Sarpur fyrir október, 2009stíflulosun

Ég er með brjálæðislega ritstíflu út af þessum málfars-fasistum sem keppast við að hneykslast á mér. Úff, hvað mér leiðist svona. Tungumálið er lifandi vera ef þú leyfir því að vera það (æ, má segja þetta, er það ekki rosalega 19. öldin eitthvað?), tungumálið er rauður dregill sem rúllast út fyrir framan þig endalaust. Þú hleypur á eftir en þetta stoppar aldrei, þú kemst aldrei út á enda þar sem fullkomnunin er (er þetta ekki eitthvað gáfulegt sem einhver franskur gáfumaður sagði?). Ennívei (fyrirgefið mér, ég hef syndgað) er alltaf gaman að leika sér með tungumálið, ég tel það jafnvel skyldu mína og el börnin mín upp í þeirri trú líka.

Og þá að öðru, ég held svei mér að ég hafi losað stífluna. Kiljan. Jesú María Jósef hvað mér finnst bókmenntarýnin klén hjá þeim. Hvaða ömurlega leikrit var þetta í kringum nýju glæpasögu Viktors Arnar Ingólfssonar (ég tek það fram að við tengjumst ekki á nokkurn hátt, nema að ég hef lesið Aftureldingu, tvisvar)? Hvernig getur fullorðið fólk – sem vill láta taka sig alvarlega sem einhvers konar fræðingar – hagað sér eins og smákrakkar og þótt það svo bara fyndið? Og mér skilst að fleiri þættir á RÚV fari illa í taugarnar á fólki sem gerir lágmarkskröfur um einhvers konar fagmennsku. Það er vitanlega alltaf hægt að slökkva, en það lækkar ekki afnotagjöldin svo fólk hlýtur að hafa rétt á því að vera pirrað yfir þessum amatörisma sem virðist reglan á RÚV.

Annars er ég í skínandi skapi og er búin að vera það undanfarið. Reyndar dett ég yfirleitt niður í hroðalegt geispuástand um fjögurleytið á daginn og langar þá mest að leggjast niður og sofa, en það er víst ekki option (val, ég veit að orðið er val, fyrirgefið mér, ég syndga aftur og aftur – ég er líklega löngu glötuð). Þetta skínandi skap nær ekkert að brjóta niður. Ekki hryllingsfréttir af því hvernig íslenska ríkið sendir flóttamenn úr landi til lands sem hefur komið illa út úr rannsóknum á meðferð flóttamanna. Ég skammast mín hrottalega fyrir að koma frá ríki sem kastar fólki í burtu eins og rottum. Ekki fréttir af fáránlegum áætlunum um hermang á Íslandi. Ekki fáránlegt þvaður um orkulindir og álver. Ekki undarlegar fréttir af mannshvörfum og líkfundum. Ég er bara stöðugt í skínandi skapi. Það eina sem mér dettur í hug sem ástæða, er að ég borða mjög mikið grænmeti. En þú? Ertu í góðu skapi?

Lifið í friði.

hallærislegasta fyrirsögn ever

Ég dó næstum úr hlátri þegar ég sá aftur fyrirsögnina frá því í morgun. Hvílíkt og annað eins. Ég bið forláts á ófrumleika mínum og klisjuslepju. Sem breytir því þó ekki að ég meina hvert orð í sjálfri færslunni.

Lifið í friði.

friður – mikilvægari en peningar

Mér brá alveg rosalega um daginn þegar ég las um fyrirhugaðan stríðsrekstur á Keflavíkurflugvelli en ég gleymdi því jafnskjótt, líklega hefur mér fundist þetta of fjarstæðukennt til að taka almennilega mark á því. Ég tek heilshugar undir hvert orð hér og vona innilega að sem flestir taki þátt í að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þetta.

Lifið í friði.

orðið kom

Sjá hjá Silju.

Lifið í friði.

haustið og tilheyrandi

Ég fór í fyrsta tímann í Sorbonne í gær. Salurinn er langur og mjór, gangur niður miðjuna upp að kennaraborðinu og tvö sæti til hvorrar hliðar. Eins og í strætó. Eða kirkju.
Ég lenti mjög aftarlega vegna þess að ég lagði ekki í að biðja einhvern að taka töskuna af stól, en allir sem voru mættir höfðu komið sér þannig fyrir. Ég dauðsá fljótt eftir því, salurinn troðfylltist af fólki, allar töskur fóru úr sætunum, sótt voru sæti í salinn á móti og rétt um tíu manns sátu á gólfinu.
Ásókn í námskeið er mjög góð meðmæli, ég hef náttúrulega ekki getað spurt neinn um kennarana og er að vaða blint í sjóinn með þetta allt saman. Kennarinn er eldri kona, stutt- og gráhærð, rauðklædd og bauð góðan daginn á báðar hendur niður allan ganginn. Ég kunni vitanlega (stutthærð í rauðu, nóg fyrir mig) strax afskaplega vel við hana. Hún var skýr þó ég ætti stundum erfitt þar sem ég sat svo aftarlega og vinnuvélarnar sem eru að gera upp kapelluna trufluðu og mér líst vel á efnið, þó það heyri ekki undir þýðingar, þannig lagað séð. Það heitir Frægar konur á miðöldum: Stríðshetjur og valdhafar. Á næstu önn verður það svo Frægar konur á miðöldum: Fræðimenn. Við lesum franska þýðingu á latnesku riti og skrif miðaldahöfunda og pælum í því hvort skrifin séu femínísk eða andfemínísk og hvort línur hafi verið lagðar í skrifum um konur – gægjumst inn á 17. öldina o.fl.
Það á að skrifa ritgerð, eða halda fyrirlestur til að fá einkunn. Ég fór að spá í það hvort eitthvað um Jóhönnu af Örk, eða aðra fræga franska konu hafi borist til Íslands á miðöldum. Veit einhver fróður lesandi um það?

Hins vegar líst mér ekki eins vel á það sem ég ætlaði mér að rúlla upp meðfram frönskunáminu hér, þ.e.a.s. einn stór grunnkúrs í HÍ. Þýðingin gengur brösuglega og nú á ég víst að skila henni til ritsjóra sem fyrst (ég var búin að gleyma því, horfði bara á skiladag til kennara). Ég þyrfti að fórna allri vikunni í hana og veit hreinlega ekki hvort það sé gáfulegt, því þá byrja ég námið hérna í mínus. Ég þarf eiginlega að taka ákvörðun um þetta fljótt, en get það ekki. Einhver?

Og veturinn er aðeins að sýna sig, tja, alla vega haustið. Hitinn fór alveg niður í 15 gráður í gær, sem er mun kaldara en þessar 23 gráður sem við höfum haft undanfarið. Var í fyrsta skipti fegin að vera í lokuðum skóm, búin að vera í sandölum hingað til, utan tveggja skipta þar sem ég lét gabbast af morgunsvalanum og kafnaði á tánum í stígvélum. Vegna kuldans, og kannski líka út af stresskastinu sem ég fór í út af fyrstu kennslulstundinni, var ég svo þreytt í gærkvöldi að ég var næstum sofnuð á biðstofunni í tónlistarskólanum, konan sem var að tala við mig hætti því, ég held ég hafi verið farin að drafa. Kominn tími á lýsi og magnesíumkúr, haustið hefur alltaf þessi áhrif á mig, get sofnað standandi hvar sem er.

Lifið í friði.
Lifið í friði.

fegurð mín og fegurð þín

Eitt af verkunum sem vakti hvað mesta athygli mína á kvennasýningunni elles@centrepompipou , er ljósmynd eftir Karen Knorr, Analysis of beauty, sem sýnir tvo uppdubbaða (19. aldar?) menn munda sjónauka á þrífæti inni á listasafni og beina þeim að málverkum (við sjáum ekki hvað er á þeim, en ég ímyndaði mér strax naktar konur) í þykkum römmum. Mjög sterk mynd.

Fegurðin kemur ekki bara innan frá, heldur býr hún innra með þér. Mitt fegurðarskyn er kannski einstakt, alla vega ekki nákvæmlega samtaka þínu. Ég get svo sem alveg tekið undir með þeim sem kallar sig Balzac hérna í athugasemdum og leyft fólki sem telur sig vera að fegra sig með því að leggjast undir hnífinn að tala um fegrunaraðgerðir án gæsalappa.
Það sem truflar mig langmest af öllu og kemur skýrt fram í fréttum af þessari fegrunaraðgerðafegurðarsamkeppni á RÚV, er að þetta er markaðsfyrirbrigði, hópur lýtalækna áttaði sig á því fyrir þó nokkru síðan að þarna væru væn mið að róa á og hafa fengið að vaða uppi síðan, komist auðveldlega að í sjónvarpi og prentmiðlum og náð að sannfæra stóran hóp fólks (og þá aðallega kvenna þó karlar séu alls ekki undanþegnir) um að svona aðgerðir bæti líf þeirra á einhvern hátt. Komið bara og gangið með mér um Saint Germain glæsihverfið í París, þar sjást á hverju götuhorni undarlegar kvenverur, allar á einhvern óhugnalegan hátt eins, uppblásnar varir, undarlega slétt kinnbein og andlitin stíf, svipbrigðalaus. Þær gera mig hreinlega hrædda og ég tek ósjálfrátt fyrir augu barnanna þegar þær verst útleiknu nálgast okkur.

Það eru til ýmsar tegundir af geðrænum vandamálum sem valda því að fólk hatar sinn eigin líkama. Ég hef heyrt og séð í sjónvarpinu að til er fólk sem telur sig ekki geta lifað með annan handlegg sinn eða annað á líkamanum og fær það í gegn að sá líkamshluti sé fjarlægður. Þetta er svipað ferli og aðgerðir til leiðréttingar á kyni, krefjast vottorðs frá geðlækni sem er umdeilanlegt en gæti þó verndað einhverja frá því að vera píndir í svona limlestingu (hér á ég við þá sem láta taka af sér handlegg, ekki þá sem vilja fá leiðréttingu á kyni).
Ég hef ekki nokkurn áhuga á því að berjast gegn því að fólk fái að láta fjarlægja eitthvað sem veldur því hugarangri. Ég hef ekki nokkurn áhuga á því að banna konum að láta stækka á sér brjóstin, minnka á sér nefið, rétta úr tánum, lyfta upp kinnbeinum og hvað það er sem þær telja fegra sig og gefa sér meiri möguleika á hamingjuríku lífi. Ég hef hins vegar mikinn áhuga á því að verja konur, karla og helst af öllu börnin (fólk er jú börn fram að 18 ára aldri, er það ekki?) gegn þessu áreiti sem lýtalæknar og allt gróðabatteríið í kringum þá hafa hingað til náð ótrúlega auðveldlega (og óáreittir) að kæfa okkur í, með aðstoð glanstímaritanna og ýmissa fjölmiðla sem telja sér trú um að þetta sé allt í lagi, þar sem þetta sé bara eitthvað sem fólk vilji sjá og heyra um eða hvað sem stjórnendurnir nota til að róa samviskuna.
Ein helsta vörnin gegn áróðri og auglýsingamennsku er upplýsandi gagnrýni. Að kenna fólki að lesa í gegnum þvaðrið með gagnrýninni hugsun, að sjá í gegnum brellurnar. Fegurðin felst ekki í háum kinnbeinum og, það sem er líklega mikilvægara/skýrara þar sem fegurðin sem þú skynjar er ekki sú sama og fegurðin sem ég skynja: hamingjan felst ekki í fegurðinni.

Lifið í friði.

orð um aðgerðir

Silja lýsir eftir orði. Ég legg til að greint verði á milli lýtaðgerða annars vegar og „fegrunar“aðgerða hins vegar, þ.e.a.s. ég vil absolútt að gæsalappir séu notaðar þegar vafi leikur á að um virkilega fegrunaraðgerð sé að ræða.

Lifið í friði.

Ritstjórinn flassaði – myndir


Ekki var laust við að hrollur færi um starfsmenn fjölmiðlavefsins slísir.is þegar ritstjórinn mætti í örlítið of lítilli skyrtu í vinnuna í gær. Lengi hefur fólkið pískrað um stækkandi ritstjóra, en það virðist í líku hlutfalli og fjölgun heimsókna á vefinn sem hann þykir ritstýra af skörungsskap. Engum sögum fer af því hvort hið óskemmtilega munstur „appelsínuhúð“ hafi sett mark sitt á stækkandi ristjórann, en margan blaðamanninn hlýtur að dreyma um að ná myndum ef svo reynist vera.

Þessi færsla kallast á við þessa hér, eins og glöggir hljóta að hafa gert sér grein fyrir.
Hér er ágætis viðtal fyrir þau sem hafa áhuga.
Ég er ekki viss um að ég vilji halda áfram að vera hér á Eyjunni, meðan vefurinn heldur áfram að birta tengla í kvenfjandsamlegar „fréttir“ af „lýtum“ fagurra kvenna.

Lifið í friði.

vinstr

Ég færist meira og meira til vinstri og enda kannski sem öfgahægri, hver veit? Ég les og les hér og þar pælingar um ástandið (og þá meina ég ekki Ástandið, þetta sem ekki má nefna, heldur bara það sem er að gerast akkúrat í dag og á ekki ársafmæli fyrr en eftir ár) og sá sem helst hefur talað til mín er Vésteinn. Af hverju getum við ekki verið alvöru vinstri? Af hverju koma óeirðirnar í Tyrklandi okkur ekki við? Hvað er í gangi? Er þjóðin aftur komin í sama dróma og fyrir, þið vitið, þetta sem á ársafmæli um þessar mundir?

Annars er ég bara að njóta þess að vera fertug og læt sem ég sé ekkert að reyna að ná að hala inn einingum hjá Háskólanum. Hef ekki snert á verkefnunum alla vikuna. Hins vegar drifu tvær góðar konur mig í Quai Branly safnið í gær. Það var upplifun sem ég þyrfti kannski einhvern tímann að skrifa betur um. Sjálft húsið er náttúrulega listaverk, mikið væri nú gaman ef hann Jean Nouvel hefði verið valinn til að hanna tónlistarhúsið í staðinn fyrir að leita uppi „lókal talent“ eins og eiginmaður töntu minnar orðaði það svo vel á dögunum. Hans hugmynd voru þúfur, grashólar. Það hefði verið meira 2009, held ég. En líklega var ekki hægt að horfa fram á veginn þegar úrskurðað var í samkeppninni, annars hefði aldrei orðið neitt 2007, eða hvað?
En Branlysafninu get ég hiklaust mælt með fyrir stóra sem smáa. Afríka, Asía og Eyjaálfan, skurðgoð, grímur, skart og vopn. Ég varð stundum að pínulítilli og voðalega spenntri stelpu að lesa Tinna. Bjóst við að bölvun gæti fylgt einhverjum gripanna þarna. En stundum tók húsið völdin, það skal alveg viðurkennast. Stundum er kannski einum of mikil sviðsetning í kringum gripina, of mikil dramatík, það er fín lína milli þess að sýna (hlutlaust) og þess að gefa eitthvað sterkt í skyn. En samt. Alveg tótallí þess virði að fara á Quai Branly. Og takið endilega börnin með, mín fara sko pottþétt fljótlega þangað.

Í dag verður það smá sessjón á bókasafninu og síðan sýning í Pompidou. Nánar um það síðar. Eða ekki.

Lifið í friði.

partý

Á laugardaginn hélt ég partý, eins og alþjóð veit. Tvær myndarvinkonur frá Íslandi ásamt tveimur eðalvinkonum í Frakklandi sáu nokkurn veginn um matinn fyrir mig. Ég var alltaf með og gerði það sem mér var sagt, en þvertók fyrir að taka nokkra ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut.

Boðið hófst klukkan sex með kampavíni og forréttum: Graflax með verksmiðjuframleiddri sósu (mjög mikilvægt fyrir mig), döðlur fylltar með gráðaosti og grænmeti skorið í strimla (julienne) með jógúrtsósu.
Um níuleytið voru svo bornar fram tvenns konar bollur, kjöt- og grænmetisbollur, hummus, taboulé-salat, meira grænmeti og sósa og ostafyllt horn.
Síðar komu svo afmæliskökur, tvær plómupæjur og súkkulaðikaka.

Með þessu var drukkið ógrynni af kampavíni, bjór og rauðvíni. Ekki var snert á sterka áfenginu sem ég lét kaupa í fríhöfninni. Ég veit ekki hvort ég á að láta þetta daga hér uppi eða hreinlega senda aftur heim með aðstoðarkokknum sem gæti komið þessu í verð.

Maðurinn minn stóð sig eins og hetja í tónlistarsöfnun, lifi tæknin, það var dansað fram eftir öllu, og allir fengu tónlist að sínu skapi.

Ég fékk söngatriði frá hagmæltri tengdamóður systur minnar, sem var túlkað af hárnákvæmum prófessjónalisma af nokkrum íslenskum vinum. Skemmtanastjórinn hélt nógu stutta ræðu til að vera fyrirgefið það og afmælisbarnið stökk upp á borð til að stýra söng. Gjafirnar sem ég fékk þori ég ekki að telja upp, lesa ekki þjófar alltaf bloggin?

Þessi veisla tókst með afbriðgum vel, mig langar að halda svona almennilegt partý árlega. Dansa frá mér allt vit, syngja, faðma, hitta fólk sem ég hitti nánast aldrei. Það fylgir þessu tvímælalaust kraftur þó að hálsbólgan sem ég fékk rúmri viku fyrir veisluna kraumi nú af enn meiri krafti í mér en áður. Í veislunni fann ég ekki fyrir neinu, en hef verið hálf manneskja síðan, vitanlega eftirköst af undirbúningi og næturvökum bleyttum í kampavíni en líka smá hitavella og almenn þreyta af því að vera að malla svona lengi með þetta í mér.

Ég er rík, ríkari ríkust. Og það er ekki einu sinni æ í því. Ég þakka allar góðar kveðjur frá netvinunum, ljóðasendingar og fleira skemmtilegt.

Lifið í friði.