Þá er ég búin í prófinu sem ég var hræddust við. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig mér gekk, ég bara krotaði og krassaði og leið dálítið eins og ég væði í villu og svíma og kannski gerði ég það stundum. Af tveimur svörum sem ég tékkaði á, var annað rétt, hitt fáránlega klaufalega rangt. Líklega er allt prófið svona. Ég þoli ekki svona páfagauka-formúlu-lærdóm og ég er gersamlega tóm að innan. Búin á því.
Á morgun fer ég svo í óvissuferð. Ég þarf að vera tilbúin með fyrirlestur sem ég held fyrir hundrað manns (eða meira, eða minna) á bókasafninu í Périgueux annað kvöld. Og svo í tveimur smærri bæjum fyrir færra fólk á fimmtudag og föstudag. Ég kynni Arnald Indriðason, og tala um Mýrina og þýðinguna á frönsku. Ég er komin með punkta sem eru víðsvegar hjá mér. Í stílabókum, á lausum blöðum og eitthvað smá í tölvunni. Ég er komin með innganginn, en ekki niðurstöðuna, sem er líklega aðalmálið. Ég veit ekki hvort ég næ að koma þessu á skikkanlegt form í kvöld, en geri það þá bara í lestinni á morgun.
Ég veit það það er tekið á móti mér og að ég verð á hóteli og að ég á að vera í fullu fæði. Ég veit ekkert hvort það er á hótelinu eða hvort ég verð að þiggja heimboð umsjónarmanna eða hvernig það gengur fyrir sig. Ég veit ekki hvort þeir ætlist til að ég verði eitthvað með þeim á daginn eða hvort ég geti legið í ritgerðarskrifum og kannski jafnvel litið aftur á þýðinguna á femínísku greininni með ögrandi orðalaginu, en hún hefur nú legið á ís allt of lengi. Mig langar að klára hana. Og mig langar helst að klára aðra af ritgerðunum líka.
Ég veit ekkert hvort ég verð á fínu hóteli með minibar, eða litlu skuggalegu hóteli við lestarstöðina.
Ég veit ekki hvað þetta fólk er gamalt sem ég hef verið í sambandi við, hvort það verður eitthvað félagslíf eða hvort ég verð bara fyrir þarna. Það er alla vega ekki hægt að segja annað en að spennandi er þetta. Fínt að prófa að fara í óvissuferð svona einu sinni á ævinni. Það var ekki komið neitt svona þegar ég vann á Símanum. Hvorki óvissuferðir, leynivinadagar né nokkuð annað svona mannauðseflandi dæmi. Við vorum bara látin vinna myrkranna á milli og fengum lús í laun.
Ég veit ekki heldur hvort ég geti verið nettengd í óvissuferðinni.
Þetta var ágætis útblástur. Nú þyrfti ég að fá eitt stykki innblástur fyrir niðurlagið. Mér datt náttúrulega í hug einn möguleiki á lokalínu um daginn: glæpasögur voru kannski lengi að hljóta viðurkenningu sem „alvöru bókmenntir“ á Íslandi. En þess má að gamni geta að sú sem einna helst hefur lagst í rannsóknir á íslenskum glæpasögum er nú hvorki meira né minna en… menntamálaráðherra landsins.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir