Sarpur fyrir október, 2009

einir fara og aðrir koma í stað

Ég heimsótti ný húsakynni íslenska sendiráðsins í París í gær og kvaddi um leið endanlega sendiherrahjónin. Rifjaði það upp með sjálfri mér á leiðinni heim að ég hef þekkt þó nokkra sendiherra, en aldrei verið í jafnmiklu sambandi við þá og ég hef verið í við þau Tómas og Nínu. Það var dálítið undarlegt að kveðja þau í gær. Við erum ósammála í pólitík og ég hélt þrumandi reiðilestur yfir Tómasi 1. desember síðastliðin, það hefur enginn sendiherra þurft að þola frá mér áður, en það hefur samt alltaf verið hlýtt á milli okkar.

Sendiherrar eru misminnisstæðir, Albert Guðmundsson stendur upp úr hjá mér. Hann var hérna fyrstu árin mín, þá bjó ég í næstu götu við sendiráðið og var í stjórn Íslendingafélagsins og kom því ansi oft við. Í hvert skipti tók hann mér fagnandi og spurði mig spjörunum úr um mína hagi og námið og sagði svo, áður en hann lét sig hverfa aftur inn á skrifstofuna sína, að alltaf væri nú gaman að kynnast nýjum Íslendingum og óskaði mér alls hins besta. Albert var alltaf á sokkaleistunum og ekki man ég eftir honum öðruvísi en tottandi vindil.

Nýju skrifstofurnar eru mun fallegri og hentugri en þær sem fyrir voru. Þetta er dæmigerð Haussmann-íbúð, hátt til lofts og vítt til veggja, gamalt brakandi parket á gólfum og rósettur í loftum. Flutningurinn var sparnaðaraðgerð og þó að hundrað fermetrar hafi víst tapast, fer mun betur um starfsfólkið þarna, ég er ekki frá því að gamli staðurinn hafi slegið öll met í mislukkuðum innanhússarkítektúr. Sendiherrann sem tekur við af Tómasi, Þórir Ibsen, er í yngri kantinum, hefur áhuga á umhverfismálum og er giftur franskri listakonu. Hljómar allt saman mjög vel.

Lifið í friði.

móðgun

Ef ég væri þeir, væri ég akkúrat núna alveg viðbjóðslega móðguð yfir bakkaklóri fréttastjóra visir.is sem reyndi að sannfæra áhorfendur Kastljóss um að þessar fyrirlitlegu „fréttir“ um útlit kvenna (og örfárra karla) séu í anda þess sem birtist á Baggalúti. Ég mæli algerlega með viðtalinu í Kastljósi, alveg í byrjun þáttarins í kvöld.

Lifið í friði.

gengið sér til óbóta

Ég fór í göngUNA í gær. Þessa sem ég mun geta boðið fótfráum ferðalöngum upp á þegar jafnvægi verður komið á í efnahagsmálum þjóðarinnar og fólk fer aftur að leyfa sér spennandi ferðalög til útlanda.

Við tókum lest til Vernon, heimsóttum heimili og garð Claude Monet í Giverny sem ég hafði aldrei séð í haustbúning. Vatnaliljurnar sváfu, en litadýrðin var alveg heimsóknarinnar virði.

Síðan gengum við aftur upp á heiðina og fórum þar í gegnum skóga eða meðfram ökrum, reglulega með útsýni yfir Signudalinn. Svo fikruðum við okkur niður og tókum lest til baka til Parísar frá Bonnières. Það var komið myrkur þegar við komum til þorpsins, enda kominn vetrartími og myrkur skellur á upp úr sex. En við fundum lestarstöðina með hjálp innfæddra sem eru allt öðruvísi en staðlaðir Parísarbúar.
Veiðimenn eru áberandi hluti af náttúrunni á þessum árstíma og einnig mættum við fjórum fjórhjóladrengjum sem glöddu okkur ekki. Á lestarstöðinni var göngumælirinn skoðaður og glöddust fætur vor yfir 18 kílómetra árangri. Öðrum gönguhóp sem kom askvaðandi og byrjaði að gorta sig af 30 kílómetra degi tókst ekki að skemma nema lítinn hluta kæti okkar.

GPS-tækið mitt nýja og fína sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf verð ég að læra betur á fyrir næstu ferð. Þetta er greinilega ekki eins og með farsíma sem maður blöffar sig bara í gegnum, verstu tækjanördarnir í hópnum gátu ekki einu sinni gert það. Því kom kortið góða að notum, enda efast ég um að ég muni hætta alveg að nota pappírskort þó ég nái einhvern tímann að læra á Garminn.

Í ferðinni ræddum við ýmislegt, eins og gengur og gerist, m.a. ástandið, og erum sammála um að það sem vinstri stjórnina vantar, er spuni gegn spuna stjórnarandstöðunnar. Af hverju er ekki lið manna að vinna í því að koma staðreyndum varðandi orkumál og þá fásinnu að álver í Helguvík sé lausnin? Viljum við virkilega nýta alla orkuna til þess að byggja upp álver sem kannski þrír Íslendingar munu vilja vinna við, framkvæmdastjórinn, gæðastjórinn og mannauðsdúddinn, vera þar með búin með kvótann og fyrirgera þannig öðrum og meira spennandi möguleikum? Það er stundum dálítið erfitt að lesa þvaðrið sem nær að yfirtaka umræðuna og ótrúlegt að varnir stjórnarflokkanna skuli ekki vera sterkari.

En lífið er nú þrátt fyrir allt alveg hreint bara ágætt. Veðrið er með besta móti, sól og blíða. Ég finn að ég ætla að fara að hrökkva í gírinn og verð komin á fullt í náminu og brauðbakstri og fleiru innan tíðar (þetta er lygi, ég er bara að secreta, sko. Í raun fann ég myrkrið í gær smjúga inn í merg og bein og vanlíðanin helltist yfir mig).

Lifið í friði.

þetta sem er svo erfitt

Ég er eiginlega með samviskubit yfir því að skrifa ekki um flóttamenn sem er farið með eins og hvert annað rusl sem þarf að losa landið við (bæði í Frakklandi og á Íslandi) eða viðbjóðslegar pyntingar á konum sem mótmæla í Gíneu, nú eða annað sem rífur hjarta manns í tvennt eins og áætlanir um að virkja hálft landið og byggja fleiri álver…
Ég ætti, eða mér finnst að ég ætti, að skrifa um svona hluti sem ég óa og æja yfir innan í mér.
En ég get það ekki.
Ég get bara skrifað um skólann og krakkana, þvottavélar og hvunndaginn.
Ég veit ekki af hverju.
Var ég ekki einu sinni alltaf að skrifa um eitthvað svona sem ég varð rosalega æst yfir? Eitthvað rámar mig í það. Ég vona að þetta þýði ekki að ég sé að gefast upp. Ég veit að margir eru þreyttir á vælandi bloggurum sem láta vælið á lyklaborðinu duga og gera svo aldrei neitt. Kannski er það það?
Mér finnst ég ekki geta gert neitt mikið, en ég geri það litla sem ég get, á minn hátt. Og hér með ætla ég að koma bankareikningsnúmeri á framfæri, ef einhverjir eiga þúsundkall eða svo aflögu til að hjálpa fólki að hjálpa fólkinu sem var sent í burtu (og vonandi koma í veg fyrir fleiri svona óhæfuverk), er hafin söfnun: 1175-26-011237 / Kennitala 650183-1269.

Lifið í friði.

þvottun

Ég var alveg búin að gleyma því hvað það er í raun tímafrekt að hengja upp, taka niður, brjóta saman og raða í skápa. Þvottavélin er tímasparnaður, en þvottavélaleysið er samt að vissu leyti tímasparnaður líka. Alla vega hjá fólki sem á nóg af fötum á krakkana út af öllum fatagjöfunum.

Lifið í friði.

pæl

Hvernig var það, var ég ekki komin í rosa flottan brauðbakstursgír og reglulega pizzugerð síðasta vetur? Hvernig er það, eyðir sumarfrí bara sisona út úr vinnsluminninu alls konar góða fídusa?
Er ekki alveg kominn tími á að vera kominn í ljúfa rútínu svona þegar lok október nálgast eins og óð fluga?

Lifið í friði.

meira af skólanum og vork

Það hafa ekki verið verkföll hjá kennurum og lítið hef ég orðið vör við verkfall skrifstofufólks, utan fyrrnefndan tölvupóst. Ég fór í fyrsta málvísindatímann og líst mjög vel á hann. Þetta er námskeið í formlegri merkingarfræði, setningar bútaðar niður til að finna merkingarbærar einingar þeirra. Kennarinn er ung, tágrönn og síðhærð ítölsk kona sem heitir Alda. Hún heillaði mig upp úr skónum þó hún sé síðhærð, enda skemmtilega hrein og bein þegar hún útskýrði hvernig hún ætlar að hafa þetta. Hún ætlar að sjá til eftir þrjá tíma hvort við tökum lokapróf eða fáum að gera ritgerð en það fer eftir því hvort hún sjái að við sitjum þarna áhugalaus í einingasöfnun eða hvort við sýnum lifandi áhuga á efninu. Kúl gella.

Mikill munur á henni og manninum sem kennir enskukúrsinn sem ég tók þar sem hann fjallar um þýðingafræðilegt efni. Hann er einn af fjölmörgum þýðendum The Great Gatsby, og er að bera saman nokkrar þýðingar á völdum köflum úr bókinni. Maðurinn muldrar í orðsins fyllstu merkingu, maður þarf að giska á svo til allt sem hann segir. Ég hef reynt að biðja hann að endurtaka en það bætti engu við. Í gær skrifaði ég samviskusamlega upp eftir honum titil á bók: A Western Drama. Svo lét hann bækurnar ganga um bekkinn og þá sá ég að bókin heitir The Distant Drummer. En ég kann samt vel við kallinn, hann er ljúflegur og er t.d. á fullu að reyna að læra nöfnin á okkur og vill að við gerum slíkt hið sama, lét okkur hafa lista og í hvert skipti sem maður segir eitthvað, svarar hann með fornafni manns.

Eini kennarinn sem ég bara næ engan veginn og er eiginlega búin að ákveða að yfirgefa, er konan sem mætir að púltinu, tekur upp nokkur þéttvélrituð A4 blöð og les upp af þeim í belg og biðu þar til klukkuna vantar fimm mínútur í tímalok. Þá lítur hún upp og segir ákaflega glaðlega: „Jæja, við látum þetta duga í dag, njótið öll vikunnar sem best“! Maður skrifar og skrifar eftir henni, það er ekkert vitlaust sem hún er að benda á (hún er að tala um skáldsöguna á 20. öldinni) en sjaldan nær maður að skrifa heilan frasa og bókað að maður missir af tveimur frösum á eftir. Ég týndi þræðinum nokkrum sinnum í gær, vissi ekki hvort hún var komin í annan fræðimann eða hvar hún var stödd í röksemdarfærslu sinni. Svona kennarar eru í raun ekkert annað en móðgun við kennarastéttina.

Ég skreiddist heim eftir tíma í gær, lufsuleg og föl. Náði í krakkana, bjó til matinn og lá svo hérna alveg bakk um kvöldið. Svaf ágætlega en vaknaði með sömu beinverki og vanlíðan og í gær. Þetta er HFF, miðvikudagar eru ekki hentugir til veikinda þó ég sé sjálf ekki í tímum, krakkarnir þurfa akstur til og frá allan daginn og maðurinn minn ætlar að vinna í dag. Ég vorkenni mér því töluvert og er náttúrulega skíthrædd um að vera að verða „alvöru“ veik. En það er í raun bara hreinlega ekki val (sko! notaði íslenska orðið, he he), ég hef ekki tíma til að vera lasin, má ekki missa úr tíma og þarf að vera viðbjóðslega dugleg að lesa og glósa og hugsa ef ég ætla að vera í svona mörgum kúrsum. Ég er að drekka kaffi núna, en á eftir verður það engifer-hvítlauks-cayenne-seyðið það sem eftir er dagsins.

Besti hluti dagsins er þó það sem er að gerast rétt í þessu: það er verið að gera við þvottavélina mína. Tvær vikur þvottavélalaus, það er ekkert grín fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem inniheldur m.a. eina prinsessu sem skiptir fjórum sinnum um föt á miðvikudögum og um helgar!

Lifið í friði

Alþingi og Baggalútur

Eru ekki einhver lög um hegðun þingmanna? Eru sumir þeirra ekki að verða einum of miklir Baggalútar? Ég tek þessu orðaskaki um hæð og skömm sem móðgun við mig sem kjósanda.

Lifið í friði.

tæknileg og ekki tæknileg vandamál

Í nokkrar vikur hef ég ekki getað leitað í tölvupóstum, ef ég slæ inn leitarorð fæ ég alltaf 0 niðurstöður. Einhverjar hugmyndir frá tæknifríkunum sem lesa mig?

Svo var ég að fá tilkynningu um að skrifstofa Erasmus-nema í háskólanum er lokuð í dag og líklega á morgun, vegna verkfalls. Nú verður spennandi að sjá hvort mín góða rauðklædda kennslukona þarf líka að vera í verkfalli. Það yrðu vonbrigði. Og er sérstaklega með tilliti til þess að síðasta vetur lá skólastarf meira og minna niðri allan veturinn vegna verkfalla starfsfólks.

Í morgun lærði ég nýtt orð: slóðadráttur. Prófið að fletta því upp í orðabók, en þetta orð er nú notað af Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins yfir það sem ég þekki eingöngu undir enska orðinu track-changes. Ætli það hafi verið búið til af einhverjum sem var búinn að fá nóg af prófarkarlesurunum?

Lifið í friði.

Kellý Nármanns verður kennslukona – engar myndir

Nú geta ómerkilegir og vanlesnir meðalmennskublaðamenn kæst, því hin eldklára og elskaða Kellý Nármanns hefur ákveðið að fara af stað með námskeið í ritun spennandi netfyrirsagna sem draga lesendur í hjörðum inn á fréttirnar.
Kellý Nármanns er síður en svo þurr á manninn í samtali okkar yfir kampavínsglasi á Koldfinger. Hún hvíslar því dulúðlega að mér að á bakvið flottar fyrirsagnir felist leyndardómur sem margir sækist eftir að höndla og nú verði loksins hægt að kaupa hann af henni á skitnar 40.999 krónur.
Kvöldstund með Kellý á fjörtíuþúsundkall getur tæpast talist okur, hvað þá ef læra má hennar margrómuðu rittækni í leiðinni.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha