Sarpur fyrir desember, 2009

annáll

Ég hef aldrei séð ástæðu til að birta annál, enda er ég með gullfiskaminni. Nema þegar einhver gerir eitthvað á hlut minn sem mér finnst skipta nógu miklu máli, þá er ég fíll. En þar sem Stöð 2 ætlar að sleppa honum, finnst mér alveg nauðsyn að bæta það tómarúm upp (djók):

Árið 2009 hló ég mikið og grét slatta.
Ég kom og ég fór en ég fór ekki alltaf þegar ég spáði í það.
Ég stóð teinrétt nema þegar ég lagðist undir sæng í fósturstellingunni.
Ég lyfti lóðum, hoppaði, hljóp dálítið og synti eitthvað smá. Ég drakk fullt af víni og reykti allt of margar sígarettur. Ég borðaði hollt en stundum óhollt. Sukkjöfnunin gekk sumsé ágætlega, kílóafjöldinn er nokkurn veginn sá sami en ég er styrkari í höndum og fótum og alveg pottþétt með betra úthald (og þá er ég ekki að tala um drykkjuúthald sem hefur alltaf verið mjög gott).
Ég stífnaði stundum upp í öxlum og hálsi af reiði og vanmáttartilfinningu gagnvart ástandinu ógurlega á Íslandi. Icesavehnúturinn hefur alltaf staðið í hálsinum á mér. Mér finnst í raun alveg ótrúlegt hvað fólk hamast við að vera hissa á því hvað þetta tók langan tíma, mér hefði þótt það mjög óþægilegt og skrýtið ef undirskrift ábyrgða hefði runnið í gegnum Alþingi umyrðalaust. Þá hefði ég orðið paranojuð. Þó fannst mér flestir sem göluðu hátt vera bylurinn í tómu tunnunni og ekki orð um það meir.
Ég gerði mér grein fyrir því að heimurinn þarf meiri róttækni og fleiri alvöru beinar aðgerðir en ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér í að taka þátt í því. Mig langar það samt. Það þarf að grafa undan valdapýramýdanum eins og hann er í dag, hann er ekki eðlilegur. Losa okkur við spillinguna og koma á meiri jöfnuði. Ísland, jafnt almenningur sem stjórnvöld, þarf líka að fara alvarlega að huga að mannréttinda- og frelsisbaráttu á alþjóðlegum vettvangi.
Ég varð fertug á árinu og er mjög sátt við að eldast, kannski af því mér líður alltaf eins og ég sé smákrakki.
Ég er núna um það bil að gera hlut sem ég hef bara að ég held aldrei gert. Ég er að gefast upp á lokaspretti. Þessi merkingarfræðikúrs er að setja líf mitt gersamlega á hvolf, með tilheyrandi hausverkjum og kvíðaköstum. Ég vissi það allan tímann að þetta var í raun bara einingagræðgi og ef ég hefði eitthvað átt að læra af þessu ári, er það að græðgi er aldrei til góða. Ég skil alls ekki nógu mikið og veit ekki hvernig ég á að skrifa feikritgerð, það er í raun ekki hægt. Ég mun þó líklega ekki ákveða mig endanlega fyrr en í kvöld eða á morgun, ég er búin engjast töluvert út af þessu, ég bara geri aldrei svona. Mér líður því dálítið eins og ég hafi gengið teinrétt inn í árið og fari kengbogin út úr því. En ég skal þó fara stökkvandi og rísa upp á ný mjög fljótlega. Enda er ég með gullfiskaminni.
Árið 2009 var mér mjög gott þó það hafi líka oft verið erfitt. Lífið er ekki neitt neitt ef það er aldrei smá erfitt. Árið 2009 má samt alveg vera búið og þarf aldrei að koma til baka. Það eina sem ég bið um er að árið 2010 verði í það minnsta jafngott og óska ykkur öllum þess að það beri með sér tækifærin sem þið bíðið eftir, að heilsa ykkar verði góð og að gleðistundirnar verði fleiri og sterkari en hinar.

Lifið í friði.

molar en ekki konfekt

Þvottavélaviðgerðarmaðurinn á að koma í dag og mun ekki fá hlýjar móttökur. Ég er búin að viðra þetta vandamál í kringum mig og hef heyrt af viðgerðarmönnum sem segja: „Ah, hitaelementið, þá er betra að kaupa nýja vél.“ Við greiddum 200 evrur fyrir hitaelement í okkar fínu 6 ára gömlu vél, viðgerðin entist í hvað, mánuð eða svo? Álíka vél kostar um 5 -600 evrur ný hjá þessu fyrirtæki. Ég ætla að bjóða honum að endurgreiða viðgerðina gegn því að við kaupum nýja vél hjá þeim, þó ég hafi ekki baun efni á því að kaupa nýja þvottavél akkúrat núna. Ég stórefast um að því tilboði verði tekið, við sitjum eflaust uppi með eitthvað tap á þessu. En er það eðlilegt að 6 ára þvottavél frá framleiðanda sem á að teljast góður, sé ónýt? Við erum fjögur í heimili og ég er eins ströng og ég get á því að fötin séu notuð þar til þau eru almennilega skítug. Við skiptum ekki á rúmum á tveggja vikna fresti og erum ekki að þvo gólfmottur eða þykkar velúrgardínur því ekkert slíkt er á heimilinu. Ég hef notað kalklosandi efni með þvottaefninu frekar reglulega.
Óþolandi hvernig allt er búið til með styttri endingu í huga. Gersamlega óþolandi fjandi.

Annars hef ég verið dugleg við át og drykkju um jólin, farið úr boði í boð. Var loksins heima hjá mér í gærkvöldi og þegar í ljós kom að myndin sem við ætluðum að horfa á var biluð (diskur tekinn að láni á bókasafninu – annað sem ekki er gert til að endast, geisladiskarnir) skreið ég upp í rúm með bók og var sofnuð fyrir klukkan tíu. Svaf til hálfníu. Mér liði því dásamlega vel ef ekki væri fyrir merkingarlausar merkingarfræðigreinar annars vegar og þvottavélaviðgerðarmann hins vegar.

Ég hef líka staðið mig eins og hetja í áskorun um að gera þessi undarlegu stökk á hverjum degi. Gerði heil 27 slík í gær og mun gera 28 í dag. Kannski ég ætti að fara í spandexgalla og gera þau þegar þvottavélaviðgerðarmaðurinn mætir? Það gæti slegið vopnin úr höndunum á honum (já, ég er að búa mig undir stríð og já, ég ákvað að reyna að skrifa orðið þvottavélaviðgerðarmaður eins oft og ég gæti í þennan pistil). Verst að ég á ekki spandexgalla.

Ég hugsa stöðugt heim til Íslands og veit að nú er allt hvítt og fallegt. Það er ljúfsárt. Litla frænkan mín dafnar vel og ég fæ að öllum líkindum að hitta hana í febrúar. Vinkona mín átti barn í Brussel fyrir tveimur eða þremur dögum síðan og ég var næstum farin þangað í gær, þurfti þúsund villta hesta til að stöðva mig. Ungabörn eru náttúrulega með því allra besta í heiminum, svo gott að sniffa þau. Líklega ekki jafngott að sniffa þvottavélaviðgerðarmann en ég verð víst að láta það duga í dag.

Lifið í friði.

franskar matarvenjur á jólunum

Frönsku jólin eru ekki neitt neitt miðað við íslensku aðventuna og hátíðina með tilheyrandi röð af fjölskylduboðum og átveislum. Frakkar borða þó góðan mat, flestir gera sér dagamun á aðfangadagskvöld og svo aftur á jóladag, sem og um áramótin. Aðfangadagur er þó fullur vinnudagur, svo þetta er ekki sama hátíðarstundin og á Íslandi. Til dæmis var troðfullt hjá hárgreiðsludömunni niðri á horni þegar maðurinn minn var á leið heim úr vinnunni um hálfsjö í gærkvöldi. En hér kemur að gamni örlítill listi yfir það sem Frakkar borða helst um jólin:

Forréttir:
Foie gras de canard (andalifur) eða foie gras d’oie (gæsalifur). Þetta er borðað á ristuðu franskbrauði (pain de mie) með grófu salti og svörtum pipar og smjöri ef vill, persónulega finnst mér lifrin nógu feit ein og sér. Dásamlega góður forréttur sem dýravinir elska að hata vegna óhugnarlegra framleiðsluaðferða. Hægt er að fá lifrina í ýmsum útgáfum:
Hrá (cru) er lifrin steikt á pönnu í sneiðum og borin fram heit strax.
Heil og hálfsoðin (mi-cuit) lifur í loftþéttum umbúðum er mjög góður kostur, þarf bara að taka úr ísskáp örstuttu fyrir notkun og skera í sneiðar.
Í dósum eða krukkum er hún ýmist heil (entier) sem þýðir að það eru bitar og „æðar“ í henni eða í bloc sem þýðir að hún er fínhökkuð. Mörgum finnst þetta besta afbrigðið því maður verður minnst var við lifraráferðina sem fólki getur þótt óspennandi. Mjög góður kostur og langódýrastur.
Með andalifur þykir best að drekka mjög sætt hvítvín, t.d. Montbazillac. Mér finnst líka kampavín geta gengið, en það get ég aldrei drukkið sætt. Einnig er púrtvín gómsætt með andalifur.

Ostrur, 6 – 12 á mann (huîtres). Best er að kaupa þær á mörkuðum og láta opna þær fyrir sig. Annars þarf sérstakan hníf og mikla leikni. Ég bragðaði grillaðar ostrur með rjómasósu í fyrsta skipti á þessu ári, það var mjög ljúffengt en langoftast eru þær bara hráar á ís, bornar fram með sítrónubátum, rauðvínsediki með fínt hökkuðum skalottlauk (vinaigre à l’échalote), rúgbrauði (pain au seigle) og smjöri.
Ostrur eru alls ekki allra, sumir verða mjög veikir af þeim, sumum finnst þær bara óhugnalegar, aðrir eru sólgnir í þær.

Ýmsar pylsur (saucissons sec) og kæfur (patés) eru alltaf skotheldir og klassískir forréttir.

Aðalréttir:
Hinn hefðbundni aðalréttur jólanna er boudin blanc eða boudin noir. Þetta eru blóðpylsur einhvers konar. Ekki vondar en ég myndi aldrei hafa þetta á borðum hjá mér um jólin og þegar mér var boðið í hefðbundin frönsk jól var höfð ein pylsa til að bragða á áður en sjálfur aðalrétturinn var borinn fram, það var eingöngu fyrir útlendinginn sem átti að fá að kynnast hefðunum. Boudin fæst hjá öllum slátrurum (boucher). Þetta er kannski svolítið eins og hangikjötið hjá okkur, tengist jólunum en sjaldan borðað á aðfangadagskvöld.

Mér heyrist þó flestir borða kalkún (dinde) með fyllingu.

Annar góður og algengur aðalréttur sem ég hef oft á jólunum hér eru andabringur (magret de canard). Hér eru mjög fínar leiðbeiningar á íslensku um hvernig skal elda þær. Andabringur eiga alls ekki að vera gegnsteiktar, heldur vel bleikar, jafnvel blóðugar.
Með þeim ber ég yfirleitt fram kartöflubáta bakaða í ofni með grófu salti og ólífuolíu og epla- og perumauki sem ég sýð niður í potti (um 6 epli og 6 perur) með lögg af calvados (eplabrandí frá Normandí – má sleppa) og kryddað með engifer (gingembre).

Fiskur eins og skötuselur (lotte) er vinsæll í kringum jólin til að hvíla sig á kjötátinu, sem og sjávarréttabakkar, sem annað hvort eru pantaðir hjá fisksala eða farið út að borða á einu af brasseríunum (í París, t.d. Bofinger, Wepler, La Rotonde Parnasse…)

Lambalærið sló í gegn hjá mér í gær. Ég á nú þrjá franska matarelskhuga, tengdapabbi er búinn að þakka fjórum sinnum fyrir sig í dag. Franskt lambakjöt getur verið mjög gott og, líkt og með fiskinn, er það fásinna hjá Íslendingum að vilja ekki bragða á því í útlöndum. Það getur verið misjafnt og langöruggast er að kaupa það hjá dýrum og fínum slátrurum. Við pöntuðum gott læri fyrir um hálfum mánuði síðan og bragðið hefði áreiðanlega gabbað hvaða Íslending sem er.

Ostabakki:
Frökkum finnst ostar órjúfanlegur hluti af vel heppnaðri veislumáltíð. Það fer alveg eftir smekk hvaða ostar eru á boðstólnum, það er nóg að hafa þrjá, en flottast að hafa 5 eða 6 mismunandi osta á bakkanum. Hér koma nokkrar uppástungur
Tomme de chèvre (hvítur harður geitaostur, algert sælgæti ef maður þolir geitaostabragðið sem er ekkert líkt norska brúna geitaostinum).
Beaufort, harður alpaostur, bragðmikill.
Roquefort, hinn eini sanni blái ostur. Margir borða hann með smjöri til að milda bragðið aðeins.
Munster, gulur, mjúkur að innan.
Brie, camembert, alltaf sígildir og sérlega góðir ostar.
Saint Marcelin, mjúkur og sterkur, seldur í leirskál.
Svo er náttúrulega gott að kaupa crottin de chèvre, litla geitaostakúlur og skera í sneiðar og leggja ofan á brauð og grilla í ofni. Td. hunang eða ferskur basilik ofan á og grænt salat með og þið eruð komin með gómsætan forrétt.
Með ostabakkanum er oft borið fram grænt salat með vinaigrette-sósu.

Eftirréttir:
Á jólunum er yfirleitt annað hvort súkkulaðiterta eða ísterta í formi eldiviðarlurks (buche de Noël). Lurkarnir fást í öllum matvörubúðum og bakaríum, og til er fjöldi uppskrifta, þá er búin til rúlluterta sem er svo skreytt vandlega með kremi, sem gerð er viðaráferð. Sjálf bý ég oftast til ís (var með toblerone-ís í gær) eða súkkulaðimús:
6 egg aðskilin (og þarf að vanda vel, engin rauða í hvítunum).
200 g svart súkkulaði
smá salt.
Hvíturnar stífþeyttar með örlitlu salti. Súkkulaðið brætt í vatnbaði eða varlega í örbylgjuofni, rauðurnar þeyttar með gafli í skálinni sem músin verður í og súkkulaðinu hellt í mjórri bunu út í og hrært vel á meðan.
Setja þriðjung af hvítunum og blanda varlega með sleikju. Síðan blanda restinni smátt og smátt við án þess að hræra loftið úr. Það er allt í lagi þó músin sé dálítið mislit og ljós, hún jafnar sig í ísskáp. Geymist í minnst 3 klst. en þetta er mjög gott að gera daginn áður.
Hægt að setja smá appelsínulíkjör eða koníak út í súkkulaðið. Berið fram eina sér, eða t.d. með þeyttum rjóma og ávöxtum. Auðvitað má gera mjólkursúkkulaðimús ef fólk er ekki fyrir svarta súkkulaðið.

AÐFERÐIR TIL AÐ BORÐA Á SIG GAT
Sumir hafa tvo aðalrétti, einn fiskrétt og einn kjötrétt, ásamt vitanlega forrétti, ostum og eftirrétti en það er ofát sem ég hef aldrei getað hugsað mér að taka þátt í. Eins er til fyrirbrigðið Le trou Normand (Normandíska holan), en þá er fyrst borðað fjórréttað og desertinn er sorbet með calvados eða vodka út á og svo er aftur borðað fjórréttað. Þetta er enn meira ofát sem ég myndi aldrei láta plata mig út í heldur. Sorbetinn með áfenginu grefur holu í magann og myndar pláss fyrir næstu umferð.

Lifið í friði.

aðfangadagur

Ég er ekki búin að öllu, enda væri það ekkert gaman. Íbúðin er skreytt og fín, jólatréð í stofu stendur, pakkar komnir undir það, kertastjakarnir pússaðir, vinnustofan smátt og smátt að breytast í borðstofu (skrifborðið mitt er samt ennþá ruslahrúga), allt sem þarf að gera fyrir matinn er komið niður á blað og verið að tímasetja hvað þarf að gera hvenær (langflóknasti hluti matargerðarinnar, að mínu mati). Börnin hafa sem betur fer ofan af fyrir hvert öðru (hvoru öðru?) en spennan magnast. Sonur minn á erfiðara með skapstjórnun og hefur tekið nokkrar léttar sveiflur undanfarna daga.
Ég finn heimþrána lauma sér hægt og rólega inn í magann á mér en ég mun reyna að halda tilfinningunni í eðlilegum skefjum. Jólakveðjurnar í gær höfðu undarleg áhrif á mig, ég lét útvarpið ganga allan daginn. Fyrst var ég glöð, svo varð ég meyr og svo fékk ég allt í einu of stóran skammt af hugheilum og guðblessum og árs og friðar og þá slökknaði á heimþránni um tíma. Ég lék mér að því að búa til sniðugar (eða mér fannst þær bráðfyndnar) jólakveðjur fyrir næsta ár. Þær eru með hálfum huga, alls ekki innilegar eða einlægar. Þar senda ekki bara bumbulíusar (ég heyrð eina slíka í gær) heldur líka ófrjóvguð egg og sæðisfrumur í lökum, kveðjur til vina og ættingja um land allt.

Í kvöld verður lambalæri á borðum hér. Það ætla ég að elda samkvæmt þessari uppskrift Nönnu (þarf líklega aðgang að snara.is til að tengillinn virki). Ég ætla að setja blöndu af kartöflum og sætum kartöflum með í ofninn og hafa grænar baunir og einhverja sveppapúrtvínssósu með.
Í forrétt verður graflax með sósu úr plastflösku (namminamm), það eina sem ég lét bera til mín frá Íslandi fyrir jólin, í eftirrétt er heimagerður ís með fullt af toblerone í. Kannski berjasósa með, annars bara súkkulaðirjómasósa.

Ég er búin að hlakka til að byrja að búa til matinn í marga daga. Á sunnudaginn stóð ég mig til dæmis að því að spegúlera í því hvort ég ætti að skræla kartöflurnar eða ekki, meðan ég var að þrífa upp gubb eftir krakkana. Þá náði ég að framkalla lykt af elduðu lambi og fékk tilhlökkunarhnút í magann. Frekar furðulegt, en hreina satt.

Ég óska öllum lesendum mínum, jafnt alvöru netvinum sem og laumulesendum, gleðilegrar hátíðar. Þessi kveðja er hug- og gegnheil, ég lofa því, alveg satt. Og innileg og einlæg líka.
Snjórinn er farin hjá okkur, ég vona að Ísland verði hvítt og fallegt á næstu dögum. Mér finnst betra að hugsa til landsins þannig.

Lifið í friði.

bæta

Það er alltaf hægt að bæta sig. Ég er núna komin upp í 20 þræfingar eða froskastökk með armbeygju og hala, eins og einhverjir vildu kalla þetta rugl. Það hlýtur að vera að bæta sig að gera einni fleiri á dag, á hverjum degi, er það ekki? Reyndar er ég ekkert alveg viss. Ég er jafnvel undir niðri nokkuð viss um að þetta er svo mikil fásinna að ég sé hreinlega alls ekki að bæta nokkurn skapaðan hlut með þessari þrjósku.
Ég er í rosalega rólegum fasa í sambandi við jólaundirbúning, kannski gerist eitthvað hræðilegt um fimmleytið á morgun og ég breytist í sama skrímslið og aðrar húsmæður/feður eiga til að breytast í þegar eldamennskan hefst. Ég held reyndar að ég hafi aldrei orðið undirlögð í þessu stressi sem margir tala um og skil engan veginn angistina sem grípur fólk. Jú jú, að vísu er erfiðara ástand hjá sumum en öðrum, það veit ég mjög vel.

Eitt mál gæti þó valdið mér töluverðu hugarangri í dag. Þegar ég var að kafa ofan í þvottakörfuna í gær, sem fylltist óforvarendis í síðustu viku vegna leti húsmóðurinnar og varð svo að bíða meðan þvegin voru útgubbuð lök, náttföt og tuskur allan liðlangan sunnudaginn, sá ég að kjóllinn sem ég ætla að vera í um jólin lá þar án þess að ég hefði græna glóru um það. Ég vitanlega greip hann og skellti strax í vél. Ég var búin að láta tvær eða þrjár vélar ganga í gær, en var hvorki að fylla þær of mikið né að flýta mér þannig að ég léti vélina ekki bíða þetta korter sem viðgerðarmaðurinn sagði mér að virða þegar hann kom hérna fyrir, tja, mánuði síðan? Vélin með jólakjól húsmóðurinnar hagaði sér nákvæmlega eins og hún hagaði sér þegar við kölluðum manninn út síðast. Kjóllinn virðist þveginn, en ég þori ekki fyrir mitt litla líf að setja í aðra vél. Þetta kemur sér mjög illa. Til dæmis vegna þess að ég ætlaði t.d. að nota kjólinn minn aftur og aftur og þarf áreiðanlega að skola úr honum á milli. Líka vegna þess að mig langar að skipta á rúmum krakkanna í dag, mér finnst allir eigi að liggja í tandurhreinum rúmum um jólin (okkar hjóna var skipt út á sunnudag, vegna ælu). Svo er nú þegar full þvottakarfa frammi á baði. Og að endingu bara nenni ég ómögulega að fara út í eitthvað þras við einhverja viðgerðarkalla því ég er í óendanlega góðu skapi og maðurinn minn á afmæli í dag.

Lifið í friði.

skápasaga og loftljósamál

Skápamálunin var óðs manns æði og mér hefndist glæsilega fyrir það. Fyrst þurfti ég að grunna með olíugrunni og svo festist túrkísblái liturinn ekki auðveldlega á. Hurðirnar eru því enn bara hvítgrunnaðar og skápurinn er svona sveitarómantískt mislitur. Það eiga að koma myndir, ég bara nenni aldrei að gera nema helminginn af því sem ég ætla mér, koma kannski, koma kannski ekki…

Og nú er litli ofvirki púkinn í mér sannarlega í smá kreppu. Þannig er mál með vexti að þegar ég skoðaði þessa íbúð fyrst með manninum mínum féllum við bæði strax fyrir henni. Það þurfti að skipta um klósett og ýmislegt að gera, en hún var samt bara þrælfín og á góðu verði líka. En eitt stakk mig strax í augun og fékk mig til að dæma seljandann pínulítið undarlegan. Það var einhvers konar loftljós-innsetning í eldhúsinu. Málmprik með krók á endanum er lagt ofan á efri skáp í eldhúsinu. Ofan á það er settur brúsi af einhverjum hreinsilegi, fullum af hreinsilegi til að þunginn haldi prikinu kjurru. Það skagar svo fram og meðfram því liggur rafmagnskapall með ljósastæði á endanum, sem fest er á krókinn og þannig hangir sem sagt ljósapera sem lýsir upp rýmið. Ég hugsaði með mér að vesalings maðurinn væri nú eitthvað lasinn að vera ekki búinn að gera eitthvað í þessu en þó fór það svo að nú, fjórum, nei, sex árum eftir að ég flutti enn, er sami brúsinn á sama málmprikinu eldhúsljósið mitt. Allir Íslendingar sem koma í heimsókn taka eftir þessu og gera grín að mér. Ekki einn einasti Frakki hefur gert athugasemd við þetta. Ég er kannski meira frönsk í mér en ég vil vera láta?
En af hverju er ég að segja ykkur frá þessari innsetningu okkar núna? Vegna þess að í gær sprakk peran í því. Og þegar maðurinn minn losaði hana úr, brotnaði ljósastæðið. Það er ekki hægt að festa aðra peru í stæðið. Þetta er náttúrulega eins og ábending frá æðri yfirvöldum um að ég eigi að fá mér almennilegt ljós í eldhúsið. En samt. Núna? Og hvernig ljós? Og hvenær á ég að komast til að kaupa það? Og festa það upp? Djöfuls vesen. Það er voðalega næs að stússast með eitt lítið ljós í eldavélaviftunni og annað lítið yfir vaskinum, og borða við kertaljós. En samt. Frekar þreytandi fyrir augun þegar maður er að vinna. Hvað á ég að gera?

Annars er allt í sómanum hér. Ég er ekki með neina heimþrá. Mig langar ekki neitt að vera að rölta á Laugaveginum og hitta fólk og vera með mömmu í undirbúningi. Mig langar ekkert að fá að halda á litlu frænku minni sem systir mín fæddi á föstudaginn. Neinei, ekki neitt. Ég er ekki með heimþrá.

Lifið í friði.

jólastr… hvað?

Ég er ekki vön að stressa mig neitt rosalega út af jólunum. Ég er mikið jólabarn, ég skrifa allt of mörg jólakort af því mér finnst eins og ég geti galdrað gleði og frið út um allt með því, ég lendi stundum í smá baksi með að finna jólagjafir þar sem ég þarf að passa að þær kosti ekki of mikið en sætti mig samt ekki við að gefa bara mandarínur og epli. Að öðru leyti er ég bara kúl, held ég, svona jólalega séð.
En, ég er ekki kúl að eðlisfari, burtséð frá árstíðum og hátíðum. Ég held jafnvel að ég gæti verið með snert af einhvers konar ofvirkni (sem ég tel að eigi þó ekkert skylt við sjúkdóminn ofvirkni sem greinist í börnum), við skulum kalla það misvirkni til aðgreiningar. Mín mismvirkni brýst fram í einhvers konar bráðræðikasti, ég ræðst í einhverja framkvæmd sem hefur mallað í höfði mínu um tíma, þegar ég ætti allra helst að einbeita mér að því að hvíla mig og njóta lífsins. En ég held að ég njóti mín best þegar ég hef aðeins of mikið að gera svo kannski er það bara algerlega rökrétt að nú skuli íbúðin mín vera á hvolfi, allt dótið úr stóra buffetinu sem við fengum í arf frá ömmu Pauline er dreift um stofuna, efri hluti buffetsins, glerskápurinn, er kominn niður í geymslu (þar til ég má setja hann út á götu í næstu viku, þá má setja stórt rusl út) og neðri hlutinn er að hluta til berstrípaður af skrautlistum sem voru hálfbrotnir og stóðu út úr honum hvarvetna. Undan listunum kom slæmt sár, sums staðar, sem ég spaslaði upp í, í gær. Í dag ætla ég að byrja daginn á því að grunna skápinn og reyna svo að fara og kaupa túrkísbláan lit sem ég get vonandi klesst á í lok dags, eða í fyrramálið.
Ég ætla líka að kaupa jólatré í dag, bora upp lesljós fyrir krakkana, festa upp nokkrar myndir og gera fleira smálegt. Svo ætlaði ég líka að hvíla mig, en ég get gert það þegar ég drepst.

Við finnum nú þegar fyrir því hvað stofan stækkar við þessar breytingar, þó að dótið sé út um allt. Og ég tróð fullt af dóti ofan í kassa sem ég ætla að fara með í Rauða krossinn eða til Hjálpræðishersins við tækifæri.

Prófin eru yfirstaðin, ein ritgerð verður skrifuð í næstu viku og önnur í janúar, þó að kennarinn viti ekki enn að hún gaf mér frest.

Lifið í friði.

van gogh

Sonur minn tilkynnti mér á leið heim úr skólanum í gær að hann hefði lært um Van Gogh. Að hann hefði verið listmálari og hefði málað herbergið sitt og stjörnur á himnum. Og að hann hefði lifað á undan Kandinsky og [einhver annar sem ég man ekki hver var].
Ég minnti hann á gönguferðina þar sem við heimsóttum m.a. leiði Van Gogh og sýndi honum myndina þegar við komum heim. Við reiknuðum út af ártölunum að Van Gogh var 37 ára þegar hann dó. Og einhvern veginn fór það svo að ég sagði krökkunum að hann hefði skotið sig. Þau voru voðalega hugsi yfir þessu og spurðu mig spjörunum úr. Af hverju vildi hann ekki lifa? Eru margir sem skjóta sig? Ég hafði málað mig glæsilega út í horn og vissi ekkert hvernig ég átti að taka á þessu. Mér tókst að eyða umræðuefninu frekar auðveldlega en ég veit að þau muna þetta vel. Á að ræða svona hluti við 6 og 8 ára gömul börn? Við höfum rætt dauðann fram og til baka, mér finnst það ekkert mál, dauðinn er eðlilegur hluti af lífinu. Þetta er miklu flóknara dæmi, af hverju vilja sumir ekki lifa? Það er ekkert eðlilegt við það að fullt af fólki skuli þjást svo mikið að það missi lífsviljann. Hvað finnst ykkur? Á að ræða svona og hvernig þá?

Annars er ég á síðustu bensíndropunum á alla vegu. Bíllinn minn er að verða bensínlaus, enda keypti ég síðast bensín á hann einhvern tímann rétt eftir afmælið mitt, ef ég man rétt. Notaði hann nefnilega ógurlega mikið í kringum það og þurfti að fylla tvisvar með stuttu millibili. Síðan hef ég bara varla snert hann nema í þetta vanalega snatt tvisvar, þrisvar í viku þegar ég þarf að skutla krökkunum í tónlistarskólann út af tímahraki. Ég gæti ekki hugsað mér að eiga ekki bíl, svona eftir að hafa átt bíl í sex ár, en mér finnst ótrúlega gott að þurfa ekki að nota hann neitt að ráði. Almenningssamgöngurnar eru náttúrulega einn af langstærstu kostunum við París, svona fyrir utan fegurð borgarinnar og hið margfræga góða skap hins almenna Frakka.

Og ég er einmitt að komast í gott skap núna, þó ég sé eiginlega örmagna. Eitt próf búið, get ekki sagt um það hvernig gekk, textinn kom mér á óvart, ég hafði búist við fjármálatengdum texta en fékk reglugerð um erfðabreytt lífefni. Það er svo margt sem er dæmigert „dagsins í dag“. Auðvitað eru erfðabreytt lífefni heitt umræðuefni, sem og femínismi og jafnrétti, lífræn ræktun (sem ég vil reyndar kalla lífvæna ræktun en þar sem enginn hlustar á mig neyðist ég til að lúffa) og svo auðvitað blessaður fjármálaheimurinn og enduruppbyggingin (sem mun vonandi felast í niðurrifi og höftum). Ég skil ekkert í mér að hafa búist við fjármálatengdu plaggi. Ég er líklega allt of lélegur mannþekkjari.
Nú er bara eitt próf eftir, og ein lítil ritgerð. Stóru ritgerðina hef ég sett á salt þar til í janúar, með þeim fyrirvara að kennarinn minn samþykki þessa einhliða ákvörðun mína.

Lifið í friði.

áskorun

Ég tók áskorun á dögunum. Ég er nefnilega, eins og oft hefur komið hér fram, mjög áhrifagjörn og opin fyrir alls konar tískusveiflum þvert á óskir mínar og langanir um að vera jaðartýpa. Á hverjum morgni geri ég æfingar sem heita „burpees“ á ensku, fengu nafnið „þræfingar“ milli mín og Önnu á feisbúkk en hafa nú fengið viðurnefnið „froskastökk með armbeygju og hala“ m.a. vegna þess að svona ruglæfingar eiga mörg orð skilin. Ég ætlaði að setja slóð á myndband, en það gengur ekki upp. Þið getið séð þetta hjá Önnu, hér. Ég stefni sem sagt á að vera komin upp í 100 í einu eftir 93 daga, sem mér reiknast til að sé 12. mars. Ef ég verð ekki dauð þá, þetta er nú þegar orðið mjög erfitt, ég á að gera 7 núna á eftir.

Jólakortin skrifast hægt og rólega. Ég skelli þeim í póstkassa jafnóðum og vona að ég nái að koma öllum af stað í tæka tíð. Hver er annars tækutíðardagsetningin í ár? Ég hef ekki séð neinar auglýsingar frá póstinum um það.
Skjalaþýðingarpróf núna á eftir sem í ljós kom í gær að er klukkustund lengra en ég taldi og ég má hafa með mér orðabækur og orðalista. Það veit ekki á gott, verður líklega erfiðara en ég bjóst við. En ég mæti galvösk og tek þetta eins og hverja aðra froskastökkseríu. Vont meðan á því stendur, búið þegar það er búið.

Lifið í friði.

Ísland í franskri sveit

Það var ótrúlega skemmtilegt að sjá hvernig fólkið hafði undirbúið þessi litlu íslensku bókmenntakvöld í Dordogne. Stærsta safnið hafði reyndar ekki haft mikið fyrir þessu, bara keypt nokkrar laxa- og síldarsnittur. Þangað mættu rúmlega 100 eldri konur, uppstrílaðar og fínar, örfáir karlar sáust á strjáli. Salurinn var svona alvöru fyrirlestrasalur með sviði og allt. Mér gekk langverst þarna, nýkomin og feimin, skalf og titraði og talaði líklega ekki mjög skýrt. Ég komst að því eftir á að fólkið vildi heyra meira um íslenska tungu og siði og venjur en minna um bókina sjálfa. Leikararnir sem lásu upp úr bókinni voru fín, þau lögðu sig fram um að bera íslensku nöfnin rétt fram, og gekk það upp og niður.

Hinir staðirnir tveir voru mun hlýlegri og vinalegri og fólkið hafði greinilega haft mikið fyrir því að gera kvöldið sem íslenskast, án þess að þekkja nokkuð til landsins. Í Bergerac hafði einn bókavörðurinn m.a.s. bakað kleinur. Þær litu ekki út eins og kleinur, en bragðið var hárrétt. Borðið var skreytt íslenska fánanum og íslensk nöfn réttanna skrifuð hjá.

Síðasta kvöldið var svo í örsmáu sveitaþorpi og þegar við gengum inn í húsið ómaði söngur Bjarkar með tríói Guðmundar Ingólfssonar úr geislaspilara, myndir frá Íslandi runnu í slidesmyndasýningu á veggnum, borðin voru dúklögð með íslenskum fánum búnum til úr kreppappír og úr eldhúsinu barst ljúfur kjötsúpuilmur. Ég held að nánast allir þorpsbúar hafi verið mættir og langflestir búnir að lesa bókina. Frábær stemning og ég held ég hafi staðið mig ágætlega í að sannfæra fólk um að skella sér nú fljótlega til Íslands, burtséð frá því hvernig mér gekk að blaðra um Arnald og glæpasögur.

Og nú er það bara að skella fram tveimur ritgerðum og mæta í tvö próf, skrifa 100 jólakort í framhjáhlaupi og svo geta bara jólin hreinlega komið. Það held ég nú.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha