skápasaga og loftljósamál

Skápamálunin var óðs manns æði og mér hefndist glæsilega fyrir það. Fyrst þurfti ég að grunna með olíugrunni og svo festist túrkísblái liturinn ekki auðveldlega á. Hurðirnar eru því enn bara hvítgrunnaðar og skápurinn er svona sveitarómantískt mislitur. Það eiga að koma myndir, ég bara nenni aldrei að gera nema helminginn af því sem ég ætla mér, koma kannski, koma kannski ekki…

Og nú er litli ofvirki púkinn í mér sannarlega í smá kreppu. Þannig er mál með vexti að þegar ég skoðaði þessa íbúð fyrst með manninum mínum féllum við bæði strax fyrir henni. Það þurfti að skipta um klósett og ýmislegt að gera, en hún var samt bara þrælfín og á góðu verði líka. En eitt stakk mig strax í augun og fékk mig til að dæma seljandann pínulítið undarlegan. Það var einhvers konar loftljós-innsetning í eldhúsinu. Málmprik með krók á endanum er lagt ofan á efri skáp í eldhúsinu. Ofan á það er settur brúsi af einhverjum hreinsilegi, fullum af hreinsilegi til að þunginn haldi prikinu kjurru. Það skagar svo fram og meðfram því liggur rafmagnskapall með ljósastæði á endanum, sem fest er á krókinn og þannig hangir sem sagt ljósapera sem lýsir upp rýmið. Ég hugsaði með mér að vesalings maðurinn væri nú eitthvað lasinn að vera ekki búinn að gera eitthvað í þessu en þó fór það svo að nú, fjórum, nei, sex árum eftir að ég flutti enn, er sami brúsinn á sama málmprikinu eldhúsljósið mitt. Allir Íslendingar sem koma í heimsókn taka eftir þessu og gera grín að mér. Ekki einn einasti Frakki hefur gert athugasemd við þetta. Ég er kannski meira frönsk í mér en ég vil vera láta?
En af hverju er ég að segja ykkur frá þessari innsetningu okkar núna? Vegna þess að í gær sprakk peran í því. Og þegar maðurinn minn losaði hana úr, brotnaði ljósastæðið. Það er ekki hægt að festa aðra peru í stæðið. Þetta er náttúrulega eins og ábending frá æðri yfirvöldum um að ég eigi að fá mér almennilegt ljós í eldhúsið. En samt. Núna? Og hvernig ljós? Og hvenær á ég að komast til að kaupa það? Og festa það upp? Djöfuls vesen. Það er voðalega næs að stússast með eitt lítið ljós í eldavélaviftunni og annað lítið yfir vaskinum, og borða við kertaljós. En samt. Frekar þreytandi fyrir augun þegar maður er að vinna. Hvað á ég að gera?

Annars er allt í sómanum hér. Ég er ekki með neina heimþrá. Mig langar ekki neitt að vera að rölta á Laugaveginum og hitta fólk og vera með mömmu í undirbúningi. Mig langar ekkert að fá að halda á litlu frænku minni sem systir mín fæddi á föstudaginn. Neinei, ekki neitt. Ég er ekki með heimþrá.

Lifið í friði.

12 Responses to “skápasaga og loftljósamál”


 1. 1 Kristín 21 Des, 2009 kl. 6:08 e.h.

  Ég vil bara þakka þér fyrir pislana þín, eitthvað svo notalegir og mannlegir, þó ég þekki þig ekki neitt er gaman að frétta af þínu bardúsi þarna úti í Frakklandi takk fyrir mig!

 2. 2 baun 21 Des, 2009 kl. 6:14 e.h.

  Voðalegt að vera ljóslaus í eldhúsinu, en geturðu ekki sett einhvern lampaling þarna inn til bráðabirgða og farið svo í málið í rólegheitum eftir áramót? Tekur tíma að finna rétta ljósið og fá rafvirkja til að græja hlutina..

  Heimþrá er býsna falleg þrá, eða það finnst mér að minnsta kosti.

 3. 3 ella 21 Des, 2009 kl. 6:28 e.h.

  Kanntu ekki að búa til kolu? Spurning með að fá fífu í kveikinn á þessum árstíma.

 4. 4 einar jónsson 21 Des, 2009 kl. 7:01 e.h.

  Til hamingju með litlu frænkuna.

 5. 5 parisardaman 21 Des, 2009 kl. 7:46 e.h.

  Takk nafna, gleður mig að heyra. Baun, ég nefnilega á engan aukalampa og er með afskaplega lítið pláss, en ég finn kannski eitthvað út úr því. Svo er rökkrið og kertaljósið nú bara kósí og eldhúsið virkaði ekkert smá fínt áðan, öll drullan bara horfin inn í myrkrið:) Ella, kolu? Ertu örugglega frá 21. öld? 😉 Takk, Einar.

 6. 7 parisardaman 21 Des, 2009 kl. 10:10 e.h.

  Hehe, ég leyfi mér að efast… en þetta er nú samt spennandi hugmynd og örugglega svolítið 2009/2010-leg. Ekki kaupa nýtt, búðu til gamalt:)

 7. 8 ella 21 Des, 2009 kl. 11:35 e.h.

  Held kannski að lýsislyktin af þeim hafi ekki verið góð. Það er meir að segja hálf leiðinleg lyktin af tólgarkertum.

 8. 9 parisardaman 22 Des, 2009 kl. 6:59 f.h.

  Já, þetta sannfærir mig um að ég fer ekki út í þetta, það verður heldur Ikea milli jóla og nýárs. Og vitanlega hengi ég draslið upp sjálf, rafvirkja, Baun? Sénsinn að ég hafi efni á því!

 9. 10 Árný 22 Des, 2009 kl. 7:49 f.h.

  Bara notó að hafa kertaljós yfir jólin – ég er alveg sammála þér með heimþrána!

 10. 11 beggi dot com 22 Des, 2009 kl. 7:59 f.h.

  *virkjar eru ofmetnir 😉

 11. 12 parisardaman 22 Des, 2009 kl. 8:33 f.h.

  Já, Árný, við erum svo miklir naglar sko! Og Beggi, það vita nú allir;)


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: