Sarpur fyrir nóvember, 2009

útblástur

Þá er ég búin í prófinu sem ég var hræddust við. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig mér gekk, ég bara krotaði og krassaði og leið dálítið eins og ég væði í villu og svíma og kannski gerði ég það stundum. Af tveimur svörum sem ég tékkaði á, var annað rétt, hitt fáránlega klaufalega rangt. Líklega er allt prófið svona. Ég þoli ekki svona páfagauka-formúlu-lærdóm og ég er gersamlega tóm að innan. Búin á því.

Á morgun fer ég svo í óvissuferð. Ég þarf að vera tilbúin með fyrirlestur sem ég held fyrir hundrað manns (eða meira, eða minna) á bókasafninu í Périgueux annað kvöld. Og svo í tveimur smærri bæjum fyrir færra fólk á fimmtudag og föstudag. Ég kynni Arnald Indriðason, og tala um Mýrina og þýðinguna á frönsku. Ég er komin með punkta sem eru víðsvegar hjá mér. Í stílabókum, á lausum blöðum og eitthvað smá í tölvunni. Ég er komin með innganginn, en ekki niðurstöðuna, sem er líklega aðalmálið. Ég veit ekki hvort ég næ að koma þessu á skikkanlegt form í kvöld, en geri það þá bara í lestinni á morgun.
Ég veit það það er tekið á móti mér og að ég verð á hóteli og að ég á að vera í fullu fæði. Ég veit ekkert hvort það er á hótelinu eða hvort ég verð að þiggja heimboð umsjónarmanna eða hvernig það gengur fyrir sig. Ég veit ekki hvort þeir ætlist til að ég verði eitthvað með þeim á daginn eða hvort ég geti legið í ritgerðarskrifum og kannski jafnvel litið aftur á þýðinguna á femínísku greininni með ögrandi orðalaginu, en hún hefur nú legið á ís allt of lengi. Mig langar að klára hana. Og mig langar helst að klára aðra af ritgerðunum líka.
Ég veit ekkert hvort ég verð á fínu hóteli með minibar, eða litlu skuggalegu hóteli við lestarstöðina.
Ég veit ekki hvað þetta fólk er gamalt sem ég hef verið í sambandi við, hvort það verður eitthvað félagslíf eða hvort ég verð bara fyrir þarna. Það er alla vega ekki hægt að segja annað en að spennandi er þetta. Fínt að prófa að fara í óvissuferð svona einu sinni á ævinni. Það var ekki komið neitt svona þegar ég vann á Símanum. Hvorki óvissuferðir, leynivinadagar né nokkuð annað svona mannauðseflandi dæmi. Við vorum bara látin vinna myrkranna á milli og fengum lús í laun.
Ég veit ekki heldur hvort ég geti verið nettengd í óvissuferðinni.

Þetta var ágætis útblástur. Nú þyrfti ég að fá eitt stykki innblástur fyrir niðurlagið. Mér datt náttúrulega í hug einn möguleiki á lokalínu um daginn: glæpasögur voru kannski lengi að hljóta viðurkenningu sem „alvöru bókmenntir“ á Íslandi. En þess má að gamni geta að sú sem einna helst hefur lagst í rannsóknir á íslenskum glæpasögum er nú hvorki meira né minna en… menntamálaráðherra landsins.

Lifið í friði.

vinna

Ég er að fara að vinna, tek hóp í smá rúnt og göngu í dag. Þetta er fyrsta launaða ferðaþjónustuverkefnið síðan… tja… ég bara man það ekki. Síðan í júní samkvæmt dagatalinu, ef undan eru skilin nokkur transfer sem ég tók á Íslandi í júlí.

Ég ætla ekki að kvarta, ég er svo heppin að vera skuldlaus (fyrir utan LÍN, hefði nú alveg viljað losna við árlegu greiðsluna þeirra nú í vor, það var þungur biti fyrir minn tóma reikning), en mikið óskaplega hlakka ég til að fara í vinnuna. Um leið og ég kvíði alveg ógurlega fyrir líka, en fiðrildið í maganum er nú bara þægilegt. Ég vona að það verði bara svona fiðrildi á morgun fyrir prófið, ekki klumpur.

Lifið í friði.

tískan í Sorbonne

Ég mæti í tíma í þremur mismunandi deildum í Sorbonne, bókmennta-, málvísinda- og enskudeild.
Í bókmenntadeildinni eru konur í svo miklum meirihluta að maður eiginlega hrekkur við þegar maður sér karlmann. Þær eru vitanlega misjafnar, en langflestar afar venjulegar tískudrósir. Klæddar í nýjustu línuna frá toppi til táar. Ég ætla ekki að ræða nýju línuna neitt, nema segja að mér finnst peysutískan núna alveg meiriháttar. Alls konar stórar og miklar og síðar og þykkar peysur. Þær eru með eða án kaðla, einlitar, röndóttar eða yrjóttar, flegnar eða með stórum rúllukrögum. Allar konur ættu geta fundið sér peysur. Ég stend bitur fyrir framan gluggana í búðunum, peysurnar kosta yfirleitt um 35 evrur í ódýru búðunum sem ég skoða í, það er ekki mikill peningur fyrir manneskju sem er í vinnu eða hefur aðrar leiðir sér til framfærslu en mann sem berst í bökkum á bökkum við að halda uppi fjögurra manna fjölskyldu. Já, ég er mjög bitur akkúrat núna yfir neyslubremsunni. En ég jafna mig. Kannski næ ég mér í eina kjóla- eða kápupeysu á útsölunum í janúar, hver veit…
Í enskudeildinni mæti ég bara í eina fámenna málstofu, svo athuganir mínar eru kannski skakkar. Þar er jafnmikið af konum og körlum, sem sagt hið fullkomna kynjahlutfall. Kennarinn er karl (í bókmenntadeild eru þær báðar konur). Nemendurnir eru vel til hafðir, nokkrar stelpnanna mæta í pressuðum pilsum, blússum og v-hálsmálspeysum. Sumar eru í pressuðum buxum með broti, smart flegnum bolum, með áberandi hálsmen, ekki samt svona Samfylkingarstíll, hann sést frekar í bókmenntafræðinni. Strákarnir eru annað hvort í buxum með broti og peysum yfir skyrtum, eða í tískugallabuxum og peysum. Fólkið í enskudeildinni er langsmartasti hópurinn sem ég hitti fyrir.
Í málvísindadeildinni er enginn stíll. Fólk er bara í fötum sem það keypti sér einhvern tímann þegar fötin á undan voru orðin slitin. Það spáir ekki í stíl eða samsetningu. Stelpurnar eru margar með slitið og illa hirt, en dragsítt, hárið sitt í teygju aftur á bak. Það eru áberandi undantekningar, þrjár stúlkur sem eru í báðum hópunum mínum, eru alltaf eins og þær séu að fara á diskótek. Stífmálaðar með glitrandi augnskugga, í eggjandi hlírabolum og sést í skrautlega brjóstahaldara. Svo er þessi Suður-Ameríska/i, sem er, að ég held karlkyns, en annað hvort transi eða bara plein ofurtilhafður hommi. Ekki viss og hef ekki mikið verið að skoða það. Hann/hún gengur í svaka fötum með kögri og alls konar smellum og dóti, með hringi á tíu fingrum, hálsmen og stóra eyrnalokka. Langskemmtilegasta týpan af öllu þessu fólki.

Og ég? Ég fer nú bara í stutta svarta kjólinn minn og röndóttar sokkabuxur ef ég þarf á því að halda að koma mér í stuð. Set m.a.s. stundum á mig glossið sem vinkona mín gaf mér í afmælisgjöf. Þannig hef ég verið undanfarið. Aðra daga mæti ég í gallabuxum og götóttri lopapeysu á nýju góðu gönguskónum mínum. Stundum er ég „greidd“ (ég nota aldrei greiðu, bara puttana), stundum er hárið út í loftið eftir að fara blautt út í rokið. Oftast er ég bara í gallabuxum og bol eða kjóldruslu yfir og stígvélunum mínum mjúku og góðu sem ég keypti sem betur fer í góðærinu í fyrra. Rauða góðærisregnkápan mín gerir mig svo alltaf að rosa flottri Parísardömu.

Lifið í friði.

litlir hlutir og stærri

Lífið stoppar ekki í kringum mig þó ég sé á leið í próf, vinnuferð og yfir mér vofi ritgerðarskil. Ónei.
Það er von á gesti til Parísar um helgina og kemur ekki til mála annað en að hitta hann eitthvað.
Svo þurfa krakkarnir sína athygli, og með þeim eyddi ég tveimur klukkustundum í að fara í gegnum allt dótið þeirra á sunnudag. Það var ágætis hreinsun, hentum öllu sem var brotið og skemmt og fylltum poka af dóti sem þau eru til í að gefa. Það er alltaf jafnerfitt, ótrúlegt hvað börn geta verið… nísk? Er þetta níska, eða einhverjar leifar af eðlishvöt, sjálfsbjargarhvöt? Þau vilja alveg gefa fátæku börnunum, en frekar samt fara og kaupa eitthvað nýtt handa þeim. Ég reyni af fremsta megni að hlífa þeim við þeirri staðreynd að til að kaupa þarf peninga. Ég vil helst bíða aðeins lengur. Ég fell þó stundum í þann fúla pytt að segja þeim að ég hafi ekki efni á hinu og þessu. Að þau verði þá bara að borga það sjálf eða eitthvað slíkt. En ég gríp fyrir munninn á mér og reyni að eyða því án þess að skilja eftir einhverjar spurningar sem valda kvíða í þeim. Peningar sméningar. Nógu þreytandi hluti af því að verða fullorðinn…

En mér líður aðeins betur varðandi merkingarfræðina. Ég er ekki alveg tilbúin í prófið, en ég held að ef ég gef mér tvisvar sinnum þrjár klukkustundir í þetta, muni ég ná því. Helst samt 2 x þrjár klukkustundir án þess að hafa facebook. Ég vinn svo mikið á netinu, nota snöru.is, wikipedíu, og semantíklópedíu og vitanlega gúgglið góða, og það er alveg með ólíkindum hvernig facebook sogar mann til sín. Fíkill? Ég? Já.

Lifið í friði.

mánudagur

Það virðist vera alveg sama hvað ég les þetta oft, það kviknar ekki ljós. Ég er stórefins um þetta allt saman. Hef þrjár og hálfa klukkustund núna til að sjá hvort ekki gerist eitthvað.

Svo þyrfti ég að fara að huga að jólagjöfum, það vantaði alveg inn í tímastjórnunaráætlunarplanið í gær. Þær örfáu gjafir sem þurfa að fara til Íslands, þurfa að fara snemma, helst um næstu helgi, því þá hitti ég hóp ferðalanga sem ég tek í stutta ferð. Vantaði það ekki líka inn í gær? Þau eru alla vega svo elskuleg að vilja taka pakka fyrir mig heim. En ég þarf þá að kaupa eitthvað í pakkann, ljóst að ekki verður sest niður og föndrað, frekar en fyrri daginn. Ég er alltaf að segja þetta, en mér finnst einhvern veginn eins og ég þyrfti að vera með bötler, stofustúlku og eldabusku. Er það til of mikils mælst?

Lifið í friði.

tepoki til glöggvunar eigin tímastjórnunaráætlunarplans

Það er óþægilegt að finna stressið aukast dag frá degi. Manni finnst maður vera að deyja úr stressi einn daginn, en finnur svo þann næsta að það hefur aukist um helming og samt hangir maður á lífi.

Ég hef þessa viku til að vera dugleg(ri) að halda áfram að lesa alls konar bækur. Næstu helgi verður félagslífið dálítið stíft, kannski neyðist ég til að grisja það aðeins, fer eftir því hvernig mér gengur í vikunni.

Svo er próf í merkingarfræðinni mánudaginn 30. nóv og þriðjudaginn 1. des held ég til Périgueux þar sem ég verð með fyrirlestur um Mýrina/La cité des jarres. Ég veit ekki enn hvað ég ætla að segja nákvæmlega, er þó búin að kortleggja söguna ágætlega og skortir ekki hugmyndir. Ég hef bara fimmtán mínútur, þetta ætti ekki að verða of mikið mál, en ég þarf samt að reikna með einhverjum klukkutímum í þetta í vikunni. Þó ég tími þeim ekki. Í raun hef ég meiri áhyggjur af því í hverju ég á að vera, það er alltaf jafnflókið. Ég frétti að sendiráðsstarfsmenn hefðu fengið voða fínt boðskort, með nafninu mínu á. Það hrellir mig töluvert.
Ég verð í Périgueux til laugardagsins 5. des, kem heim og rétt næ að mæta á jólaballið.

Svo hef ég aðra viku til að halda áfram að þræla mér í gegnum það að skrifa eina örstutta ritgerð um doðrant og aðra tíu blaðsíðna ritgerð um eitthvað sem tengist konum má miðöldum. Reyndar þarf ég að skreppa í eitt stykki skjalaþýðingapróf á fimmtudeginum uppi í Sendiráði og neyðist líklega til að eyða svo sem eins og einum degi í að fara yfir glósur og gamlar þýðingar á skjölum, en það verður vonandi á hótelinu í Périgueux.
Ég er farin að hallast að því að miðaldaritgerðin muni fjalla um klæðaburð kvenna: ríkar vs. fátækar og kvenlegar vs. karlmannlegar (Jóhanna af Örk o.fl. fóru í karlmannsföt), en ég næ samt ekki alveg að negla þetta niður í hausnum á mér og hef ekkert rætt þetta við kennarann, aðallega vegna þess að ég er alveg hrottalega feimin við að tala um svona hluti með fullt af fólki í kringum mig, en er föst í merkingafræðitímum þegar hún er með viðtalstíma.
Ég hef ekki hugmynd um það hvernig málvísindakennarinn ætlar að láta okkur sanna að við eigum einingarnar skildar, hann er enn að klóra sér í hausnum, en ég er eiginlega búin að ákveða að hætta í þeim tímum, ég er ekki að læra neitt nýtt, bara á nýju tungumáli og þar sem ljóst er að franskan er ekki aðaltungumálið í málvísindum í dag (svo til allt efni sem bent er á, er á ensku) sé ég ekki til hvers ég á að vera að sóa tíma mínum í þetta.

Ég held að ég ætli að ná að tækla þetta, reyndar veit ég ekki alveg með merkingarfræðina, það kemur í ljós í dag. Hitt ætla ég að hossast í gegnum, á blekkingunni ef ekki vill betur. Fake it till you make it verður kannski bara krosssaumsverkefni jólanna?

En fyrsta verkefni dagsins í dag: að hlunkast hringinn minn góða.

Lifið í friði.

lausnin?

Sársauki er óumflýjanlegur. Þjáning er val.

Mér finnst þetta góður frasi og ætla að reyna að muna hann. Vinkona mín kenndi mér hann á ensku í léttri gönguferð um Mýrina, sem innihélt m.a. stopp í hrikalega góðri karmellubúð. Smjattaði á guðdómlega góðri karmellu og velti þessu fyrir mér og hefur liðið vel síðan.
Kannski ég kroti hann upp á blað og festi á spegilinn? Eða ég fari og kaupi kíló af karmellum? Eða búi þær til sjálf, ég hálflofaði vinkonunni að ég kynni upp á hár að búa til góðar karmellur. Hvað er annars að kunna upp á hár?

Lifið í friði.

kættist sú gamla

Ég horfði loksins á Útsvar síðasta laugardags, en ætlaði varla að þora það eftir áfallið frá vikunni á undan þegar þessi virðulega spurningakeppni smitaðist skyndilega af hrottalega hvimleiðu Gettu betur-syndrómi með skrílslátum í áhorfendasal. Ég kættist við að sjá að mátulega alvarlegt yfirbragðið var aftur komið á þáttinn, kann miklu betur við það. Fertugar kellingar vilja ekki svona öskur og læti, þær bara fara alveg á taugum yfir slíkum ófögnuði.

Lifið í friði

vork-pytturinn

Í gær datt ég niður í svona líka deppu. Ég hef verið svo ligeglad í allan vetur þrátt fyrir að ég hafi ekki komist inn í rútínuna og sé með allt á hælunum. Einhvern veginn alltaf náð því að vera samt kát.
Í gær helltist svo yfir mig vanmáttartilfinningin og ég sat og barmaði mér í hljóði yfir því að ég gekk galtóm út úr Merkingarfræðitímanum í gær, ég fæ ekki svör við tölvupóstum sem ég sendi til Háskólans út af skráningarmálum, ég næ ekki að lesa helminginn af því sem ég þyrfti að klára, ég hef ekki sett í þvottavél í 5 daga… bleh, hvað maður getur stundum orðið ómögulegur.
Svo las ég kafla í Fíusól fyrir börnin mín, þar sendir hún sjálfri sér bréf og lofar að vera alltaf góð við sig. Ég útskýrði vitanlega fyrir þeim að það væri ekkert alltaf augljóst, í raun væru margir mjög vondir við sig, dragandi úr sér máttinn með því að finnast þeir of feitir, ljótir, latir og leiðinlegir. Og vissi um leið að þetta var ég. En samt næ ég ekki að laga þetta. Kannski ég ætti að prófa að skrifa mér ástar- og upphafningarbréf eins og Fíasól?
Sjálfsvorkunn er versta tilfinningin. Ég er ekki frá því að hún sé verri en öfundin, sem ég hélt að væri verst. Ég reyni að vinna mig út úr þessum skít í dag, með því að vera ógeðslega dugleg á bókasafninu. Og fæ mér kannski sænska eplaköku með rjóma, eða hvítvínsglas í dagslok eða eitthvað. Það er oftast nóg fyrir mig til að lyfta mér aftur upp. Djöfuls sjálfsvorkunn, þoli ekki fólk sem liggur í henni og vil ekki vera þannig sjálf.

Og í dag verð ég áfram í kjól, röndóttum sokkabuxum, með gloss á vörum. Það hjálpar kannski líka. Fake it, till you make it. Þannig er líf meistaranemakellingar.

Lifið í friði.

andlitsmálning

Ég var að átta mig á því rétt í þessu að ég steingleymdi að kaupa andlitsmálningu fyrir afmælisboðið í dag. Er þetta orðið svona á Íslandi, að afmæli er ekki afmæli nema allir krakkarnir séu máluð í framan? Ég er þokkalega flínk í Spiderman og held að ég nái blettatígur eftir að Kári kom þannig úr öðru afmæli síðustu helgi. Ég er líka mjög ánægð með kisuútfærsluna mína.
En andlitsmálningin sem ég keypti einhvern tímann fyrir löngu síðan, er alveg búin og ég vissi það og ætlaði að kaupa í vikunni. Klikkaði algerlega á því. Þar sem ég sleppti því að baka í gærkvöldi, sakir almennrar þreytu, er ég upptekin allan morguninn. Ég get ekki sent manninn minn í málningarinnkaup, nenni ekki einu sinni að reyna að ræða það hvers vegna. Sumt bara geta karlmenn ekki gert, þó þeir séu næstum fullkomnir. Eða þannig.
Á ég að fórna augabrúnalituninni minni sem var á dagskrá í lok morgunsins og rjúka í mollið á eftir? Laugardagar í mollinu eru svo ógurlega skemmtilegir. Það togast í mér fyrirmyndarmóðirin og lata stelpan.

En eitt er alveg ljóst, málning eða ekki málning: Kári er sex ára í dag!

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha