litlir hlutir og stærri

Lífið stoppar ekki í kringum mig þó ég sé á leið í próf, vinnuferð og yfir mér vofi ritgerðarskil. Ónei.
Það er von á gesti til Parísar um helgina og kemur ekki til mála annað en að hitta hann eitthvað.
Svo þurfa krakkarnir sína athygli, og með þeim eyddi ég tveimur klukkustundum í að fara í gegnum allt dótið þeirra á sunnudag. Það var ágætis hreinsun, hentum öllu sem var brotið og skemmt og fylltum poka af dóti sem þau eru til í að gefa. Það er alltaf jafnerfitt, ótrúlegt hvað börn geta verið… nísk? Er þetta níska, eða einhverjar leifar af eðlishvöt, sjálfsbjargarhvöt? Þau vilja alveg gefa fátæku börnunum, en frekar samt fara og kaupa eitthvað nýtt handa þeim. Ég reyni af fremsta megni að hlífa þeim við þeirri staðreynd að til að kaupa þarf peninga. Ég vil helst bíða aðeins lengur. Ég fell þó stundum í þann fúla pytt að segja þeim að ég hafi ekki efni á hinu og þessu. Að þau verði þá bara að borga það sjálf eða eitthvað slíkt. En ég gríp fyrir munninn á mér og reyni að eyða því án þess að skilja eftir einhverjar spurningar sem valda kvíða í þeim. Peningar sméningar. Nógu þreytandi hluti af því að verða fullorðinn…

En mér líður aðeins betur varðandi merkingarfræðina. Ég er ekki alveg tilbúin í prófið, en ég held að ef ég gef mér tvisvar sinnum þrjár klukkustundir í þetta, muni ég ná því. Helst samt 2 x þrjár klukkustundir án þess að hafa facebook. Ég vinn svo mikið á netinu, nota snöru.is, wikipedíu, og semantíklópedíu og vitanlega gúgglið góða, og það er alveg með ólíkindum hvernig facebook sogar mann til sín. Fíkill? Ég? Já.

Lifið í friði.

9 Responses to “litlir hlutir og stærri”


 1. 1 Eyja 24 Nóv, 2009 kl. 9:33 f.h.

  Mér finnst allt í lagi að börnin viti að peningarnir vaxi ekki á trjánum og að ekki sé hægt að kaupa hvaðeina sem hugurinn girnist. Það á ekkert að þurfa að skila sér í áhyggjum af afkomu fjölskyldunnar sem er auðvitað ekki gott að þau hafi. Og já, ég þarf víst að fara að taka herbergi minnar yngstu svona í gegn, hef verið að fresta því lengi.

  Í sambandi við Facebookfíknina datt mér í hug hvort það væri sniðugt að stilla vekjaraklukku eða eitthvert tímatökuapparat (eggjasuðuklukku?) á hálftíma þ.a. þú fengir ekki að fara á FB fyrr en klukkan hringdi. Þá fengirðu að fá þér fix, t.d. í 5 mínútur, svo er klukkan aftur stillt á hálftíma o.s.frv. Ég hef reyndar aldrei prófað þetta sjálf svona formlega. Annað sem gæti hjálpað væri að skrifa frekar nákvæman lista yfir það sem þú þarft að gera og svo þyrftirðu að ljúka x mörgum hlutum á listanum áður en þú fengir að leika þér. Ég fæ oft mikið kikk út úr því að nota lista sem inniheldur allt niður í „senda tölvupóst til X“ og finnst ég hafa verið voðalega dugleg þegar ég hef náð að merkja við marga hluti á listanum.

 2. 2 Homo Rollus 24 Nóv, 2009 kl. 10:09 f.h.

  Ja hérna.

 3. 3 ella 24 Nóv, 2009 kl. 10:58 f.h.

  Við myndum tilfinningatengsl við hluti ekkert síður en fólk.

 4. 4 GlG 24 Nóv, 2009 kl. 3:23 e.h.

  Fátæku börnin fara á mis
  við feisbúkk og innkaupaæði,
  peninga, snöru punktur is
  og próf í merkingarfræði.

 5. 5 GlG 24 Nóv, 2009 kl. 3:30 e.h.

  Skárra: fésbók

 6. 6 parisardaman 24 Nóv, 2009 kl. 8:24 e.h.

  Eyja: Já, ég er á fullu að kenna þeim allt um sóun og nýtingu o.s.frv. Og einmitt að maður á alls ekki alltaf að æða til og kaupa, sem ég held að þau skilji ágætlega. En ég á það til að segja í hálfgerðum hæðnistóni: Og ætlar þú að borga? eða eitthvað slíkt og þá fæ ég alltaf sting í hjartað. Flókið mál…
  Ég mæli með svona tiltekt, það er ógeð meðan á því stendur, en léttir á eftir. Og listar, já nota það ansi oft. Klukkan, góð hugmynd, kannski ég prófi það. Alla vega þegar ég er heima, ekki alveg viss um að það yrði vinsælt á bókasafninu.
  Ella, jámm, ég er líka „sek“ um það!
  GIG: takk fyrir ljóðið, fésbók er bara eitthvað svo ruddalegt, finnst mér. Mér finnst fasbók skárra, en svo hef ég bara ekki nennt að ákveða hvað er best: Fasbók, snjáldurskinna, snjáldrið… allt alveg ágætt, þetta er einhvers konar blanda af leti og óákveðni… að vera bara eins og hinir…

 7. 7 Sigurbjörn 24 Nóv, 2009 kl. 8:44 e.h.

  Af fyrirsögninni að dæma gæti þetta hafa verið eitthvað krassandi …

 8. 8 parisardaman 24 Nóv, 2009 kl. 9:36 e.h.

  Málið er að koma með sláandi fyrirsagnir eins og við lærðum á námskeiðinu hjá Kellý, ertu búinn að gleyma?

 9. 9 parisardaman 25 Nóv, 2009 kl. 10:29 f.h.

  Ég er búin að komast að því hvað er vandamálið við Facebook, það er of mikið í samræðustíl, allt gerist svo hratt þar, þú setur eitthvað inn og verður viðþolslaus af spenningi yfir því hvort einhver geri athugasemd. Meðan athugasemdir hafa næstum horfið af blogginu og maður er bara rólegur þar að þvaðra út í loftið.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: