skógarganga í Essonne

Í gær fór ég í aðra gönguferð úti í sveit með vinkonu og krökkunum okkar. Í þetta skiptið tókum við lest beint í suðurátt og gengum um Essonne-dalinn. Við tókum nýtt brot af stígnum GR1 (sentier de grande randonnée n°1), en það er göngustígur sem hringar sig utan um París í gegnum skóga og þjóðgarða á Ile-de-France, og var hluti af leið okkar síðustu helgi.
Við vorum kortalausar, enda var ferðin ákveðin seint á laugardagskvöldi. Við ákváðum að það hlyti að vera í lagi þar sem GR1 er vel merkt leið. Það stóð heima og þrömmuðum við þetta án nokkurra vandræða eftir að hafa fengið leiðbeiningar hjá þéttvöxnum dömum sem stóðu við eldamennsku á bílastæðinu við lestarstöðina þar sem fram fór einhvers konar samkoma fornbílaeigenda, ekki skrautsýning heldur frekar varahlutasala. Vegna stutts fyrirvara þótti okkur ekki taka því að láta hina úr gönguhópnum vita.
Kári var ekki alveg jafn hress og síðast, þessi leið er töluvert erfiðari, meira svona upp og niður. Fyrst er haldið upp á heiðina, í átt frá ánni og svo þarf að fara niður í dalinn aftur til að komast á lestarstöð. Það var líka heitara en um síðustu helgi og við hefðum þurft að vera með meira vatn og kannski minna af regnfötum í staðinn, en ég burðaðist með þau þar sem hætta var á skúrum sem aldrei létu sjá sig. Hér er sem sagt komið sumar aftur eftir haustlægðirnar í byrjun september. Rúmlega tuttugu stiga hiti og sól í allan gærdag.

Skógurinn þarna er mjög fallegur, fyrsti hlutinn samstendur aðallega af lauftrjám, eik, beyki, hlyn o.fl. en þegar við fórum að fara niður á við varð meira um barrtré með sinni góðu lykt. Stígurinn er úr örfínum ljósum sandi sem smaug inn í skó okkar allra, kannski er þetta kalksteinn, en mér sýndist alla vega stóru klappirnar sem stóðu upp úr sums staðar vera kalksteinn.

nánir vinir

nánir vinir


Einu dýrin sem við sáum voru kóngulær, fiðrildi og önnur skordýr. Við heyrðum í fuglum, en þarna á að vera mjög litríkt fuglalíf, sérstaklega á vorin. Á svona heitum dögum hafa dýrin sérlega hægt um sig, en besti tíminn til að ná að sjá dýr er eldsnemma að morgni, við Sólrún náðum einu sinni að heilsa upp á fallega hind úti á Normandí þegar við rifum okkur upp klukkan sex.
Við mættum ekki einum einasta göngumanni alla leiðina. Bara vissum að við vorum að nálgast áfangastað þegar við mættum uppstríluðum gamlingja með hundinn sinn. Veiðitímabilið er að hefjast og óráðlegt að ganga í skógum þegar það er í gangi. Ég var hins vegar búin að kanna dagsetningar og vissi að það hefst ekki fyrr en 27. september á þessum slóðum. Skiltin voru komin upp, varað við gildrum og veiðivörðum til skiptis. Það borgar sig að vera með þessa hluti á hreinu, ég hef aldrei gleymt því þegar við gengum þrjár vinkonur um skóga með ómandi byssuskotin allt í kringum okkur. Það er ekki gaman.

í blálok leiðarinnar sáum við svo afleiðingar af óvarkárri meðferð elds, óhugnaleg sjón og sannfærir mann hratt og örugglega um að það er alveg nóg að fá sér bara samloku inni í skógi, alger óþarfi að grilla. Þótt maður sé íslenskur.

Lifið í friði.

15 Responses to “skógarganga í Essonne”


 1. 1 ella 21 Sep, 2009 kl. 7:16 f.h.

  Jógúrt líka ágæt.

 2. 2 Frú Sigurbjörg 21 Sep, 2009 kl. 9:59 f.h.

  Hefur verið flott ganga og myndirnar fallegar.

 3. 3 Harpa J 21 Sep, 2009 kl. 3:04 e.h.

  Það er svo gaman að ganga í skógi!

 4. 4 Kristín í París 21 Sep, 2009 kl. 5:46 e.h.

  He he, Ella, ég reyni að forðast kælivörur og það sem þarfnast hnífapara, en jógúrtir geta verið mjög góðar í nesti. Og já, þessi ganga var dásamleg, það er eitthvað með mig og skóga, það er á hreinu.

 5. 5 Sigurbjörn 21 Sep, 2009 kl. 8:00 e.h.

  Jógúrt er hvorugkynsorð. Munið það, gæskurnar.

 6. 6 Elísabet Arnardóttir 21 Sep, 2009 kl. 8:20 e.h.

  Samkvæmt íslenskri orðabók getur jógúrt verið hvort sem er, hk eða kvk.

 7. 7 Kristín í París 22 Sep, 2009 kl. 6:43 f.h.

  Takk, Elísabet. Málfarsfasismi er svo sem þolaður hérna, ef hann er án derrings og rökstuddur almennilega!

 8. 8 baun 22 Sep, 2009 kl. 7:08 f.h.

  Ég man þegar þessi mjólkurafurð var nefnd júgurð (hún júgurðin). Af einhverjum ástæðum festi það sig ekki í sessi. Sjálf borða ég jógúrt í HK. Er þetta ekki áþekkt orðinu saft? Svo getur sykur verið tvíkynja líka og vafalaust mörg mörg fleiri sæt og falleg orð..

 9. 9 Sigurbjörn 22 Sep, 2009 kl. 7:30 f.h.

  Er maður vændur svo um derring? Ekki skánar það.

  Það vita það flestir að einungis gamlar konur tala um sykur í karlkyni og fóstrur um saft í hvorugkyni. Það þarf engan frekari rökstuðning.

 10. 10 Kristín í París 22 Sep, 2009 kl. 7:49 f.h.

  Þegar ókunnugir menn kalla mig gæsku, sný ég upp á mig, góurinn. Tók mig smá tíma að átta mig. Eyjuathugasemdir stressa mig greinilega meira en ég hélt að þær myndu gera.

 11. 11 baun 22 Sep, 2009 kl. 8:33 f.h.

  Mér finnst „gæskan“ skárra en „vinan“, og geri ráð fyrir að Sigurbjörn sé á áttræðisaldri.

 12. 12 Kristín í París 22 Sep, 2009 kl. 8:36 f.h.

  Gæskan og vinan er allt í lagi frá áttræðu fólki, Sigurbjörn hefur ekki verið aldursgreindur, en uppi eru getgátur um að hann sé jafnvel eldri en 300 ára.

 13. 13 Sigurbjörn 22 Sep, 2009 kl. 8:42 f.h.

  Sigurbjörn er á bezta aldri en heldur sér síungum með lýtaaðgerðum, andlitslyftingum, hvítu fæði og alls kyns dúlleríi.

 14. 14 parisardaman 22 Sep, 2009 kl. 9:10 f.h.

  Ekki má gleyma vel lukkuðum háreyðingum, en þar fer Sigurbjörn fremstur meðal karlmanna.

 15. 15 ella 22 Sep, 2009 kl. 11:09 f.h.

  Hvar er nú sykrið heillin mín?


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: