bæta

Það er alltaf hægt að bæta sig. Ég er núna komin upp í 20 þræfingar eða froskastökk með armbeygju og hala, eins og einhverjir vildu kalla þetta rugl. Það hlýtur að vera að bæta sig að gera einni fleiri á dag, á hverjum degi, er það ekki? Reyndar er ég ekkert alveg viss. Ég er jafnvel undir niðri nokkuð viss um að þetta er svo mikil fásinna að ég sé hreinlega alls ekki að bæta nokkurn skapaðan hlut með þessari þrjósku.
Ég er í rosalega rólegum fasa í sambandi við jólaundirbúning, kannski gerist eitthvað hræðilegt um fimmleytið á morgun og ég breytist í sama skrímslið og aðrar húsmæður/feður eiga til að breytast í þegar eldamennskan hefst. Ég held reyndar að ég hafi aldrei orðið undirlögð í þessu stressi sem margir tala um og skil engan veginn angistina sem grípur fólk. Jú jú, að vísu er erfiðara ástand hjá sumum en öðrum, það veit ég mjög vel.

Eitt mál gæti þó valdið mér töluverðu hugarangri í dag. Þegar ég var að kafa ofan í þvottakörfuna í gær, sem fylltist óforvarendis í síðustu viku vegna leti húsmóðurinnar og varð svo að bíða meðan þvegin voru útgubbuð lök, náttföt og tuskur allan liðlangan sunnudaginn, sá ég að kjóllinn sem ég ætla að vera í um jólin lá þar án þess að ég hefði græna glóru um það. Ég vitanlega greip hann og skellti strax í vél. Ég var búin að láta tvær eða þrjár vélar ganga í gær, en var hvorki að fylla þær of mikið né að flýta mér þannig að ég léti vélina ekki bíða þetta korter sem viðgerðarmaðurinn sagði mér að virða þegar hann kom hérna fyrir, tja, mánuði síðan? Vélin með jólakjól húsmóðurinnar hagaði sér nákvæmlega eins og hún hagaði sér þegar við kölluðum manninn út síðast. Kjóllinn virðist þveginn, en ég þori ekki fyrir mitt litla líf að setja í aðra vél. Þetta kemur sér mjög illa. Til dæmis vegna þess að ég ætlaði t.d. að nota kjólinn minn aftur og aftur og þarf áreiðanlega að skola úr honum á milli. Líka vegna þess að mig langar að skipta á rúmum krakkanna í dag, mér finnst allir eigi að liggja í tandurhreinum rúmum um jólin (okkar hjóna var skipt út á sunnudag, vegna ælu). Svo er nú þegar full þvottakarfa frammi á baði. Og að endingu bara nenni ég ómögulega að fara út í eitthvað þras við einhverja viðgerðarkalla því ég er í óendanlega góðu skapi og maðurinn minn á afmæli í dag.

Lifið í friði.

6 Responses to “bæta”


 1. 1 baun 23 Des, 2009 kl. 7:49 f.h.

  Til hamingju með kallinn þinn:)

 2. 2 Gísli Ásgeirsson 23 Des, 2009 kl. 7:59 f.h.

  Haltu áfram með þræfingarnar. Þetta herðir mann.

 3. 3 ella 23 Des, 2009 kl. 11:00 f.h.

  Bilaðar þvottavélar ættu alls ekki að vera til. Mín gaf frá sér afar einkennilegt hljóð áðan, en þegar ég nálgaðist hana ofurvarlega sýndist hún bara haga sér rétt eins og hún er vön. Hef mjög blendnar tilfinningar til hennar, hún er alls ekki góð og ég er ekkert viss um að ég komi til með að sakna hennar þegar hún drepst, það er bara þetta að þær kosta víst dálítið. Haltu svo áfram að njóta lífsins, það er besta ráðið.

 4. 4 parisardaman 23 Des, 2009 kl. 11:59 f.h.

  Takk, Baun. Gísli, komin með 21 í dag. Ella, þvottavélin mín er meiriháttar. Var í dýrari kantinum (þó ekki Miele, en Bosch, sem okkur var sagt að væru nokkuð álíka). Hún þvær vel og vindur í tætlur. En hún er eitthvað lasin og það er satt að svoleiðis á bara ekki að vera til!

 5. 5 Valur Jóla-Geislaskáld 23 Des, 2009 kl. 12:48 e.h.

  Gott að lesa núna ljóðið Hreyfing á bls 31 í bókinni Mynd af hljóði.
  Gleðileg jól.

 6. 6 hildigunnur 23 Des, 2009 kl. 3:33 e.h.

  aaaaa við þvottavélina hennar Kristínar!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: