Ég var að reyna að útskýra fyrir franskri blaðakonu hvers vegna þjóðin rauk ekki út á götu að fagna á laugardagsnóttina. Ég veit ekki með ykkur hin, en ég er frosin.
Mér líður eins og við eigum að gleðjast, það er a.m.k. ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki völdin lengur. En hvaða fólk hefur völdin? Hverjum er hægt að treysta? Ég man ekki hvar ég las það í gær, en mér líður nákvæmlega þannig. Ég er eins og brennd eftir erfið sambandsslit. Mig langar ekki í nýja ríkisstjórn. Finnst ég ekki þurfa á slíku að halda. Mig langar bara að fá að vera í friði.
Ég slengdi því m.a.s. fram í bréfinu til blaðakonunnar að líklega væri stór hluti íslensku þjóðarinnar orðinn hálfanarkískur djúpt í iðrum sér. Að líklega væri hægt að vinna eitthvað upp úr því einmitt núna, vekja anarkistahugsjónina sem ég trúi að blundi reyndar djúpt í öllum sálum, sé hluti af uppruna okkar, enda valdakerfið tilbúningur sem við kunnum alveg að lifa án „í gamla daga“. Eldgamla daga.
En ég skrifaði líka að þetta myndi að öllum líkindum dofna og jafnvel fjara út. Við myndum jafna okkur og samþykkja að halda áfram að lifa við þetta kerfi, enda allt of erfitt að hugsa út fyrir kassann, að trúa því að anarkí geti verið lausnin. Við erum allt of sannfærð um að eðli mannsins geri samvinnu og gagnkvæma virðingu óhugsandi. Sorglegt? Samt svo satt.
Þetta sökkar. Sökkar feitt. Allt saman. Og það eina sem stendur eftir sem óhagganleg staðreynd er að við erum föst í gini ljónsins, úlfsins. Á kafi í skítnum. Steytt á skeri. Sökkvandi skip. Drukknandi þjóð. HFF!
Ég kaus VG. Ég hikaði milli S, V og O. Ég valdi að leggja mína mestu áherslu á grænt og frið. Ég veit ekki hvað mér finnst um Evrópu, enda fjallar sá málaflokkur bara um peninga og ég hef svo lítinn áhuga á fjármálum. Það er samt varla hægt að segja þetta sem Íslendingur í dag. Fjármálin eru okkur svo hrottalega viðkomandi öllum, að það er fáránlegt að reyna að segja að maður hafi ekki áhuga. En. Samt. Í hjarta mínu er stærra hólf fyrir grænt og frið. Minna hólf fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Skjótið mig ef þið viljið.
Ég kaus VG. Ég er sátt við þá ákvörðun mína upp að vissu marki. Ég er ósátt við kerfið. Ég þrái hrun valdakerfisins, en ég hafði ekki hugrekki til að éta atkvæði mitt eins og einhverjir gerðu. Mér fannst ég verða að taka þátt, láta atkvæðið mitt lenda einhvers staðar. En, eins og einhver annar sagði, mér fannst kosningadagurinn ekki vera hátíðisdagur. Mér fannst ekkert lýðræðislegt við þessar kosningar. Ég get ekki útskýrt það nánar, en ég er með brjóstsviða.
Viðbót: Hér las ég líkingu um sambandsslit.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir