fótbolti og grenjandi nagli

Fyrsta fótboltaæfingin í dag. Kári mætti í íslenska landsliðsbúningnum með eftirnafninu sínu, GENEVOIS, aftan á. Ekkert smá flottur. Þjálfarinn heitir Pablo, afalegur karl frá Chile sem spurði okkur strax hvað við gerðum og vill fá kort frá manninum mínum því konan hans kaupir bækur. Þetta er mjög óvanaleg hegðun í Frakklandi, alltaf mikið laumuspil hvað fólk gerir, hver launin eru og allt það. Fyrir forvitna konu eins og mig hefur þetta verið hálfgerð þjáning, t.d. erfitt að komast að því hvað nágrannarnir gera. Þarf mikla slægð og spurningaflóð til að fá það á hreint. Ég er strax farin að spá í að nota bara sömu taktík og Pablo, beita fyrir mig sterkum hreim með erlendum orðum inn á milli og bara spyrja hreint út áður en viðmælandinn hefur náð að koma sér í samræðugírinn og gæti þá náð að humma spurninguna fram af sér (sem er listgrein sem mig hefur líka alltaf langað að ná valdi á). Allt í skjóli þess að ég sé útlendingur.
Hinn íslenski Genevois gafst upp á miðri æfingu og fór að gráta vegna þreytu. Hann var tekinn í fangið og horfði aðeins á, en fór svo aftur inn á völlinn og segist ætla að mæta næst. Eins gott að hann standi við það, við þurftum að borga ársgjaldið strax og er víst ekki smuga að fá endurgreiðslu.
Í fótboltaskólanum er greinilega ekki verið að setja H1N1 fyrir sig, allir heilsuðu manni með handabandi og vatnsflöskur gengu á milli leikmanna á æfingunni. Í barnaskólanum var ákveðið að hætta öllum handaböndum, hætta að nota handklæði og hvert barn kemur með sína vatnsflösku í skólann sem það getur svo fyllt á úr krananum. Skólanum má loka ef þrjú börn verða veik.

Ég er svo búin að fá það á hreint að konan á 2. hæð fékk þennan svínslega vírus. Hún liggur enn á spítala og er með slöngur í hálsinum. Getur opnað augun og hefur náð einhverju sambandi við bróður sinn. Hún virðist því ekki heilasködduð. Við höfum hitt bæði afann og pabbann og þeir segja að hún sé úr lífshættu. En hún á enn langt í land. Dóttir hennar opnaði hurðina þegar ég var að klöngrast upp með poka um daginn og sagði “mamma, mamma”. Ég grenjaði alla leiðina upp til mín og lengur. En ég er orðin þannig að ég grenja yfir fáránlegustu hlutum. Ég hélt að það tilheyrði bara óléttunni en nú eru rétt tæp 6 ár síðan ég ungaði síðara barninu út, bráir þetta ekkert af svona alvöru nöglum eins og ég þykist alltaf vera?

Lifið í friði.

1 Response to “fótbolti og grenjandi nagli”


  1. 1 Brynja Huld 25 Sep, 2009 kl. 9:41 f.h.

    Frábær færsla! Fyrir mína parta hef ég ekki fellt tár síðan í janúar og er farið að líða illa yfir því. Bráðvantar að gráta.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: