tískan í Sorbonne

Ég mæti í tíma í þremur mismunandi deildum í Sorbonne, bókmennta-, málvísinda- og enskudeild.
Í bókmenntadeildinni eru konur í svo miklum meirihluta að maður eiginlega hrekkur við þegar maður sér karlmann. Þær eru vitanlega misjafnar, en langflestar afar venjulegar tískudrósir. Klæddar í nýjustu línuna frá toppi til táar. Ég ætla ekki að ræða nýju línuna neitt, nema segja að mér finnst peysutískan núna alveg meiriháttar. Alls konar stórar og miklar og síðar og þykkar peysur. Þær eru með eða án kaðla, einlitar, röndóttar eða yrjóttar, flegnar eða með stórum rúllukrögum. Allar konur ættu geta fundið sér peysur. Ég stend bitur fyrir framan gluggana í búðunum, peysurnar kosta yfirleitt um 35 evrur í ódýru búðunum sem ég skoða í, það er ekki mikill peningur fyrir manneskju sem er í vinnu eða hefur aðrar leiðir sér til framfærslu en mann sem berst í bökkum á bökkum við að halda uppi fjögurra manna fjölskyldu. Já, ég er mjög bitur akkúrat núna yfir neyslubremsunni. En ég jafna mig. Kannski næ ég mér í eina kjóla- eða kápupeysu á útsölunum í janúar, hver veit…
Í enskudeildinni mæti ég bara í eina fámenna málstofu, svo athuganir mínar eru kannski skakkar. Þar er jafnmikið af konum og körlum, sem sagt hið fullkomna kynjahlutfall. Kennarinn er karl (í bókmenntadeild eru þær báðar konur). Nemendurnir eru vel til hafðir, nokkrar stelpnanna mæta í pressuðum pilsum, blússum og v-hálsmálspeysum. Sumar eru í pressuðum buxum með broti, smart flegnum bolum, með áberandi hálsmen, ekki samt svona Samfylkingarstíll, hann sést frekar í bókmenntafræðinni. Strákarnir eru annað hvort í buxum með broti og peysum yfir skyrtum, eða í tískugallabuxum og peysum. Fólkið í enskudeildinni er langsmartasti hópurinn sem ég hitti fyrir.
Í málvísindadeildinni er enginn stíll. Fólk er bara í fötum sem það keypti sér einhvern tímann þegar fötin á undan voru orðin slitin. Það spáir ekki í stíl eða samsetningu. Stelpurnar eru margar með slitið og illa hirt, en dragsítt, hárið sitt í teygju aftur á bak. Það eru áberandi undantekningar, þrjár stúlkur sem eru í báðum hópunum mínum, eru alltaf eins og þær séu að fara á diskótek. Stífmálaðar með glitrandi augnskugga, í eggjandi hlírabolum og sést í skrautlega brjóstahaldara. Svo er þessi Suður-Ameríska/i, sem er, að ég held karlkyns, en annað hvort transi eða bara plein ofurtilhafður hommi. Ekki viss og hef ekki mikið verið að skoða það. Hann/hún gengur í svaka fötum með kögri og alls konar smellum og dóti, með hringi á tíu fingrum, hálsmen og stóra eyrnalokka. Langskemmtilegasta týpan af öllu þessu fólki.

Og ég? Ég fer nú bara í stutta svarta kjólinn minn og röndóttar sokkabuxur ef ég þarf á því að halda að koma mér í stuð. Set m.a.s. stundum á mig glossið sem vinkona mín gaf mér í afmælisgjöf. Þannig hef ég verið undanfarið. Aðra daga mæti ég í gallabuxum og götóttri lopapeysu á nýju góðu gönguskónum mínum. Stundum er ég „greidd“ (ég nota aldrei greiðu, bara puttana), stundum er hárið út í loftið eftir að fara blautt út í rokið. Oftast er ég bara í gallabuxum og bol eða kjóldruslu yfir og stígvélunum mínum mjúku og góðu sem ég keypti sem betur fer í góðærinu í fyrra. Rauða góðærisregnkápan mín gerir mig svo alltaf að rosa flottri Parísardömu.

Lifið í friði.

16 Responses to “tískan í Sorbonne”


 1. 1 baun 25 Nóv, 2009 kl. 8:48 f.h.

  Svarti kjóllinn, röndóttar sokkabuxur og rauð stígvél? Pottþétt flottust!

 2. 2 parisardaman 25 Nóv, 2009 kl. 8:49 f.h.

  Stígvélin eru svört. Ég er langflottust. Enda ParísardamAN.

 3. 3 Harpa J 25 Nóv, 2009 kl. 9:18 f.h.

  Dama er alltaf dama. Sama hvernig hún er klædd 😉

 4. 5 parisardaman 25 Nóv, 2009 kl. 10:00 f.h.

  Þetta átti nú aðallega að fjalla um mismuninn á deildunum, en enginn tekur eftir neinu nema mér. Skyggi ég á heilu deildirnar í skólanum?

 5. 6 Guðmundur Brynjólfsson 25 Nóv, 2009 kl. 1:01 e.h.

  „með áberandi hálsmen, ekki samt svona Samfylkingarstíll“

  Það er væntalega ekki mikill stíll?

 6. 7 parisardaman 25 Nóv, 2009 kl. 1:11 e.h.

  Það er fínn stíll, svona Ingibjargar Sólrúnar-stíll, skilurðu. Ekkert að honum, vildi bara koma í veg fyrir að lesendur fengju slíkan stíl í kollinn, því það er ekki alveg rétt.

 7. 8 einar jónsson 25 Nóv, 2009 kl. 6:58 e.h.

  Verðurðu ekki bara að prjóna sjálf svona bókmenntadeildarlopapeysu?

 8. 9 parisardaman 25 Nóv, 2009 kl. 7:00 e.h.

  Ég á nú alveg ágætar íslenskar peysur. En ég ætti líklega að prófa að ráðast í stórverkefni, litlu verkefnin ganga svo vel (je ræt).

 9. 10 hke 25 Nóv, 2009 kl. 10:07 e.h.

  Mjög áhugaverð tískuúttekt. Ekta tímaritspistill. Er sérstaklega forvitin um peysurnar (er alveg hætt að fara í búðir og fletta tískublöðum).

 10. 11 Guðlaug Hestnes 25 Nóv, 2009 kl. 10:22 e.h.

  Mér finnst þú hljóma mjög smart. En rauða skó verður þú að eignast, það er kúl!

 11. 12 parisardaman 26 Nóv, 2009 kl. 6:45 f.h.

  Hke: Hérna sérðu t.d. peysurnar frá Promod, sem er ódýr tískubúð: http://www.promod.fr/pulls/index.html
  Ég sé það, Guðlaug, að ég hljóma mjög smart. En spurðu vinkonur mínar hérna, ég er langoftast frekar ósmart. Ómáluð og gleymi ma.s.s. að setja á mig krem (hef verið skömmuð opinberlega fyrir það).
  Ég á frábæra rauða leðurtrampara, en ég þurfti að hætta að nota þá eftir að ég slasaði mig á hné, þeir eru of þungir. Ég þyrfti, í næsta góðæri, að kaupa mér einhverja svona töfraskó, rauða. Létta og mjúka.

 12. 13 Sigurbjörn 26 Nóv, 2009 kl. 10:50 f.h.

  Kannast of vel við málvísundastílinn … Hann ríður ekki við einteyming.

 13. 14 ella 26 Nóv, 2009 kl. 2:49 e.h.

  Upp með prjónana! Peysurnar meiga vera með öllu móti, þú þarft ekkert að vera að kjafta frá hvernig uppskriftin hafi verið ef útkoman verður allt öðruvísi.

 14. 15 hke 26 Nóv, 2009 kl. 7:23 e.h.

  Já, satt segirðu. Takk fyrir tengilinn!

 15. 16 Kalli 30 Nóv, 2009 kl. 8:00 e.h.

  Þvílíkt bull.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: