðið og litli bróðir fer ekki í bíó með pabba eins og áætlað var.
Það breytir þó engu um að ég stend sveitt og baka og raka saman dóti. Hvernig fer maður að því að eiga svona mikið dót? Hverni fer maður að því að ganga ekki jafnt og þétt frá þessu dóti heldur lætur það hlaðast upp í litlar óreglulegar hrúgur víðs vegar um íbúðina, eða á ég að segja rýmið? Er það fjallaþrá?
Farin að þeyta rjóma. Franskir krakkar borða ekki rjóma, en mamman ætlar sko að fá rjóma meðþessari girnilegu köku sem er einmitt núna í ofninum. Uppskriftinni þurfti að breyta örlítið, ég þorði ekki að setja valhnetur barnanna vegna, átti ekki pekan og ætlaði að setja kókosmjöl. Það sem ég taldi vera kókosmjöl reyndist vera möndlupúður.
Ég vil að lokum taka það fram að ég baka ekki úr íslensku byggi. Ég baka ekki úr íslensku byggi.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir