annáll

Ég hef aldrei séð ástæðu til að birta annál, enda er ég með gullfiskaminni. Nema þegar einhver gerir eitthvað á hlut minn sem mér finnst skipta nógu miklu máli, þá er ég fíll. En þar sem Stöð 2 ætlar að sleppa honum, finnst mér alveg nauðsyn að bæta það tómarúm upp (djók):

Árið 2009 hló ég mikið og grét slatta.
Ég kom og ég fór en ég fór ekki alltaf þegar ég spáði í það.
Ég stóð teinrétt nema þegar ég lagðist undir sæng í fósturstellingunni.
Ég lyfti lóðum, hoppaði, hljóp dálítið og synti eitthvað smá. Ég drakk fullt af víni og reykti allt of margar sígarettur. Ég borðaði hollt en stundum óhollt. Sukkjöfnunin gekk sumsé ágætlega, kílóafjöldinn er nokkurn veginn sá sami en ég er styrkari í höndum og fótum og alveg pottþétt með betra úthald (og þá er ég ekki að tala um drykkjuúthald sem hefur alltaf verið mjög gott).
Ég stífnaði stundum upp í öxlum og hálsi af reiði og vanmáttartilfinningu gagnvart ástandinu ógurlega á Íslandi. Icesavehnúturinn hefur alltaf staðið í hálsinum á mér. Mér finnst í raun alveg ótrúlegt hvað fólk hamast við að vera hissa á því hvað þetta tók langan tíma, mér hefði þótt það mjög óþægilegt og skrýtið ef undirskrift ábyrgða hefði runnið í gegnum Alþingi umyrðalaust. Þá hefði ég orðið paranojuð. Þó fannst mér flestir sem göluðu hátt vera bylurinn í tómu tunnunni og ekki orð um það meir.
Ég gerði mér grein fyrir því að heimurinn þarf meiri róttækni og fleiri alvöru beinar aðgerðir en ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér í að taka þátt í því. Mig langar það samt. Það þarf að grafa undan valdapýramýdanum eins og hann er í dag, hann er ekki eðlilegur. Losa okkur við spillinguna og koma á meiri jöfnuði. Ísland, jafnt almenningur sem stjórnvöld, þarf líka að fara alvarlega að huga að mannréttinda- og frelsisbaráttu á alþjóðlegum vettvangi.
Ég varð fertug á árinu og er mjög sátt við að eldast, kannski af því mér líður alltaf eins og ég sé smákrakki.
Ég er núna um það bil að gera hlut sem ég hef bara að ég held aldrei gert. Ég er að gefast upp á lokaspretti. Þessi merkingarfræðikúrs er að setja líf mitt gersamlega á hvolf, með tilheyrandi hausverkjum og kvíðaköstum. Ég vissi það allan tímann að þetta var í raun bara einingagræðgi og ef ég hefði eitthvað átt að læra af þessu ári, er það að græðgi er aldrei til góða. Ég skil alls ekki nógu mikið og veit ekki hvernig ég á að skrifa feikritgerð, það er í raun ekki hægt. Ég mun þó líklega ekki ákveða mig endanlega fyrr en í kvöld eða á morgun, ég er búin engjast töluvert út af þessu, ég bara geri aldrei svona. Mér líður því dálítið eins og ég hafi gengið teinrétt inn í árið og fari kengbogin út úr því. En ég skal þó fara stökkvandi og rísa upp á ný mjög fljótlega. Enda er ég með gullfiskaminni.
Árið 2009 var mér mjög gott þó það hafi líka oft verið erfitt. Lífið er ekki neitt neitt ef það er aldrei smá erfitt. Árið 2009 má samt alveg vera búið og þarf aldrei að koma til baka. Það eina sem ég bið um er að árið 2010 verði í það minnsta jafngott og óska ykkur öllum þess að það beri með sér tækifærin sem þið bíðið eftir, að heilsa ykkar verði góð og að gleðistundirnar verði fleiri og sterkari en hinar.

Lifið í friði.

11 Responses to “annáll”


 1. 1 Thrainn Kristinsson 31 Des, 2009 kl. 11:09 f.h.

  „Einingagræðgi“ – þetta velskapaða nýyrði kallar fram hálfgleymdar minningar um gengisfall á sjálfsvirðingu og sárar málamiðlanir við sjálfan sig. En merkingarfræðilega veltur náttúrlega allt á samhenginu.

  Gleðilegt ár og takk fyrir að vera svona dugleg að blogga um hluti sem skipta máli.

 2. 2 hildigunnur 31 Des, 2009 kl. 11:17 f.h.

  Gleðilegt ár og takk fyrir allt! 🙂

 3. 3 Svanfríður 31 Des, 2009 kl. 3:15 e.h.

  Ég vil nú bara þakka fyrir ný kynni á árinu-ég hef alltaf svo gaman af þeim og enn er skemmtilegra þegar manneskjan er svona skemmtileg eins og þú .
  Ég óska þér og þínum gleðilegs árs og farsældar. Kv úr litlu bláu húsi.

 4. 4 baun 31 Des, 2009 kl. 3:35 e.h.

  Gleðilegt ár kæra Kristín og takk fyrir skemmtun, upppepp, vandaðar vangaveltur og fróðleik á árinu:)

 5. 5 ella 31 Des, 2009 kl. 8:10 e.h.

  Það er ekkert gaman að finnast maður gefast upp en stundum er það samt það eina rétta og þá er bara að vera skynsamur.
  Ég er mjög kát með að eiga kost á að lesa svona skemmtilegt blogg, kærar þakkir fyrir það. Gleðilegt nýtt bloggár.

 6. 6 Árný 1 Jan, 2010 kl. 12:02 e.h.

  Gleðilegt ár og takk fyrir ómældar ánægjustundir fyrir framan tölvuna – ef þú heldur áfram sem horfir verður þetta ár enn betra en það síðasta, ég les þig frá áramótum en ekki miðju ári! 🙂
  Kannast við erfiðleika við að hætta í miðju kafi – ég geri ekki heldur svoleiðs, en það hefur samt komið fyrir, það er skítt – en manni líður bara miklu betur á eftir 🙂 Hafðu það sem allra best á nýja árinu, bestu kveðjur handan landamæranna (kannski kíkjum við á þig með vorinu!).

 7. 7 Svala 1 Jan, 2010 kl. 6:46 e.h.

  Gleðilegt ár og takk fyrir gistingu, skemmtilegt blogg og hressandi skrif á Fésinu á árinu.

  Ég á kannast við það að hafa dottið í einingagræðgi og í sumum þeim tilfellum hef ég einfaldlega skráð mig úr kúrsum og aldrei séð eftir því.

 8. 8 Kristín í París 1 Jan, 2010 kl. 7:25 e.h.

  Takk, öllsömul. Hlakka til að sjá ykkur Árný! Ég er búin að ákveða að hætta og eiga góða helgi með börnunum áður en hversdagsamstrið byrjar á ný.

 9. 9 Frú Sigurbjörg 1 Jan, 2010 kl. 9:32 e.h.

  Gleðilegt nýtt ár Parísardama!

 10. 10 Líba 2 Jan, 2010 kl. 11:30 f.h.

  Gleðilegt ár kæra Kristín. Takk fyrir hugvekjandi og skemmtilega pistla og til hamingju með ákvörðunina. Stundum er betra að hörfa en sækja á.

 11. 11 Kristín í París 2 Jan, 2010 kl. 6:39 e.h.

  Já, mér líður mun betur Líba, takk og gleðilegt ár líka. Og takk Svanfríður, sömuleiðis.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: