pakk

Enn og aftur stend ég í því að pakka niður. Og enn og aftur eru það börnin. Nú er það Tyrkland í tvær vikur með afa. Margir hafa áhyggjur af því að hann sé að fara einn með þau, en ég blæs á slíkt enda eru þau að fara í Club Med, búa í litlum strandkofa, borða af hlaðborði í öll mál og eru á leikjanámskeiði frá 9 til 17 á daginn. Þau eru búin að læra að setja á sig sólkremið sjálf og lofa að vera þæg eins og englarnir sem þau vissulega eru. Og í bónus eru þau svo líka flott beita fyrir nýfráskilinn afann. Ég treysti því að hann komi heim brúnn, sæll og ástfanginn.

Ég veit að ég á að vera þakklát fyrir það hvernig fólk slæst um að fá að vera með börnin mín, en að vissu leyti er ég hálfleið að missa þau frá mér núna í þessu góða veðri og með ekkert að gera nema helvítis námsþýðingar sem ég nenni hvort eð er ekki að vinna. En svona er þetta. Fram að þessu fóru þau þessar tvær vikur með afanum og ömmunni, en núna urðu þau að fara fyrst í nokkra daga með ömmunni og svo þessar tvær vikur með afanum. Ég hafði ekki brjóst í mér til að reyna prútta fríið hans niður í eina viku, hann hefur farið þessar tvær vikur á sama staðinn (reyndar ekki alltaf sama landið en Club Med er alltaf bara Club Med og gæti verið á tunglinu þess vegna ef veður og þyngdarlögmál leyfðu) og ef einhver er vanafastur er það áreiðanlega bara djók við hliðina á áráttukenndri vanafestu tengdaföður míns.

Ég ætla að skreppa í skottúr til Normandí um helgina að heimsækja köttinn Gaston sem trónir hér efst á síðunni einmitt núna. Og í næstu viku skrepp ég í smá heimsókn til vinafólks við Atlandshafsströndina og verð þá með þýðingarverkefnið með mér. Og tölvuna, en líklega enga nettengingu. Quoique.

Lifið í friði.

8 Responses to “pakk”


 1. 1 Harpa J 14 Ágú, 2009 kl. 7:44 e.h.

  Það verður örugglega ógurlega gaman hjá þeim – og þú átt eftir að sakna þeirra töluvert. Þannig er prógrammið er ég hrædd um.

 2. 2 vælan 14 Ágú, 2009 kl. 7:58 e.h.

  hva, munar hann nokkuð um að bjóða þér þá bara með í staðinn fyrir þá fyrrverandi? alveg hægt að vinna á tölvuna við sundlaugarbakkann meðan olíubornir þjónar bera í þig móhítóinn 😉

 3. 3 parisardaman 14 Ágú, 2009 kl. 9:47 e.h.

  Harpa: Já, þetta er víst bara normið.
  Hallveig: Það kom upp sú hugmynd að ég færi með. Ég afþakkaði pent, svona frí á alls ekki við mig. Úr fjarska gæti ég alveg látið mér líka við myndina sem þú framkallar, en eftir tvo klukkutíma í aðstæðunum væri ég komin með alvarlegt óþol gagnvart þessu. Ég hét því 19 ára að fara aldrei aftur í svona sólarlandafrí. Hef látið hafa mig út í að brjóta það og mun eflaust gera ef slík fjölskylduferð verður farin aftur. En vil helst ekki þurfa að koma nálægt svona stöðum. Gerviheimur sem heillar mig ekki neitt. Mig hefði langað að hafa krakkana hér hjá mér til að geta haft þau með í okkar ferðalög, en ég er hætt þessu væli, akkúrat núna. Þetta verður æði hjá þeim og fínt fyrir mig að hafa enga afsökun til að vera ekki að læra smá.

 4. 4 baun 14 Ágú, 2009 kl. 11:21 e.h.

  æ, þetta er hálfgert rassgat en vonandi verður gaman hjá barnungunum og afinn ekki það ástfanginn að hann gleymi að gefa þeim að borða.

 5. 5 parisardaman 15 Ágú, 2009 kl. 2:38 f.h.

  He he, nei nei, það væri nú klúður að eyðileggja beituna. Hann verður að vera hinn fullkomni afi, sko.

 6. 7 hildigunnur 15 Ágú, 2009 kl. 1:15 e.h.

  Góða ferð, bæði börn og þú. Gaston verður örugglega glaður að sjá þig – hvort sem hann nú lætur það í ljós eða ei…

 7. 8 parisardaman 16 Ágú, 2009 kl. 7:11 e.h.

  Gaston tók varlega á móti okkur og leyfði mér ekki að klappa sér almennilega fyrr en ég kvaddi hann með virktum. Takk takk.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: