Sarpur fyrir febrúar, 2009ávörp

Á Snjáldurskinnu biðu mín tvenn skilaboð. Annað þeirra hefst á: „Sæl öll, frábæra fólk“, hitt á: „Kæri hernaðarandstæðingur“.
Getið hvort ávarpið ég kann þúsund sinnum betur við. (reynið ekki að gúggla þessu, þýðir ekkert).

Lifið í friði.

meira grískt

og ég gleymdi að taka það fram hér að neðan að ég er náttúrulega að vinna með franskan texta, þaðan kemur latneskan sem nöfnin eru „menguð af“.
Mig vantar að finna hvernig „Chaldaïque“ kemur út á íslensku. Þetta er lýsingarorðið af landanafninu, Chaldée. Þetta kom fram í fyrirlestri hjá kennaranum, en ég náði því ekki alveg. Kaldena? Kaldea? Kaldenískur? Kaldeískur?

Svo er ég efins með Ajax. Er hann Ajas á íslensku? Það segir wikipedia (lengi lifi wikipedia, en stundum þarf að fara varlega með upplýsingar þaðan).

Ég vil taka það fram að ég hef fundið fullt af nöfnum sjálf. Til dæmis fann ég Denys d’Halicarnasse, þið megið geta hvernig það kemur út á íslensku (bannað að gúggla).

Lifið í friði.

þýðingar á grískum nöfnum

Ég er að reyna að finna íslenskanir á eftirfarandi skáldanöfnum: Cadmus, Pherecyde og Hecatée.
Ég hika með Cadmus, á ég að skrifa Kadmus?
Og Feretsítus, Feresítus?
Hekateus, Hecateus?

Ekki hika við að koma með tillögur.

Lifið í friði.

föt

Hér er furðulegasta fatabúð sem ég hef nokkurn tímann séð. Það kom auglýsing frá þessari búð á smáauglýsingavef HÍ fyrir nokkrum vikum og skoðaði ég síðuna vel og lengi og undraðist hvað hægt er að eiga mikið af seljanlegum fötum. Nú er verið að auglýsa nýjar vörur og ég finn mig knúna til að koma þessu á framfæri við lesendur mína. Njótið heil.

Lifið í friði.

ákvörðun

Ég þarf að taka eina slíka, fyrir morgundaginn. Ég get það ekki. Þú færð 2.000 krónur fyrir að redda mér út úr þessu. Vera eða fara? Hljómar mjög einfalt, en er það ekki.

Lifið í friði.

látlaust sumarfrí

Í Frakklandi byrjar fólk að skipuleggja sumarfríið sitt strax í desember/janúar. Með því móti nást bestu verðin á flugmiðum og hótelum. Á Íslandi þorir enginn að undirbúa eitt né neitt, enginn veit hvort flugfélögin, ferðaskrifstofurnar, krónan sjálf verði til í næstu viku, hvað þá í sumar.
Ég segi: Örvæntið eigi, látlaus sumarfrí geta verið góð. Ekki spillir að ef fjölskyldan hefur einhverja listræna hæfileika má nýta þá til að safna fyrir kvöldverðinum.

les-gens-du-voyage1

Lifið í friði.

látleysi II

Fann hér mynd af látlausu húsnæði:

parismiserecampementgensduvoyage

Lifið í friði.

látleysi

Þetta er stórmerkilegt.

Nú er ég ein af þeim sem tel mig afar látlausa. Ég er ekki að grínast. Við erum ansi klár í að lifa ekki um efni fram og erum hvorugt hálaunuð. EN við erum með tvær tölvur (dýrar fartölvur), við erum með netáskrift, sjónvarp, síma, græjur, geisladiska (ekki nýja þó), bækur í tonnavís, vel útbúið heimili, eldhúsborð, borðstofuborð og sófaborð, sófa, stóla, hillur, skápa, troðfullt eldhús af dóti og mat og barnaherbergið viðbjóðslega troðið af dóti.
Hvernig í ósköpunum á að meta það hvað er látlaust líf?

Lifið í friði.

bréf

Ég fékk alvöru tölvubréf í morgun. Alveg svona ekta langt með fullt af fréttum og frásögnum af síðustu vikum og pælingar um framhald og allt þetta skemmtilega sem á að vera í bréfum. Ég er í skýjunum.
Kannski maður ætti að hætta þessu bloggrugli og snúa sér aftur að því að skrifa vinum sínum alvöru fréttabréf frá París? Einhvern veginn geri ég ráð fyrir því að þau lesi þetta blogg og að það sé nóg. Þó ég viti það best sjálf að hingað inn ratar ekki nema agnarsmár hluti af mínu lífi, ó, svo margt sem ég skil ykkur útundan með. Ekki verða móðguð, sumt af því er best gleymt en ekki geymt. Annað er þó ansi djúsí og myndi gleðja forvitna lesendur, en… þið hljótið að skilja…

Lifið í friði.

ein

Á föstudag á leið að sækja stelpurnar í skólann ók ég fram á tvo stóra drengi sem voru að berja þriðja drenginn. Honum var bókstaflega lyft og grýtt út á götu og svo var sparkað, kýlt og barið. Ég snarstoppaði bílinn, skrúfaði niður rúðuna og gargaði á þá að ég myndi hringja á lögregluna. Það voru bílar á ferð í báðar áttir, ég var sú eina sem lét í mér heyra.
Árásarmennirnir hypjuðu sig í burtu, en fórnarlambið kom höktandi að bílnum og bað mig að keyra sig heim. Hann tíndi skilríki og annað sem hafði dottið úr vösunum upp úr götunni og kom inn í bílinn. Ég ók honum heim, hann sagði mér að hann þekkti árásarmennina ekki neitt, þeir hefðu viljað fá farsímann hans. Þessi drengur er ljós, en ekki of ljós, meðalmaður að hæð, ekki feitur en ekki slánalegur. Bara óskaplega venjulegur og ekki týpa sem dregur að sér sérstaka athygli, sem er talið ávísun á vandræði í hörðum unglingaheiminum í Frakklandi. Samt var þetta í annað skiptið á tveimur dögum sem ráðist hafði verið á hann, sagði hann mér snökktandi og endurtók í sífellu „ég trúi þessu ekki, ég trúi þessu ekki“.
Ég kvíði því ofboðslega að börnin mín verði unglingar og ein úti á daginn, hvað þá á kvöldin. Sjálf er ég sjaldan hrædd og fer óhikað ferða minna, en ég veit að ég verð skjálfandi og titrandi þegar þau fara að standa á eigin fótum.
Nógu erfitt var að skilja Sólrúnu eftir á risastóru leikjanámskeiði þar sem hún þekkti engan í morgun. Hún var afskaplega lítil og mjóróma, hún hafði kviðið það mikið fyrir þessu að hún fór að gráta hér heima í morgun. Starfsfólkið tók þó vel á móti henni og ein krúttleg stelpa var líka komin að tala við hana þegar ég fór.
Það er það sem skiptir öllu máli, að fá einhvern í lið með sér. Ég er búin að spá í það alla helgina hversu langt strákarnir hefðu fengið að ganga ef ég hefði ekki stoppað. Ég hugsaði mig ekki um, bara blindaðist af reiði og skarst strax í leikinn. Mjög margir eru hreinlega of hræddir til að gera það og kannski hefðu þeir náð að berja hann í buff þarna á fjölfarinni umferðargötu án þess að nokkur hefði skipt sér af, strætó var m.a.s. þarna og stoppaði ekki.
Eins og Sartre sagði og einhver annar bloggari vitnaði í um daginn í öðru samhengi: L’enfer, c’est les autres. Helvíti, það eru hinir.

Ég er löt en hamast samt.

Einmana en samt með slökkt á símunum.

Hálfdöpur en samt hamingjusöm.

Mig langar alveg rosalega að heyra einhvern góðan brandara. Hann má skilja eftir í athugasemdakerfinu, ég er hvort eð er alltaf að stelast hingað inn í pásu.

Lifið í friði.