Sarpur fyrir apríl, 2009böggl

böggl og vitleysa

vesen og vandræði

eilíft hik, tómt tjón

ég blóta inni í hausnum á mér

Lifið í friði.

hús-taka tvö

Ég tel mig ekki þurfa að fara í rökræður við nokkurn mann út af yfirlýsingu minni varðandi hústökuna. Mér finnst það alltaf jafnfyndið þegar fólk byrjar að tala um eigin íbúðir eða sumarbústaði í sömu andránni. Það að taka tómt húsnæði sem verið er að vanvirða með því að láta það grotna niður, eingöngu í hagsmunaskyni eigenda, er engan veginn, engan veginn, engan veginn sambærilegt við það að ryðjast inn á heimili eða sumarbústaði þar sem fólk nýtur friðhelgi.
Ég nenni ekki að ræða þetta frekar, en ég vildi samt koma því á framfæri að ég styð svona aðgerðir. Ég styð í raun allar aðgerðir gegn þessu glæpahyski sem hefur komið þjóðarbúinu á heljarþröm. Mér er skítsama hvað ykkur hinum finnst, þið megið vera ósammála mér og megið alveg láta þá skoðun í ljós. Það breytir minni skoðun ekki, enda er ég búin að stúdera þetta þó nokkuð, fylgjast með hústökum í Frakklandi og víðar og veit að þetta er allt annað en einhver vanhugsaður ruðningur yfir á annarra yfirráðasvæði. Ef þið nennið ekki að pæla í þessu, þá er það ykkar mál, það er þó alltaf virðingarvert þegar fólk hefur í það minnsta vit á að segja bara „þetta er flókið mál“ í staðinn fyrir að koma með yfirlýsingar úr takti við raunveruleikann. Skoðanaleysi er betra en fordómar, það er ekkert að því að viðurkenna að maður hafi ekki vit á öllum hlutum. Ef ykkur langar hins vegar að fræðast meira um þetta, getið þið gúgglað squats, artist squats og ýmsu fleiru sem ykkur dettur í hug. Það ætti að leiða ykkur inn á ýmsar skemmtilegar síður sem útskýra málstaðinn. Þið getið líka heimsótt t.d. Evu, hún er alltaf jafnþolinmóð í að koma með rök gegn þeim sem velja frekar þá leið að fordæma en að prófa að skilja.
Þið getið líka sagt að nú sé ég með fordóma gagnvart siðspilltu fjárglæframönnunum. Já, ég skal alveg viðurkenna það. Ég trúi því staðfastlega að þeir eigi að stíga fram og axla ábyrgð og ég mun meira að segja vera tilbúin til að fyrirgefa þeim kjánaganginn, ef þeir iðrast og vilja gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta fyrir skaðann sem þeir hafa unnið. En meðan þeir halda áfram að viðhalda spillingunni og gróðafíkninni get ég ekki annað en fyrirlitið þá.

Lifið í friði.

Hústaka

Ég styð hústökur eins og þá sem á sér stað á Vatnsstíg 4 í Reykjavík þessa dagana. Úthugsuð aðgerð og vandlega valið hús sem er vanhirt og til stendur að rífa til að byggja verslunarhúsnæði. Mér finnst einhvern veginn eins og Reykjavík þurfi ekki fleiri slík núna. Til að standa síðan tóm?

Lifið í friði.

sveit(t)

Ég er sveitt, það er heitt.

Ég ætla upp í sveit á morgun. Spáin er ömurleg, en ég hef sömu veðurgæfu og móðir mín, yfirleitt rætast slæmar spár ekki í mínum fríum.
Reyndar er ég ekki að fara í frí, ég ætla bara að gera börnum mínum þann greiða að fara aðeins með þau út úr bænum í sínu tveggja vikna skólafríi. Sjálf verð ég að læra mikið og helst aðeins meira. Smá klúður síðustu daga með það og mér líður dálítið eins og ég sé komin með allt niður um mig aftur eftir góða törn á Íslandi. Samviskubitið nagar ekki aðeins móðurina og eiginkonuna, líka námsmanninn. Þreföld hamingja. Næstu viku verða börnin svo í leikjanámskeiði og þá verður vinnutörnin færð niður á stóra bókasafn, engin miskunn, ekkert sveitaljúfuhangs.

Ég ætla samt að tækla þessa kúrsa. Þungir, en báðir skemmtilegir. Ég skal ná að skila öllu á réttum tíma. Það er skýrt hjá báðum kennurum að ekki er möguleiki á að ræða frest.
Enda vil ég ekki frest, ég sé 16. maí í hillingum og ætla að vera búin að öllu þá.

Verst er að í sveitinni er ekkert netsamband. Það flækir töluvert þýðingavinnuna. Djöfull er hann Balzac snúinn. Ég held ég hafi aftur valið mér aðeins hærri garð en ég hefði þurft.

Lifið í friði.

málshættirnir

Ég fékk:
„Betra er að róa en láta undan“.
Ég var ekki alveg klár á merkingunni og mér fannst hugmynd nöfnu minnar „láta róa“ ansi góð. Svo fletti ég upp í Íslenzkir málshættir og þar stendur: „Betra er að róa en reka undan“. Þar er merkingin ekki lengur óræð.

Í dag opnaði ég svo annað páskaegg, sem vinkona mín gaf mér. Þar kom:
„Flestallt hefur fyrst verið lítið“. Ég tek þetta persónulega, ég er ennþá lítil og hvað með það?

Dóttir mín fékk:
„Þeim skal úr garði fylgja sem maður vill að aftur komi“.
Ég reyndi að útskýra íslenska siðinn að fylgja fólki til dyra, en held að það hafi farið fyrir ofan garð og neðan, enda var súkkulaði á diski fyrir framan þau.

Sonur minn fékk:
„Fár er verri þó fátækur sé“.
Viðeigandi á þessum síðustu og verstu, og auðvelt að skýra. Þegar ég ætlaði að umorða þetta, greip Kári fram í fyrir mér og sagði: Ríkt fólk er fífl. Ég hef ekki hugmynd um það hvaðan sú hugmynd hans kemur, ekki frá mér, held ég. Mér finnst ríkt fólk bara kúl. Hins vegar hef ég afskaplega lítið álit á þjófum og stundum fer það saman.

Lifið í friði.

Ísland á Fox

Þetta er ótrúlega fyndið. Fann á NEI.

Lifið í friði.

fit

eftir grúsk yfir Balzac tók ég upp prjónana og dokkuna sem lágu hérna til að ég myndi eftir að biðja gestinn sem kemur við í kvöld um aðstoð, og allt í einu gat ég bara fitjað upp. Ég veit ekki hvað ég er að gera öðruvísi en í gær, en núna virkar þetta, það myndast lykkjur með tilheyrandi festingum. Ég vildi að aðrir hlutir í lífinu væru svona innbyggðir í mann (eftir áralanga setu með tungu út á kinn undir styrkri og strangri handleiðslu ömmunnar).

Lifið í friði.

Flóttamenn

„Við Íslendingar“ erum svo gestrisin þjóð, með risastórt og galopið hjarta. Gleðilega páska!

Lifið í friði.

Galeries de Bois

Í Palais Royal í París voru byggðir markaðsstandar úr tré á 19. öld, sem stóðu í einhverja áratugi þarna í hallargarðinum. Þeir voru kallaðir Galeries de Bois. Galeries þýðir m.a. súlnagöng og jafnvel markaður eða verslunarmiðstöð, sbr Galeries Lafayette og Galeries marchands sem eru á Champs Elysées.
Mig vantar þjála íslenska þýðingu á þessum Galeries de Bois í Palais Royal. Trémarkaðurinn? Markaðsvirkið? Markaðsvirki úr tré fyrst, og svo bara virkið?

Lifið í friði.

les

Ég ætlaði að hefja prjónaferil minn á nýjan leik, inspíreruð af íslenska prjónaæðinu. Keypti mér nokkrar dokkur í fallegum litum af léttull. En ég get ekki fitjað upp. Ég fann fína síðu sem kennir listina að fitja upp, en ég get það samt ekki.
Þá var mál að leggja frá sér prjónlesið mislukkaða og halda áfram að lesa skólabækur. En viti menn, mér var bjargað. Takk Hildur.

Lifið í friði.