Ég nýt þess að gera nánast ekki neitt. Smá vinna en aðallega hangs með börnunum í 4 daga helgi og frábæru veðri. Prjóna stundum nokkrar umferðir. Les nokkrar blaðsíður í einhverri vel auglýstri franskri glæpasögu sem ég lét narrast til að kaupa þegar ég fór með myndavélina mína í viðgerðarmat (ekki láta mig byrja að tala um tryggingafélagafxxx).
Byrjuð að taka lit. Það er tilgangur lífsins, fyrir utan að liggja undir trjákrónum sem hvísla og fylgjast með fiðrildum. Ég gæti alveg vanist þessu lífi. En ég var búin að lofa mér því að taka ekki langt frí núna. Stóra spurningin er: Hvað á ég að taka mér fyrir hendur? Byrja á netsíðunni, taka til í hótellistanum, bæta við ódýrari hótelum og fleiri hugmyndum að ókeypis hlutum að gera?
Skrifa þessa grein sem ég er með hugmynd að og gæti átt erindi einhvers staðar, jafnvel bara á minni eigin vefsíðu? Byrja að þýða greinastúfana um konur sem hafa skilið spor sín eftir í París?
Byrja að lesa upp námsefni kúrsanna sem ég skráði mig úr í vetur, vinna verkefnin, með það fyrir augum að taka þau fög samhliða frönskukúrsunum sem ég tek næsta vetur? Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkur það, ég verð Erasmus-skiptinemi hér næsta vetur. Tek frönsku í París IV. Það verður eflaust púl, en ég hlakka til að vera staðnemi. Ég fór m.a.s. í símaviðtal í gær út af styrk sem ég sótti um sem íslenskur nemandi í Frakklandi. Fæ að vita um það eftir ca viku. Og vonandi fæ ég líka að vita hvað kemur út úr málbreytingakúrsinum. Mér líður dálítið illa yfir því. Fékk m.a.s. smá námsmannamartröð í nótt. Stödd í tíma, átti að halda fyrirlestur, ekkert undirbúin…
Það er ljóst að það er alltaf nóg að gera. En í dag og á morgun verður sama tempó og undanfarna viku: ekkert gert „af viti“. Það er nefnilega ótrúlega mikið vit í því. Lifi letin.
Ég er að hugsa um að fara eitthvað aðeins út í sveit í dag. Lætin í almenningsgarðinum okkar í gær voru helst til mikil fyrir minn smekk. Greinilega margir sem ekki komust í burtu þessa löngu helgi.
Annars skilst mér að það verði fjör á Austurvelli kl. 15 í dag. Og svo er spennandi kvöldvaka hjá Samtökum hernaðarandstæðinga á mánudagskvöld. Sjá hér.
Lifið í friði.
þið dóttir mín eigið eitt sameiginlegt: hún er að fara sem erasmus nemi til Skotlands í haust:)
ég styð það að þú hvílir lúin námsmannsbein og karpir díemminn.
Viðgerðarmatur er væntanlega snarl með myndavélarviðgerðarmanni??