Af Gaston, Tigrou, Gremlin og Bohème

Gaston vildi ekki leyfa mér að koma við sig fyrr en þegar ég var að fara. Ég þóttist sjá blik í augum hans þegar ég tjáði honum að það væri mynd af honum á alnetinu og fékk ég að klóra honum örlitla stund bakvið annað eyrað.
Gremlin var öllu kelnari, malaði og nuddaði sér upp við mig og Tigrou (frb. Tígrú) hélt fast í venjur sínar um að drekka aperítífinn með okkur við borðið sem stendur undir trjánum sem mynda kærkominn skugga í þrjátíu stiga hita. Myndin af Sólrúnu og Gaston er einmitt tekin þaðan. Tigrou er að verða tvítugur og á erfitt með að komast sjálfur upp á stólinn. Hann nuddar sér við tærnar á manni og hefur alla sína ævi verið haldinn skó- og fótablæti.
Á heimilið hefur bæst við nýr köttur, Bohème, sem lét varla sjá sig um helgina. Hann er mikið vöðvabúnt og segja eigendurnir (sem kalla sig reyndar þrælana) að hann sé þungur eins og trjádrumbur. Hann klífur tré og hús af mikilli fimi en á það til að detta þegar hann gleymir sér og fer að velta sér um á erfiðum stöðum og haltrar því iðulega. Versta fallið var þegar hann klóraði gat á plasthlífina yfir suðurterrössunni, það er ekki mjög hátt og kom honum svo á óvart að hann náði ekki að setja sig í neinar stellingar. Þá þurfti hann að fara til læknis og fá spelku.
Það ríkir ákveðin samkeppni og afbrýðisemi milli kattanna, en Tigrou er þó óumdeilanlegur foringi þeirra. Hann þarf að borða sérstakan mat og virða yngri kettirnir skálina hans skilyrðislaust. Þeir draga sig líka alltaf í hlé ef hann kemur að fá sér meðan þeir eru að borða.
Mig langar ennþá meira í kött eftir allar kattasamræðurnar um helgina. Kettir eru svo merkileg og skemmtileg dýr. Og svo óendanlega miklu skemmtilegra að tala um og fylgjast með köttum en til dæmis skítkastkeppni í stjórnmálahreyfingu eða umræðum á Alþingi manna.

Lifið í friði.

11 Responses to “Af Gaston, Tigrou, Gremlin og Bohème”


 1. 1 einar jónsson 17 Ágú, 2009 kl. 12:00 f.h.

  Ég sá kött veiða dúfu við Tjörnina um daginn.

 2. 3 ella 17 Ágú, 2009 kl. 12:19 f.h.

  Ekki langar mig allra minnstu vitund í kött. Fínt að mann skuli ekki langa í allt.

 3. 4 parisardaman 17 Ágú, 2009 kl. 8:59 f.h.

  Einar, þau hjón voru einmitt hálfmiður sín þegar við komum, því þau höfðu þurft að leita dyrum og dyngjum að fuglshræi í húsinu. Konan fann það meðan hann var að sækja okkur á lestarstöðina. Þeir eiga þetta til, líklega Bohème, en aldrei til að éta, bara til að murka lífið úr vesalings smáfugli. Minn köttur gæti þetta náttúrulega ekki þar sem hann yrði inniköttur. Sem stoppar mig einmitt í því að eignast kött…
  Ella: Já, eins gott að allir vilji ekki allt!

 4. 5 Frú Sigurbjörg 17 Ágú, 2009 kl. 10:14 f.h.

  Klæjaði þig í kattabeinið kerlingin mín.
  Kettir eru hin bestu gæludýr fyrir sjálfselskusvín eins og mig; matur í dall, opinn gluggi, klapp-stjrúk og mal þegar hentar, köttur og eigandi fara sínar eigin leiðir þess á milli.

 5. 6 vinur 17 Ágú, 2009 kl. 5:57 e.h.

  Ég er stjúpmamma tveggja katta,Bob (kvk) og Marley. Bob er venjulegur bröndóttur köttur og Marley er einhver blanda af norskum skógarketti sýnist mér. ÉG get því miður ekki sagt að kettir séu mín uppáhaldsdýr en þeir eru ágætir á köflum greyin.
  Svanfríður.

 6. 7 baun 17 Ágú, 2009 kl. 6:26 e.h.

  mamma á kött og það er nóg fyrir mig, enda stynur hún oft yfir kattarhárum út um allt og hálfdauðum músum og fuglum sem kisa dregur inn í hús. að ég nú tali ekki um flóabitin sem fylgja stundum…

 7. 8 Ævar Örn 17 Ágú, 2009 kl. 10:52 e.h.

  Kettir hafa kosti og galla einsog mannfólkið. Held samt að hlutfallið sé hagstæðara hjá köttunum, svona heilt yfir altsvo…

 8. 9 Linda Björk Jóhannsdóttir 18 Ágú, 2009 kl. 11:13 e.h.

  Ég á nú 2 ketti og 2 páfagauka og síðan ég fékk páfagaukana fyrir nokkrum árum þá hafa kettirnir enga fugla fært heim í búið. Gamli kötturinn minn sem nú er dáinn passaði meira að segja páfagaukana tvisvar þegar þeir flugu út, þ.e.a.s. hann hentist út á eftir þeim og settist rétt hjá þeim þegar þeir lentu (flugu út í bæði skiptin að kvöldi til og þá lenda þeir oftast fljótlega á jörðinni). Þar sat hann þar til ég kom án þess að hreyfa við páfagaukunum. Ég elska kisurnar mínar af öllu hjarta en ég held líka að ef fólk langi ekki 100% í þá þá er betra að sleppa því og reyndar á það líka við um gæludýr, börn og maka 😉

 9. 10 Kristín í París 19 Ágú, 2009 kl. 6:37 f.h.

  Rétt athugað, Linda. Mig klæjar alveg hrikalega í kattabeinið. Það er tvennt sem getur stoppað mig í að fá mér kött: litla vinkona mín sem er mjög astmaveik og með ofnæmi er ekki að fara að flytja í burtu alveg strax og köttur flækir Íslandsferðir töluvert.

 10. 11 Svala 20 Ágú, 2009 kl. 6:50 e.h.

  Það er gaman að eiga kött, en ennþá skemmtilegra að eiga hund. 🙂


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: