trú

Eftir útförina í fyrradag fóru börnin að spyrja mig spjörunum úr um hvar Claire væri núna. Ég útskýrði fyrir þeim að sumir tryðu því að nú væri Claire komin til himna eins og margoft var sagt við athöfnina í kirkjunni. Svo sagði ég þeim (enn og aftur) að þetta væri þó eingöngu kenning, að engin sönnun væri fyrir þessu og að fullt af fólki tryði þessu alls ekki. Sumir hefðu annars konar hugmyndir um líf eftir dauðann, en aðrir væru sannfærðir um að við yrðum bara að mold og allt væri búið.
Þau meltu þetta í smá stund og ákváðu svo í sameiningu að trúa á Guð. Ég sagðist glöð myndu kenna þeim Faðirvorið (sem er lengra á íslensku en á frönsku btw, ég komst heldur betur að því þarna, þurfti tvisvar sinnum að halda áfram einar tvær, þrjár línur eftir að hinir voru búnir að segja amen) og jafnvel fleiri bænir. Ekki hef ég þó byrjað enn, en mér finnst sjálfri mjög gott mál að leyfa þeim að trúa á Guð og geta farið með bænir til að róa sig niður. Ég þurfti sjálf heldur betur á því að halda í æsku, átti erfitt með svefn og var oft þjáð af einhvers konar angist. Ég man til dæmis þegar ég sá fyrstu fréttaskýringuna um Aids, ég var sannfærð um að mannkynið væri að deyja út, og dreymdi reglulega fjölskyldu og vini stráfalla í kringum mig. Ég var mjög trúuð og tók þessu öllu mjög alvarlega þar til ég var 16 ára. Þá missti ég bekkjarfélaga og um leið endurskoðaði ég þennan blessaða Guð minn, afneitaði honum lengi en sættist svo á eitthvað persónulegt, líklega vegna þess að ég þarf virkilega á því að halda til að þola tilhugsunina um dauðann.
Trú mín er eitthvað sem ég á alveg sjálf og ég þarf hvorki presta né söfnuð til að styrkja mig í henni. Ég ber hana í hjarta mér, kannski bið ég til Guðs, kannski ekki. Ykkur kemur það bara hreinlega ekki við. Mér finnst stundum mjög gott að koma inn í kirkjur, en sumar þeirra hafa engin sefandi áhrif á mig.

Börnin mín hafa algert valfrelsi. Pabbi þeirra er algerlega trúlaus og gaf skít í allt trúarstand. Eitt af stærstu ágreiningsmálum okkar kom upp þegar ég lét skíra dóttur mína okkar á Íslandi í kyrrþey yfir kistu ömmu minnar. En síðan þá hefur hann lesið töluvert mikið um trúmál, bæði Gyðingdóm, Islam og kristni og hann segist mun opnari. Við höfum ekki rætt það mjög djúpt, ég held ekki að hann sé á leið að ganga í neinn söfnuð, en hann segist skilja mun betur fólk sem trúir og virða þá lífsskoðun.

Ég mun ekki leggja mikið á mig fyrir trúarlegt uppeldi barna minna. Ég legg mun meiri áherslu á að þau læri almenna kurteisi og virðingu fyrir náunganum sem ég tel yfir trúarskoðanir hafnar. Ég styð (í anda) bæði Vantrú og Siðmennt í baráttunni fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju, mér finnst það svo sjálfsagt baráttumál að ég nenni ekki einu sinni að ræða það frekar.

Ég veit ekki alveg hvort ég á að birta þetta, líklega var ég bara að skrifa þetta fyrir sjálfa mig, en að vissu leyti finnst mér ég þurfa að koma þessu á framfæri. Jú, ég læt þetta flakka.

Lifið í friði.

10 Responses to “trú”


 1. 1 ella 19 Jún, 2009 kl. 11:09 f.h.

  Gæti trúað að við séum nokkuð skyldar andlega.

 2. 2 AP 19 Jún, 2009 kl. 11:20 f.h.

  Gleðilega hátíð, kæra!

  Gaman er að lesa um trú þína. Ég er á nákvæmlega sömu línunni, enda alin upp af móður með svipaða trúarafstöðu, trúlausum föður og frjálslega heittrúaðri gamalli fósturmóður sem signdi okkur á hverju kveldi og kenndi mér ca. 20-30 sálma og bænir í bland við tugi ljóða og lausavísna. Sem sagt, frjálst, íslenskt trúaruppeldi. (Að sjálfsögðu var krossmarkið vopn í baráttu við myrkfælninni meðan hún varði!). Á unglingsárunum bætti séra Árelíus svo um betur og fræddi nemendur sína um að guð væri hið góða í manninum og las fyrir okkur „Vesalingana“ í kristnifræðitímum!

 3. 3 gulla 19 Jún, 2009 kl. 12:12 e.h.

  Þú meinar; þú lést skíra dóttur ykkar. pínu smámunasemi hér á ferð… styttist í óðum í ykkur. Við mæðgurnar erum rosalega spenntar!!

 4. 4 parisardaman 19 Jún, 2009 kl. 12:46 e.h.

  Ég held að þessi millivegur sé mjög algengur, Ella og Amma pönk. Séra Árelíus hefur greinilega vitað hvað hann söng. Líkt og presturinn sem messaði yfir Claire, bróðir hennar. Hann barðist víst í athöfninni við integristann, prestinn úr sjálfri kirkjunni, sem var ekki fullkomlega sáttur við að þurfa að lána stól sinn og hvað þá til prests sem er þekktur fyrir að hvetja kaþólsku kirkjuna til að viðurkenna önnur trúarbrögð, sem og vantrúaða, sem hann bauð t.d. sérstaklega velkomna í upphafi ræðu sinnar.
  He he, rétt hjá þér Gulla. Svona smáatriði geta skipt máli. Nú er spurningin hvort ég á að leiðrétta, eða láta standa mér til ævarandi skammar?

 5. 5 baun 19 Jún, 2009 kl. 5:51 e.h.

  góður pistill hjá þér Parísardama.

 6. 6 Svala 19 Jún, 2009 kl. 6:02 e.h.

  Góður pistill. Sjálf er ég algjörlega trúlaus, en væri til í að eiga trú einmitt til þess að geta sæst betur við dauðann. Hins vegar getur maður ekki búið til trú ef hún er ekki fyrir hendi.

 7. 7 Ævar Örn 21 Jún, 2009 kl. 3:07 f.h.

  Algjörlega trúlaus og alveg sáttur við dauðann samt sem áður. Því þegar ég drepst – tja, þá er þetta bara búið og mér mun líða enganveginn. Er á meðan er, það dugir mér…en um að gera að gera sem mest úr því á meðan það varir, auðvitað.

 8. 8 parisardaman 21 Jún, 2009 kl. 10:08 f.h.

  Ójá, það er sko satt og rétt. Hugsaðu þér fólk sem nýtir ekki tímann, sóar lífinu án þess að lifa því. Það er mín stærsta angist.

 9. 9 ella 21 Jún, 2009 kl. 2:26 e.h.

  Ég þekki trúlausan deyjandi mann sem er fullkomlega sáttur við lífið, dauðann og allt sem í kring um hann er.

 10. 10 bestertesterblog 23 Jún, 2009 kl. 12:31 f.h.

  Noh! Hitti ég ekki bara á „trú“systur í þér?!? Er einmitt svona innréttuð gagnvart trúarbrögðum. Syni mínum hefur hingað til fundist voða gott að vera trúaður. Svo verður hann bara að ráða þessu, blessaður.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: