Sarpur fyrir maí, 2009rautt

Ég verð ekki lengur hissa og pirruð þegar ég sé það notað gegn konu að hún eigi ekki börn. Þegar það er gefið í skyn að asnalegar skoðanir á pólitík eða öðrum málefnum gætu breyst, lagast, ef hún ætti börn. Ég verð ekki lengur hissa og pirruð, ég bókstaflega sé rautt þegar ég rekst á þetta fordómafulla bull í köllum (og kannski sumum konum, var bara að rekast á þetta hjá einhverjum kalli núna nýlega).
Ég sé rautt og mig langar mest að fara út í rassskellingar. Það er áreiðanlega það eina sem bjánar skilja, hvort eð er.

Lifið í friði.

Stieg

Nú er gersamlega kominn tími á að ég lesi Stieg Larsson. Myndin er komin í bíó og allt.
Franska þýðingin var hökkuð illilega niður en er víst ansi auðveld í lestri, segja vinkonur mínar sem lesa ekkert sérlega mikið á frönsku en skildu þetta vel. Ég hef séð gott og vont um ensku þýðinguna, en ég veit reyndar ekki um neinn sem gæti lánað mér þetta á ensku. Vinkona mín á hana á norsku og segir að ég geti alveg lesið verkið á því tungumáli. Ég fór einu sinni til Noregs þegar ég var ca 8 ára, kannski 9. Ég hef séð norskar bíómyndir.
Hvað á ég að gera?

Annars náði ég að taka ágætlega til hjá krökkunum. Næstum allt á sínum stað. Hins vegar setti ég ekki aftur á rúmin. Mér finnst leiðinlegt að setja á rúm. Það minnir mig alltaf á þegar ég vann á spítala.

Lifið í friði.

Sri Lanka

Ég vona sannarlega að eitthvað sé að marka stríðslokafréttir frá Sri Lanka. Ég hugsa til allra þeirra flóttamanna þaðan sem höfðu fengið hæli í Frakklandi og sem ég kynntist þegar ég vann á veitingahúsum. Margir svo frábærir, góðir og brosmildir. Einn svo hrikalega illa farinn að ég á alltaf erfitt með að ímynda mér að hann hafi lifað það af. Hann missti stóran hluta fjölskyldu sína í húsbruna tengdum stríðsátökunum og var vart mönnum sinnandi. Ég veit það samt ekki, kannski náði hann sér, hann átti yndislega konu.

Ég lærði að segja ýmislegt á Sri Lönsku, en man bara vannakam, góðan daginn. Get ómögulega munað tölurnar, sem er þó yfirleitt það sem ég læri fyrst og man lengst.

Lifið í friði.

skipulag [varúð: tepoki dauðans]

Nú þyrfti ég að koma skipulagi á líf mitt.

Eftir að hafa skilað seint á föstudagskvöldinu átti ég erfitt með að sofna. Ég reyndi að drekka vín, en gat það ekki einu sinni, svo illa var komið fyrir mér. Ég vakti fram eftir öllu, til skiptis í rúminu og fyrir framan tölvuna. Á laugardeginum fór ég í íslenska skólann með börnin og svo var lautarferð á eftir, því þetta var síðasti tíminn. Af því París er ekki Ísland, var veður rysjótt og gekk á með skúrum. Við ákváðum að halda í Íslendinginn í okkur og fara samt í lautarferð. Það rigndi varla nokkuð á okkur og var bara mjög gaman. Þegar við komum til baka að ná í bílana til að flýta okkur í næstu lautarferð, afmæli lítillar vinkonu, var búið að draga tvo þeirra í burtu. Þar á meðal minn. Ég nenni varla að verja það að ég skyldi leggja ólöglega. Ég er mjög þrjósk í að gera það ekki, en það var flóamarkaður í hverfinu sem tók yfir mikið magn af stæðum og í götunni sem ég lagði við truflar það engan, voru m.a.s. stæði þar til fyrir nokkrum mánuðum, örugglega bara einhver ríkisbubbi í götunni knúið það fram að fá götuna gerða bílastæðalausa. Og ég ákvað að leggja í síðasta lausa plássið í götunni, enda var hvergi löglegt stæði að finna. Og við vorum öll dregin í burtu. Sem betur fer tókst okkur að troðast í bíl vina okkar, þó hann væri reyndar troðfullur af dóti sem átti að koma aftur í geymsluna mína (annað flóamarkaðsdæmi sem ekki gekk upp) og fara á geymslusvæði lögreglunnar í 17. hverfi. Þessi svæði eru alltaf vel falinn og ekki merkt, við giskuðum á að það sé hluti af refsingunni. Það kostaði mig 136 evrur og smá vesen að fá bílinn (ég var ekki með skráningaskírteini því ég hafði misst það á gólfið í búðinni daginn áður, þegar ég fór að sækja grænmetiskörfu vikunnar). Kári fór svo með pabba sínum í afmælið í grenjandi rigningu, við Sólrún vorum heima, ég uppgefin í spennufalli og Sólrún með hitavellu.
Ég sat svo í sófanum með rauðvín og „horfði á“ Eurovision og var í partýi á snjáldurskinnu á meðan. Það var gaman. Í raun er stigagjöfin alltaf jafnskemmtilegt fyrirbrigði. Ég missti af næstum öllum lögunum, líka þeim sem ég var ákveðin í að sjá (nema náttúrulega Íslandi) en mér fannst Moldavía æðisleg og ég heimta lopapeysuþema næst hjá íslenska liðinu.
Á sunnudeginum fór ég í rigningu í göngu með túrista. Það var mjög gaman, oh, það er svo gaman að vinna. Mig langar að vinna meira. Eftir að hafa skilið við þá fór ég að hitta vin sem ég hef ekki séð í amk 10 ár. Þaðan stökk ég ofan í metró og fór í afmæli mágs míns, sem var haldið heima hjá tengdó, að öllum líkindum í síðasta sinn sem þau taka formlega á móti okkur saman í íbúðinni, flytja í sundur í byrjun júní. Ó, ég hlakka svo til, ó, ég kvíði svo fyrir.
Með mágnum var stúlkan sem hann kynntist á Alnetinu fyrir fjórum mánuðum síðan og var hún tekin nett fyrir af tengdapabba og þurfti að þola furðuna yfir því þegar þau keppast við að bjóða manni það sem þau keyptu fyrir boðið, í kross. Ég reyndi að vera henni stuðningur með því að hvísla að henni að hún mætti alveg segja nei, en hún tróð í sig þrenns konar kökum (það var alla vega ekki verið að skipta á söltu og sætu eins og gerist alltaf á jólunum) og stóð sig með mikilli prýði í fyrstu kynningu á tengdafjölskyldunni.
Á leiðinni heim frá tengdó þurfti ég að taka á mig krók til að skila bók sem ég hafði óforvarendis rænt af ferðalöngunum um morguninn.

Ég er örmagna. Íbúðin okkar er í rúst. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að reikna út hvenær ég tók síðast almennilega til í barnaherberginu, né hvenær skipt var á rúmunum hérna. Þvottakarfan er eins og íslenskt fjall. Pappírar út af skólanum, pappírar út af skattskýrslu, reikningar, bankayfirlit, gestasængin, orðabækurnar, geisladiskar, hitt og þetta, ditten og datten. Það eru hrúgur út um allt. Hrúgur sem öskra á mig að byrja að rútta sér til, þó mig langi mest til að loka öllum hlerum og leggjast undir sæng og sofa í þúsund klukkustundir.

Ég þarf að skipuleggja mig. Hvernig tekur maður á svona dæmi? Ég er búin að gleyma því hvernig það er að hafa ekki afsökun, að hafa ekki tíma í neitt nema læra/vinna. Sem betur fer þarf ég reyndar að fara til læknis á eftir, annars stefndi í að allur dagurinn færi í að sitja í sófanum og hugsa um allt sem ég þarf að gera. Nú ætla ég að stilla á útvarpið og taka alla vega til í mínu herbergi og finna til föt til að fara til læknisins, það hlýtur að leynast eitthvað hreint í skápnum mínum þó hann sé dálítið tómlegur.

Lifið í friði.

húsmæðraskipti

Ég fékk tölvupóst í dag um að frönsk kona myndi kannski skrifa mér fljótlega. Hún gengur með þann draum að koma til Íslands, en hana langar til að komast inn á heimili og vera með fólkinu. Ekki bara svona venjulegur túristi. Ég skil það mjög vel og finn sjálf alltaf fyrir því þegar ég ferðast á ókunnar slóðir (sem er í raun afar sjaldgæft, föst sem ég er milli þess að vera bara í Frakklandi og ferðast bara til Íslands), að mig langar svo að komast inn til fólksins sem býr á staðnum.
Þessa konu langar að bjóða tvær vikur á sínu heimili í Normandí gegn því að fá að koma í tvær vikur inn á íslenskt heimili. Hún er gift og á tvö börn, 21 og 17 ára.
Ég hef ekki enn fengið póst frá henni sjálfri, kannski mun hún aldrei láta verða af því að senda hann, kannski finnst henni þetta eitthvað kjánalegt, ég meina, við höfum aldrei séð svona auglýsingu áður. Hvað finnst ykkur, væruð þið til í að taka hana að ykkur og koma svo einhvern tímann til hennar? Persónulega væri ég til í svona díl, vandamálið er að ég er ekki með aukaherbergi. En á mitt heimili er gott fólk alltaf velkomið í svefnpokapláss, vitandi að hér er farið snemma á fætur, hvort sem setið er lengi að spjalli með tilheyrandi í glasi kvöldið áður eða ekki.

Lifið í friði.

eurovision – sing star

Er keppnin líka sent út með sing-star style texta á Íslandi? (nota bene, ég er ekki að hlusta, bara með myndina á að gamni meðan ég bíð eftir pabbanum sem er að lesa fyrir börnin).

Ég heyri gítarleikara-unglinginn og systur hans á hæðinni fyrir neðan syngja með. Spurningin hlýtur þá að vera: hvort þeirra er gay?

Lifið í friði.

nágrannar

Á hverjum laugardegi um klukkan sjö að kvöldi hefjast tökur í íbúðinni á móti okkur hér á litla stigapallinum. Margar þeirra fara fram við hurðina og úti á ganginum sem glymur hrottalega í. Á hverjum laugardegi um klukkan sjö fæ ég svona tilfinningu yfir mig um að ég gæti alveg breyst í gömlu þreyttu kellinguna sem færi fram og bæði þau vinsamlegast um að sýna nágrönnum sínum lágmarskvirðingu. En tilfinningin varir í um tíu sekúndur og svo hristi ég mig og finn frekar blossa upp í mér nostalgíuna yfir því að einu sinni var ég hluti af hópi ungmenna sem truflaði fólkið í stigaganginum með kvikmyndatökum og tilheyrandi stússi. Að ekki sé talað um öll partýin sem við héldum. Ég næ því stundum ekki að fólkið í húsinu skyldi ekki hreinlega koma og stinga okkur á hol, lætin gátu verið ansi mikil á köflum. Og þegar ég hugsa um það, var konan sem bjó fyrir ofan okkur og mér fannst eldgömul úreld kelling, líklega bara tæplega fertug kúl gella sem skildi nákvæmlega að við vorum að fara í gegnum skeið sem hún sjálf mundi svo vel eftir og saknaði jafnvel pínulítið, svona stundum.
Lífið er svo skemmtilega ballanserað: what comes around, goes around.

Ég er búin að gefa loforð um að senda inn stig fyrir íslenska lagið í kvöld. Ég stend við það, alla vega ef ég verð vakandi þegar að því kemur, klukkan hvað er það annars?

Lifið í friði.

myrkur

og búin að skila. ekki ánægð en ég er það svo sem aldrei.

Lifið í friði.

sól

sól núna. ekki búin að skrifa.

Lifið í friði.

regn

Ég skrifa. Þú lest. Hann/hún/það rignir.

Lifið í friði.