Sarpur fyrir júní, 2009

30 stig og sól

Alla fokking vikuna. Og ég á leið á skerið. Hrmpfff.

Tók ég hárin af kálfum mínum og lagði þau á jörðina. Og legg ég á og mæli svo um að veðrið skuli verða gott á Íslandi í júlí, nógu mörgum er ég búin að lofa því.

Lifið í friði.

grill, pikknikk og fjallganga á Stór-Reykjavíkursvæðinu

Í gær lét ég verða af því sem ég hef verið að spá í síðan ég flutti hingað, tók grillið úr geymslunni og bar það upp í „skóginn okkar“ og grillaði með nágrönnum sem eru að flytja á brott. Það var fáránlega indælt, ég næ því ekki að við skulum ekki hafa gert þetta fyrr. Og auðvitað áttum við að láta fleiri vita, nóg er af plássi. Það var nákvæmlega engin truflun af öðru fólki, okkur leið eins og við værum lengst uppi í sveit. Ég áttaði mig á því um kvöldið að þetta var fyrsti laugardagur í útsölu, það skýrir líklega mannfæðina. Gott að vera með neyslubremsu og algerlega laus við að „þurfa“ á útsölurnar.
Í dag verður svo pikknikk í Vincennes, aftur sól og hiti. Lækur að baða sig í.

Svo verður bara pökkun á morgun og brottför til nyrsta þriðjaheimsríkis í heiminum. Vikuna 6. júlí er ég laus á daginn og óska hér með eftir leiðsögumanni í dagsgöngu á fjall í nágrenni höfuðstaðarins. Svo þarf að skipuleggja bloggarakveðjuvinahittingskaffiboð. Hverjir eru lausir hvenær?

Lifið í friði.

hjól vs. metró

Ég er ekki að fara á hjólinu í bæinn. Rigningin er eins og fossinn í stofunni hjá ríka manninum.

Lifið í friði.

Hello, goodbye

Ég byrja alltaf á að skrifa orðið goodbye vitlaust (nema akkúrat núna því ég var með fyrirsögnina til að styðjast við).

Þar sem ég stóð að hengja upp úr fimmtugustu vél vikunnar í gær, fór ég að spá í það að líklega væri ukulele-dæmið eitthvað svipað og iPod-dæmið sem ég uppgötvaði mér til skelfingar í fyrra að væri merki um hjarðarhegðun mína. Mig fór að langa í iPod um svipað leyti og allir fóru að fá sér iPod. Það er nefnilega staðreynd að vinkonan sem seldi mér hljóðfærið, var í byrjun mjög efins um að ná upp í þessi 10 stykki sem hún þurfti til að geta fengið þau á heildsöluverðinu en endaði svo með að selja hvorki meira né minna en 16 eins og að smella fingri. Það er því ljóst að ukulele-æði er að renna upp í Frakklandi.
Og viti menn, um svipað leyti, að öllum líkindum á sömu sekúndunni, og ég er að hugsa þetta kemur Dr. Gunni með pistil um að hann hafi kannski verið fyrsti íslenski ukulele-eigandinn (ég get reyndar auðveldlega hrakið það) en að nú gangi öll krúttin um syngjandi og lemjandi smágítar.

Ég sit hérna og velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara í ákveðna búð lengst niðri í bæ til að kaupa ákveðna hluti sem mig langar að koma með heim handa ákveðnu fólki. Mig langar miklu miklu meira að sitja áfram hérna fyrir framan tölvuna, með ukulele og reyna að ná milli kaflanum: hello, hello, oooooohhhh oh no! I say hello and you say goodbye (og aftur skrifaði ég goodbuy fyrst).

Ætli Miachel Michael Jackson hafi átt réttinn að þessu lagi? Átti hann ekki megnið af Bítlalögunum? Og hlaut viðurnefnið Bambi frá Paul McCartney fyrir?
Ef ég væri erfingi, myndi ég skila afkomendum Bítlanna gefa íslenska ríkinu réttinn að öllum Bítlalögunum og að Thriller-plötunni.

Og svo er Farah Fawcett líka farin. Ég var einhvern tímann með mynd af henni á korktöflunni minni, ásamt slatta af öðru fallegu fólki.

Lifið í friði.

Ríkið

Kaupa bók, lesa bók.

Lifið í friði.

barnaveiðistangir

Ég er búin að lofa börnunum mínum að þau fái að prófa að veiða á Íslandi. Það getur vel verið að í fjölskyldunni minni leynist barnaveiðistangir, en til öryggis sendi ég nú ákall til bloggvinanna: á einhver gamla barnaveiðistöng eða aðrar veiðigræjur sem eru að daga uppi í geymslunni og vantar nýja leikfélaga í júlí?
Há stígvél væru líka vel þegin, Kári er í ca 27, Sólrún í ca 31. Þau eiga stígvél, sem eru mjög lág, finnst mér.

Svo hef ég líka verið að spá í það hvort okkur vanti ekki bílstól, þ.e.a.s. svona upphækkun, þau eru orðin of þung fyrir bílstóla með beltum í, nota upphækkun (helst með baki) ásamt bílbeltunum. Bara svona ef einhver lumar á dóti…

Stell og útréttingar. Pælingar og skipulagning. Og ekkert kemst ég áfram í ukulele-sjálfsnáminu á meðan…

Lifið í friði.

harka

Þetta verður hörkuvika. Þarf að hitta ýmsa sem eiga leið um borgina, ganga frá nokkrum lausum endum varðandi ágúst, endalaust að vera til staðar fyrir tengdaforeldrana í þeirra endalausu flutningum, halda eitt stykki matarboð, mæta í tvö stykki lokahóf í tónlistarskólanum, fara í bankann (það er langversta verkefnið, ekki að ég skuldi nokkuð, ég bara fæ alltaf andateppu þegar ég geng inn í banka og þetta mál verður ekki leyst öðruvísi en augliti til auglitis við gjaldkera eða jafnvel útibústjóra), kaupa afmælisgjöf og aðra (má ekki kosta mikið, en verður að líta út fyrir hið gagnstæða, flókið mál), kaupa eitthvað handa litlu frænku, kaupa eitthvað af mat til að fara með í kreppulandið (komnar óskir um parmesan), redda, stella og taka til, og auðvitað þarf maður að halda áfram að vera móðir, kona og meyja í gegnum þetta. Ég nenni þessu ekki. Mig langar að grafa holu, leggjast ofan í hana og grafa yfir.
En auðvitað bretti ég upp ermarnar og tek þetta með stæl. Þannig er það bara.
Og það skemmtilega er náttúrulega að það styttist í heimferð. Fjölskylda og vinir, Reykjavík, sundlaugarnar og allt hitt, bara þarna rétt hadan við hornið.

Lifið í friði.

ukulele

Ég er aðeins byrjuð að æfa mig, en mér líður dálítið eins og ég sé með tíu þumalfingur.

Lifið í friði.

trú

Eftir útförina í fyrradag fóru börnin að spyrja mig spjörunum úr um hvar Claire væri núna. Ég útskýrði fyrir þeim að sumir tryðu því að nú væri Claire komin til himna eins og margoft var sagt við athöfnina í kirkjunni. Svo sagði ég þeim (enn og aftur) að þetta væri þó eingöngu kenning, að engin sönnun væri fyrir þessu og að fullt af fólki tryði þessu alls ekki. Sumir hefðu annars konar hugmyndir um líf eftir dauðann, en aðrir væru sannfærðir um að við yrðum bara að mold og allt væri búið.
Þau meltu þetta í smá stund og ákváðu svo í sameiningu að trúa á Guð. Ég sagðist glöð myndu kenna þeim Faðirvorið (sem er lengra á íslensku en á frönsku btw, ég komst heldur betur að því þarna, þurfti tvisvar sinnum að halda áfram einar tvær, þrjár línur eftir að hinir voru búnir að segja amen) og jafnvel fleiri bænir. Ekki hef ég þó byrjað enn, en mér finnst sjálfri mjög gott mál að leyfa þeim að trúa á Guð og geta farið með bænir til að róa sig niður. Ég þurfti sjálf heldur betur á því að halda í æsku, átti erfitt með svefn og var oft þjáð af einhvers konar angist. Ég man til dæmis þegar ég sá fyrstu fréttaskýringuna um Aids, ég var sannfærð um að mannkynið væri að deyja út, og dreymdi reglulega fjölskyldu og vini stráfalla í kringum mig. Ég var mjög trúuð og tók þessu öllu mjög alvarlega þar til ég var 16 ára. Þá missti ég bekkjarfélaga og um leið endurskoðaði ég þennan blessaða Guð minn, afneitaði honum lengi en sættist svo á eitthvað persónulegt, líklega vegna þess að ég þarf virkilega á því að halda til að þola tilhugsunina um dauðann.
Trú mín er eitthvað sem ég á alveg sjálf og ég þarf hvorki presta né söfnuð til að styrkja mig í henni. Ég ber hana í hjarta mér, kannski bið ég til Guðs, kannski ekki. Ykkur kemur það bara hreinlega ekki við. Mér finnst stundum mjög gott að koma inn í kirkjur, en sumar þeirra hafa engin sefandi áhrif á mig.

Börnin mín hafa algert valfrelsi. Pabbi þeirra er algerlega trúlaus og gaf skít í allt trúarstand. Eitt af stærstu ágreiningsmálum okkar kom upp þegar ég lét skíra dóttur mína okkar á Íslandi í kyrrþey yfir kistu ömmu minnar. En síðan þá hefur hann lesið töluvert mikið um trúmál, bæði Gyðingdóm, Islam og kristni og hann segist mun opnari. Við höfum ekki rætt það mjög djúpt, ég held ekki að hann sé á leið að ganga í neinn söfnuð, en hann segist skilja mun betur fólk sem trúir og virða þá lífsskoðun.

Ég mun ekki leggja mikið á mig fyrir trúarlegt uppeldi barna minna. Ég legg mun meiri áherslu á að þau læri almenna kurteisi og virðingu fyrir náunganum sem ég tel yfir trúarskoðanir hafnar. Ég styð (í anda) bæði Vantrú og Siðmennt í baráttunni fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju, mér finnst það svo sjálfsagt baráttumál að ég nenni ekki einu sinni að ræða það frekar.

Ég veit ekki alveg hvort ég á að birta þetta, líklega var ég bara að skrifa þetta fyrir sjálfa mig, en að vissu leyti finnst mér ég þurfa að koma þessu á framfæri. Jú, ég læt þetta flakka.

Lifið í friði.

samningameistarinn

Dóttir mín sýndi fína takta í samningaviðræðum við móður sína í dag: Mamma, má ég fá myndir að lita (úr tölvunni), gerðu það… gerðu það… gerðu það… gerðu það… Mamma, gerðu það…
Eftir tíu mínútna andstöðu móður og beiðni um að hætta að suða kom sú stutta með ágætis málamiðlun: ókei, mamma, við fáum annað hvort myndir að lita, eða þá að við fáum að horfa á sjónvarpið. Þú mátt velja, elsku mamma mín.

Ef hún væri aðeins eldri, myndi ég mæla með henni í alþjóðaviðskiptaþrugldæmið sem ríkisstjórnin stendur í núna.

Óþarfi er að taka það fram, að eftir smá útskýringar á siðareglum og afarkostum, fengu þær Lucie að velja sér myndir að lita. Eina hvor. Þær voru harðar í að reyna að breyta þessum tveimur sem ég samþykkti í tvær á mann, en það stóðst ég bjargföst.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha