Sarpur fyrir september, 2009

mánaðarmót

Ég er alveg með það á hreinu hvenær ég er fædd. Ég veit að ég fæddist 4. október 1969. Ég veit að 4. október er nálægt mánaðarmótum. Ég veit að ég er að undirbúa afmælisveislu og ég veit að hún er næstu helgi. Samt varð ég ægilega hissa þegar ég sá að dagskrárblaðið frá Canal+ var í póstkassanum í gær, fannst það voðalega snemma á ferðinni og svo var það eitthvað annað í morgun sem ég man ekki núna sem ég furðaði mig á.
Eru fleiri svona? Ég virðist ekki ná að tengja saman lífsbrotin mín. Ég díla við hvert verkefni algerlega óháð hinum. Ég næ að skila skólaverkefnum á réttum tíma og hef aldrei lent í að gleyma stefnumóti við ferðalanga eða annað slíkt. Ég hlýt því að vera skipulögð á einhvern dularfullan hátt um leið og í höfði mínu ríkir einhvers konar kaos.
Ég veit ekki hvort ég á að hafa áhyggjur af þessu eða hvort þetta er bara hreinlega kostur.

Lifið í friði.

hvað er eiginlega í gangi?

Ég styð baráttu gegn stóriðju á Íslandi og minni hér með á að frestur til athugasemda vegna Bitruvirkjunar rennur út 3. október, á laugardaginn. Athugasemdir þurfa að berast í pósti, ekki tölvupósti. Allar leiðbeiningar hér.

Annars er ég bara orðin sárlasin, með hálsbólgu og tilheyrandi beinverki og slappleika. Það er sem betur fer nægur tími til stefnu að hrekja þetta út fyrir laugardaginn. Ég fer í stórinnkaup á eftir og kippi þá með mér engiferrót og hvítlauk sem ég sýð í potti með cayennepipar. Seyðið hefur hingað til dugað mér ágætlega þegar ég finn kvef eða hálsbólgu vera að hellast yfir mig.

Í gær var Kári að reyna að kveikja ljós í svefnherberginu, en allir lampar höfðu verið teknir úr sambandi. Hann segir hátt og snjallt á íslensku: „Hvað er eiginlega í gangi hérna?“ Svona frasar sem gera hálfútlensku börnin mín skyndilega alíslensk bræða mig alveg.

Lifið í friði.

mánudagstepoki

Ég reyndi eins og ég gat að horfa á Silfrið í gær eftir að hafa heyrt um mann sem þar kom fram og gekk víst fram af fólki. En ég virðist vera komin með innbyggða ruslsíu (eða ama-síu ef maður fer eftir þýðingunni á wordpress-kerfinu hér á Eyjunni) og fólkið talaði og talaði en ég greindi ekki orðaskil, bara ljúfan klið.
Þar sem ég er með MacBook get ég ekki sett sjónvarpsefni frá RÚV á pásu, annars hefði ég getað tekið fjórar setningar í einu með pásum á milli og kannski náð að skilja innihald þáttarins. En þar sem hann fjallar um hvað allt er ömurlegt og amalegt er ég bara sátt við að hafa síað hann frá.

Ætli ég verði að þola það, að á meðan ég undirbý stórveislu með tilheyrandi gleði, verði netheimar fullir af upprifjun á aðdraganda hrunsins þegar ég verð áttræð líka? Eða verður þetta hrun þá orðið eins og djók, eftir hin öll alvöru hrunin?

Það verður alla vega veisla á laugardaginn. Og í veislunni verður boðið upp á kampavín í fordrykk. Ekkert væl, lífið með stæl!

Lifið í friði.

allt er í fína og enginn vill sýna af sér sút eða sorg í kvöld

Ég er að fara í klippingu á eftir. Þegar ég fór síðast, um miðjan ágúst, var hárgreiðsludaman mín í fríi og sú sem leysti hana af klippti mig asnalega. Ekki það að mín klippi mig ekki asnalega, en það er samt svona asnalega töff, svona skakkt og ruglað. Ekki kassalegt.
Ég held ég hafi sjaldan hlakkað jafnmikið til að fara í klippingu þó ég fari yfirleitt aldrei fyrr en ég er orðin þannig að mig langar að brjóta spegilinn í hvert skipti sem ég lít í hann. Ég er næstum viss um að Lou á eftir að gerbreyta perspektívi helgarinnar, koma mér í gott skap og jafnvel rífa úr mér helvítis kraumandi hálsbólguna. Ég hef oft spáð í að reyna að lýsa Lou, en það er of erfitt. Lou er nefnilega eins og hún klippir, nett rugluð, töff, asni… nei, það er ekki hægt að lýsa henni, þú verður bara að koma og hitta hana.
Ég elska þessa konu, og bara það að skrifa að ég sé að fara að hitta hana fær mig til að líða aðeins betur, svei mér ef hálsbólgan ætlar ekki að hjaðna. Eins gott, því það verður stuð í kvöld. Og mín nýklippt, þar að auki. Lífið er nú gott, þrátt fyrir allt. Hættið þessu væli gott fólk, það er varla hægt að þverfóta á blogginu fyrir kveini um einhverja kalla sem þykjast öllu ráða. Með því að kveinka ykkur, játið þið ykkur sigruð. Horfið til himins, berið höfuðið hátt, látið eins og allt sé í allra besta lagi og voilà, kannski er bara allt sem skiptir máli, í allra besta lagi.

Lifið í friði.

föt

Innritunin gekk vonum framar. Ég gat ratað eftir kortinu sem ég hafði fengið sent í tölvupósti, aðallega vegna þess að ég hef áður villst svo illilega í göngum og ranghölum aðalbyggingar Sorbonne að ég fór ofurvandlega eftir því og náði alltaf að snúa við áður en ég var komin á hættulegar villigötur. Þessi bygging getur ekki hafa verið teiknuð, frekar eins og hún hafi bara verið hlaðin svona smátt og smátt og einhvern veginn. En kannski kemst ég upp á lagið með að skilja hana ef svo vel vill til að ég fái að vera þarna niðri í miðbæ í tímum.
Það er tekið á móti Erasmus-nemum á sérstakri skrifstofu. Við vorum kölluð inn þrjú í einu og afhentum afrit af þeim gögnum sem við áttum að vera með. Ein okkar var ekki með afrit og þá stökk stúlkan bara fram og ljósritaði þau fyrir hana. Þá vissi ég að ég væri í góðum málum, að háskólinn hafi ákveðið að sýna evrópskum skiptinemum einhverja allt aðra hlið á sér en þá sem vesalings nemendur sem koma inn af götunni til að skrá sig, fá að kynnast. Gögnin leit hún ekki á, heftaði þau bara saman og henti eitthvert aftur fyrir sig.
Svo fengum við annað kort og konan sýndi okkur með örvum hvert við ættum að fara til að ljúka skráningunni og tók skýrt og hægt fram að við ættum ekkert að borga og að við yrðum að fara inn um þessar dyr nákvæmlega því þannig kæmumst við fram fyrir röðina sem hinir óheppnu venjulegu nemendur þurfa að bíða í. Við sáum röðina liggja eftir bergmálandi ganginum, læddumst inn um Erasmusdyrnar, fórum eftir hvítri línu í gólfinu, inn um aðrar bakdyr og komum beint inn til gjaldkerans sem útbjó staðfestingu á skólavist og sendi okkur svo yfir ganginn þar sem nemendaskírteinið var búið til fyrir mann á staðnum. Engin bið, nema kannski mínúta hér og mínúta þar. Allt smurt og þó sumir væru frekar þurrir á manninn og ekkert svo sem að horfa framan í mann, var ekki þessi niðurdrepandi fyrirlitningartónn í neinum, en honum er maður svo vanur úr vandræðagangi sínum í samskiptum við franska stjórnsýslu.
Svo fór ég og hitti konu í bókmenntadeildinni sem sannfærði mig eiginlega um að taka Masterskúrsa, en ég hafði frekar hugsað mér að taka kúrsa af 3. ári í B.A. Ég held ég fari að hennar ráðum en ætla nú aðeins að bræða þetta með mér yfir helgina. Mig langar ekki að fara í eitthvað sem verður mér ofviða. En mig langar ekki heldur til að vera í námi sem er ekki nógu krefjandi.
Innritun í Master fer fram 7. október, svo ég er nú ekkert að fara að byrja í skólanum neitt alveg strax á mánudaginn. Sem gefur mér meiri tíma til að ljúka verkefnunum sem ég ætlaði að rúlla upp í maí og ætlaði alla vega að vera löngu búin með núna.

Annars sé ég að ég skrifaði fyrirsögnina föt. Það tók mig smá tíma að hugsa hvað í ósköpunum ég var að hugsa. Mér fannst ég bara verða að láta vita hvernig innritunin fór áður en ég færi út í það sem lá mér á hjarta. En ég gekk sem sagt framhjá þessari fínu búningabúð áðan og datt í hug ákveðinn maður sem er nýhættur á eftirlaunum. Og reyndar veit ég um ýmsa íslenska fyrirmenn og -konur sem bæru sannarlega vel föt í stíl konunganna á 17. og 18. öld. Nú eða þá sjóræningjabúninga, en það var einmitt einn slíkur ansi glæsilegur í glugganum.

Og fyrst við erum í framhaldssögunum, get ég líka sagt ykkur að móðirin sem átti barnið hér í húsinu í júlí er að koma til. Hún er þó enn á spítala og batinn er hægur.

Lifið í friði.

innritun

Á morgun innrita ég mig í Sorbonne. Mér hefur tekist að hliðra mér hjá skrifstofu- og stjórnsýslustússi í Frakklandi í langan tíma. Ég er búin að vera að undirbúa þetta í rúma viku, sanka að mér pappírum og gögnum, taka ljósrit af öllu fram og til baka og á hlið, allt á að vera komið, nema ég steingleymi alltaf að láta taka af mér passamyndir. Geri það á lestarstöðinni í fyrramálið. Og verð að muna að taka með mér bók ef ég verð látin bíða.
Ég á að mæta kl. 10:15 og hef ekki lagt í að plana nokkuð annað á morgun. Hlakka ég til? Ó, nei.

Lifið í friði.

álfadans

Um daginn fór ég á forsýningu á íslenskri heimildamynd. Hún er gerð af Frakka en er að mestu leyti greidd af íslenska kvikmyndasjóðnum og þar af leiðandi lagalega séð íslensk mynd, ef ég hef skilið þessi mál með framleiðslugreiðslur rétt.

Ég taldi mig vera að fara að sjá franska mynd um Snæfellsjökul og var full tilhlökkunar að sjá þessa mynd, sem ég aðstoðaði afar óbeint við við meðan á tökum stóð. Ég var stolt af því að kynna mig sem Íslending áður en sýning hófst. Eftir myndina þakkaði ég hins vegar mínu sæla yfir því að veðurs vegna var ég ekki í lopapeysunni og því ekki eins auðvelt að stimpla mig sem eina af þessu undarlega fólki sem birtist í myndinni.
Þessi mynd á eftir að ferðast um kvikmyndahátíðir víðsvegar um heiminn. Hún er nú þegar komin með pláss á hátíðir í Kanada og Finnlandi, eflaust víðar. Hún er opinberlega styrkt af íslenska ríkinu. Hún sýnir Ísland og Íslendinga einhliða (fyrir utan einn skrúðklæddan prest og eitt stykki Ara Trausta sitjandi klofvega á Snæfellsnesi á kortinu af Íslandi í Ráðhúsinu) sem álfatrúarfólk með tilheyrandi másum, blásum og kertaljósum, talandi inn í fjöllin og útskýrandi kynferðisleg áhrif Snæfellsjökuls.

Bravó, Kvikmyndasjóður. Bravó.

Bravó, Nýja[ldar] Ísland.

Lifið í friði.

morgunn

Í morgun fór ég í gegnum öll skúmaskot íbúðarinnar minnar í trylltri leit að nemendaskírteininu mínu sem ég hafði haft í höndunum fyrir nokkrum dögum síðan og þarf að koma með í innritun í Sorbonne á föstudaginn.
Ég hreinsaði ryk og drullu, fann lukkupeninginn minn sem týndist fyrir mánuði eða sex, henti vænum poka af pappírum og drasli sem á það til að safnast upp í skálar, bakka, körfur og horn og virðist lifa sjálfstæðu lífi. Svo gafst ég upp og titrandi skrifaði ég sótbölvandi öskur inn á feisbúkk með það bakvið eyrað að líklega fyndi ég kortið ef ég öskraði nógu hátt. Ég var svo reið að ég notaði meira að segja orðið fúss sem mér var bent á að væri nú alltaf mjög gott og áttaði mig á að líklega fer ég ekki nógu oft í fúss. Það er fútt í fússi.
Og viti menn, þar sem ég er að fiska metrómiða upp úr veskinu mínu, í miðri fússvímunni, blasir helvítis kortið skyndilega við mér, nákvæmlega þar sem ég taldi að það ætti að vera (og ég tel mig alltaf ganga frá öllu jafn óðum og nú eigið þið að gleyma játningunni um pappírsruslið hér ofar) og þar sem ég er búin að leita svona um það bil… tja, hvað leitar maður oft á gáfulegum stöðum áður en maður fer að gramsa á ólíklegum stöðum, í nærfataskúffum barnanna, hnífaparaskúffunni o.s.frv?
Af hverju hverfa hlutir sem eru fyrir framan nefið á manni? Plís ekki tala um álfa, ég fékk óverdós af álfum í síðustu viku. Hefur þetta í alvöru talað verið rannsakað? Það er eitthvað sem gerist í heilanum á manni, er það ekki?
Og hvers vegna í ósköpunum nægir að bara gefast upp og öskra og grenja og þá koma þessir horfnu hlutir í ljós? Plís, ekki segja mér að álfar séu hræddir við öskurapa.

Lifið í friði.

skógarganga í Essonne

Í gær fór ég í aðra gönguferð úti í sveit með vinkonu og krökkunum okkar. Í þetta skiptið tókum við lest beint í suðurátt og gengum um Essonne-dalinn. Við tókum nýtt brot af stígnum GR1 (sentier de grande randonnée n°1), en það er göngustígur sem hringar sig utan um París í gegnum skóga og þjóðgarða á Ile-de-France, og var hluti af leið okkar síðustu helgi.
Við vorum kortalausar, enda var ferðin ákveðin seint á laugardagskvöldi. Við ákváðum að það hlyti að vera í lagi þar sem GR1 er vel merkt leið. Það stóð heima og þrömmuðum við þetta án nokkurra vandræða eftir að hafa fengið leiðbeiningar hjá þéttvöxnum dömum sem stóðu við eldamennsku á bílastæðinu við lestarstöðina þar sem fram fór einhvers konar samkoma fornbílaeigenda, ekki skrautsýning heldur frekar varahlutasala. Vegna stutts fyrirvara þótti okkur ekki taka því að láta hina úr gönguhópnum vita.
Kári var ekki alveg jafn hress og síðast, þessi leið er töluvert erfiðari, meira svona upp og niður. Fyrst er haldið upp á heiðina, í átt frá ánni og svo þarf að fara niður í dalinn aftur til að komast á lestarstöð. Það var líka heitara en um síðustu helgi og við hefðum þurft að vera með meira vatn og kannski minna af regnfötum í staðinn, en ég burðaðist með þau þar sem hætta var á skúrum sem aldrei létu sjá sig. Hér er sem sagt komið sumar aftur eftir haustlægðirnar í byrjun september. Rúmlega tuttugu stiga hiti og sól í allan gærdag.

Skógurinn þarna er mjög fallegur, fyrsti hlutinn samstendur aðallega af lauftrjám, eik, beyki, hlyn o.fl. en þegar við fórum að fara niður á við varð meira um barrtré með sinni góðu lykt. Stígurinn er úr örfínum ljósum sandi sem smaug inn í skó okkar allra, kannski er þetta kalksteinn, en mér sýndist alla vega stóru klappirnar sem stóðu upp úr sums staðar vera kalksteinn.

nánir vinir

nánir vinir


Einu dýrin sem við sáum voru kóngulær, fiðrildi og önnur skordýr. Við heyrðum í fuglum, en þarna á að vera mjög litríkt fuglalíf, sérstaklega á vorin. Á svona heitum dögum hafa dýrin sérlega hægt um sig, en besti tíminn til að ná að sjá dýr er eldsnemma að morgni, við Sólrún náðum einu sinni að heilsa upp á fallega hind úti á Normandí þegar við rifum okkur upp klukkan sex.
Við mættum ekki einum einasta göngumanni alla leiðina. Bara vissum að við vorum að nálgast áfangastað þegar við mættum uppstríluðum gamlingja með hundinn sinn. Veiðitímabilið er að hefjast og óráðlegt að ganga í skógum þegar það er í gangi. Ég var hins vegar búin að kanna dagsetningar og vissi að það hefst ekki fyrr en 27. september á þessum slóðum. Skiltin voru komin upp, varað við gildrum og veiðivörðum til skiptis. Það borgar sig að vera með þessa hluti á hreinu, ég hef aldrei gleymt því þegar við gengum þrjár vinkonur um skóga með ómandi byssuskotin allt í kringum okkur. Það er ekki gaman.

í blálok leiðarinnar sáum við svo afleiðingar af óvarkárri meðferð elds, óhugnaleg sjón og sannfærir mann hratt og örugglega um að það er alveg nóg að fá sér bara samloku inni í skógi, alger óþarfi að grilla. Þótt maður sé íslenskur.

Lifið í friði.

að missa vatnið

Á fyrstu meðgöngunni var ég mjög spennt yfir því hvernig ég myndi missa vatnið. Óteljandi senur í bíómyndum og sjónvarpsseríum (ekki þó 24, man alla vega ekki eftir missavatniðsenu þar) hafa líklega eitthvað með þetta að gera.
Föstudag einn í janúarlok 2002 fór ég upp á spítalann og sagðist halda að það væri farið að leka úr mér vatn, að eitthvað væri að gerast. Fljótlegt próf sýndi að ekki var um legvatn að ræða og var ég send heim með skottið á milli lappanna.
Viku síðar var ég á leið í bað um þrjúleytið um eftirmiðdaginn, en baðkarið mitt var svona setkar, mjög hátt og djúpt og erfitt að klofa upp í það. Sérstaklega með níu mánaða gamalt fóstur innan í sér. Ég var þó þrælvön og lá löngum í baði á þessu tímabili. En þarna fannst mér eins og eitthvað rifnaði innan í mér og þorði ekki að leggjast ofan í vatnið, bara rétt bleytti mig og fór strax upp úr. Svo fannst mér þetta bara álíka tilfinning og þarna viku áður og ég lagði ekki í að mæta aftur upp á spítala og vera send heim, dæmd sem einhver hysterísk ólétt kerling. Í staðinn bakaði ég súkkulaðiköku, tók á móti tengdamömmu í kaffi, fór í metró í matarboð, sat þar með undarlega bakverki, lét keyra mig heim og var þá boðið að koma við á spítalanum en ég neitaði (og mér hefur aldrei verið fyrirgefið), kom heim og fann að bakverkirnir ágerðust svo ég hringdi í vinkonu mína sem sagði mér að fara strax upp á spítala. Maðurinn minn fór út og sótti leigubíl og við komum upp á spítala um þrjúleytið um nóttina þar sem ég asnaðist til að segja frá því að ég hafði fundið eitthvað rifna fyrir 12 klukkustundum og var því hundskömmuð af lækninum. 12 tímum síðar kom Sólrún í heiminn og hóf lífið með því að fá slöngu ofan í magann vegna sýkingarhættu af því ég gat ekki bara misst vatnið svona í einni gusu inni í skóbúð eða niðri í metró eða á einhvern annan dramatískan hátt.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha