Sarpur fyrir maí, 2009

uppáhaldsbíómyndin

Ég á eina. Gettu nú.

Lifið í friði.

helgarferð

Verðum í Brussel yfir helgina, fjölskyldan. Í faðmi góðra vina.

Lifið í friði.

spennandi tilboð frá konu á Normandí

Þessa, og fleiri auglýsingar má finna á www.parisardaman.com:

Ég heiti Catherine Hilereau, ég er 49 ára, gift og á 2 stóra stráka: Alexandre 21 árs háskólanemi í Caen og Roman sem er 17 ára menntskælingur i Granville, sem er bærinn sem við búum í. Granville stendur við Ermasundið, nálægt Mont St. Michel flóanum, í Normandí.
Ég er enskukennari í gagnfræðaskóla og tala því góða ensku, of course! Ég tala líka góða þýsku og þar sem ég er kennari er ég í sumarfríi allan júlí og ágúst (lucky me!) og mig langar að koma til Íslands í um tvær vikur á þessu tímabili. Þegar ég ferðast til útlanda reyni ég að kynnast fólkinu í landinu, hvernig það býr og jafnvel mynda vináttutengsl. Þetta er vonlaust að gera ef búið er á hóteli eða þegar leigð er íbúð. Þess vegna langar mig að athuga hvort einhverjir Íslendingar gætu hugsað sér að koma sér í samband við mig upp á ferðina til Íslands. Ég er opin fyrir ýmsum möguleikum, til dæmis get ég tekið á móti gestum heim til mín og sýnt þeim héraðið og fengið að koma til þeirra á Íslandi í staðinn. Einnig er ég til í að greiða fyrir einhvers konar heimagistingu hjá einni eða fleiri fjölskyldum. Ég get komið ein eða haft vinkonu með mér svo ég sé ekki byrði á daginn… Ég bið áhugasama um að hafa samband við mig: catherine.hilereau[hjá]orange.fr

Lifið í friði.

klæðskiptingar og hundar bannaðir

stóð einhvern tímann á skilti á bar í 18. hverfi, þar sem einnig blómstruðu kabarettar þar sem dragdrottningar sýndu listir sínar og urðu jafnvel heimsfrægar, eins og t.d. hún Coccinelle.

Heimildamyndin Nous n’irons plus au bois (2007) eftir Josée Dayan er röð viðtala við fólk sem hefur fengið leiðréttingu á kyni. Þau eru klippt saman þannig að nokkur þemu eru skoðuð, hvernig var æskan (erfið fyrir langflest), hvenær vissirðu (öll snemma), hvenær ákvaðstu að stíga skrefið (mjög misjafnt), hvernig var það, hvað gerðist eftir á…
Inn á milli er talað við félagsfræðing, mannfræðing og sagnfræðing.

Hér koma nokkrir molar gerðir eftir því sem ég krotaði hjá mér meðan ég horfði. Þetta er alls ekki beint afrit af því sem sagt var, heldur gert eftir minni og þá kannski að einhverju leyti upplifun:

Það er nauðsynlegt að losa okkur undan kröfunni um að gangast undir geðrannsókn. Transgender eru flokkað sem geðsjúkdómur og þar liggur vandamálið. Geðlæknirinn spyr þig af hverju þú sért með stutt hár og gangir í buxum. Þú svarar að konur séu oft stutthærðar í buxum, en þetta með hárið skýrist til dæmis af atvinnuástæðum. Líkaminn er karlkyns og til að halda vinnu verðum við að hlýða þeirri staðreynd. Geðrannsóknin var niðurlægjandi hlutinn af ferlinu.

Aðgerðir í Frakklandi eru langt á eftir öðrum Evrópulöndum, Hollandi, Bretlandi, Belgíu o.fl. Einnig eru þeir mjög framarlega í Brasilíu. Í Frakklandi eru þessar aðgerðir eiginlega hálfgerð vönun, limurinn skorinn af og afskaplega lítið spáð í að vanda það sem kemur í staðinn. Skurðlæknarnir eru hálfgerðir slátrarar. Þetta á vitanlega við um þær sem ekki geta greitt fyrir aðgerðir á einkaspítala.
Tvisvar sinnum hefur verið reynt að græða lim á karl, þeir enduðu báðir í hjólastól.
Þessi staðreynd er stór hluti orsakarinnar fyrir hárri sjálsmorðstíðni meðal transgendera. Þeir vakna upp og eru mislukkað eintak af konu eða karli. Verra en ekkert.

Maður vaknar tvisvar eftir aðgerðina. Fyrst sem kona líkamlega í alvörunni. Maður er eins og lítil stelpa, alltaf að glápa á sig í speglinum, dilla sér, snúa sér í hringi. Svo vaknar maður aftur þegar maður áttar sig á því að ó, nei, þessu er langt í frá lokið. Nú hefst ferlið að fá ríkið til að samþykkja leiðréttinguna og skrásetja hana hjá sér.

Það þarf að stroka flokkin „kyn“ út af skráningum í þjóðskrá, það hefur ekkert með mannréttindi að gera, þetta er í raun einmitt leið ríkisins til að koma í veg fyrir samkynhneigð hjónabönd og fleira. Ef skiptingu í kyn væri hætt við skrásetningu barna, losnaði þjóðfélagið við ok þess að vera annað hvort karl eða kona.

Það eru ekki til nein lög sem tryggja rétt okkar til að fá kyninu breytt í þjóðskrá. Eingöngu dómvenja. það getur tekið óratíma og eiginlega nauðsynlegt að fara í gegnum félagasmtök, þetta er hreinlega of erfitt ferli fyrir einstakling.

Transgenders eru minnihlutahópur sem að svo mörgu leyti er sveltur í París. Þar er mjög hátt hlutfall atvinnuleysis og RMI-styrkþega (trygging á lágmarksfjárhæð til að komast aftur inn í lífið, rúmar 500 evrur á mánuði, helmingur af lágmarkslaunum).

Transfóbía hefur ekki verið samþykkt á skrá yfir fordóma sem bannað er að tjá opinberlega, líkt og hómófóbía, kynþáttafordómar o.s.frv.

Translovers, kona og karl sem hafa bæði látið leiðrétta og eru hjón. Aldrei er talað um okkur, við erum samt ansi mörg.

Við erum oft í hlutverki útskúfaðrar drottningar. Við eigum ástarævintýri, alvöru ástarsögur. En þeir yfirgefa okkur samt, því þeir höndla ekki að vera með konu sem var áður karl, höndla ekki bendingar umhverfisins, þó þeir elski okkur í raun og nái oft ekki að finna ástina annars staðar síðar.

Ég fer eftir því sem Coccinelle sagði alltaf, enda var hún mín guðmóðir í þessu: Orðið transsexualité er bara orðið yfir ferlið, aðgerðina og endurfæðinguna – ferðalagið. Eftir það varð ég bara kona og punktur. Ég er ekkert transi, ég er bara kona.

Ég lít á feril minn sem einhvers konar andlegt ferðalag. Mér tókst að vera karl, mér tókst að vera kona og nú hefur mér lærst að skilja að það sem er mikilvægast er að kunna einfaldlega að VERA.

Ef ekki væri fyrir kerfið með alla sína kóða eða reglur, flokkun í kyn: kona eða karl, samkynhneigð eða gagnkynhneigð… þá er ég ekkert viss um að ég hefði nauðsynlega þurft að fara í aðgerð og verða líffræðileg kona. Ég sé ekki eftir því og er ánægð með lífið, en ég veit það ekki… ef ekki væri fyrir þessa kröfu um að falla í flokka veit ég ekki hvað ég hefði gert.

Lifið í friði.

vont skap

Um daginn benti vinkona mín mér á spjall á moggabloggi. Þar var sett fram vísa eftir Einar Ben, sem hljóðar svo:

Láttu smátt en hyggðu hátt.
Heilsa kátt, ef áttu bágt.
Leik ei grátt við minni mátt.
Mæltu fátt og hlæðu hátt.

Lína númer tvö er rædd í athugasemdum og finnst sumum sem verið sé að hvetja til hræsni. Þar er ég gersamlega ósammála. Auðvitað þarf maður stundum öxl að gráta við, klapp á bakið eða aðra hughreystingu. En það er hreinlega dónalegt að koma alltaf til fólks másandi og stynjandi með kvart og kvein.
Við hjónin fengum einmitt að kenna á svona hegðun nú í hádeginu þegar vinkona okkar kemur inn í bílinn þar sem við sitjum kát og glöð ásamt syninum, þeir á leið í tónlistarskólann, við konurnar í leikfimi. Arnaud spyr glaðlega „ça va?“, og auðvitað er þessi vinkona klár í að nota þessa föstu kveðju sem tækifæri til að byrja að barma sér yfir einhverju óspennandi neikvæðu rugli. En hún gekk eiginlega fram af okkur í þetta sinn með föstu og drynjandi „NON“. Það sló dauðaþögn á okkur þarna í bílnum. Mig langaði ekki vitund að vita hvað það var nú sem hún á svona bágt yfir, en Arnaud reyndi eitthvað að draga upp úr henni án árangurs. Og vitanlega drundi þetta á mér þegar þeir feðgar voru stokknir út úr bílnum. Bla bla, allir svo vondir við mig og þessi sagði eitthvað í þessum tón og bla bla.
Ég á stundum bágt með mig, ég löngu hætt að taka undir með svona væli í vinum mínum, þau hlusta hvort eð er aldrei á nein ráð og maður á bara að vera stuðpúði. Ég nenni því ekki lengur. Og ég er alveg komin með upp í kok af þessu þó ég hafi ekki græna glóru um það hvernig ég á að losna undan þessu án þess að missa vináttuna, sem ég vil helst ekki lenda í. Er það kannski það sem þetta fólk vill? Til að geta vorkennt sé aftur og meira?

Best er að taka það fram að hún náði sko ekki að eyðileggja góða skapið mitt. Ég er orðin allt of klár í að hrinda af mér svona neikvæðni án þess að taka það inn á mig. Og líka er viturlegt að taka það fram að þegar vinir mínir lenda í alvöru hremmingum er ég að sjálfsögðu tilbúin að veita þeim allan þann stuðning og samúð sem ég á til að gefa.

Lifið í friði.

gott skap

Gott skap gefur ótrúlegan kraft. Ég er reyndar geðgóð að eðlisfari en stressuð líka og það skemmir stundum.
Nú er ég róleg og ánægð (lesist: að rifna úr monti). Svo ánægð að mér finnst ég grennri og sætari en í gær. Sem minnir mig á að ég ákvað að prófa morgunmatinn sem dóttir mín valdi sér í morgun: Hafragraut með sultu. Það er hreint ágæt blanda skal ég segja ykkur börnin góð.

Lifið í friði.

einkunnin er komin

Ég náði. Fékk 7. Er sæl með það, mjög sæl, en mig svimar ég var svo hrædd að kíkja.

Lifið í friði.

þögn

Hér ríkir þögnin. Hún er þó ekki ills viti.

Lifið í friði.

[mér þykir nauðsynlegt að þetta komi fram vegna tveggja símtala varðandi þetta „mál“]

sól

Ég nýt þess að gera nánast ekki neitt. Smá vinna en aðallega hangs með börnunum í 4 daga helgi og frábæru veðri. Prjóna stundum nokkrar umferðir. Les nokkrar blaðsíður í einhverri vel auglýstri franskri glæpasögu sem ég lét narrast til að kaupa þegar ég fór með myndavélina mína í viðgerðarmat (ekki láta mig byrja að tala um tryggingafélagafxxx).
Byrjuð að taka lit. Það er tilgangur lífsins, fyrir utan að liggja undir trjákrónum sem hvísla og fylgjast með fiðrildum. Ég gæti alveg vanist þessu lífi. En ég var búin að lofa mér því að taka ekki langt frí núna. Stóra spurningin er: Hvað á ég að taka mér fyrir hendur? Byrja á netsíðunni, taka til í hótellistanum, bæta við ódýrari hótelum og fleiri hugmyndum að ókeypis hlutum að gera?
Skrifa þessa grein sem ég er með hugmynd að og gæti átt erindi einhvers staðar, jafnvel bara á minni eigin vefsíðu? Byrja að þýða greinastúfana um konur sem hafa skilið spor sín eftir í París?
Byrja að lesa upp námsefni kúrsanna sem ég skráði mig úr í vetur, vinna verkefnin, með það fyrir augum að taka þau fög samhliða frönskukúrsunum sem ég tek næsta vetur? Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkur það, ég verð Erasmus-skiptinemi hér næsta vetur. Tek frönsku í París IV. Það verður eflaust púl, en ég hlakka til að vera staðnemi. Ég fór m.a.s. í símaviðtal í gær út af styrk sem ég sótti um sem íslenskur nemandi í Frakklandi. Fæ að vita um það eftir ca viku. Og vonandi fæ ég líka að vita hvað kemur út úr málbreytingakúrsinum. Mér líður dálítið illa yfir því. Fékk m.a.s. smá námsmannamartröð í nótt. Stödd í tíma, átti að halda fyrirlestur, ekkert undirbúin…

Það er ljóst að það er alltaf nóg að gera. En í dag og á morgun verður sama tempó og undanfarna viku: ekkert gert „af viti“. Það er nefnilega ótrúlega mikið vit í því. Lifi letin.

Ég er að hugsa um að fara eitthvað aðeins út í sveit í dag. Lætin í almenningsgarðinum okkar í gær voru helst til mikil fyrir minn smekk. Greinilega margir sem ekki komust í burtu þessa löngu helgi.

Annars skilst mér að það verði fjör á Austurvelli kl. 15 í dag. Og svo er spennandi kvöldvaka hjá Samtökum hernaðarandstæðinga á mánudagskvöld. Sjá hér.

Lifið í friði.

gleði

Ég var að fá einkunn fyrir Þýðingasögu. Níu. En það gerir mig ekki minna hrædda við Málbreytingar, verð alls ekki há þar, vona bara að ég skríði þó yfir fimmuna (og já, ég geri mér fulla grein fyrir því að ég neyðist til að gefa þá einkunn upp, hver sem hún verður, þýðir ekki að monta sig endalaust en þegja yfir því sem ekki er jafngott).

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha