Sarpur fyrir apríl, 2009peningavandamál

Ekki þetta venjulega. Ég þarf að senda pening heim. Bankinn er ekki til, alþjóðlega númerið þeirra er ógilt, líka þetta nýja. Samkvæmt upplýsingum frá þessum ógilda banka þarf peningurinn fyrst að fara til Þýskalands, þaðan til Seðlabankans sem sendir hann svo (vonandi) til Landsbankans. Þessu get ég vitanlega ekki gengið frá í einkabankanum innan öryggis veggja eigin heimilis eins og mig minnir að sagt hafi verið í Sjónvarpsmarkaðnum í gamla daga. Útibúið mitt er langt í burtu frá heimilinu. Vesen. Auðvitað er vesen að koma frá ölmusuríki, bjóst svo sem ekki við öðru.

Lifið í friði.

orðtakaleit

Eruð þið með eitthvað gott myndrænt orðtak, myndlíkingu, sem segir „að lifa á næstum engu“, „að lifa sparlega“?
Balzac segir lifði á „hnetum og brauði“ og er þetta hans eigin uppfinning, finnst a.m.k. ekki í orðabókum eða á netinu.

Lifið í friði.

varúð – blót

Djöfulsins helvítis andskotans helvítis djöfull.

Og fokk.

Nú líður mér örlítið betur. En líklega liði mér enn betur ef ég væri á leiðinni í kommúnuna mína með góðu fólki, vitandi að ég væri að losa mig út úr þessu viðbjóðslega kerfi sem búið er að njörva mig niður í.

Tryggingafyrirtæki ættu þúsund sinnum frekar heima á einhverjum heimskulegum hryðjuverkalistum en fólk sem berst gegn náttúruspjöllum. HFF!

Lifið í friði.

fluga

Áðan lá ég hérna í sófanum með beraða fæturna í sólinni frá opnum glugganum. Kemur ekki þessi risastóra fluga suðandi. Ég er ekki að djóka, hún var á stærð við áðurnefnda leðurblöku, nema leðurblökur eru fíngerðar og fimar. Þetta var kolsvört hlussa. Hlussufluga. Á við a.m.k. fjóra til fimm væna geitunga. Ég hef séð svona áður, en aldrei horfst í augu við það fyrr. Ég hélt í alvörunni að þetta væri mitt síðasta, ég sá æsku mína þjóta hjá, unglingsárin, fyrstu árin í París… og þá fór hún. En ég held ég hafi náð að skilja eitt mikilvægt atriði við þessa upprifjun á lífinu. Það er mjög dýrmætt að eiga svona near-death-experience reglulega, hjálpar manni að setja hlutina í samhengi.

Lifið í friði.

république

République má nota um ónýtar fjalir sem eru allar eins og í hrúgu og engin stéttaskipting getur ríkt á milli þeirra. Þetta er náttúrulega viðeigandi orðaleikur hjá höfundi sem var á móti blessaðri lýðveldisbyltingunni. En höfuðverkur fyrir litla íslenska stúlku sem þykist vera þýðandi.

Lifið í friði.

furður

Rétt í þessu var ég að gera dálítið mjög furðulegt. Ég veit ekki hvað kom yfir mig en stundum get ég verið svo hvatvís að það hálfa væri nóg. Sem passar engan veginn við það að yfirleitt þarf ég að íhuga og spá og spekúlera lengi til að ná að taka ákvarðanir um smáatriði sem skipta engu máli.
En það er samt dálítið gaman að henda sér fram af klettum við og við. Kannski ég ætti að prófa teygjustökk eftir allt saman?

Lifið í friði.

leðurblaka

Í sveitinni fór leðurblaka á flug á kvöldin. Það var fallegt að sitja úti við tjörnina og hlusta á froskakvakið og sjá leðurblöku fljúga fram og til baka yfir. Flug hennar er einhvers staðar mitt á milli flugu og fugls, mjög auðvelt að sjá muninn því stærðarmunur á flugu og fugli er töluverður.

Lifið í friði.

Í dag fór ég yfir helminginn af þýðingu minni á þessum 3000 orðum af Balzac. Hann er ekkert lamb að leika sér við. Ein setning bögglast sérstaklega fyrir mér, maðurinn minn skilur hana ekki einu sinni og er hann nú víðlesinn og fær á franska tungu, með hana innbyggða og allt. Ég á að skila þessu á mánudag, mig langar að biðja einhvern að lesa yfir, en veit ekki hvern ég á að bögga.
Á leið minni á bókasafnið les ég málfræðiritgerð sem ég ætla svo að gera ritgerð um. Hún er ansi góð, en ég veit ekki enn hvað ég ætla að skrifa um. Reyndar á ég að lesa tvær greinar á ensku og aðra á íslensku með, svona til að fylla upp í viskuna áður en ég byrja að skrifa. Mér líst ekki illa á þetta, en vildi heldur hafa tvo mánuði en tvær vikur til að hespa þessu af.
Og svona til að kóróna gleðina á ég líka að skila 10 blaðsíðna ritgerð upp úr rýni minni á þýðingunni á Foucault á mánudag. Það verður fjör.

Ég get ekki unnið á kvöldin eftir heilan dag í heilabrotum. Í kvöld ákváðum við hjónin að horfa á Bottom sem vinir okkar lánuðu okkur með þeim orðum að okkur þætti þetta örugglega meiriháttar. Maðurinn minn var sofnaður eftir hálftíma og ég fór á netflakk. Þessir þættir eru einum of fyrir minn smekk. Alla vega meðan ég er í þessu ástandi að vera með þrjú flókin verkefni á prjónunum, plús náttúrulega ýkt flotta trefilinn sem ég er með á þessum líka fínu alvöru prjónum.

Það er svo heitt úti að ég er með alla glugga galopna og sit hér á stuttermabol. Að kafna. Sumarið er víst líka að koma til Íslands, á morgun. Er það ekki?

Ég átti að hringja í vinkonu mína, en eins og ég var búin að vara hana við, steingleymdi ég því þarna eftir mat, uppvask og hpblks (hátta, pissa, bursta, lesa, knúsa, sofa). Ég er frekar ömurleg vinkona þessa dagana og mín helsta samskiptaleið er í gegnum netmiðla (snjáldurskinna rúlar) og sms.

Ég er þreytt, svo þreytt að ég gæti sofnað hérna núna. Samt langar mig ekkert upp í rúm. Mig langar bara að hanga meira á netinu. Verst að bloggið er að lognast út af (snjáldurskinna sökkar).

Lifið í friði.

fleiri grísk nöfn

Artaxerxes, hvernig er það skrifað á íslensku?
Og er Hippókrates ekki örugglega rétt skrifað?

Lifið í friði

einn fyrir alla

allir fyrir einn

Lifið í friði.