meira af skólanum og vork

Það hafa ekki verið verkföll hjá kennurum og lítið hef ég orðið vör við verkfall skrifstofufólks, utan fyrrnefndan tölvupóst. Ég fór í fyrsta málvísindatímann og líst mjög vel á hann. Þetta er námskeið í formlegri merkingarfræði, setningar bútaðar niður til að finna merkingarbærar einingar þeirra. Kennarinn er ung, tágrönn og síðhærð ítölsk kona sem heitir Alda. Hún heillaði mig upp úr skónum þó hún sé síðhærð, enda skemmtilega hrein og bein þegar hún útskýrði hvernig hún ætlar að hafa þetta. Hún ætlar að sjá til eftir þrjá tíma hvort við tökum lokapróf eða fáum að gera ritgerð en það fer eftir því hvort hún sjái að við sitjum þarna áhugalaus í einingasöfnun eða hvort við sýnum lifandi áhuga á efninu. Kúl gella.

Mikill munur á henni og manninum sem kennir enskukúrsinn sem ég tók þar sem hann fjallar um þýðingafræðilegt efni. Hann er einn af fjölmörgum þýðendum The Great Gatsby, og er að bera saman nokkrar þýðingar á völdum köflum úr bókinni. Maðurinn muldrar í orðsins fyllstu merkingu, maður þarf að giska á svo til allt sem hann segir. Ég hef reynt að biðja hann að endurtaka en það bætti engu við. Í gær skrifaði ég samviskusamlega upp eftir honum titil á bók: A Western Drama. Svo lét hann bækurnar ganga um bekkinn og þá sá ég að bókin heitir The Distant Drummer. En ég kann samt vel við kallinn, hann er ljúflegur og er t.d. á fullu að reyna að læra nöfnin á okkur og vill að við gerum slíkt hið sama, lét okkur hafa lista og í hvert skipti sem maður segir eitthvað, svarar hann með fornafni manns.

Eini kennarinn sem ég bara næ engan veginn og er eiginlega búin að ákveða að yfirgefa, er konan sem mætir að púltinu, tekur upp nokkur þéttvélrituð A4 blöð og les upp af þeim í belg og biðu þar til klukkuna vantar fimm mínútur í tímalok. Þá lítur hún upp og segir ákaflega glaðlega: „Jæja, við látum þetta duga í dag, njótið öll vikunnar sem best“! Maður skrifar og skrifar eftir henni, það er ekkert vitlaust sem hún er að benda á (hún er að tala um skáldsöguna á 20. öldinni) en sjaldan nær maður að skrifa heilan frasa og bókað að maður missir af tveimur frösum á eftir. Ég týndi þræðinum nokkrum sinnum í gær, vissi ekki hvort hún var komin í annan fræðimann eða hvar hún var stödd í röksemdarfærslu sinni. Svona kennarar eru í raun ekkert annað en móðgun við kennarastéttina.

Ég skreiddist heim eftir tíma í gær, lufsuleg og föl. Náði í krakkana, bjó til matinn og lá svo hérna alveg bakk um kvöldið. Svaf ágætlega en vaknaði með sömu beinverki og vanlíðan og í gær. Þetta er HFF, miðvikudagar eru ekki hentugir til veikinda þó ég sé sjálf ekki í tímum, krakkarnir þurfa akstur til og frá allan daginn og maðurinn minn ætlar að vinna í dag. Ég vorkenni mér því töluvert og er náttúrulega skíthrædd um að vera að verða „alvöru“ veik. En það er í raun bara hreinlega ekki val (sko! notaði íslenska orðið, he he), ég hef ekki tíma til að vera lasin, má ekki missa úr tíma og þarf að vera viðbjóðslega dugleg að lesa og glósa og hugsa ef ég ætla að vera í svona mörgum kúrsum. Ég er að drekka kaffi núna, en á eftir verður það engifer-hvítlauks-cayenne-seyðið það sem eftir er dagsins.

Besti hluti dagsins er þó það sem er að gerast rétt í þessu: það er verið að gera við þvottavélina mína. Tvær vikur þvottavélalaus, það er ekkert grín fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem inniheldur m.a. eina prinsessu sem skiptir fjórum sinnum um föt á miðvikudögum og um helgar!

Lifið í friði

4 Responses to “meira af skólanum og vork”


 1. 1 Anna Helgadóttir 21 Okt, 2009 kl. 8:48 f.h.

  Sendi þér hughreistandi vork

 2. 3 Harpa J 21 Okt, 2009 kl. 9:54 f.h.

  Batnibatnibatn!
  Kannst við þetta með prinsessuna! Ég er alvarlega að hugsa um að láta mína taka við eigin þvotti. Hún skiptir stanslaust um föt og lætur fötin svo bara detta þar sem hún stendur..

 3. 4 parisardaman 21 Okt, 2009 kl. 10:33 f.h.

  Já, þau eru voða mikið í því líka. Og ég geri mér ekki alltaf grein fyrir því þar sem ég er nú ekki sífellt með kústinn á lofti, svo ég er ekki nógu dugleg við að skammast í þeim með þetta.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: