skipulag [varúð: tepoki dauðans]

Nú þyrfti ég að koma skipulagi á líf mitt.

Eftir að hafa skilað seint á föstudagskvöldinu átti ég erfitt með að sofna. Ég reyndi að drekka vín, en gat það ekki einu sinni, svo illa var komið fyrir mér. Ég vakti fram eftir öllu, til skiptis í rúminu og fyrir framan tölvuna. Á laugardeginum fór ég í íslenska skólann með börnin og svo var lautarferð á eftir, því þetta var síðasti tíminn. Af því París er ekki Ísland, var veður rysjótt og gekk á með skúrum. Við ákváðum að halda í Íslendinginn í okkur og fara samt í lautarferð. Það rigndi varla nokkuð á okkur og var bara mjög gaman. Þegar við komum til baka að ná í bílana til að flýta okkur í næstu lautarferð, afmæli lítillar vinkonu, var búið að draga tvo þeirra í burtu. Þar á meðal minn. Ég nenni varla að verja það að ég skyldi leggja ólöglega. Ég er mjög þrjósk í að gera það ekki, en það var flóamarkaður í hverfinu sem tók yfir mikið magn af stæðum og í götunni sem ég lagði við truflar það engan, voru m.a.s. stæði þar til fyrir nokkrum mánuðum, örugglega bara einhver ríkisbubbi í götunni knúið það fram að fá götuna gerða bílastæðalausa. Og ég ákvað að leggja í síðasta lausa plássið í götunni, enda var hvergi löglegt stæði að finna. Og við vorum öll dregin í burtu. Sem betur fer tókst okkur að troðast í bíl vina okkar, þó hann væri reyndar troðfullur af dóti sem átti að koma aftur í geymsluna mína (annað flóamarkaðsdæmi sem ekki gekk upp) og fara á geymslusvæði lögreglunnar í 17. hverfi. Þessi svæði eru alltaf vel falinn og ekki merkt, við giskuðum á að það sé hluti af refsingunni. Það kostaði mig 136 evrur og smá vesen að fá bílinn (ég var ekki með skráningaskírteini því ég hafði misst það á gólfið í búðinni daginn áður, þegar ég fór að sækja grænmetiskörfu vikunnar). Kári fór svo með pabba sínum í afmælið í grenjandi rigningu, við Sólrún vorum heima, ég uppgefin í spennufalli og Sólrún með hitavellu.
Ég sat svo í sófanum með rauðvín og „horfði á“ Eurovision og var í partýi á snjáldurskinnu á meðan. Það var gaman. Í raun er stigagjöfin alltaf jafnskemmtilegt fyrirbrigði. Ég missti af næstum öllum lögunum, líka þeim sem ég var ákveðin í að sjá (nema náttúrulega Íslandi) en mér fannst Moldavía æðisleg og ég heimta lopapeysuþema næst hjá íslenska liðinu.
Á sunnudeginum fór ég í rigningu í göngu með túrista. Það var mjög gaman, oh, það er svo gaman að vinna. Mig langar að vinna meira. Eftir að hafa skilið við þá fór ég að hitta vin sem ég hef ekki séð í amk 10 ár. Þaðan stökk ég ofan í metró og fór í afmæli mágs míns, sem var haldið heima hjá tengdó, að öllum líkindum í síðasta sinn sem þau taka formlega á móti okkur saman í íbúðinni, flytja í sundur í byrjun júní. Ó, ég hlakka svo til, ó, ég kvíði svo fyrir.
Með mágnum var stúlkan sem hann kynntist á Alnetinu fyrir fjórum mánuðum síðan og var hún tekin nett fyrir af tengdapabba og þurfti að þola furðuna yfir því þegar þau keppast við að bjóða manni það sem þau keyptu fyrir boðið, í kross. Ég reyndi að vera henni stuðningur með því að hvísla að henni að hún mætti alveg segja nei, en hún tróð í sig þrenns konar kökum (það var alla vega ekki verið að skipta á söltu og sætu eins og gerist alltaf á jólunum) og stóð sig með mikilli prýði í fyrstu kynningu á tengdafjölskyldunni.
Á leiðinni heim frá tengdó þurfti ég að taka á mig krók til að skila bók sem ég hafði óforvarendis rænt af ferðalöngunum um morguninn.

Ég er örmagna. Íbúðin okkar er í rúst. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að reikna út hvenær ég tók síðast almennilega til í barnaherberginu, né hvenær skipt var á rúmunum hérna. Þvottakarfan er eins og íslenskt fjall. Pappírar út af skólanum, pappírar út af skattskýrslu, reikningar, bankayfirlit, gestasængin, orðabækurnar, geisladiskar, hitt og þetta, ditten og datten. Það eru hrúgur út um allt. Hrúgur sem öskra á mig að byrja að rútta sér til, þó mig langi mest til að loka öllum hlerum og leggjast undir sæng og sofa í þúsund klukkustundir.

Ég þarf að skipuleggja mig. Hvernig tekur maður á svona dæmi? Ég er búin að gleyma því hvernig það er að hafa ekki afsökun, að hafa ekki tíma í neitt nema læra/vinna. Sem betur fer þarf ég reyndar að fara til læknis á eftir, annars stefndi í að allur dagurinn færi í að sitja í sófanum og hugsa um allt sem ég þarf að gera. Nú ætla ég að stilla á útvarpið og taka alla vega til í mínu herbergi og finna til föt til að fara til læknisins, það hlýtur að leynast eitthvað hreint í skápnum mínum þó hann sé dálítið tómlegur.

Lifið í friði.

8 Responses to “skipulag [varúð: tepoki dauðans]”


 1. 1 parisardaman 18 Maí, 2009 kl. 10:08 f.h.

  Ég fór auðvitað ekki inn í mitt herbergi, heldur barnanna. Nú er allt þar á alvöru hvolfi, ég þoli ekki box sem eru fyllt af öllu í bland. Það er eitt pleimóbox, eitt legóbox, eitt „kalla“box o.s.frv. Hvorki börnin né kallinn minn virðast ná þessu þó einfalda flokkunarkerfi. Og nú er ég að verða of sein til læknisins, týpískt.

 2. 2 Líba 18 Maí, 2009 kl. 10:49 f.h.

  He he … mikið er gaman að fylgjast með vandamálum annarra … og sleppa þá við sín eigin rétt á meðan. Ég tek það fram að ég hef ekki minnstu áhyggjur af því að þú rúllir þessu ekki upp og þá veit ég líka að ég get rúllað mínum upp.

 3. 3 ella 18 Maí, 2009 kl. 12:05 e.h.

  Mikið hljómar þetta eitthvað heimilislega. Til dæmis dótakassarnir. Ég vil heldur hafa hlutina út um allt gólf heldur en „tiltekt“ þar sem allt er fjarlægt en troðið á bandvitlausa staði. Síðan finnur maður ekki nokkurn skapaðan hlut.
  Ég virðist heldur ekki geta lært að verkefnin hverfa ekki þó að maður hugsi um þau. Ég mun þó áreiðanlega halda áfram með þá aðferð.

 4. 4 parisardaman 18 Maí, 2009 kl. 12:17 e.h.

  Líba, já, það er sannarlega gott að heyra af annarra veseni, he he.
  Ella, þetta er ég alltaf að reyna að segja manninum mínum. Hann fer inn í barnaherbergið og hrúgar öllu á einhvern stað sem gerir það að verkum að ég er klukkutíma lengur að taka til en ef þetta lægi bara á gólfinu pent og fínt þar til ég setti í rétta kassa.

 5. 5 ghrafn 18 Maí, 2009 kl. 12:49 e.h.

  Alnetið? Lestu Moggann?

 6. 6 parisardaman 18 Maí, 2009 kl. 1:28 e.h.

  Mér finnst Alnetið svo fínt orð. Alltumlykjandi og hæfilega hrokafullt. Ég fór að nota það í gríni og nú gleymi ég m.a.s að skrifa það eins og ég gerði þá: ALnetið.

 7. 7 Linda Björk Jóhannsdóttir 18 Maí, 2009 kl. 4:02 e.h.

  Hæ pæ

  Ég er með eina reglu þegar allt er komið á hvolf og það er að byrja á þeim stað þar sem ég er sneggst að sjá árangur. Hvort sem það er við þrif eða við að ganga frá. Um leið og maður sér að eitthvað er búið þá verður allt hitt svo miklu minna 🙂

  Kveðja Linda.

 8. 8 parisardaman 19 Maí, 2009 kl. 6:56 f.h.

  Já, ætli ég sé ekki með svipað kerfi. Ganga fyrst frá stóru hlutunum (eða í þessu tilfelli fjöllunum af litlu hlutunum sem voru um allt herbergi barnanna).


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: